Bráðahjúkrun Bráðahjúkrunarfræðingar starfa innan og utan sjúkrastofnana og sinna bráðveikum og slösuðum einstaklingum, forgangsraða, meta, veita fyrstu meðferð og endurmeta sjúklinga. Sálrænn stuðningur og áfallahjálp eru einnig mikilvægur hluti bráðahjúkrunar. Gjörgæsluhjúkrun Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar sinna bráð- og alvarlega veikum, sem og alvarlega slösuðum sjúklingum sem þurfa stöðuga vöktun. Ástand alvarlega veikra og slasaðra sjúklinga er oft flókið og Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar þurfa því að hafa víðtæka þekkingu og færni á mörgum sviðum, s.s. á líffæra- og lífeðlisfræði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum. Gjörgæslusjúklingar þurfa alla jafnan einn hjúkrunarfræðing með sér allan sólarhringinn, sem þarf að vera í stakk búinn til að bregðast við lífshættulegum vandamálum sem upp kunna að koma. Heimahjúkrun Starf hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun er fjölbreytt og krefjandi. Það felur í sér tækifæri til sjálfstæðis og samskipta við fjölmarga aðila. Mikilvægt er að búa yfir breiðri þekkingu og færni til að takast á við hin ólíkustu heilsufarsvandamál. Á komandi árum verður rafræn tækni, m.a. snjalltækni notuð í auknum mæli innan heimahjúkrunar. Hjúkrun aðgerðasjúklinga Hér vinna hjúkrunarfræðingar með sjúklinga sem fara í skurðaðgerðir. Meginmarkmið þjónustunnar er að öryggi sjúklings sé ekki ógnað við aðgerðina. Til að ná því veita hjúkrunarfræðingar sjúklingunum og ættingjum þeirra fræðslu fyrir aðgerð og fyrir heimferð. Þeir fylgjast með einkennum og ástandi sjúklings eftir aðgerðina, þekkja til hvaða ráðstafana skal gripið ef eitthvað kemur uppá og grípa til þeirra fumlaust ef þörf krefur. Starfið felst í fyrirbyggingu og meðferð. Helstu samstarfstarfsaðilar eru aðrir hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, sjúkraþjálfarar og næringarfræðingar. Hjúkrun langveikra Hjúkrunarfræðingar annast langveika einstaklinga og fjölskyldur þeirra á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins og á öllum aldri, frá heilsugæslu til gjörgæslu og allt þar á milli. Fyrirbygging heilsutjóns og efling sjálfsbjargargetu eru meginviðfangsefni í heilsugæslu. Langveikir verða líka bráðveikir og þá hafa slíkar áherslur forgang. Endurhæfing langveikra er einnig sérstakt viðfangsefni og fer fram víða í heilbrigðiskerfinu. Sú hjúkrunarþjónusta fyrir langveika sem mest hefur vaxið á undanförnum árum er stuðningur og eftirlit gjarna um langan tíma og fer slík hjúkrun einkum fram á heimilum og göngudeildum sjúkrahúsa, sérstaklega Landspítala. Oft er um að ræða sérhæfða hjúkrun þar sem hjúkrunarfræðingar mynda meðferðasamband við skjólstæðinga sem varir um árabil. Samvinna, samhæfing og samþætting heilbrigðisþjónustu við langveika og fjölskyldur þeirra er vaxandi viðfangsefni hjúkrunarfræðinga í þessu samhengi. Hjúkrunarstjórnun Hjúkrunarstjórnun felur í sér samþættingu hjúkrunarmeðferða, skipulags, mannauðs, aðfanga og fjár og varðar nýtingu bestu þekkingar og rekstur heilbrigðisstofnana. Hlutverk stjórnenda og leiðtoga í hjúkrun lýtur að því að stýra og leiða einstök verkefni svo sem umönnun sjúklings, sjúklingahópa, deilda og stofnana. Lýðheilsuhjúkrun Lýðheilsuhjúkrun leggur áherslu á heilsueflingu og forvarnir innan samfélagshópa, fyrirtækja, stofnana, fjölskyldna, sveitarfélaga og samfélagsins í heild. Lýðheilsuhjúkrun er stunduð bæði innan og utan heilbrigðiskerfisins. Hún leggur áherslu á að búa einstaklingum og hópum öruggt umhverrfi og aðstæður til viðhalds og eflingar heilsu og þroska. Skólahjúkrun Skólahjúkrunarfræðingar starfa innan heilsugæslunnar og sjá um heilsuvernd barna í grunn- og sumum framhaldsskólum. Markmið með skólaheilsugæslu er að efla og stuðla að heilbrigði nemenda. Skólahjúkrunarfræðingar vinna í náinni samvinnu við foreldra og forráðamenn barna. Áherslur innan skólaheilsugæslunnar eru: Fræðsla og heilsuefling Bólusetningar Skimanir Viðtöl um lífsstíl og líðan Umsjón og eftirlit með umönnun langveikra barna innan skólans Ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans Skurðhjúkrun Skurðhjúkrun er fjölbreytt fag þar sem unnið er með skjólstæðinga á öllum aldri í aðgerðarferlinu. Skurðhjúkrunarfræðingar starfa í teymum eftir sérgreinum skurðlækninga og byggir starfið meðal annars á að vera málsvari sjúklings með því að tryggja öryggi hans og fyrirbyggja fylgikvilla skurðaðgerða s.s. skurðsárasýkingar, legusári, taugaskaða og fyrirbyggja hitatapi meðan á skurðaðgerð stendur. Skurðhjúkrunarfræðingar eru leiðandi í þróun og umbótum til að fyrirbyggja aukaverkanir skurðaðgerða. Miklar tækniframfarir í skurðlækningum kalla á þörf fyrir símenntun og fjölbreytt starf. Svæfingarhjúkrun Svæfingahjúkrun er yfirgripsmikið fræðasvið sem felur í sér umönnun allra sjúklingahópa sem þurfa svæfingu, deyfingu eða slævingu á sjúkrahúsum. Helsti starfsvettvangur svæfingahjúkrunarfræðinga er á skurðstofum sjúkrahúsa en einnig utan skurðstofa eins og t.d. við hjartaþræðingar, verkjameðferðir og á röntgen- og slysadeildum. Svæfingahjúkrunarfræðingar beita sérhæfðri þekkingu við einstaklingsbundna umönnun sjúklinga í gegnum aðgerðarferlið, hvort heldur sem er við bráðar aðstæður eða í fyrirfram ákveðnum aðgerðum. Það tekur til stjórn lífsmarka og lífeðlisfræðilegs ástands sjúklinga, undirbúning fyrir aðgerðir, svæfingu sjúklings, viðhald svæfinga og fyrstu stig uppvöknunar eftir aðgerðir. Hjúkrunarþarfir þessara einstaklinga eru bæði sértækar og flóknar þar sem árvekni og skjót inngrip til að hámarka ástand sjúklings í aðgerð geta skipt sköpum fyrir útkomu og afdrif einstaklingsins. Svæfingahjúkrunarfræðingar vinna náið með svæfingalæknum og einnig skurðhjúkrunarfræðingum og skurðlæknum. Nám í svæfingahjúkrun byggir á gæðastöðlum alþjóðasamtaka svæfingahjúkrunarfræðinga (IFNA). Stöðlunum er ætlað að gæta að ítrasta öryggi sjúklinga sem gangast undir svæfingar, deyfingar eða slævingar í sambandi við skurðaðgerðir og önnur inngrip. Ung og smábarnahjúkrun Innan heilsugæslunnar annast hjúkrunarfræðingar að stórum hluta um ung- og smábarnavernd. Markmiðið er að fylgjast reglulega með heilsu og framförum á þroska barna, andlegum, félagslegum og líkamlegum, frá fæðingu til skólaaldurs. Hjúkrunarfræðingar styðja við foreldra og fjölskyldur á þessum mikilvæga tíma lífsbreytinga í kjölfar barnsfæðinga og vitja fjölskyldunnar meðal annars heim í 2-4 skipti fyrstu vikurnar eftir fæðingu barns. Í framhaldinu fer ung og smábarnaverndin að mestu fram innan veggja heilsugæslunnar í samstarfi við lækna en hjúkrunarfræðingar fylgja börnum og fjölskyldum áfram eftir, annast um reglulegar skoðanir á börnunum, mat á vexti og þroska þeirra og fylgjast með líðan foreldra og veita þeim viðeigandi fræðslu og stuðning hverju sinni. Heildræn og persónulega þjónustu við ung og smábarnavernd er gefandi og býður meðal annars upp á náið meðferðarsamband við fjölskyldurnar. Verkjameðferðarhjúkrun Verkir eru algengir á sjúkrastofnunum sem og í samfélaginu í heild sinni. Hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í að meta og meðhöndla verki þar sem þeir eru í mikilli nálægð við sjúklinga hvort sem um er að ræða á sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili, heilsugæslu eða í skóla. Þeir vinna í nánu samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir enda krefst árangursrík verkjameðferð samvinnu margra fagstétta. Hjúkrunarfræðingar framkvæma mat á verkjum og veita meðferð sem byggir á matinu. Huga þarf að líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum sjúklinga með verki. Hjúkrunarfræðingar gefa lyf, beita öðrum aðferðum en lyfjum og veita sjúklingum og aðstandendum þeirra fræðslu um verki og verkjameðferð. Þeir hafa eftirlit með sjúklingum, meta árangur af meðferð og fylgja sjúklingum eftir með ráðgjöf og stuðningi. Viðbótarmeðferðir Gagnreyndar viðbótarmeðferðir geta nýst sjúklingum til að takast á við ýmis einkenni. Slökun, hugleiðsla, nudd og jóga eru dæmi um viðbótarmeðferðir. Öldrunarhjúkrun Aldraðir þiggja þjónustu á flestum sviðum heilbrigðiskerfisins s.s. heilsugæslu, heimahjúkrun, hjúkrunarheimilum og bráðaþjónustu. Hjúkrunarfræðingar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í að veita eldra fólki og fjölskyldum þeirra viðeigandi þjónustu og tryggja að sértækar þarfir eldra fólks séu uppfylltar. Megin markmið í hjúkrun eldra fólks er að viðhalda góðri heilsu, sjálfsbjargargetu, fyrirbyggja hrumleika og tryggja lífsgæði. Aldraðir er sá hópur samfélagsins sem mun fara hratt fjölgandi á komandi árum og því er vaxandi þörf á sérþekkingu á sviði öldrunarhjúkrunar. facebooklinkedintwitter