Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms á stigi 2.2. við Háskóla Íslands Samþykkt í háskólaráði 27. júní 2024. 1. Skipulag náms á meistarastigi Fræðasvið og deildir Háskóla Íslands skipuleggja og bera faglega ábyrgð á námi á meistarastigi við skólann. Samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 setur háskólaráð almennar reglur um framhaldsnám sem er að finna í VI. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Þar kemur fram að fræðasviðum og deildum Háskólans er heimilt að skipuleggja nám á meistarastigi í samræmi við þann ramma sem þar er settur. Nánari ákvæði um framhaldsnám eru í sérreglum fræðasviða og deilda um slíkt nám sem staðfestar eru af háskólaráði. Uppbygging náms- og prófgráða á háskólastigi er lýst í Viðmiðum um æðri menntun og prófgráður. Nám á meistarastigi skiptist í tvö stig, meistaranám á stigi 2.1. og 2.2. Meginmunurinn er að nám á stigi 2.2. veitir aðgang að doktorsnámi en alla jafna telst meistarapróf á stigi 2.1. ekki nægilegur undirbúningur fyrir doktorsnám. Hér er fjallað um viðmið og kröfur um gæði meistaranáms á stigi 2.2., þótt fjölmörg atriðanna eigi við um allt nám á meistarastigi. 2. Gæði náms á meistarastigi, tengsl við lög og reglur Viðmið og kröfur um gæði náms á meistarastigi eru hluti af formlegu gæðakerfi háskólans. Lögð er áhersla á að þau séu sambærileg við það sem tíðkast í þeim erlendu háskólum sem Háskóli Íslands ber sig saman við. Viðmiðin og kröfurnar sem hér fara á eftir eru almennur rammi sem gildir fyrir allt meistaranám á stigi 2.2. við háskólann. Til viðbótar geta fræðasvið og deildir sett frekari kröfur eftir því sem við á og verða þær þá að eiga stoð í sérreglum sem samþykktar eru af háskólaráði fyrir viðkomandi einingar. Til hægðarauka er Viðmiðum og kröfum um gæði náms á meistarastigi skipt í undirkafla eftir því hvort þau eigi við almennt (3), um fræðasvið og deildir (3.1), meistaranema (3.2), kennara (3.3), umsjónarkennara (3.4), leiðbeinanda (3.5), meistaraprófsnefndir (3.6) eða prófdómara (3.7). 3. Viðmið og kröfur um gæði náms á meistarastigi Hæfniviðmið náms á meistarastigi. Markmið náms á meistarastgi við Háskóla Íslands er að nemendur öðlist þekkingu, leikni og hæfni sem uppfyllir gildandi viðmið um hæfni/lærdóm (e. learning outcomes) um nám á meistarastigi sem sett eru fram í Viðmiðum um æðri menntun og prófgráður. Námsmat. Nám, kennsla, eininga- og námsmat skulu mynda rökrétta heild og taka mið af skilgreindum hæfniviðmiðum. Námsmat skal gefa nemendum tækifæri til að sýna að hvaða marki þeir hafa öðlast og tileinkað sér þá þekkingu, færni, leikni og hæfni sem tilgreind er í hæfniviðmiðum viðkomandi námskeiðs og námsleiðar. Námsmat skal vera fjölbreytt, byggt á skýrum og gegnsæjum mælikvörðum og hvetja til námsástundunar. Mörk grunnnáms, meistaranáms og doktorsnáms. Framvinda í þekkingu, leikni og hæfni stigmagnast eftir því sem á nám líður og hæfniviðmið náms eiga að markast af því. Við Háskóla Íslands er námskeiðshluti í meistaranámi byggður upp af sérhæfðum framhaldsnámskeiðum, F-námskeiðum. Tvenns konar frávik geta verið frá þessu: Annars vegar geta deildir boðið upp á sérstök M-námskeið sem eru í senn fyrir meistaranema og grunnnema sem eru komnir vel áleiðis í bakkalárnámi. Hins vegar getur deild/fræðasvið veitt samþykki fyrir því að G-námskeið sé hluti af valnámskeiðum tiltekinnar meistaranámsleiðar, t.d. ef um þverfræðilegt nám er að ræða. Deild skal setja sér reglu um hámarksfjölda eininga af lægra hæfnistigi sem leyfilegt er að meta yfir á hærra háskólaþrep. G-námskeiðin mega aldrei vera hluti af kjarnahæfni námsleiðarinnar og mega ekki hafa verið metin áður til prófgráðu nemanda. Sameiginlegt nám á meistarastigi. Ef nám á meistarastigi (námsleið eða stök námskeið) er skipulagt sameiginlega með öðrum háskóla eða háskólum skal gerður um það sérstakur samningur. Þess skal gætt að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru við Háskóla Íslands og að ábyrgð á gæðum námsins og skipulagi sé skýr. Við gerð slíkra samninga er haft samráð við Kennslusvið og Miðstöð framhaldsnáms. Almenn færni og fagmennska. Nám á meistarastigi stuðlar að því að nemendur öðlist, auk sérhæfðrar fræðilegrar þekkingar, almenna og hagnýta þekkingu, s.s. á sviði siðfræði vísinda, aðferðafræði vísinda, hagnýtingar hugverka, kynningar verkefna í ræðu og riti fyrir fræðasamfélaginu og almenningi og að þeir öðlist þá faglegu og félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir vegna framtíðarstarfs. Einnig er mikilvægt að nemendur átti sig á tengslum rannsókna sinna við samfélagið og, ef við á, meti sjálfbærniáhrif þeirra. Siðareglur. Allir aðilar sem koma að meistaranámi við Háskóla Íslands skulu kynna sér og hafa í heiðri gildandi siðareglur Háskóla Íslands í starfi og rannsóknum, ásamt viðmiðum skólans um notkun gervigreindar og, eftir því sem við á, aðrar skyldur, lög og reglur er varða siðferði. Hæfi. Allir aðilar sem koma að meistaranámi við Háskóla Íslands skulu hafa í heiðri almennar hæfisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gæðavottun. Deildir eru hvattar til að afla sér alþjóðlegrar faggildingar eða vottunar eftir því sem við á. 3.1. Fræðasvið og deildir Námsleiðir. Deildir skulu aðeins bjóða upp á faglega sérhæfingu á meistarastigi 2.2. á þeim sviðum þar sem fyrir hendi er fullnægjandi aðstaða til að nemendur geti stundað rannsóknatengt nám. Námsleiðirnar skulu vera vel skipulagðar og í samræmi við skilgreind hæfniviðmið. Stofnun nýrra námsleiða og símat. Fræðasviðum og deildum ber að fara eftir gildandi verklagsreglum Háskóla Íslands um skipulag og samþykkt nýrra námsleiða (VLR-0057) og símat námsleiða (VLR í vinnslu), sem nálgast má í gegnum rafræna gæðahandbók Háskóla Íslands. Í kennsluskrá skal gerð grein fyrir því með hvaða móti námskeið falla að hæfniramma námsleiðar og stuðla að þeirri lokafærni sem stefnt er að. Einingafjöldi og tímalengd náms. Meistaranám á stigi 2.2. er 90-120 einingar (ECTS); þar af er a.m.k. 30 ECTS rannsóknaverkefni. Miðað við full námsafköst er námstími til að ljúka meistaraprófi eitt og hálft ár þegar um er að ræða 90 ECTS nám en tvö ár þegar um er að ræða 120 ECTS nám. Fræðasvið skulu setja sér reglu um hámarksnámstíma í meistaranámi og tilgreina fyrningartíma námskeiða á meistarastigi. Gegnsætt inntökuferli. Val deildar á meistaranemum skal fara fram á grundvelli námsárangurs í grunnnámi, faglegrar hæfni og jafnréttis. Kröfur skulu vera skýrar og gegnsæjar og birtar á aðgengilegan hátt á vef háskólans. Náms- og rannsóknaráætlun. Ef stór hluti námsleiðarinnar samanstendur af valnámskeiðum er æskilegt að nemandi útbúi námsáætlun í upphafi náms í samráði við umsjónarkennara. Áður en vinna við rannsóknaverkefnið hefst skal nemandi útbúa rannsóknaráætlun í samráði við leiðbeinanda. Rannsóknaþjálfun. Meistaranemar skulu öðlast þjálfun í rannsókna-, greiningar- og túlkunaraðferðum á viðkomandi fagsviði. Leitast skal við að gefa nemendum í meistaranámi tækifæri til að taka þátt í rannsóknavinnu kennara og stunda eigin rannsóknir undir handleiðslu leiðbeinanda. Kennslureynsla. Nemendur á meistarastigi geta eftir atvikum aðstoðað við kennslu á grunnstigi. Þess skal þó gætt að vinnuálag sé innan hóflegra marka og tefji ekki eðlilega framvindu námsins. Miðað er við að slík kennsla sé ekki meiri en sem nemur 20% af fullu starfi. Alþjóðleg reynsla. Fræðasvið og deildir skulu hvetja nemendur á meistarastigi til að afla sér alþjóðlegrar reynslu, m.a. með því að þeim sé auðveldað að dvelja hluta námstímans við erlenda háskóla eða sækja alþjóðleg námskeið og ráðstefnur. Málstofur og kynningar á rannsóknaverkefnum. Fræðasvið og deildir skulu stuðla að því að meistaranemum standi til boða málstofur eða annar viðeigandi vettvangur fyrir umræðu og kynningar á verkefnum sínum. Í samræmi við eðli háskólastarfs og stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum skulu rannsóknaverkefni að jafnaði birt í Skemmu. Upplýsingagjöf til nemenda. Fræðasvið og deildir skulu hafa skráð ferli fyrir móttöku nýnema og miðla upplýsingum um markmið, hæfniviðmið, skipulag og tilhögun námsins, auk upplýsinga um þann stuðning, félagsstarf og þjónustu sem nemendum stendur til boða. Upplýsingarnar skulu vera aðgengilegar á vef háskólans. Upplýsingagjöf til kennara. Deildir skulu stuðla að því að allir sem kenna á meistarastigi fái viðeigandi þjálfun og símenntun á sviði kennslu meistaranema, t.d. í samvinnu við Kennslumiðstöð og Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Upplýsingagjöf til prófdómara. Deild skal upplýsa prófdómara um þær faglegu kröfur sem gerðar eru til prófdómara og því vinnulagi sem tíðkast í viðkomandi deild við mat á meistaraprófsverkefnum. Fastanefnd um meistaranám. Í hverri deild starfar fastanefnd sem fer með málefni náms á meistarastigi. Heimilt er að hafa eina sameiginlega fastanefnd fyrir fræðasvið í heild sem skipuð er einum fulltrúa hverrar deildar. Fastanefndir skulu hafa samráð sín á milli um framboð námskeiða á meistarastigi og vera tengiliður við Miðstöð framhaldsnáms. Umsjón náms á meistarastigi. Deildum ber að tryggja nemendum, umsjónarkennurum, leiðbeinendum og fastanefndum stuðning við skipulagningu og tilhögun námsins í samráði við fræðasvið eftir því sem við á. 3.2. Meistaranemar Nemendur eru hvattir til að kynna sér upplýsingar á vef viðkomandi deildar um hæfniviðmið, skipulag og tilhögun námsins og þá þjónustu sem nemendum stendur til boða, ekki síst við að afla sér alþjóðlegrar reynslu á meðan á námi stendur. Nemanda ber að vinna faglega og forðast að hafast nokkuð að í námi sínu eða framgöngu sem er til vanvirðu eða álitshnekkis fyrir nám hans eða háskólann, kynna sér vel þær reglur og siði sem akademískt starf lýtur og temja sér í hvívetna vönduð vinnubrögð í rannsóknum og meðferð heimilda, stunda námið af samviskusemi og taka virkan þátt í því háskólasamfélagi sem hann hefur gerst aðili að, fylgja öryggis- og vinnureglum Háskóla Íslands og samstarfsaðila, þar með talið ákvæðum um trúnað og þagnarskyldu, vera skráður við háskólann og borga skrásetningargjald á meðan á námi stendur, hafa samband við umsjónarkennara sinn áður en skráning fer fram í valnámskeið, en þetta á sérstaklega við ef boðið er upp á fjölbreytt og opið úrval af valnámskeiðum, útbúa rannsóknaráætlun í samráði við leiðbeinanda áður en vinna við rannsóknaverkefnið hefst, kynna rannsóknaverkefni sitt á viðeigandi vettvangi. 3.3. Kennarar á meistarastigi Kennarar eru hvattir til að afla sér viðeigandi þjálfunar og símenntunar á sviði kennslu meistaranema. Kennara ber að hafa að lágmarki lokið meistaraprófi eða öðru jafngildu prófi, vera viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi fagsviði. 3.4. Umsjónarkennarar meistaranema Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem hann getur snúið sér til um málefni er varða námið. Hægt er að fela sama umsjónarkennara umsjón með hópi nemenda. Sé meistaranámið með litlu rannsóknaverkefni (40 ECTS eða minna) er ekki nauðsynlegt að skipa meistaraprófsnefnd, en þegar nefnd er skipuð á umsjónarkennari ávallt sæti í nefndinni. Umsjónarkennara ber að vera fastráðinn akademískur starfsmaður háskólans í viðkomandi grein, vera tengiliður nemandans við háskólann; í því felst m.a. að tryggja að nemandi eigi reglulega kost á viðtali, aðstoða nemandann eftir því sem við á við skipulag námsins, val námskeiða, val á leiðbeinenda og annað sem náminu tengist, aðstoða nemandann við að öðlast þá almennu og faglegu færni sem lýst er í viðmiðum þessum. 3.5. Leiðbeinendur meistaranema Leiðbeinandi er skipaður eigi síðar en á misserinu áður en vinna við rannsóknaverkefnið hefst. Hann er alla jafna akademískur starfsmaður viðkomandi deildar og sinnir þá eftir atvikum einnig hlutverki umsjónarkennara. Deild getur heimilað meistaranema að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í reglum háskólans og sérreglum viðkomandi einingar. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á fræðasviði leiðbeinandans. Æskilegt er að leiðbeinandi hafi fengið þjálfun í leiðsögn meistaranema. Að jafnaði skal hver leiðbeinandi ekki leiðbeina fleiri en 10 meistaranemum á hverjum tíma. Leiðbeinanda ber að hafa lokið a.m.k. meistaraprófi á fræðasviðinu, vera viðurkenndur og virkur sérfræðingur á viðkomandi sviði, hafa kynnt sér faglegar kröfur deildar er varða leiðsögn nemanda á meistarastigi, leiðbeina nemanda við gerð rannsóknaáætlunar áður en vinna við rannsóknaverkefnið hefst, leiðbeina nemandanum í rannsóknaverkefni, setja ramma um áætluð samskipti í samráði við nemandann til að tryggja sameiginlegan skilning á aðgengi nemanda að leiðbeinanda sínum, stuðla að góðu og uppbyggilegu samstarfi við nemendur sína, enda er gagnkvæmt traust á milli leiðbeinanda og meistaranema mikilvæg forsenda fyrir árangursríku meistaranámi, skera úr um hvort senda þurfi rannsóknaáætlun til viðeigandi siðanefnda, eiga sæti í meistaraprófsnefnd í þeim tilvikum þegar nefnd er skipuð. Í þeim tilvikum þegar meistaraprófsnefnd er ekki skipuð, ber leiðbeinandi ábyrgð meistaraprófsnefndar sbr. kafla 3.6. um meistaraprófsnefndir. 3.6. Meistaraprófsnefndir Viðkomandi fastanefnd um meistaranám skipar meistaraprófsnefnd um nám sérhvers meistaranema ef rannsóknaverkefnið er stærra en 40 ECTS að umfangi, eigi síðar en á misserinu áður en vinna við rannsóknaverkefnið hefst. Um smærri verkefni er ekki krafa um skipun meistaraprófsnefndar en deildum er heimilt að gera kröfu um slíkt. Meistaraprófsnefndin samanstendur af tveimur einstaklingum, leiðbeinanda og umsjónarkennara. Í þeim tilvikum þegar umsjónarkennari og leiðbeinandi er sami aðilinn er auk hans skipaður sérfróður einstaklingur í nefndina. Heimilt er að skipa þriðja aðila í nefndina ef þurfa þykir, t.d. ef um þverfræðilegt nám er að ræða. Meistaraprófsnefnd ber að tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar í samræmi við reglur deildar, sjá til þess að nemandinn gangist undir próf í þeim tilvikum þar sem það á við, meta rannsóknaverkefni ásamt prófdómara. 3.7. Prófdómarar Deild eða fastanefnd á hennar vegum tilnefnir prófdómara. Kennslusvið skipar prófdómara í umboði forseta fræðasviðs. Prófdómari má ekki koma úr hópi kennara í viðkomandi deild og ekki vera tengdur því meistaraprófsverkefni sem meta á þannig að hægt sé að draga hæfi hans í efa. Prófdómara ber að hafa lokið a.m.k. meistaraprófi á viðkomandi fræðasviði og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu, leita eftir upplýsingum um þær faglegu kröfur sem gerðar eru til prófdómara og því vinnulagi sem tíðkast í viðkomandi deild við mat á meistaraprófsverkefnum, meta rannsóknaverkefni meistaranema ásamt meistaraprófsnefnd. 4. Ábyrgð og gæði Fyrirætlun fræðasviða og deilda um málefni meistaranáms. Fyrirætlun um málefni meistaranáms skal sett fram í skriflegu formi og birt á vef fræðasviðs og deildar. Fyrirætlunin skal byggja á stefnu Háskóla Íslands um framhaldsnám og Viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms. Fastanefnd um málefni framhaldsnáms. Fastanefndin fylgist með því að almennum reglum Háskóla Íslands, sérreglum fræðasviða og deilda og þessum Viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands sé framfylgt á vettvangi deildar og fræðasviðs. Spornað við brotthvarfi úr námi. Fræðasvið og deildir skulu afla, greina og miðla upplýsingum um nám og kennslu á meistarastigi, fylgjast með námsframvindu nemenda og stuðla með skipulegum hætti að því að draga úr brotthvarfi úr námi. Ytra gæðamat. Fræðasvið og deildir skulu meta gæði námsleiða og prófgráða sinna á meistarastigi reglulega og með formlegum hætti. Skal þetta gert í samræmi við rammaáætlun Gæðaráðs háskóla (e. Icelandic Quality Enhancement Framework, QEF) sem birt er í handbók Gæðamats háskóla „Handbók. Rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum. 2024-2029“ (e. Handbook. Icelandic Quality Enhancement Framework 2024-2029) og leiðbeiningar Háskóla Íslands um sjálfsmat deilda (Sjálfsmat faglegra eininga – símat og regluleg endurskoðun). Fræðasvið og deildir skulu nýta niðurstöður innra og ytra mats með skipulegum hætti til að efla gæði námsins þannig að áætlanir, aðgerðir, eftirlit og úrbætur myndi samfellt umbótaferli. 5. Endurskoðun Stefnu- og gæðaráð háskólaráðs og stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms fjalla reglulega um Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms á s4gi 2.2. við Háskóla Íslands. Endurskoða skal þau eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra. Prentútgáfa Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms á stigi 2.2. við Háskóla Íslands facebooklinkedintwitter