Skip to main content

Kennslustefna Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar

Stefna og markmið

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild býður upp á nám um samspil trúar, menningar og samfélags á þremur námsstigum: BA-nám, MA/mag.theol. nám og doktorsnám.

Markmið náms og kennslu í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er að veita fræðilegan grunn í guðfræði og trúarbragðafræði með fjölbreytilegum kennsluaðferðum og jafnframt að efla þekkingu á ólíkum trúarbrögðum og trúarskoðunum.

Deildin hefur það að markmiði að nám og kennsla standist alþjóðlega mælikvarða og að útskrifaðir nemendur eigi kost á framhaldsnámi við bestu erlenda háskóla.

Helstu markhópar náms í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru:

  • Fólk sem hyggur á starf sem prestar eða djáknar í þjóðkirkjunni eða öðrum kirkjum.
  • Fólk sem af faglegum ástæðum hefur áhuga á guðfræði eða trúarbragðafræði, t.d. verðandi kennarar, fjölmiðlafólk og aðrir sem starfa á vettvangi menningar og samfélags.
  • Fólk sem hefur fræðilegan áhuga á guðfræði og trúarbragðafræðum.

Deildin keppir að því að efla nám og kennslu í trúarbragðafræðum með ráðningu kennara í greininni og gestakennurum.

Deildin leggur áherslu á að veita greinargóðar upplýsingar um uppbyggingu og skipulag mismunandi námsleiða og námskeiða.

Kennslustefna Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar byggist á reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009, stefnu Háskóla Íslands fyrir 2016-2021, stefnu Hugvísindasviðs fyrir 2017-2021, reglum um doktorsnám og doktorspróf við Hugvísindasvið Háskóla Íslands nr. 1160/2015, reglum um meistaranám við Hugvísindasvið 351/2017 og námsskipunarreglum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild 2011, siðareglum Háskóla Íslands frá 2019, vísindasiðareglum Háskóla Íslands frá 2014, starfsmannastefnu Háskóla Íslands frá 2004, jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020 og jafnréttisáætlun Hugvísindasviðs 2018 – 2020, reglum um aukastörf akademískra starfsmanna Háskóla nr. 1096/2008 með síðari breytingum og sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands frá 2012. Jafnframt byggist kennslustefna deildarinnar á gæðakerfi Háskóla Íslands.

Samþætting kennslu og rannsókna

Við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er lögð áhersla á að:

  • Nám og rannsóknir heyra saman og kennsla er ætíð jafnframt kennsla í rannsóknaaðferðum á sviði guðfræði og trúarbragðafræða.
  • Tryggja nauðsynlega breidd í námsframboði með samstarfi við aðrar deildir á sviðinu.
  • Nemendur hljóti hvatningu til að sækja fyrirlestra og málþing á vegum deildarinnar og Guðfræðistofnunar sem og aðra sambærilega, fræðilega viðburði þar sem rannsóknir eru kynntar.
  • Þjálfa nemendur í styttri ritgerðasmíðum, áður en kemur að BA ritgerð, þar sem fengist er við afmarkaðar rannsóknarspurningar.
  • Kennarar deildarinnar nýti sér þann stuðning sem kennslumiðstöð HÍ býður upp á varðandi leiðir til að samþætta rannsóknir og kennslu í grunn- og framhaldsnámi.
  • Leiðbeinendur doktorsnema leitist við að styðja doktorsnema við að afla rannsóknastyrkja.
  • Efnt sé til samstarfs til að tryggja aðgang doktorsnema að öflugum fræðimönnum á fleiri fræðasviðum HÍ eða í öðrum háskólum, innlendum og erlendum, fyrst og fremst með sameiginlegum doktorsgráðum.
  • Viðhalda og efla samstarf við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
  • Efla samstarf við erlenda háskóla til að styðja við grunn- og framhaldsnám deildarinnar, t.d. með Erasmus kennaraskiptum og gestakennurum.

Kennsluhættir –  námsmat – mat á gæðum kennslu

Til að stuðla að gæðum náms og kennslu leggur deildin áherslu á að:

  • Hæfniviðmið allra námskeiða séu skýr.
  • Við upphaf hvers námskeiðs séu hæfniviðmið skýrð út fyrir nemendum.
  • Hæfniviðmið námskeiða séu notuð á markvissan hátt við einkunnagjöf.
  • Vinnuálag nemenda sé í samræmi við fjölda námseininga þar sem hver námseining samsvarar 25-30 vinnustundum.
  • Boðið sé upp á fjölbreytta kennsluhætti.
  • Kennslukönnunum sé fylgt eftir og kennarar og nemendur ræði um þær.
  • Einkunnagjöf sambærilegra námskeiða sé samræmd með tilliti til einkunnaviðmiða sviðsins sem deildin hefur samþykkt.
  • Hæfniviðmið og námskeiðslýsingar námskeiða  séu endurskoðuð reglulega.
  • Greinargóðar námskeiðslýsingar séu í kennsluskrá á íslensku og ensku.
  • Kennsluáætlanir séu birtar fyrir hvert námskeið í námsumsjónarkerfi við upphaf kennslumisseris.
  • Vitund og þekking í meðferð heimilda sé efld til að koma í veg fyrir misnotkun.

Nemendur

Mikilvægt er að styðja við sjálfstæði og ábyrgð nemenda í námi frá upphafi. Deildin beitir sér fyrir því að:

  • Vanda móttöku nemenda við upphaf náms og standa vörð um virðingu, samkennd og góð samskipti nemenda og kennara.
  • Skapa andrúmsloft þar sem allir nemendur finna sig velkomna, óháð kyni, kynhneigð, uppruna, fötlun, viðhorfum o.s.frv.
  • Stuðla að því að nemendur axli ábyrgð á eigin námi
  • Gera skýrar kröfur til nemenda um vinnuframlag og vinnubrögð.
  • Móta og efla skipulega umsjón á öllum námsleiðum. Umsjónarmenn skulu halda einn til tvo fundi á misseri með þeim stúdentahópi sem þeir hafa umsjón með. Lögð er áhersla á að brugðist verði hið fyrsta við þeim erindum sem koma fram.
  • Vanda umsjón með vinnu stúdenta við lokaritgerðir, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi, með reglulegum fundum um ritgerðarvinnuna.

Kennarar

Nauðsynlegt er að kennarar leitist við að bæta vinnulag og kennsluaðferðir. Deildin vill stuðla að því að kennarar:

  • Fylgist með nýjungum í þróun kennsluhátta og upplýsingatækni og nýti sér þjónustu og þjálfun Kennslumiðstöðvar háskólans.
  • Hafi samráð um skiladaga verkefna og ritgerða svo jafna megi álag á nemendur.
  • Hafi með sér samstarf um kennslu og kennsluhætti.

Umbótaverkefni

  • Umbótaverkefni I á gildistíma kennslustefnunnar, 2020–2023, er að stuðla að þróun gæðanáms með árlegum málstofum með öllum nemendum og kennurum deildarinnar þar sem ólíkar hliðar gæðanáms eru teknar til umfjöllunar.
  • Umbótaverkefni II á gildistíma kennslustefnunnar er að auka framboð á valnámskeiðum innan deildarinnar.
  • Umbótaverkefni III á gildistíma kennslustefnunnar er að efla samstarf við erlenda háskóla um sameiginlegar doktorsgráður og tryggja þannig gæði doktorsnáms.

Samþykkt á deildarfundi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ 29. janúar 2020.