Skip to main content

Doktorsvörn í efnafræði - Haraldur Yngvi Júlíusson

Doktorsvörn í efnafræði - Haraldur Yngvi Júlíusson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. febrúar 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Haraldur Yngvi Júlíusson

Heiti ritgerðar: Framfarir í innleiðingu stífra spunamerkja inn í kjarnsýrur (Advancements in site-directed incorporation of rigid spin-labels into nucleic acids )

Andmælendur:

Dr. Stefán Jónsson, teymisstjóri hjá Alvotech
Dr. Stefan Vogel, dósent í nanólífvísindum við Syddansk Universitet, Danmörku

Leiðbeinandi: Dr. Snorri Þór Sigurðsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:

Dr. Guðmundur G. Haraldsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands
Dr. Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Oddur Ingólfsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Rafeindasegullitrófsgreiningu (e. Electron Paramagnetic Resonance, EPR) er reglubundið beitt í rannsóknum á byggingu og hreyfingu kjarnsýra til að fá upplýsingar um starfsemi þeirra og hlutverk. Innleiðing meðseglandi kjarna á ákveðinn stað í kjarnsýrum er nauðsynleg fyrir EPR mælingar og er það gert með aðferð sem kallast staðbundin spunamerking. Þessi doktorsritgerð lýsir betrumbótum á staðbundinni spunamerkingu á kjarnsýrum með notkun stífra spunamerkja. Fyrsti hluti ritgerðarinnar lýsir þróun á aðferð til verndunar nítroxíð-stakeinda til að koma í veg fyrir afoxun þeirra þegar spunamerktar kjarnsýrur eru útbúnar með efnasmíði. Notast var við bensóylverndað hýdroxylamín til verndunar á nítroxíðinu. Þessi aðferð var notuð til að innleiða stífa spunamerkið Ç inn í DNA kjarnsýrur og lofar góðu sem almenn aðferð til þess að innleiða spunamerki í kjarnsýrur með fosfóramíðít-efnasmíði. Í öðrum hluta ritgerðarinnar er efnasmíði á spunamerkjunum EÇ og EÇm lýst, en bæði eru stöðug við afoxandi aðstæður. Þessi spunamerki eru ætluð til notkunar við innan-fruma EPR mælingar á kjarnsýrum. Bæði spunamerkin eru stíf, sem gerir mögulegt að fá nákvæmar upplýsingar um byggingu og hreyfingu kjarnsýra með EPR. EÇ var innleitt í DNA og EÇm í RNA með kjarnsýruefnasmíði. EÇm afoxaðist að hluta til á meðan á RNA smíðinni stóð en þá afoxun var unnt að koma í veg fyrir með fyrrnefndri bensóyl verndun nítroxíðsins. Sýnt var fram á að EÇ og EÇm breyttu ekki byggingu DNA og RNA tvíliða. Þriðji hluti ritgerðarinnar lýsir efnasmíðum á o-bensókvinón afleiðum af ísóindólíni og þéttingu þeirra með o-fenýlentvíamínum til að mynda ísóindólín-fenasín afleiður. Í kjölfarið voru þær oxaðar í fenasín-tví-N-oxíð nítroxíð og kannað hvort unnt væri  að nota þær til spunamerkinga án samgildra tengja á tvístrendum DNA og RNA kjarnsýrum sem innihalda basalausar stöður. Ósetið fenasín-N,N-tvíoxíð tetrametýlísóindólín nítroxíð sýndi mikla sækni í basalausa stöðu í DNA á móti basanum C.

Um doktorsefnið

Haraldur Yngvi Júlíusson er fæddur í Reykjavík árið 1989. Haraldur útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og hóf síðan doktorsnám við sama skóla í lífrænni efnafræði undir handleiðslu dr. Snorra Þórs Sigurðssonar. Haraldur býr í Mosfellsbæ ásamt Örnu Albertsdóttur og börnum þeirra, Stefaníu Lind (2012) og Ágústi Erni (2013).

Viðburður á facebook

Haraldur Yngvi Júlíusson

Doktorsvörn í efnafræði - Haraldur Yngvi Júlíusson