Er hægt að byrja nám í Sálfræðideild á vormisseri? Í BS-námi í sálfræði er ekki hægt að hefja nám á vormisseri. Aðeins þeir sem hafa lokið: Almennri sálfræði (SÁL103G) Tölfræði I (SÁL102G) Aðferðafræði (SÁL115G) og Skýringum á hegðun (SÁL104G) með veginni meðaleinkunn 6,0 eða hærri mega halda áfram á vormisseri. Einungis er hægt að hefja MS-nám í hagnýtri sálfræði á haustmisseri. Er boðið upp á fjarnám við deildina? Nei það er ekki hægt að stunda fjarnám við Sálfræðideild. Er einhver sía á fyrsta ári? Aðeins þeir sem hafa lokið: Almennri sálfræði (SÁL103G) Tölfræði I (SÁL102G) Aðferðafræði (SÁL115G) og Skýringum á hegðun (SÁL104G) með veginni meðaleinkunn 6,0 eða hærri mega halda áfram á vormisseri. Áður en nemandi hefur nám í námskeiðum annars kennsluárs í sálfræði (þar með töldum valnámskeiðum 2. og 3. árs) verður hann hafa lokið áðurnefndum námskeiðum og vegin meðaleinkunn þessara námskeiða má ekki vera lægri en 6,0. Nemandi þarf einnig að hafa lokið að minnsta kosti 40 einingum af skyldunámskeiðum í sálfræði áður en hann hefur nám á öðru ári í sálfræði. Hvað gerist ef ég fell tvisvar í námskeiði? Þá þarf nemandi að byrja nýjan feril og eru aðeins metin þau námskeið sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Þetta á þó ekki við um námskeiðin: Almenn sálfræði (SÁL103G) Tölfræði I (SÁL102G) Aðferðafræði (SÁL115G) og Skýringar á hegðun (SÁL104G) enda sé vegin meðaleinkunn nemandans í þessum námskeiðum 6,0 eða hærri. Hvað hef ég langan tíma til að ljúka námi? Hámarkstími í BS-námi í Sálfræðideild er níu misseri. Séu aðstæður nemanda sérstakar getur hann sótt um leyfi til að ljúka námi á lengri tíma. Einnig er hægt að sækja um leyfi frá námi til deildar. Er mætingaskylda í fyrirlestra? Námskeið í Sálfræðideild eru miðuð við að nemendur sæki kennslustundir, nema annað sé sérstaklega skipulagt. Geti nemandi ekki mætt í einstaka tíma ber hann sjálfur ábyrgð á að afla upplýsinga sem hann kann að hafa farið á mis við. Kennarar leytast við að hafa námskeiðstilhögun skýra og kröfur ljósar, þeim ber ekki skylda til að veita sérstakar tilhliðranir vegna nemenda sem af einhverjum völdum sækja ekki kennslustundir. Hvar finn ég brautskráningareyðublað? Brautskráningareyðublað fyrir BS-nemendur Brautskráningareyðublað fyrir MS-nemendur Spurningar um lokaverkefni í BS-námi Skrifa allir BS-ritgerð? Nei, það er ekki skylda. Einungis nemendur sem eru með fyrstu einkunn geta sótt um að skrifa BS-ritgerð. Í stað BS-verkefnis getur nemandi tekið valnámskeið og/eða lokið 5 eða 10 einingum í Aðstoð í rannsóknum. Ekki er tryggt að allir nemendur fái leiðbeinendur og geti þannig gert lokaverkefni á umbeðnu misseri. Það ræðst meðal annars af áhugasviðum nemanda, samsvörun þeirra við áhugasvið kennara, fjölda lokaverkefna sem kennarar treysta sér til að taka og námsárangri nemanda. Sjá reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði. Hvaða leiðbeinendur eru í boði? Lista með leiðbeinendum er hægt að finna á skrifstofu Sálfræðideildar eða á rannsóknarsviði. Get ég valið um 15 eininga eða 10 eininga lokaverkefni? Nemendum gefst kostur á að ljúka 10 ECTS BS-verkefni í Sálfræðideild. Ef BS-verkefni er óvenju umfangsmikið getur leiðbeinandi verkefnisins leyft að það sé metið til 15 ECTS. Sjá reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði. Hvar get ég leitað að frekari upplýsingum? Á skrifstofu Sálfræðideildar. Sími 525-4240 og 525-5813. Netfang: saldeild@hi.is Hvernig sæki ég um að skrifa lokaverkefni? Einungis nemendur, sem eru með fyrstu einkunn mega sækja um BS-ritgerð. Þú sækir um í árlegu skráningunni, rafrænt á sérstöku eyðublaði. Það er alltaf hægt að breyta eða bæta upplýsingum við umsóknina með því að senda póst á saldeild@hi.is. Nemendur þurfa að hafa lokið 120 ECTS í náminu áður en þeir hefja vinnu við BS-verkefni. Sjá reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði. Hefur val á BS-verkefni áhrif á framhaldsnám? Það sem þú skrifar um í ritgerðinni þarf ekki að tengjast því sem þú ætlar þér að læra í framhaldsnámi en getur auðvitað gert það. Venjuleg BS-ritgerð telst ekki sérhæfing í starfsumsóknum en mjög sterk BS-ritgerð getur auðvitað verið góð vísbending um hæfni á tilteknu sviði. Sjá reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði. Hvernig veit ég að ég er komin/n með leiðbeinanda í BS-ritgerð? Þú færð tölvupóst frá skrifstofu Sálfræðideildar með boð um lokaverkefni sendan á HÍ netfang þitt. Eftir að nemandi fær boð um lokaverkefni hefur hann vikufrest til að svara boðinu. Berist ekki svar til deildar á tilsettum tíma er litið svo á að nemandi ætli ekki að ljúka lokaverkefni á viðkomandi misseri. Sjá reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði. Ef ég þekki masters- eða doktorsnema sem vilja fá mig með í verkefni þarf ég þá að sækja um? Öll verkefni verða að vera undir umsjón kennara sem Sálfræðideild hefur staðfest sem aðalleiðbeinanda. Ef þú hefur hugmynd, eða er boðið rannsóknasamstarf utan deildar, má reyna að koma á samstarfi um efnið. Það er að öllu jöfnu ekki hægt að skrifa verkefni um eitthvað sem er langt utan sérfræðisviðs kennara í Sálfræðideild. Sjá reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði. Hvar finn ég sniðmát fyrir lokaverkefni? Sniðmát fyrir kápu lokaverkefna má finna undir Hönnunarstaðli Háskólans. Sniðmát fyrir lokaverkefnið sjálft er gert í samráði við leiðbeinanda. Reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði Reglur um lokaverkefni til BS-prófs í sálfræði má finna hér. Aðstoð við lokaverkefni - Ritver Háskóla Íslands Ritver Háskóla Íslands býður nemendum að panta viðtalsfundi og fá ráð um hverskyns úrslausnarefni sem tengjast fræðilegum ritgerðum, skýrslum og öðrum skriflegum verkefnum. Nánari upplýsingar á Ritveri HÍ. Einnig má finna almenna kynningu á ritverinu á hljóðglærum hér. Ráðvendni í námi Sálfræðideild tekur óráðvendni í námi mjög alvarlega. Þar er meðal annars átt við ritstuld, falsanir af öllu tagi, notkun og kynningu á verkefnum og vinnu annarra eins og hún væri manns eigin og allar tilraunir til að hafa rangt við á prófum. Deildin gengur ákveðið eftir því að í slíkum málum sé beitt ströngum viðurlögum, sbr. 19. gr. laga um opinbera háskóla og 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. facebooklinkedintwitter