Háskóli Íslands er í samstarfi við yfir fjögurhundruð háskóla um allan heim. Nemendur hafa möguleika á að fara til Norðurlanda, Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada, Mið- og Suður-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Asíu. Í leitargrunni yfir alla erlenda samstarfsskóla Háskóla Íslands geta nemendur fengið upplýsingar um hvaða möguleikar standa þeim til boða. Val á skóla Við val á skóla er mikilvægt að skoða vel námskeið sem gestaskólinn býður upp á og hvernig þau passa við námið hér við Háskóla Íslands. Öll námskeið sem tekin eru við gestaskólann þurfa að vera hluti af náminu við HÍ og gera þarf námssamning og fá hann samþykktan af forsvarsmanni eða alþjóðafulltrúa deildar. Einnig þarf að taka mið af því að einstakar deildir og fög innan háskólans hafa mismunandi samstarfsskóla. Við val á skóla getur verið gagnlegt að tala við kennara, fyrrverandi skiptinema, alþjóðafulltrúa deilda eða starfsfólk Alþjóðasviðs. Tungumál Mikilvægt er að skoða á hvaða tungumáli námskeiðin eru kennd en flestir samstarfsskólar háskólans bjóða upp á námskeið kennd á ensku og hefur framboð þeirra aukist verulega undanfarin ár. Skólaár og misseri Athuga þarf að skólaár og skipting missera er oft önnur erlendis en hér heima. Í flestum löndum Evrópu hefst haustmisseri í byrjun september eða október og vormisseri í byrjun janúar eða febrúar og lýkur í lok júní/júlí. Í mörgum skólum í Þýskalandi og á Ítalíu og í flestum skólum í Japan hefst haustmisseri oftast í október og stendur fram í mars og vormisseri hefst í apríl og stendur fram í lok ágúst. Þá er skólaárið einnig ólíkt HÍ í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kína. Gagnlegt er að skoða kennslualmanök gestaskóla og skipuleggja skiptinámið m.t.t. námsframvindu og skörunar við skólaár og leyfi í HÍ. Upplýsingasíða um sérstaka þjónustu Nemendum með fötlun, sjúkdóma eða námsörðugleika er bent á að skoða síðuna Inclusive Mobility en þar má finna upplýsingar um inngildingu (e. inclusion) og þjónustu sem háskólar og aðrar stofnanir bjóða uppá fyrir erlenda nemendur. Þar má finna upplýsingar um einstaka háskóla og lönd og einnig reynslusögur nemenda. Styrkir Í skiptinámi eru skólagjöld við gestaskólann felld niður en nemendur greiða árlegt skráningargjald við Háskóla Íslands. Ef farið er í skiptinám í gegnum Nordplus og Erasmus+ áætlanirnar eru ferða- og dvalarstyrkir í boði. Skiptinemar á leið til Japan geta sótt um styrki hjá Watanabe styrktarsjóðnum og einn styrkur er veittur árlega við University of Minnesota. Húsnæði Nemendur sem fara í skiptinám útvega sér húsnæði sjálfir. Misjafnt er eftir skólum hvort hægt er að fá húsnæði á stúdentagörðum eða ekki. Flestir samstarfsskólar leiðbeina nemendum við húsnæðisleit og eru nemendur hvattir til að kynna sér hvaða aðstoð er í boði. Háskóli Íslands er í samstarfi við Housing Anywhere sem er vettvangur þar sem skiptinemar geta leitað að leiguhúsnæði í yfir 400 borgum um allan heim. Þeim gefst einnig tækifæri á að auglýsa húsnæði sitt til leigu og leigja erlendum skiptinemum sem koma í nám til Íslands. Þannig losna nemendur við að borga tvöfalda leigu og eiga kost á að halda húsnæði sínu. Mikilvægt er að fá leyfi leigusala til að framleigja húsnæðið. Með aðild Háskóla Íslands að Housing Anywhere fá nemendur við HÍ sem hyggja á námsdvöl erlendis forgang að húsnæði sem skráð er í grunninum. Til þess að fá forgang að húsnæði búa nemendur til sérstakan reikning sem veitir þeim svokallaðan VIP aðgang. facebooklinkedintwitter