Mikilvægt að raddir fatlaðs fólks heyrist
„Ófatlað fólk hefur í gegnum tíðina haft valdið yfir orðræðu um fatlað fólk og með því haft mikil áhrif á viðhorf í garð fólksins. Þetta hefur þó breyst á undanförnum áratugum, ekki síst fyrir tilstilli fatlaðra aðgerðasinna og baráttufólks,“ segir Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræði við Menntavísindasvið, en hún hefur kannað orðræðuna sem fram fór á frétta- og vefmiðlum eftir að skýrsla um vistun barna á Kópavogshæli var birt í upphafi árs. Athygli vakti að fjölmiðlar leituðu ekki í miklum mæli eftir viðbrögðum fatlaðs fólks við skýrslunni.
Fötluðum ekki treyst til að fjalla um eigin málefni
Guðrún segir að einkum þrennt hefði einkennt samfélagsumræðuna um skýrsluna. „Í fyrsta lagi var það sem við kjósum að kalla lærdóms- og baráttuorðræðu fyrirferðarmest í gögnunum. Litið var á ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnum á Kópavogshæli sem gróft mannréttindabrot sem stjórnvöldum bæri að axla ábyrgð á og bæta fyrir. Í öðru lagi kom fram eins konar varnarorðræða fyrrverandi starfsfólks eða réttlæting fyrir því að hafa lítið getað spornað gegn ástandinu. Sammerkt í orðræðunni var að stjórnvöld bæru sökina á meðan starfsfólkið reyndi að gera sitt besta við ömurlegar aðstæður. Í þriðja lagi kom fram gagnrýnin orðræða fatlaðra agerðasinna. Fjölmiðlar voru gagnrýndir fyrir að hafa ekki leitað eftir áliti fatlaðs fólks í ríkari mæli og að hafa dregið upp niðurlægjandi lýsingar á börnunum og aðstæðum þeirra. Þrátt fyrir að alls ekki megi þagga það ofbeldi sem börnin urðu fyrir kalla slíkar lýsingar fram úreltar staðalímyndir um fólk með þroskahömlun og þess konar umfjöllun er til þess fallin að viðhalda fordómum,“ bendir Guðrún á og bætir við að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð áhersla á að draga fram jákvæðar birtingarmyndir um fatlað fólk í því skyni að leiða til vitundarvakningar.
Aftur á móti hafi orðræðan í fjölmiðlum að einhverju leyti fremur alið á þeirri hugmynd að fatlað fólk sé óeðlilegt og jafnvel ekki fullkomlega mannlegt. Bent hafi verið á að fatlað fólk sé sjálft best til þess fallið að lýsa þeim aðstæðum sem það býr við með þeim hætti að virðing þess og reisn komi fram. „Það var ekki endilega meðvituð ákvörðun fjölmiðlafólks að sniðganga fatlað fólk heldur hefur undirliggjandi hugmyndafræði vestrænna samfélaga orðið til þess að fötluðu fólki er ekki treyst til þess að fjalla um eigin málefni,“ segir Guðrún enn fremur. Þá sé ímyndin um hið eilífa barn og fórnarlamb ansi lífsseig og kom hún skýrt fram í orðræðunni um Kópavogshæli.
Fatlað fólk býr enn við skert mannréttindi
Orðræðan um skýrsluna um Kópavogshælið hafði á heildina litið jákvæð áhrif því hún fól í sér mikla umræðu um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu fyrr og nú. „Víða er úrbóta þörf og enn býr fatlað fólk við skert mannréttindi á Íslandi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgiltur hér á landi í september árið 2016 en hann hefur enn ekki verið löggiltur. Gagnrýnin orðræða fatlaðra aðgerðasinna dró hins vegar fram neikvæðar hliðar sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að orðræðan um Kópavogshælið hafi að miklu leyti verið orðræða ófatlaðs fólks um fatlað fólk, í þessu tilviki börnin á hælinu. Við vonumst til að rannsókn af þessu tagi geti dregið fram mikilvægi mannréttinda fatlaðs fólks og að leitað sé eftir röddum þess í auknum mæli í framtíðinni,“ segir Guðrún að endingu en hún mun kynna niðurstöður rannsóknarinnar á Menntakviku þann 6. október nk.
Dagskrá Menntakviku má nálgast í heild sinni hér