Eingöngu er tekið við umsóknum um mat á fyrra námi frá innrituðum nemendum Til að sækja um mat á fyrra námi skal fylla út rafrænt eyðublað hér fyrir neðan. Umsóknir sem berast fyrir 10. ágúst eru að jafnaði afgreiddar áður en endurskoðun skráninga á haustmisseri lýkur. Umsóknir sem berast fyrir 1. desember eru að jafnaði afgreiddar áður en endurskoðun skráninga á vormisseri lýkur. Umsóknir sem berast fyrir 1. apríl eru að jafnaði afgreiddar fyrir 10. maí. Reglur Reglur um mat á fyrra námi I. Almennt Ef innritaður nemandi á Menntavísindasviði hefur áður stundað annað sambærilegt og jafngilt háskólanám er hægt að sækja um mat á fyrra námi. Umsækjendur um mat á fyrra námi geta ekki gengið út frá því að fallist verði á umsóknina og er því bent á að breyta ekki námskeiðaskráningu fyrr en niðurstaða mats liggur fyrir. Umsóknir um mat á fyrra námi eru teknar fyrir þrisvar sinnum á ári. • Umsóknir sem berast fyrir 10. ágúst eru að jafnaði afgreiddar áður en endurskoðun námskeiðaskráninga á haustmisseri lýkur. • Umsóknir sem berast fyrir 1. desember eru að jafnaði afgreiddar áður en endurskoðun námskeiðaskráninga á vormisseri lýkur. • Umsóknir sem berast fyrir 1. apríl eru að jafnaði afgreiddar fyrir 10. maí. II. Mat á vegum deilda Hver deild ber ábyrgð á mati á fyrra námi í samstarfi við kennsluskrifstofu. Þeir aðilar sem deild tilnefnir til að sinna matinu hverju sinni mynda matsnefnd. Til að stuðla að samræmi milli deilda byggist matið á viðmiðum sem koma fram í V. kafla í þessum reglum. Kennsluskrifstofa tekur á móti umsóknum og gengur formlega frá niðurstöðum matsnefnda. III. Frágangur umsókna Til að matsnefnd geti afgreitt umsókn um mat á fyrra háskólanámi þarf umsókn að uppfylla eftirfarandi skilyrði: • Tilgreina skal hvaða námi nemandi hyggst ljúka á Menntavísindasviði. • Tilgreina skal hvaða námskeiðum nemandi lauk í fyrra námi sínu sem óskað er eftir að fá metin. Fram komi heiti námskeiða, einingafjöldi (ECTS) og námsstig, þ.e. hvort um grunn- eða framhaldsnám er að ræða. • Tilgreina skal þau námskeið á Menntavísindasviði sem nemandi telur jafngild sínu fyrra háskólanámi. • Í umsókn skal koma fram hvort áður hefur verið sótt um mat á sömu námsþáttum við Háskóla Íslands eða aðra skóla. Ef svo er þarf úrskurður fyrra mats að fylgja umsókn. • Umsækjendur bera ábyrgð á því að allar ofangreindar upplýsingar komi fram í umsókn svo að hægt sé að afgreiða hana. Sé umsókn ekki fullnægjandi verður henni synjað á þeim forsendum. • Ef fyrra nám var utan Háskóla Íslands þarf að skila inn stimpluðum og undirrituðum námskeiðalýsingum frá viðkomandi háskóla. Stafrænt undirrituð skjöl skal senda á mvs@hi.is. IV. Afgreiðsla umsókna Matsnefnd hverrar deildar afgreiðir umsóknir með hliðsjón af viðmiðum í V. kafla í þessum reglum og í samráði við formenn viðkomandi námsbrauta eftir því sem við á. Leitað er umsagnar kennara á því sviði sem um ræðir, ef með þarf. Að afgreiðslu lokinni fær nemandi tilkynningu í tölvupósti á HÍ-netfang um niðurstöðu mats. Nemendaskrá fær einnig póst um niðurstöðu matsins og gengur frá skráningu samkvæmt því á námsferil nemandans. Bæði umsókn og niðurstaða matsins er vistað við námsferil nemanda. V. Viðmið um mat Almenn ákvæði • Við mat á fyrra námi skal leitast við að meta námskeið sem ígildi sambærilegs og jafngilds námskeiðs við Menntavísindasvið, jafnvel þótt innihald námskeiðanna sé ekki að öllu leyti hið sama. • Hafi nemanda verið veitt prófgráða frá Kennaraháskóla Íslands eða fyrirrennurum hans er heimilt að meta námið í heild óháð því hvaða námskeiðum var lokið og óháð því hvenær náminu lauk. Takmarkanir á mati • Almennt gildir að annað nám en formlegt háskólanám er ekki heimilt að meta. • Lokaverkefni til prófgráðu er ekki heimilt að meta. • Sú meginregla gildir að til að ljúka prófgráðu frá Menntavísindasviði þarf helmingur námsins að vera stundaður við sviðið. Jafnframt má gera þá kröfu að a.m.k. helmingur einstakra þátta náms, t.d. á kjörsviðum á hverri námsleið, sé stundaður við sviðið. • Vettvangsnám er að jafnaði ekki metið. • Nemendur sem hefja meistaranám við Menntavísindasvið geta einungis fengið metin námskeið sem þeir hafa lokið á meistarastigi við viðurkenndar háskólastofnanir. • Hafi nemandi lokið meistaranámi og kýs að ljúka annarri meistaragráðu, sem skarast efnislega við hina fyrri, þarf að ljúka a.m.k. 60 ECTS einingum vegna þeirrar síðarnefndu. • Almennt er fyrra nám ekki metið séu liðin 10 ár eða meira frá því náminu lauk. • Matsnefnd er aðeins heimilt að meta heil námskeið úr fyrra námi í stað heilla námskeiða. • Mat getur falið í sér undanþágu frá tilteknum námskeiðum með skilyrðum. • Ekki er heimilt að meta námskeið sem lokið hefur verið með einkunn undir 6. • Námskeið sem áður hefur gilt til prófgráðu má mest nýta einu sinni til viðbótar til gráðu. • Almennt gildir sú regla að þau sem hafa lokið þriggja ára námi frá Kennaraskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands fá að hámarki 150 ECTS einingar metnar. Þau sem hafa lokið tveggja ára námi frá Íþróttakennaraskóla Íslands fá að hámarki 120 ECTS einingar metnar. Nemendur sem hafa lokið námi frá ofantöldum skólum og taka 30 eða 60 ECTS eininga viðbótarnám til bakkalárgráðu frá deildum Menntavísindasviðs geta ekki fengið hluta af þeim metnar til áframhaldandi náms. Sérákvæði: Mat á fyrra kennsluréttindanámi nemenda sem stunda 120e nám í Menntun framhaldsskólakennara og eru starfandi framhaldsskólakennarar með leyfisbréf Miðað er við að nemandi sem sækir um mat á fyrra námi samkvæmt þessu ákvæði hafi lokið 60 ECTS eininga námi í kennslufræði framhaldsskóla og hafi eftir prófið starfað sem framhaldsskólakennari í að lágmarki þrjú ár. Nám sem samkvæmt þáverandi kennsluskrá háskóla var á meistarastigi er metið til allt að 60 ECTS eininga. Kennsluréttindanám hefur verið á meistarastigi: • Frá 2005 í HÍ (inntökuár) • Frá 2007 í HA (inntökuár) • Frá 2007 í KHÍ (inntökuár) • Frá 2007–2011 í HR (inntökuárið 2007) • Mat á námi frá öðrum háskólum sem gefa út ECTS-vottorð um að námið hafi verið á meistarastigi getur komið til greina Nám sem ekki hefur ECTS-vottorð um að vera á meistarastigi, en inntökuskilyrði voru í reynd bakkalárpróf, er metið til allt að 40 ECTS eininga, þ.e. sem samsvarar kjarna (skyldufögum í kennslufræði). Ákvæði þetta gildir til loka árs 2024. Samþykkt, nóvember 2022 Umsókn um mat á fyrra námi Vinsamlega lesið vel yfir reglur sem gilda um mat á fyrra námi. Mat á fyrra námi: Umsóknareyðublað Reglur á PDF formi Reglur um mat á fyrra námi Prior Studies Evaluation facebooklinkedintwitter