Forseti Íslands, Herra Ólafur Ragnar Grímsson, Forsetafrú Dorritt Moussaieff. Frú Vígdís Finnbogadóttir. Deildarforsetar. Kandidatar og fjölskyldur og aðrir góðir gestir.
Það er mér mikill heiður að fá að taka í hönd ykkar, kæru kandidatar, á þessum hátíðardegi, því þið eruð fyrirheit um þá framtíð sem Íslandi er búin. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar hjartanlega til hamingju með daginn og vel unnið verk.
Háskóli Íslands vinnur nú markvisst eftir 5 ára markmiðsáætlun sem miðar að því að skólinn nái framúrskarandi árangri í kennslu og vísindum. Við höfum lagt alþjóðlega viðurkennda mælikvarða á starf okkar og fylgjumst grannt með hvernig gengur að ná settu marki. Nú þegar er árangur þessarar markmiðasetningar kominn berlega í ljós.
Við settum okkur að ná ákveðnum markmiðum á fimm árum. Þessi markmið fólu meðal annars í sér eftirfarandi:
Að tvöfalda fjölda birtra greina um niðurstöður vísindarannsókna í kröfuhörðustu alþjóðlegu tímaritum. Á tveimur árum hefur þessum birtingum fjölgað um 35%.
Að fjölga ungu og kraftmiklu vísindafólki, svokölluðum nýdoktorum, í störfum hjá Háskólanum, um 100% á 5 árum. Þeim hefur fjölgað um 50% á tveimur árum.
Við settum okkur að fimmfalda fjölda útskrifaðra doktora. Með nýjungum í doktorsnámi, sem meðal annars gefa doktorsnemum færi á að stunda nám sem fullt starf eru horfur á að skólinn nái markmiðum sínum.
Við vildum fjölga störfum í Fræðasetrum Háskóla Íslands á landsbyggðinni um 100%. Á tveimur árum hefur fjölgunin þegar orðið um 60%.
Við settum okkur að auka sértekjur verulega. Þær hafa aukist um 33% á tveimur árum, og eru nú um þriðjungur af heildartekjum skólans.
Við settum okkur að endurskoða stjórnkerfi og alla innri uppbyggingu skólans. Það hefur nú tekist á undraskömmum tíma og nýtt skipulag og stjórnkerfi taka gildi 1. júlí.
Allt þetta eru mikilvægir áfangar í sókn skólans í hóp fremstu háskóla. Við sjáum að við getum það sem við setjum okkur.
Nú er komið að því að setja ný og mikilvæg áfangamarkmið í uppbyggingu Háskóla Íslands. Skólinn mun á næstu fimm árum byggja upp 4-6 afburða rannsóknasvið eða stofnanir. Þetta eru metnaðarfull áfangamarkmið. Þau eru hins vegar í samræmi við stefnumótun þeirra háskóla sem við viljum miða okkur við og grunnur að þessari nálgun var lagður með samningi Háskólans við menntamálaráðuneytið fyrir rúmu ári.
Ég tel að við eigum síðan að setja markið enn hærra og að í tengslum við uppbyggingu afburðasviða eigi skólinn að leggja áherslu á að að minnsta kosti eitt þessara sviða eða stofnana verði í hópi 10 fremstu á sínu sviði í heiminum. Þessari hugmynd þarf að vinna fjárhagslegan stuðning bæði til uppbyggingar og rekstrar. Þetta er dýrt verkefni og við þurfum að sækja töluverðan hluta þess fjármagns til alþjóðlegra styrktarsjóða og fyrirtækja.
Uppbygging af því tagi sem ég hef lýst mun draga að skólanum afburða vísindamenn og kennara, efla tengsl skólans við alþjóðlegar vísinda- og fræðastofnanir. Þetta verður öðrum deildum og sviðum jafnframt ómetanleg hvatning og stuðningur við að bæta stöðu sína. Þannig mun þetta beint og óbeint styrkja kennslu og gera skólann á alla lund betri. Störfum við skólann mun fjölga og fjöldi afleiddra starfa verður til úti í samfélaginu í krafti nýsköpunar sem þessi uppbygging leiðir af sér.
Við lifum nú erfiða umbrotatíma í atvinnu- og viðskiptalífi. Hlutverk Háskólans á slíkum tímum er sem endranær virk þátttaka í að leggja grunn að framtíðarvelferð samfélagsins. Grunnstoðir íslensks samfélags, þar á meðal menntakerfið, eru afar traustar og því full ástæða til bjartsýni á framtíðina. Háskólinn mun ekki standa hjá sem hlutlaus greinandi heldur taka fullan þátt. Nú er tími til að leggja nýjar línur, hugsa stórt og skapa.
Samstarf við virta háskóla og visindastofnanir í Evrópu, Ameríku og Asíu er meðal helstu áhersluþátta í stefnu Háskólans. Þetta hefur aukist mjög á undanförnum misserum og styrkir skólann sem alþjóðlega menntastofnun.
Meðal þess sem nýtt er af nálinni má nefna að vísindamenn Harvard háskóla í lýðheilsuvísindum koma nú til kennslu við Háskólann og til að leiðbeina nemendum. Námskeið í samkeppnishæfni var nú kennt í fyrsta sinn í samstarfi Harvard háskóla og viðskipta- og hagfræðideildar.
Rannsóknasamstarf milli vísindamanna Háskóla Íslands og California Institute of Technology/Caltech hefur eflst og stúdentar frá Háskóla Íslands fara í sumar og vinna rannsóknaverkefni, m.a. með Nóbelsverðlaunahöfum við Caltech.
Samstarf okkar við University of Minnesota eykst með hverju ári í mörgum greinum.
Eins og áður, komu kennarar frá MIT, Massachusetts Institute of Technology, til kennslu við verkfræðideild.
Íslenskir stúdentar sækja nú námskeið við Fudan háskóla í Shanghai, einn virtasta háskóla í Kína sem hluta af náminu.
Eins og ég sagði fyrr er samstarf af þessu tagi afskaplega mikilvægt og styrkir Háskólann sem alþjóðlega menntastofnun. Það segir einnig sitt um alþjóðlega stöðu að kandídatar frá Háskóla Íslands eiga greiða leið til framhaldsnáms við allar bestu menntastofnanir í heiminum. Það er mælikvarði á gæði náms við HÍ.
Góðir gestir
Alþjóðavæðing viðskiptalífs og menningar er einn mikilvægasti kafli samfélagsþróunarinnar nú um stundir. Háskólinn undirstrikar hlutverk sitt í að búa samfélagið til slíkrar þátttöku með kennslu á sviði tungumála og rannsóknum innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Spænska er það Vesturlandamál sem hefur lang mesta útbreiðslu. Því er mikill ávinningur í stofnsetningu Cervantes tungumálaseturs við Háskólann í samvinnu við stjórnvöld á Spáni.
Nýlega var stofnað Konfúsíusarsetur við Háskóla Íslands með stuðningi íslenskra og kínverskra stjórnvalda til að efla kennslu og rannsóknir í kínversku og kínverskum fræðum. Þá hafa vildarvinir stutt Háskólann til að bjóða kennslu í rússnesku og til að efla japönskukennslu til muna.
Skólinn gerði í vetur samstarfssamning við vísindastofnun Indlands sem Rachendra Pachauri, friðarverðlaunahafi Nobels veitir forstöðu. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, átti mikinn þátt í að koma þeim tengslum á.
Í fyrradag veitti Háskóli Íslands Donna E. Shalala, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, heiðursdoktorsnafnbót vegna framlags til heilsuhagfræði og stjórnmálahagfræði. Shalala er nú rektor háskólans í Miami sem er hratt að sækja í hóp mikilvægustu menntastofnana Bandaríkjanna.
Sókn Háskóla Íslands miðar að því að gera skólann betri. En sóknin miðar einnig að því að gera góðan skóla aðgengilegan fyrir alla. Það er ánægjulegt að geta þess hér að tveir heyrnarlausir stúdentar útskrifuðust í dag, Kristinn Arnar Diego með BA- próf í félagsráðgjöf, og Þórður Örn Kristjánsson með meistarapróf í líffræði. Þórður er brautryðjandi- hann er fyrsti heyrnarlausi nemandi til að ljúka meistaranámi frá Háskóla Íslands.
Ágætu kandídatar
Veturinn hefur verið okkur öllum viðburðarríkur.
Gríðarlegur kraftur og vöxtur hefur verið í innra starfi Háskólans. Þetta endurspeglast í umræðu um skólann í samfélaginu og stóraukinni aðsókn nýstúdenta.
Í skoðanakönnun Gallup í vetur kom fram að Háskóli Íslands nýtur trausts 90% þjóðarinnar. Þetta er meira traust en ríkir til nokkurrar annarrar stofnunar sem spurt er um. Þetta tel ég meðal annars skýringuna á mikilli aðsókn nýnema haustið 2008. Þrisvar sinnum fleiri vilja nú læra matvæla- og næringarfræði en á fyrra ári. Tvöfalt fleiri vilja læra rafmagns- og tölvuverkfræði. Sextíu og fimm prósent fleiri vilja í hagfræði, 40% í lögfræði, 43% í umhverfis og byggingarverkfræði. Töluverð aukning er einnig í aðsókn að félagsráðgjöf, stjórnmálafræði, sagnfræði og í íslensku- og menningardeild.
Góðir gestir
Það er ekki einasta mikil gróska í innra starfi háskólans og alþjóðlegu samstarfi. Umgjörðin hefur líka gjörbreyst. Í vetur opnuðum við Háskólatorg, nýtt 10 þúsund fermetra húsnæði sem hefur gjörbreytt lífi okkar allra í háskólasamfélaginu. Við höfum nú lokið undirbúningi fyrir byggingu 20.000 fermetra í Vísindagörðum þar sem 4 öflug verkfræðifyrirtæki verða til húsa í nánum tengslum við verkfræðideildir skólans.
Eftir að hefðbundinni háskólakennslu og prófum lauk nú í vor, hefur Háskólatorgið og lóðin öll iðað af lífi. Unglingar á aldrinum 12 - 15 ára komu til að læra í Háskóla unga fólksins og lögðu stund á lögfræði, sálfræði, matvæla- og næringarfræði, japönsku, hugbúnaðarverkfræði, stjarneðlisfræði og margt fleira.
Þann 1. júlí næstkomandi verða mikilvæg þáttaskil í starfi Háskóla Íslands. Nýtt skipulag og stjórnkerfi tekur gildi og Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands sameinast. Við þessa sameiningu verður til 13.000 manna samfélag stúdenta, kennara, vísindamanna og annars starfsfólks. Þegar háskólarnir tveir leggja saman þekkingarauðlegð sína verður samtalan meiri en summa eininganna.
Nýr Háskóli Íslands skiptist í 5 ný fræðasvið; Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið, og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Forsetar fræðasviðanna fimm verða ráðnir fyrir 1. september. Innan hvers sviðs verða 3-6 deildir, sumar óbreyttar frá því sem nú er, aðrar nýjar. Markmið með skipulagsbreytingum er að styrkja sókn skólans, gera stjórnsýslu skilvirkari og bæta þjónustu við nemendur og kennara.
Kæru kandidatar,
Háskóli Íslands stendur á tímamótum og á fyrir höndum mikið verk á nýjum vettvangi. Hið sama gildir í ykkar lífi. Þið hafið nú lokið ströngum áfanga og standið líka á tímamótum. Ég vona að Háskólinn hafi búið ykkur vel til að takast á við næsta áfanga og að hér hafið þið hnýtt bönd vináttu við samstúdenta ykkar og kennara sem endast út lífið.
Það skiptir Háskólann miklu að eiga vináttu ykkar og stuðning, - að skólinn verði áfram og um alla tíð ykkar skóli.
Fyrir hönd Háskóla Íslands þakka ég ykkur samfylgdina og óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gæfu og góðs gengis í því sem framundan er.
(Afrit tekið af vefsafn.is þann 13. nóvember 2018, slóð: http://wayback.vefsafn.is/wayback/20080724151454/http://www.hi.is/is/sko...)