Doktorsvörn í læknavísindum - Daði Helgason
Aðalbygging
Hátíðasalur
Daði Helgason ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Acute Kidney Injury Following Cardiac Surgery and Coronary Angiography - Incidence, Risk Factors and Outcome. Bráður nýrnaskaði í kjölfar hjartaaðgerða og kransæðaþræðinga - Tíðni, áhættuþættir og afdrif.
Andmælendur eru dr. Göran Dellgren, dósent við Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsið í Gautaborg og dr. Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í nýrnalækningum við Ullevål Háskólasjúkrahúsið.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd Martin Ingi Sigurðsson, prófessor við Læknadeild, Runólfur Pálsson, prófessor við sömu deild, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir, og Ólafur Skúli Indriðason, sérfræðingur.
Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip af rannsókn
Bráður nýrnaskaði (BNS) er þekktur fylgikvilli eftir hjartaaðgerðir og tengist hann aukinni sjúkdómsbyrði og hærri dánartíðni sjúklinga. Ýmsir áhættuþættir BNS eru þekktir við opnar hjartaðgerðir eins og notkun hjarta- og lungnavélar en við kransæðaþræðingu hefur skuggaefni verið talið geta skert starfsemi nýrna. Þrátt fyrir að BNS hafi verið viðfangsefni ýmissa rannsókna á undanförnum árum er ýmsum spurningum enn ósvarað varðandi áhættuþætti BNS og afdrif sjúklinga, sérstaklega til lengri tíma.
Doktorsritgerðin byggir á fjórum afturskyggnum rannsóknum sem höfðu það markmið að kanna tíðni og áhættuþætti BNS eftir kransæðaþræðingar og þrjár mismunandi opnar hjartaaðgerðir: kransæðahjáveitu, ósæðarlokuskipti og viðgerð á ósæðarflysjun af gerð A. Jafnframt voru áhrif BNS á afdrif sjúklinga metin, sérstaklega með tilliti til langtíma lifunar og þróunar á langvinnum nýrnasjúkdómi (LNS).
Tíðni BNS var frá 2% eftir kransæðaþræðingu upp í 41% í kjölfar aðgerðar á ósæðarflysjun. Skuggefnismagn tengdist aðallega aukinni hættu á BNS hjá sjúklingum með LNS sem fengu mikið magn skuggaefnis. Offita, blóðþurrð, lengdur tími hjá hjarta- og lungnavél og gjöf rauðkornaþykknis voru helstu áhættuþættir BNS eftir opnar hjartaaðgerðir. BNS tengdist verri lifun sjúklinga í öllum rannsóknunum og aukinni hættu á þróun á langvinnum nýrnasjúkdómi eftir kransæðaþræðingar og kransæðahjáveitu.
Rannsóknirnar sýna að BNS er alvarlegur fylgikvilli eftir kransæðaþræðingar og opnar hjartaaðgerðir sem tengist verri langtímahorfum sjúklinga. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi góðrar uppvinnslu og meðferðar sjúklinga sem fá BNS eftir aðgerð og jafnframt þörf á eftirfylgd þessara sjúklinga eftir útskrift.
Um doktorsefnið
Daði Helgason er fæddur í Reykjavík árið 1988. Hann lauk stúdentsprófi af Náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2008. Hann hóf nám í læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands haustið 2009, lauk bakkalárgráðu 2012 og embættisprófi vorið 2015 við sama skóla. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum á lyflækningasviði Landspítala þar sem hann starfar nú. Daði hefur stundað rannsóknarvinnu samhliða læknanámi og starfi frá því að hann var á þriðja ári í læknadeild og hefur kynnt rannsóknir sínar á fjölda íslenskra og alþjóðlegra ráðstefna. Daði hefur hlotið ýmsa styrki, m.a. styrk fyrir unga vísindamenn Landspítala í tvígang.
Foreldrar Daða eru Helgi Grímsson og Sigrún Sigurðardóttir. Hann á tvö börn með sambýliskonu sinni, Sigurlaugu Soffíu Friðþjófsdóttur, þau Grím Kára 5 ára og Svanhildi Soffíu 10 mánaða.
Daði Helgason