"Fyrir ári síðan var mér bent á það tækifæri að sækja um starfsþjálfun hjá EPO, eða Einkaleyfistofu Evrópu. Eftir að hafa kynnt mér EPO, fannst mér tilhugsunin um að fá tækifæri til að kynnast alþjóðlegri stofnun af þessari stærðargráðu afar spennandi og var viss um að ég myndi læra mikið á dvöl þar. Með starfsþjálfuninni sá ég fram á að öðlast starfsreynslu á því sviði sem ég stundaði nám við hjá HÍ og fá að vinna með færum og reynslumiklum einstaklingum innan þeirra sviðs. Hingað til hefur starfsþjálfunin staðist allar væntingar, og þó svo að Covid hafi litað ferlið aðeins seinustu tvo mánuði, þá hefur stofnunin verið sveigjanleg og fundið góðar lausnir á hlutunum. Eins og ég nefndi þá hefur starfsþjálfunin staðið fyrir sínu og ekki síst Munchen sjálf sem mér hefur fundist virkilega skemmtileg borg. Fólk frá hinum ýmsu Evrópulöndum eru taka þátt í þessu prógrammi og eru dugleg að skipuleggja ferðalög og viðburði. Ég mæli því heilshugar með að fólk láti vaða og sækja um því það hefur verið virkilega skemmtilegt og gefandi að kynnast því hvernig svona stór alþjóðleg stofnun starfar".
Hinrik Atli Smárason