Skip to main content

Doktorsvörn í menntunarfræði — Kristín Jónsdóttir

Doktorsvörn í menntunarfræði — Kristín Jónsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. júní 2018 13:00 til 16:00
Hvar 

Stakkahlíð / Háteigsvegur

Skriða

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Kristín Jónsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild, Háskóla Íslands:

Íslenskt heiti: Tengsl heimila og grunnskóla á Íslandi

Enskt heiti: Parental involvement in compulsory schools in Iceland

Vörnin fer fram miðvikudaginn 20. júní kl. 13.00 í Skriðu, sal á Menntavísindasviði við Stakkahlíð.

Andmælendur eru dr. Karen Ida Dannesboe, dósent við Háskólann í Árósum, og dr. Elsa Westergård, dósent við Háskólann í Stavanger.

Leiðbeinandi var dr. Amalía Björnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi dr. Unn-Doris Bæck prófessor við UiT, The Arctic University of Norway, Tromsö.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Gerður G. Óskarsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður.                                                                                                                                                      

Ólafur Páll Jónsson prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar stjórnar athöfninni.             

 Í rannsókninni var leitað svara við meginspurningunni: Hvaða hlutverki þjóna tengsl heimila og skóla í grunnskólastarfi á Íslandi? Markmiðið var að lýsa því sem er einkennandi fyrir tengsl heimila og skóla; að skoða hvað unglingum finnst æskilegt varðandi þátttöku foreldra; og loks að draga fram hvernig þjónusta skóla og félagslegir þættir hafa áhrif á tengsl heimila og skóla sem og á ánægju foreldra með skólastarf.
Rannsóknin er þáttur í rannsóknarverkefninu Starfshættir í grunnskólum. Gagna var aflað í 20 grunnskólum. Unnið var með gögn úr rafrænum spurningalistum til starfsfólks skólanna, foreldra allra nemenda og til unglinga í 7.-10. bekk. Við úrvinnslu var reiknuð lýsandi tölfræði, skoðuð tengsl á milli þátta og notuð fjölbreytuaðhvarfsgreining til að varpa ljósi á hvað hefði áhrif á sjónarmið þátttakenda.
Niðurstöður sýndu að foreldrar og kennarar voru einhuga um að samskipti jafnt sem samstarf þeirra væri mikilvægt fyrir menntun barna og unglinga. Samskipti milli heimila og skóla eru kerfisbundin og regluleg en það er hins vegar álitamál hversu oft er um samstarf að ræða. Einkum yngri kennarar sögðu samstarf við foreldra stundum vera erfitt. Foreldrar jafnt sem starfsfólk skóla töldu æskilegast að foreldrar tækju þátt í félagslífi og viðburðum skóla á hefðbundnum nótum. Foreldrar virtust ekki sækjast eftir að taka þátt í sjálfu námi barna sinna. Hins vegar sýndu unglingar áhuga á að foreldrar tækju frekar þátt í því sem sneri að náminu en félagslífinu og mikill meirihluti unglinga sagðist vilja stuðning foreldra við heimanám. Fram kom töluverður munur á viðhorfum innan unglingahópsins. Rannsóknin leiddi líka í ljós að foreldrar stóðu ekki jafnt að vígi gagnvart skólunum. Sláandi var að einstæðar mæður fundu oft til vanmáttar í samskiptum sínum við starfsfólk skóla og þær töldu sig síður en aðrir foreldrar fá stuðning innan skólanna fyrir börn sín sem þurftu þess með.

Kristín Jónsdóttir lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði og íslensku frá Háskóla Íslands 1986 og vann svo við fjölmiðlun og ferðaþjónustu. Hún lauk viðbótarnámi í hagnýtri fjölmiðlun 1991 og kennsluréttindanámi 1992 og hóf störf sem kennslukona í unglingadeild Langholtsskóla. Kristín hefur starfað í menntakerfinu allar götur síðan, aðallega sem kennslukona en einnig sem verkefnisstjóri matsdeildar hjá Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands 1998-1999 og á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur sem forstöðumaður þróunarsviðs veturinn 2000-2001. Kristín lauk M.Ed. prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands 2003. Hún hefur verið lektor í kennslufræði við kennaradeild KHÍ, síðar HÍ, frá 2007. Síðastliðna tvo vetur hefur Kristín verið skólastýra Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum og jafnframt kennt unglingum í Tálknafjarðarskóla íslensku í fjarkennslu. Kristín er gift Þórarni Eyfjörð og börn þeirra eru Sigrún og Þorsteinn.

                                                                                                                    

Vörnin fer fram 20. júní nk. kl. 13.00 í Skriðu, sal á Menntavísindasviði v. Stakkahlíð

Tengsl heimila og grunnskóla á Íslandi