Viltu fræða ungt fólk um geðheilsu?
Þessa dagana stendur Hugrún geðfræðslufélag fyrir svokölluðum geðfræðslukvöldum en félagið leitar að nýjum fræðurum til að upplýsa ungt fólk um geðheilbrigðismál í framhaldsskólum landsins. Þrjú fræðslukvöld verða núna í þessari viku, öll í Veröld –
húsi Vigdísar. Hugrún byggist alfarið á sjálfboðaliðastarfi háskólanema og er eitt helsta starf félagsins ár hvert er fara í framhaldsskóla landsins og halda fyrirlestra um geðheilbrigðismál.
„Hugrún er geðfræðslufélag sem hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilsu, geðraskanir og úrræði sem standa til boða. Þá vill Hugrún einnig stuðla að bættri samfélagsvitund um geðheilsu,“ segir formaðurinn Kristín Hulda Gísladóttir en hún er meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands.
Hugrún var stofnuð árið 2016 af nemendum í læknisfræði, hjúkrunarfræði og sálfræði við Háskóla Íslands. „Tilurð félagsins er sú að mikið hefur verið kallað eftir aukinni geðfræðslu fyrir ungmenni á Íslandi. Tölur um kvíða og þunglyndi fara hækkandi meðal ungs fólks og er ljóst að þörfin er mikil. Við erum í rauninni að veita unglingum þá fræðslu sem við hefðum sjálf viljað fá á þeirra aldri,“ segir Kristín Hulda.
Starfið tekist mjög vel
Kristín Hulda segir aðspurð að starfið hjá Hugrúnu hafi tekist mjög vel. „Síðustu tvö starfsár höfum við haldið fjölmarga fyrirlestra um land allt og fengið frábær viðbrögð frá skólunum og nemendunum sjálfum. Eftirspurnin eftir fyrirlestrum eykst með hverju ári og við sjáum fram á að fara í alla framhaldsskóla landsins á hverju starfsári áður en langt um líður.“
Kristín Hulda segir að rannsóknir sýni að kvíði og þunglyndi séu vaxandi vandamál á meðal ungmenna. „Við höfum reynt að koma til móts við þetta með því að auka áherslu á kvíða og þunglyndi í fræðslufyrirlestrinum okkar. Auk þess leituðum við aðstoðar fagaðila sem sérhæfa sig í kvíða og þunglyndi meðal unglinga og fengum leiðbeiningar þeirra við að tryggja að efnið gagnist sem best.“
Allir háskólanemar geta orðið fræðarar
Kristín Hulda segir að á geðfræðslukvöldunum sem nú séu í gangi sé verið að virkja og þjálfa nýja fræðara. „Þarna koma fram einstaklingar sem hafa glímt við geðrænan vanda og svo fagaðilar. Rætt er um geðsjúkdóma, geðheilsu og úrræði en þessi kvöld eru opin öllum áhugasömum svo lengi sem húsrúm leyfir. Fræðsla á vegum Hugrúnar í framhaldsskólunum mun svo hefjast af fullum krafti í október og er félagið nú þegar með rúmlega 60 fyrirlestra bókaða á næstu tveimur mánuðum.“
Kristín Hulda segir að öllum háskólanemum standi til boða að gerast fræðarar á vegum Hugrúnar. „Fræðslukvöldin okkar, sem nú standa yfir, verða fimm talsins og til þess að gerast fræðari þarf að mæta á þrjú þessara kvölda auk þess að taka þátt í fræðsludeginum okkar, sem verður þann 22. september,“ segir Kristín Hulda.
Hún bætir því í lokin við að fræðslustarf á vegum Hugrúnar sé virkilega gefandi og svo sannarlega eitthvað sem hægt sé að mæla með.
„Þörfin er mjög mikil og fræðararnir finna að ungmenni hafa sjaldnast fengið mikla fræðslu í þessum efnum. Þau þekkja ekki einkenni, vita ekki hvernig þau geta hlúð að eigin geðheilsu eða hvert þau eiga að leita ef eitthvað kemur upp á og það er ómetanlegt að vita til þess að fræðslan geti upplýst og hjálpað illa stöddum ungmennum.“
Dagskrá fræðslukvöldanna
Mánudagur 17. september
16:30-17:30. Ragnar Pétur Ólafsson, sálfræðingur - Þunglyndi
17:30-18:00. Sólrún Ósk Lárusdóttir, sálfræðingur - Sálfræðiþjónusta á heilsugæslunni
18:00-18:30. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og stofnandi Betri svefns - Svefn
18:30-19:00. Matarhlé (boðið upp á léttar veitingar)
19:00-19:30. Magnús Haraldsson, geðlæknir - Geðrofssjúkdómar
19:30-20:15. Hvíta bandið - Átraskanir
---
Þriðjudagur 18. september
16:30-16:40. Fundarstjóri - Kynning á Hugrúnu
16:40-17:10. Héðinn Unnsteinsson - Bipolar, reynslusaga og Lífsorðin 14
17:20-18:00. Margrét Ólafía, heimilislæknir - Streita/áföll
18:00-18:30. Tómas Kristjánsson, sálfræðingur - Sjálfsskaði
18:30-19:00. Matarhlé (boðið upp á léttar veitingar)
19:00-19:50. Fjóla Dögg Helgadóttir, sálfræðingur - Félagskvíði og tölvuprógram
---
Miðvikudagur 19. september
16:30-17:00. Sonja Björg - Aðstandandi, reynslusaga
17:00-17:30. Ragnar Humi - Geðhvörf, reynslusaga
17:30-18:10. Helga Arnardóttir, heilsusálfræðingur - Jákvæð sálfræði
18:10-18:40. Aldís Eva Friðriksdóttir, sálfræðingur - Sjálfsmyndarvandi unglinga
18:40-19:10. Matarhlé (boðið upp á léttar veitingar)
19:10-19:40. Ísafold Helgadóttir, geðlæknir - Geðhvörf
19:40-20:10. Þórdís Björk - Kvíði, reynslusaga
Heimasíða Hugrúnar er www.gedfraedsla.is