Samstarfsstofnanir Stjórnmálafræðideildar reka öflugt rannsóknarstarf, bæði á eigin vegum sem og í samvinnu við aðra aðila, innlenda sem erlenda. Show Alþjóðamálastofnun Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun. Markmið Alþjóðamálastofnunar er að vera leiðandi í rannsóknum um alþjóðamál og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Stofnunin stuðlar að upplýstri umræðu meðal fræðimanna, almennings og annarra aðila, sem láta sig íslensk utanríkismál og alþjóðamál varða. Tilgangur Alþjóðamálastofnunar er jafnframt að auka gæði og framboð náms um alþjóðamála og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, og að vera þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera. Show Höfði friðarsetur Höfði friðarsetur starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Setrið var stofnað árið 2016 og hefur það að markmiði að stuðla að þverfræðilegum og alþjóðlegum rannsóknum í friðar- og átakafræðum, ýta undir upplýsta stefnumótun og aukið framboð á kennslu og fræðslu fyrir almenning á sviði friðar- og átakafræða. Show English Höfði Reykjavík Peace Centre, part of the Institute of International Affairs, is a collaborative effort of the City of Reykjavik and the University of Iceland. The Centre is a forum for international multidisciplinary cooperation, with an emphasis on the role of small states, cities and citizens in promoting peace. Show Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna MARK - miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókn er starfrækt á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. MARK var stofnuð í byrjun árs 2011 og er vettvangur rannsókna og fræðslu á sviði mannréttinda og mismununar, jafnréttis-, kynja- og margbreytileikafræða í víðum skilningi. MARK er jafnframt ætlað að stuðla að samstarfi við innlent og erlent fræðifólk, efla tengsl rannsókna og kennslu á fræðasviðinu, sinna ráðgjöf og efla yfirsýn með því að miðla þekkingu. Forstöðumaður MARK er dr. Hallfríður Þórarinsdóttir. MARK heyrir undir Félagsvísindastofnun og að henni standa kennarar og fræðifólk á Félagsvísindasviði sem stunda rannsóknir á þessu sviði. Þannig verður miðstöðin farvegur til að stuðla að marktækri og markvissri stefnumótun, umræðu og framþróun á sviðinu í samstarfi við opinbera aðila, atvinnulíf og þjóðlíf. Show Rannsóknasetur um smáríki Rannsóknasetur um smáríki starfar innan vébanda Alþjóðamálastofnunar. Undirbúningur að stofnun Rannsóknaseturs um smáríki hófst að frumkvæði Baldur Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði. Rannsóknasetur um smáríki hefur þegar skapað sér alþjóðlegan sess á sviði smáríkjarannsókna. Markmið setursins er að efla rannsóknir og fræðslu á smáríkjum og stöðu þeirra í alþjóðakerfinu. Setrið hefur staðið fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna og gefið út umtalsvert efni um smáríki. Sumarið 2013 hlaut Rannsóknasetur um smáríki öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins og mun því næstu þrjú árin starfa sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence). Í tengslum við styrkinn mun rannsóknasetrið leggja áherslu á þrjá tiltekna þætti. Í fyrsta lagi að efla þverfaglegar rannsóknir og kennslu um Evrópusamrunann, Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið.Í öðru lagi að stofna alþjóðlegan skóla um smáríki, stjórnsýslu þeirra og stöðu innan Evrópusambandsins.Í þriðja lagi að gefa út kennslubók ætlaða framhalds- og háskólanemum á íslensku um Evrópusamrunann. Að auki mun setrið eftir sem áður standa fyrir margvíslegum fundum og ráðstefnum, og útgáfu um Evrópumál. Show Rannsóknasetur um norðurslóðir Rannsóknasetur um norðurslóðir starfar innan vébanda Alþjóðamálastofnunar. Setrið er vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði norðurslóðarannsókna með áherslu á hlutverk og stefnu ríkja og stofnana, og stjórnarhætti á norðurslóðum. Hlutverk Rannsóknaseturs um norðurslóðir er að vinna að rannsóknaverkefnum í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, að auka samstarf milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila og vera leiðandi í rannsóknum á þessu sviði. Auk þess stendur setrið fyrir ráðstefnum, umræðufundum, fyrirlestrum og námskeiðum um efni sem varða starfssvið þess og útgáfu rita um málefni norðurslóða. Setrið vinnur einnig þjónustuverkefni fyrir atvinnulíf og opinbera aðila og styður við kennslu í norðurslóðamálefnum. Show Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála var stofnuð árið 2002 og var fyrsta heila starfsár hennar 2003. Stofnunin er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun sem heyrir undir stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði og starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Stofnunin starfar náið með fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum, innlendum sem erlendum eftir því sem tilefni gefast, m.a. með forsætisráðuneytinu og Reykjavíkurborg á grundvelli þjónustusamninga. Á vettvangi þjóðlífs er áhersla lögð á að efla tengsl fræðasamfélagsins í Háskóla Íslands við forystufólk í þjóðlífi, þ.m.t. stjórnmálamenn, embættismenn og forystufólk atvinnulífs- og hagsmunasamtaka; standa fyrir innlendum sem alþjóðlegum ráðstefnum og námskeiðahaldi; halda fundi og ráðstefnur um rannsóknir og stefnumótun á sviðum stjórnmála og stjórnsýslu; gefa út og kynna niðurstöður rannsókna; og leita nýrra leiða til að afla fjár til verkefna stofnunarinnar. Á vettvangi Háskólans leggur stofnunin áherslu á að efla framhaldsnám, hagnýt námskeið og rannsóknir á sviði stjórnsýslu- og stjórnmálafræða innan Stjórnmálafræðideildar; stuðla að þverfræðilegri samvinnu innan skólans og veita stjórnmálafræðideild og öðrum aðilum innan sem utan skólans þjónustu á sviði fræðanna. Stofnunin gefur einnig út veftímaritið stjornmalogstjornsysla.is facebooklinkedintwitter