Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Rósa Björk Þórólfsdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Rósa Björk Þórólfsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
13. september 2019 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fréttatilkynning vegna doktorsvarnar

 

Föstudaginn 13. september ver Rósa Björk Þórólfsdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif erfðabreytileika á starfsemi hjartans og hjartasjúkdóma. The effects of sequence variants on cardiac function and disease.

Andmælendur eru dr. Morten Olesen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Davíð O. Arnar, gestaprófessor við Læknadeild. Þá var dr. Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu (ÍE), leiðbeinandi og Hilma Hólm, yfirmaður hjartarannsókna hjá ÍE, meðleiðbeinandi. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Daníel F. Guðbjartsson, yfirmaður tölfræðideildar ÍE, og dr. Karl K. Andersen, prófessor við Læknadeild.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

 

Ágrip af rannsókn

Gáttatif er algengast viðvarandi hjartsláttartruflana en núverandi skilningur á flókinni meingerð sjúkdómsins er takmarkaður. Tilgangur verkefnisins var að framkvæma víðtæka erfðamengisleit til að bera kennsl á áður óþekkt tengsl milli erfðabreytileika og gáttatifs. Jafnframt var markmiðið að öðlast innsýn í hvernig erfðabreytileikar hafa áhrif með því að kanna tengsl þeirra við aðra hjartasjúkdóma og hjartalínuritsbreytur. Þar sem erfðabreytileiki í MYH6 reyndist auka líkur á bæði gáttatifi og meðfæddum ósæðarþrengslum var einnig framkvæmd víðtæk erfðamengisleit fyrir meðfædd ósæðarþrengsli.

Rannsóknin leiddi í ljós áður óþekkt tengsl milli gáttatifs og erfðabreytileika í útröðum þriggja gena sem öll gegna hlutverki í viðhaldi eðlilegrar byggingar hjartans; PLEC, RPL3L og MYZAP. Stór safnrannsókn meðal rúmlega milljón þátttakenda leiddi í ljós áður óþekkt tengsl á milli 80 erfðabreytileika og gáttatifs. Genin sem þóttu líklegust til að útskýra tengslin hafa áhrif á ýmsa ferla, m.a. byggingu hjartans. Erfðabreytileikar sem auka líkur á gáttatifi höfðu fjölbreytt áhrif á hjartalínuritsbreytur sem bendir til að þeir auki líkur á gáttatifi með ólíkum hætti. Víðtæk erfðamengisleit fyrir meðfædd ósæðarþrengsli fann mislestursstökkbreytinguna p.Arg721Trp í MYH6 sem útskýrir ein um 20% tilfella hjartagallans á Íslandi. Samanlagt veita niðurstöðurnar aukinn skilning á meingerð bæði gáttatifs og meðfæddra ósæðarþrengsla, en slík innsýn er nauðsynlegt skref í átt að bættum meðferðarúrræðum.

 

Abstract

Atrial fibrillation (AF) is the most common sustained cardiac arrhythmia and its complex pathophysiology is incompletely understood. The aim of this doctoral research was to perform genome-wide association studies (GWASs) on AF and search for novel associations. Furthermore, to gain insights into the mechanisms by which novel and published variants affect AF risk by assessing their effects on other cardiovascular diseases and on normal cardiac conduction, using electrocardiogram (ECG) measurements. Through association analysis we observed that one of the strongest AF variants, in MYH6, also increases risk of coarctation of the aorta (CoA), thus a GWAS on CoA was also conducted.

GWASs on AF resulted in novel AF associations with coding variants in three genes which have a role in maintaining cardiac structure; PLEC, RPL3L and MYZAP. Through a meta-analysis involving over one million participants from six contributing cohorts, 80 novel AF loci were identified. AF variants had diverse effects on ECG measurements, suggesting fundamentally different categories of mechanisms contributing to the development of AF. The missense variant p.Arg721Trp in the sarcomere gene MYH6 was found to explain approximately 20% of CoA cases in Iceland. Combined the results increase understanding of the pathophysiology of both AF and CoA, thus providing knowledge that will hopefully translate into advances in treatment.

 

Um doktorsefnið

Rósa Björk Þórólfsdóttir er fædd árið 1988. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2007, BS-prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og Cand. med. gráðu frá sama skóla árið 2014. Rósa Björk vann doktorsverkefni sitt hjá Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún hefur verið í fullu starfi frá ársbyrjun 2016. Foreldrar Rósu Bjarkar eru Margrét Baldursdóttir og Þórólfur Árnason. Rósa Björk er gift Júlíusi Kristjánssyni lækni og eiga þau synina Kristján Árna 5 ára og Þórólf Björn 2 ára.

Rósa Björk Þórólfsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 13. september kl. 13:00.

Doktorsvörn í læknavísindum - Rósa Björk Þórólfsdóttir