Skip to main content
7. desember 2018

Svefntími styttist og hreyfing minnkar hjá ungmennum í framhaldsskóla

""

Svefntími unglinga styttist að meðaltali um nærri hálfa klukkustund milli 15 og 17 ára aldurs og á sama tíma dregur töluvert úr hreyfingu á virkum dögum hjá þessum hópi. Þetta sýna nýjar niðurstöður rannsóknahóps í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem hefur í yfir áratug fylgst með heilsu, svefni og andlegri líðan stórs hóps íslenskra ungmenna. Rannsóknin sýnir einnig að einungis um fimmtungur 15 ára unglinga sem tók þátt í rannsókninni náði átta tíma viðmiðunarsvefni á nóttu að meðaltali og þá sofa framhaldsskólanemar í fjölbrautakerfi að jafnaði lengur en nemendur í bekkjarkerfi.

Rannsóknin sem um ræðir nefnist „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ og er framhald á rannsókninni „Lífsstíll 7 og 9 ára íslenskra barna – íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu“ sem fram fór á árunum 2006 til 2008. Alls hafa um 500 nemendur, sem fæddir eru árið 1999, tekið þátt í rannsóknunum tveimur. „Við höfum skoðað stöðu og langtímabreytingar á holdarfari, hreyfingu, svefni, þreki, andlegum þáttum og lifnaðarháttum íslenskra ungmenna. Við höfum einnig rýnt í samband þessara þátta við fjölmarga heilsufarsþætti og námsárangur, fyrst við 7 og 9 ára aldur og síðan við 15 ára og 17 ára aldur hjá hópnum,“ segir Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og verkefnisstjóri rannsóknanna tveggja.

Rúna Sif Stefánsdóttir og Erlingur S. Jóhannsson

Rannsóknarhópurinn hefur undanfarin ár fylgt þátttakendum eftir í þeim breytingum sem verða á lífi þeirra þegar þau fara úr grunnskóla í framhaldsskóla. „Við lögðum sérstaka áherslu á að rannsaka m.a. breytingar á svefnvenjum og hreyfivirkni þessar ungmenna frá 15 ára til 17 ára aldurs en þetta er fyrsti árgangurinn sem kom inn í framhaldsskólana eftir að stytting á námstíma til stúdentsprófs tók gildi. Við gerðum ýmsar mælingar þegar þátttakendur voru á sextánda aldursári og svo aftur að tveimur árum liðnum þegar þátttakendur voru á átjánda aldursári,“ segir Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræðum, en doktorsverkefni hennar snýr að breytingum á svefni og hreyfingu þessa unglingahóps með tilliti til vals á framhaldsskóla.

Fimmtungur 15 ára barna nær viðmiðunarsvefni

Við rannsóknina á unglingahópnum var notast við sérstaka mæla til að meta hreyfingu og svefn þátttakenda og leiddu mælingarnar ýmislegt forvitnilegt í ljós. Þannig náði um helmingur 15 ára ungmenna sem tók þátt í rannsókninni viðmiðum um æskilega hreyfingu á viku sem eru sex klukkustundir. Þá reyndust rúmlega 40% taka þátt skipulögðu íþróttastarfi eða hreyfingu í sex klukkustundir eða meira á viku. Enn fremur sýna niðurstöðurnar að 15 ára íslensk ungmenni fara seint að sofa og sofa ekki nema tæplega sex og hálfan klukkutíma á nóttu að meðaltali. Aðeins 23% stúlkna og 20% drengja náðu átta klukkuststunda viðmiðunarsvefni yfir vikuna.

„Í ljósi niðurstaðnanna þarf augljóslega að stórefla heilbrigðisfræðslu meðal ungs fólks og auka meðvitund, þekkingu og skilning þess á eigin heilsu og þeim umhverfisþáttum sem hafa áhrif á heilbrigði og velferð þess,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Svefn minnkar enn meira og verður breytilegri í framhaldsskóla

Tveimur árum síðar, þegar þessi hópur unglinga er kominn í framhaldsskóla, hefur ýmislegt breyst. „Við sjáum að svefnlengd unglinga styttist að meðaltali um 24 mínútur á nóttu milli 15 og 17 ára aldurs og var svefninn ekki mikill fyrir. Sautján ára unglingar fara einnig seinna að sofa á skóladögum en 15 ára en það er ekki marktækur munur á því hvenær unglingahóparnir fara á fætur,“ segir Rúna. Hins vegar jókst breytileikinn í svefni unginga töluvert milli áranna tveggja. „Þátttakendur í rannsókninni fóru almennt að sofa í kringum miðnætti við fimmtán ára aldur en þegar þeir voru orðnir sautján ára virtist meiri breytileiki í þeim tíma og við sjáum hóp nemenda sem fara jafnvel að sofa klukkan 3 eða 4 á skóladegi,“ bætir Rúna við. Meiri breytileiki mældist á svefni þeirra nemenda, sem sögðust verja miklum tíma við skjá og hreyfa sig minna, en hjá meðaltalinu, sérstaklega í hópi drengja.

Þau Rúna og Erlingur skoðuðu einnig breytingar á svefntíma með tilliti til vals á framhaldsskóla og þar kom í ljós að nemendur í fjölbrautakerfi sváfu lengur á skóladögum en nemendur í bekkjakerfi sem að jafnaði fóru fyrr á fætur. Erlingur og Rúna segja ekki auðvelt að svara því hvað valdi þessum mun en hugsanlega spili meiri sveigjanleiki og frjálsræði í fjölbrautakerfinu þarna inn í.

Enn fremur sýndu niðurstöðurnar að dregið hafði úr hreyfingu hjá hópnum að meðaltali um 13% milli áranna tveggja en athyglisvert er að hún dregst saman um nærri fimmtung á virkum dögum en ekkert um helgar. „Þátttaka í formlegu íþróttastarfi og heilsurækt á eigin vegum dregst saman um 25% milli 15 og 17 ára aldurs en um helmingur 17 ára ungmenna segist stunda íþróttir eða hreyfa sig reglulega,“ segir Rúna fremur.

Niðurstöður verði nýttar til forvarna í framhaldsskólum

Stór hópur fræðimanna og nema hefur komið að rannsóknunum, bæði í Háskóla Íslands og erlendis. Auk Erlings koma þau Sigríður Lára Guðmundsdóttir dósent, Sigurbjörn Árni Arngrímsson prófessor og nýdoktorarnir Erla Svansdóttir og Sunna Gestsdóttir að verkefninu innan Háskólans en þau hafa átt gott samstarf við þá Kong Chen og Robert Brychta, vísindamenn við National Insititutes of Health í Washington í Bandaríkjunum, í rannsóknum sínum.

Fjórir doktorsnemar vinna enn fremur með gögn frá rannsóknarverkefninu en auk Rúnu eru það þau Soffía Hrafnkelsdóttir, Vaka Rögnvaldsdóttir og Elvar Smári Sævarsson. „Vaka hefur skoðað tengsl svefns og hreyfingar við holdafar ungmenna en og Soffía hefur rýnt í tengsl skjátíma og hreyfingar við andlega líðan og svefn ungmennanna. Þar sýna niðurstöður t.d. að þeir 15 ára unglingar sem segjast verja minni tíma við skjá og hreyfa sig meira koma best út í eigin mati á andlegri líðan,“ bendir Erlingur á. Hann bætir við að átta nemar hafi lokið meistaraprófi frá Háskólanum, þar sem stuðst er við gögnin úr rannsóknunum, og fjórir til viðbótar vinni nú með þau í meistaraverkefni sínu. „Nú þegar hafa um 20 vísindagreinar verið birtar í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum úr þessu langtímarannsóknarverkefni og má reikna með að allt að 10 vísindagreinar verði birtar á næstu árum,“ segir Erlingur enn fremur.

En hvaða máli skipta niðurstöðurnar fyrir samfélagið og hvernig má nýta þær? „Það er nauðsynlegt að afla betri þekkingar á því hvaða breytingar verða á atgervi, andlegum þroska og heilsufari barna og ungmenna milli skólastiga, t.d. frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Upplýsingarnar sem við höfum aflað gefa mjög dýrmæta vitneskju sem nýta má til að ákveða til hvaða forvarnaraðgerða heilbrigðis- og menntamálayfirvöld þurfa að grípa á komandi árum og áratugum,“ segir Rúna og Erlingur bætir við: „Í ljósi niðurstaðnanna þarf augljóslega að stórefla heilbrigðisfræðslu meðal ungs fólks og auka meðvitund, þekkingu og skilning þess á eigin heilsu og þeim umhverfisþáttum sem hafa áhrif á heilbrigði og velferð þess.“ 

Rannsóknir hópsins hafa notið styrkja úr Rannsóknarsjóði Íslands, Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands, Lýðheilsusjóði hjá Embætti landlæknis og Íþróttasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Rúna Sig Stefánsdóttir