Skip to main content
14. júní 2018

Samstarf við Fræðslumiðstöð atvinnulífs

""

Háskóli Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hafa gert með sér samning um hæfnigreiningu sex starfa er tengjast skipulagningu fagháskólanáms við skólann. Um er að ræða störf í ferðamennsku, leikskólafræði og heilbrigðisgagnafræði en til stendur að hæfnigreina síðar störf í iðn- og tæknigreinum. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, undirrituðu samninginn á dögunum í Háskóla Íslands.

Fagháskólanám er starfstengt nám á fræðasviði háskóla og niðurstöður úr hæfnigreiningu starfa eru nýttar til að skipuleggja fagháskólanám og við þróun raunfærnimats. Raunfærnimat snýst um að meta færni umsækjanda og bera hana saman við hæfniviðmið tiltekinna námskeiða. Slíkt mat er notað víða erlendis bæði við inntöku í nám og til styttingar náms. Með fagháskólanámi verður til aukið námsframboð fyrir einstaklinga á vinnumarkaði til að þróa sig í starfi og afla sér menntunar við hæfi.

 Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, undirrituðu samninginn á dögunum í Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, Sveinn Aðalsteinsson og Róbert Haraldsson,sviðsstjóri kennslusviðs HÍ, að lokinni undirskrift.