Bækur um klaustur og lopapeysu tilnefndar til Fjöruverðlaunanna
Nýjar bækur þeirra Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði, og Ásdísar Jóelsdóttur, lektors í textílmennt, eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Tilkynnt var um tilnefningar á Borgarbókasafninu í gær, þriðjudaginn 5. desember.
Fjöruverðlaunin hafa verið veitt allt frá árinu 2007 en síðastliðin sjö ár hefur sá háttur verið hafður á að tilnefna þrjár bækur í þremur flokkum í desember, í flokki fagurbókmennta, flokki fræðibóka og rita almenns eðlis og flokki barna- og unglingabóka. Verðlaunin eru svo afhent snemma á nýju ári.
Að þessu sinni eru bækur tveggja fræðikvenna við Háskóla Íslands tilefndar til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis sem fyrr segir. Þetta eru bækurnar „Íslenska lopapeysan: Uppruni, saga og hönnun“ eftir Ásdísi Jóelsdóttur, lektor í textílmennt við Menntavísindasvið, og „Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir“ eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði við Hugvísindasvið. Þess má geta að bók Steinunnar er einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.
Í rökstuðningi dómnefndar Fjöruverðlaunanna um Íslensku lopapeysuna segir að bókin geymi feykimikinn fróðleik um prjón og lopapeysur. „Í bókinni rannsakar Ásdís sögu og þróun íslensku lopapeysunnar og rannsóknin leiðir í ljós athyglisverð tengsl samfélagsbreytinga og iðnþróunar. Unnin ull var lengi helsta útflutningsvara Íslendinga en á 19. öld dró úr ullarvinnslunni. Í bókinni rekur Ásdís hvernig ullarvinnsla öðlast vinsældir á ný á 20. öld með lopapeysunni og hvernig hönnuðir, og aðrir skapandi einstaklingar, nýta þennan efnivið. Heimildir Ásdísar eru af margvíslegum toga svo sem prjónabæklingar, uppskriftablöð og auglýsingar auk þess sem Ásdís tekur fjölmörg viðtöl við fólk. Frásagnir prjónakvennanna eru sérlega áhugaverðar og viðtöl Ásdísar eru mikilvæg heimild um störf kvenna inni á heimilum. Það er mikill fengur að bókinni og nú þurfa prjónakonur og -karlar að leggja frá sér prjónana um stund og lesa þessa bók.“ Háskólaútgáfan gefur bókina út.
Um Leitina að klaustrunum segir dómnefnd að um sé að ræða voldugt rit sem sé skemmtilega skrifað. „Lesandinn fær ekki einungis góða innsýn í klausturhald á Íslandi í kaþólskum sið heldur einnig í vinnubrögð fornleifafræðinga og annarra sérfræðinga. Textinn er lipurlega skrifaður og höfundur bregður upp áhugaverðum myndum úr vinnunni við uppgröftinn, bæði í orðum og ljósmyndum sem sumar segja meira en mörg orð. Þetta veldur því að lesanda finnst hann vera þátttakandi í öllu amstrinu. Saga klaustranna er heillandi viðfangsefni sem Steinunn nær að gera góð skil. Hún leitar víða fanga og styðst við örnefni, gömul skjöl og munnmælasögur sem stundum vísa veginn en eiga það líka til að afvegaleiða fornleifafræðinga. Lesturinn vekur áhuga á því að heimsækja klausturstaðina með bókina í farteskinu. Sums staðar má sjá ummerki um klausturhald, annars staðar hafa öll spor máðst út en sagan lifir.“ Sögufélagið og Þjóðminjasafn Íslands gefa bókina út.