Hér má nálgast spurningar og svör um námið í Lagadeild, ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu er þér velkomið að senda hana á nemFVS@hi.is og við munum leitast við að svara sem fyrst. BA-nám Hver eru inntökuskilyrði í deildina? Hvernig er með undanþágur? Inntökuskilyrði í deildina er stúdentspróf, háskólabrú Keilis eða sambærilegt próf frá erlendum skóla. Er fjöldatakmörkun í Lagadeild Háskóla Íslands? Nei Hverjir komast inn í laganámið? Allir sem sækja um og uppfylla inntökuskilyrðin. Hver eru skilyrði þess að geta tekið námskeið á öðru ári? Til að geta tekið námskeið á öðru ári í lögfræði þarf að hafa staðist námskeiðin Almenn lögfræði og Inngangur að lögfræði með einkunnina 6,0. MA nám Hvernig sæki ég um í meistaranám? Sótt er um meistaranámið rafrænt á heimasíðu Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur til að hefja meistaranám á haustönn er til 15. apríl ár hvert og til að hefja nám á vorönn 15. september. Nemendur frá öðrum skólum en HÍ þurfa auk þess að sjá til þess að eftirfarandi fylgi með umsókninni; Staðfest eintak af prófskírteini (BA í lögfræði). Yfirlit yfir námskeið sem tekin voru í náminu. Námskeiðslýsingar (þar sem fram kemur leslisti og hvaða efni er til prófs) allra námskeiða Umsóknin er að því búnu tekin fyrir í meistaranámsnefnd. Get ég byrjað í meistaranámi þó ég sé ekki búin/n að ljúka BA námi? Í Reglum um meistaranám við félagsvísindasvið Háskóla Íslands nr. 643/2011, Sérreglur Lagadeildar 16.gr. er tekið fram að ,,Inntökuskilyrði í meistaranám við Lagadeild (mag. jur.) er BA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands eða sambærilegt nám sem lokið er með BA-prófi í lögfræði frá öðrum háskóla." Engar undantekningar eru gefnar frá þessu skilyrði. Nemendur sem þurfa að fresta meistaranámi sínu vegna ólokinna námskeiða úr BA námi hafa þó þann kost að taka M-námskeið, þ.e. meistaranámskeið sem opin eru fyrir grunnnema sem hafa lokið hið minnsta 140 einingum. Námsframvinda Er hægt að fá leyfi frá námi, hversu lengi og hvernig er það gert? Nemendur geta fengið allt að tveggja missera leyfi frá námi en ekki lengur því nemandi verður að skrá sig árlega í háskólann til að teljast ekki hættur námi. Algengast er að nemendur fái eins misseris leyfi. Sótt er um leyfið skriflega til skrifstofu Lagadeildar. Sé leyfið veitt fæst endurgreiðsla á hluta skrásetningargjalda frá Nemendaskrá. Nemandi sem hefur fengið leyfi frá námi þarf að fara með svarbréf deildar til Nemendaskrár til að fá endurgreiðsluna. Leyfi frá námi lengir ekki þann tíma sem nemandi hefur til að ljúka námi. Samkvæmt reglum Lagadeildar getur nemandi verið 5 ár að ljúka grunnnámi og 4 ár að ljúka meistaranámi. Ekki þarf að sækja um leyfi þegar nemandi hefur lokið BA-prófi en ætlar að taka sér hlé frá námi áður en sótt er um meistaranám. Hver er tímaramminn til að klára nám? Nemendur hafa fimm ár til að ljúka grunnnámi og fjögur ár til að ljúka meistaranámi í lögfræði. Upphaf námstíma er miðað við þann tíma sem nemandi innritast í grunn- eða meistaranám. Hversu oft má falla í námskeiði? Samkvæmt 6. gr. reglna um grunnnám við Lagadeild má nemandi ekki falla oftar en þrisvar sinnum í sama námskeiðinu, falli hann í fjórða sinn, fellur hann úr deildinni. Nemendur í meistaranámi mega aðeins falla einu sinni í námskeiði samkvæmt 57. gr. almennra reglna HÍ. Falli nemandi öðru sinni í tilteknu námskeiði hefur hann ekki heimild til á skrá sig í það oftar. Námskeið og skráning Hvenær er árleg skráning í námskeið? Árleg skráning í námskeið á haust- og vormisseri fer fram á vefsetri Háskólans (Uglu) í mars á ári hverju. Nánari dagsetningar verða auglýstar þegar nær dregur. Einnig er hægt að skrá sig í Nemendaskrá sem er opin kl. 9:00- 16:00 virka daga. Við árlega skráningu ber að greiða skráningargjald. Sinni stúdent ekki skráningu á framangreindum skráningartíma telst hann hættur námi. Ekki eru veittar neinar undanþágur frá skráningartímabili árlegrar skráningar og greiðslu skráningargjalds. Skráning í námskeið hvar, hvenær og hvernig? Nemendur bera sjálfir ábyrgð á skráningu í námskeið. Skráning í námskeið fer fram í Uglu, innri vef Háskóla Íslands. Árleg skráning á haust- og vormisseri er almennt í mars, nemandi skal skrá sig inn í Uglu, og birtist gluggi á forsíðu sem heitir "árleg skráning" og er nemendum leiðbeint þaðan. Með árlegri skráningu er átt við að allir nemendur sem stunda nám við Háskóla Íslands og hyggjast stunda nám næsta skólaár, verða að skrá sig í þau námskeið sem þeir hyggjast stunda næsta skólaár á eftir. Í framhaldi skráningar fá nemendur sendan greiðsluseðil vegna skráningargjalda næsta skólaárs og verða að greiða hann innan tilskilins tíma til að geta stundað nám næsta skólaár. Nemendur sem sinna ekki þessari skráningu teljast hættir í námi og detta úr Uglunni. Því er brýnt að ganga frá skráningu á þessu tímabili. Allir nemendur fá áminningu frá Nemendaskrá í Uglunni þessa daga um að sinna skráningunni. Þar fyrir utan geta nemendur breytt skráningu sinni í byrjun hverrar annar, endurskoðun námskeiðaskráningar haustannar er 25. ágúst -10. september og vorannar 10.-21. janúar. facebooklinkedintwitter