Skip to main content

Doktorsvörn Hiroe Terada á Menntavísindasviði

Doktorsvörn Hiroe Terada á Menntavísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. febrúar 2017 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hiroe Terada ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands:

„Icelandic and Japanese preschoolers’ attributions in social interactions involving a child’s moral transgression and a teacher´s expressed blame“

“ Hugmyndir  íslenskra og japanskra leikskólabarna um hegðun barna og viðbrögð kennara: Félagslegar aðstæður í leikskólastarfi”

Andmælendur eru dr. Ingrid Pramling Samuelsson, prófessor við Göteborg University, Svíþjóð, og dr. Serena Lecce, dósent við  University of Pavia, Ítalíu. 

Aðalleiðbeinandi var dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefndinni voru dr. Paul Harris, prófessor við Harvard University, Bandaríkjunum, og dr. Steinunn Gestsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Dr. Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar við Menntavísindasvið, stjórnar athöfninni.

Um verkefnið
Megintilgangur rannsóknarinnar er að öðlast betri skilning á því hvernig leikskólabörn skilja hugsun og tilfinningar annarra við algengar félagslegar aðstæður í leikskóla. Sérstök áhersla er lögð á að kanna hvort aldur þeirra og mismunandi menning skipti máli um skilning þeirra. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er sóttur til hugarkenningarinnar (e. theory of mind) og kenninga um félagsskilning (e. social cognition).

Viðtöl voru tekin við börnin úr tveimur aldurshópum (yngri hópur: 3;10 til 5 ára, eldri hópur: 5;1 til 6;5 ára) og frá tveimur löndum, Íslandi (N = 41) og Japan (N =  64). Viðfangsefni viðtalanna var valið með tilliti til þess að árekstrar í samskiptum eru algengir meðal leikskólabarna og þess að kennarar eru oft hluti af slíkum samskiptum. Í hverri þeirra fjögurra aðstæðna sem settar voru upp var aðalpersóna (barn), grátandi vinur og kennari. Annaðhvort braut aðalpersónan af sér eða ekki og annaðhvort áfelldist kennarinn aðalpersónuna fyrir brotið eða ekki. Börnin voru spurð um þrennt (e. social information processing): 1) tilfinningar kennarans, 2) tilfinningaleg viðbrögð aðalpersónunnar (barnsins), og 3) hvað aðalpersónan myndi gera í þessum aðstæðum.

Helstu niðurstöður margbreytudreifigreiningar (e. MANOVA) benda til þess að börn í báðum aldurshópum og frá báðum löndum gerðu greinarmun á því hvort barnið braut af sér eða ekki. Einnig kom fram að þegar aðalpersónan (barnið) braut af sér virtist ekki skipta máli hvort kennarinn áfelldist það eða ekki með tilliti til þess hvernig börnin ályktuðu um: tilfinningar kennarans, tilfinningaleg viðbrögð barnsins eða viðbrögð þess í kjölfarið hegðunarlega séð. Jafnframt kom fram að japönsku börnin og börnin í eldri aldurshópunum eignuðu kennaranum neikvæðar tilfinningar í ríkari mæli. Þetta gilti í öllum aðstæðunum, þ.m.t. aðstæðum þar sem barnið gerði ekkert af sér og þar sem kennarinn áfelldist barnið ekki. Börnin voru einnig beðin um að benda á hvernig fullorðnir/kennarar gætu komið í veg fyrir að áfellast eða skamma saklaust barn. Bæði japönsku og íslensku börnin bentu á að fullorðnir/kennarar ættu að vera eftirtektarsamir og góðir.

Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að hvetja kennara og aðra þá sem vinna með börnum til að leitast við að skilja hugsanir barnanna og tilfinningar í félagslegum samskiptum.

Um doktorsefnið
Hiroe Terada er fædd í Sapporo í Japan árið 1978. Hún lauk prófi frá Sapporo Minami High School árið 1997, AA-prófi í alþjóðafræðum frá Santa Barbara City College 1999, BA prófi í alþjóðafræðum (Peace and Conflict Studies) frá University of California, Berkeley 2001 og M.Ed. próf í alþjóðlegum menntavísindum frá Graduate School of Education, Harvard University árið 2003. Hiroe starfaði sem verkefnastjóri hjá Íslensku menntasamtökunum 2003-2005 og starfaði við leikskóla á Íslandi 2005-2016. Hiroe er gift Kjartani Brjáni Péturssyni og eiga þau börnin Pétur Yasu og Hörpu.