Skip to main content

Starfsþjálfun hjá alþjóðastofnun og tækifæri til að kynnast heimi hugverkaréttinda

Starfsþjálfun hjá alþjóðastofnun og tækifæri til að kynnast heimi hugverkaréttinda - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hefur þú áhuga á að fara í launaða starfsþjálfun hjá alþjóðastofnun?

Háskóli Íslands í samstarfi við Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) auglýsir eftir umsóknum frá nemendum skólans í launaða starfsþjálfun. Starfsþjálfunin er í 12 mánuði frá miðjum september ár hvert. Starfsþjálfunin er auglýst á Tengslatorgi og hægt er að sækja um þar og í tölvupósti til inno@hi.is (sjá upplýsingar um umsókn hér fyrir neðan). Frestur til að sækja um starfsþjálfun til Háskóla Íslands vegna tímabilsins 2024-2025 er til og með 16. febrúar 2024.

Kynningarmyndbönd um starfsþjálfunina má finna á heimasíðum EPO og EUIPO

  • Nánari upplýsingar veitir Oddur Sturluson, verkefnisstjóri á Vísinda- og Nýsköpunarsviði: oddstu@hi.is.

Pan-European Seal samstarfið

Háskóli Íslands er aðili að Pan-European Seal áætlun Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO). Markmið áætlunarinnar er að auka þekkingu á hugverkaréttindum meðal nemenda og starfsfólks háskóla í Evrópu og brúa þannig bilið á milli háskóla og atvinnulífsins þegar kemur að hagnýtingu og verndun hugverka. Samstarfið felur m.a. í sér að aðgang að kennsluefni og annars konar stuðning við kennslu og skipulagningu viðburða tengdum hugverkaréttindum. Hugverkastofan átti milligöngu um samstarf stofnananna við Háskóla Íslands um aðild að Pan-European Seal áætluninni. 

Launuð starfsþjálfun
Hjá EPO og EUIPO öðlast nemendur einstaka starfsreynslu hjá alþjóðastofnunum og alhliða fræðslu á hugverkaréttindum. Auk þess fylgja starfsþjálfuninni ýmiss konar fríðindi eins og tungumálanám. Þeir nemendur sem hafa áhuga á að sækja um starfsþjálfunina sækja fyrst um til Háskóla Íslands sem metur hvort viðkomandi uppfylli grunnskilyrði og útnefnir svo tiltekinn fjölda nemenda. 

Nemendur sem stunda nám á þeim sviðum sem sterkasta tengingu hafa við hugverkaréttindi eru sérstaklega hvattir til að sækja um (verkfræði, raunvísindi, lyfjafræði, líftækni, viðskiptafræði, lögfræði, hagfræði, fjármál og alþjóðasamskipti). Þegar Háskólinn hefur metið umsóknir og tekið ákvörðun um hvaða nemendur verða útnefndir geta þeir nemendur sótt um hjá EPO eða EUIPO sem svo taka endanlega ákvörðun um hvaða umsækjendur eru valdir til starfsþjálfunarinnar. 

"Fyrir ári síðan var mér bent á það tækifæri að sækja um starfsþjálfun hjá EPO, eða Einkaleyfistofu Evrópu. Eftir að hafa kynnt mér EPO, fannst mér tilhugsunin um að fá tækifæri til að kynnast alþjóðlegri stofnun af þessari stærðargráðu afar spennandi og var viss um að ég myndi læra mikið á dvöl þar. Með starfsþjálfuninni sá ég fram á að öðlast starfsreynslu á því sviði sem ég stundaði nám við hjá HÍ og fá að vinna með færum og reynslumiklum einstaklingum innan þeirra sviðs. Hingað til hefur starfsþjálfunin staðist allar væntingar, og þó svo að Covid hafi litað ferlið aðeins seinustu tvo mánuði, þá hefur stofnunin verið sveigjanleg og fundið góðar lausnir á hlutunum. Eins og ég nefndi þá hefur starfsþjálfunin staðið fyrir sínu og ekki síst Munchen sjálf sem mér hefur fundist virkilega skemmtileg borg. Fólk frá hinum ýmsu Evrópulöndum eru taka þátt í þessu prógrammi og eru dugleg að skipuleggja ferðalög og viðburði. Ég mæli því heilshugar með að fólk láti vaða og sækja um því það hefur verið virkilega skemmtilegt og gefandi að kynnast því hvernig svona stór alþjóðleg stofnun starfar".      

Hinrik Atli Smárason