Hlýtur viðurkenningu fyrir framlag á sviði menntunar ungra barna
Jóhanna Einarsdóttir, prófessor og forseti Menntavísindasviðs, hlaut viðurkenningu frá Illinois-háskóla í Bandaríkjunum fyrir framlag sitt til rannsókna á menntun ungra barna þann 9. mars síðastliðinn. Hún var í hópi níu vísindamanna sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni en viðurkenningin er veitt fyrrverandi nemendum skólans sem skarað hafa fram úr á sínu fræðasviði á alþjóðavettvangi.
Jóhanna lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Illinois-háskóla í Bandaríkjunum um síðustu aldamót. Áður hafði hún starfað sem æfingakennari við Æfingaskóla Kennaraháskólans og sem kennari og stjórnandi framhaldsdeildar Fósturskóla Íslands. Hún var skorarstjóri leikskólaskorar Kennaraháskólans við sameiningu Fósturskólans og Kennaraháskólans, prófessor við Kennaraháskólann og síðar Háskóla Íslands. Árið 2013 tók hún við starfi sviðsforseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Jóhanna hefur um árabil unnið að stefnumótun í menntamálum hjá ríki og sveitarfélögum.
Jóhanna er brautryðjandi á sviði rannsókna í menntunarfræðum ungra barna hér á landi og hefur stundað rannsóknir bæði í leik- og grunnskólum. Eftir hana liggur fjöldi fræðigreina og bóka um efnið og hefur hún einnig mikla reynslu af því að ritstýra tímaritum og bókum. Hún stofnaði Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) við Háskóla Íslands árið 2007 en stofan hefur verið leiðandi vettvangur fyrir rannsóknir og þróunarstarf í leikskólum landsins. Jóhanna hefur í gegnum tíðina verið í umfangsmiklu alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og stýrt evrópskum rannsóknarhóp á sviði bernskurannsókna. Enn fremur situr hún í stjórn European Early Childhood Education Research Association. Á síðasta ári var Jóhanna sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Oulu í Finnlandi.
Illinois-háskólinn í Bandaríkjunum var stofnaður árið 1867. Hann er á meðal virtustu ríkisreknu rannsóknaháskóla þar í landi með hátt í 50 þúsund nemendur í grunn- og framhaldsnámi. Háskólinn er afar öflugur á sviði menntavísinda en frá upphafi hafa um 35 þúsund nemendur útskrifast af því fræðasviði.
Háskóli Íslands óskar Jóhönnu innilega til hamingju með viðurkenninguna.