Samþykkt í háskólaráði 5. nóvember 2020 1 Skipulag doktorsnáms Fræðasvið og deildir Háskóla Íslands skipuleggja og bera faglega ábyrgð á doktorsnámi við skólann. Miðstöð framhaldsnáms hefur eftirlit með settum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnámsins. Í 2. gr. reglna um doktorsnám í háskólum samkvæmt 7. gr. laga nr. 63/2006 kemur fram að háskóli gefi út reglur um doktorsnám og birti opinberlega. Þessar almennu reglur eru í VI. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Þar kemur fram að fræðasviðum og deildum Háskólans er heimilt að skipuleggja doktorsnám í samræmi við þann ramma sem þar er settur. Nánari ákvæði um framhaldsnám eru í sérreglum fræðasviða og deilda sem staðfestar eru af háskólaráði. Lærdómstitlar sem veittir eru við námslok eru tíundaðir í 55. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. 2 Gæði doktorsnáms, tengsl við lög og reglur Í framangreindum lögum og reglum er fjallað ítarlega um ýmis formskilyrði doktorsnáms. Hér má nefna aðgang að doktorsnámi, umsóknarfrest, meðferð umsókna, einingafjölda, tímalengd og samsetningu náms, tengsl meistara- og doktorsnáms, umsjónarkennara, leiðbeinanda, doktorsnefndir, prófdómara og andmælendur, námsmat og fleira. Reglur Háskóla Íslands nr. 569/2009 mynda formlega umgjörð um doktorsnámið en hér er kveðið sérstaklega á um viðmið og kröfur um gæði námsins, s.s. hvaða kröfur eru gerðar til leiðbeinenda, fræðasviða, deilda og þverfræðilegra námsleiða. Auk þess eru helstu verkefni Miðstöðvar framhaldsnáms skilgreind. 3 Viðmið um gæði doktorsnáms Þessi viðmið um gæði doktorsnáms eru hluti af formlegu gæðakerfi Háskóla Íslands. Lögð er áhersla á að þau séu sambærileg við það sem tíðkast í þeim erlendu háskólum sem Háskóli Íslands ber sig saman við. Markmið og hæfniviðmið doktorsnáms. Markmið doktorsnáms við Háskóla Íslands er að nemendur öðlist þá þekkingu, leikni og færni sem uppfyllir gildandi hæfniviðmið um doktorsnám sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út. Gegnsætt inntökuferli. Val á doktorsnemum fer fram á grundvelli faglegrar hæfni, jafnréttis og sanngirni. Rannsóknarumhverfi. Doktorsnámið skal fara fram í virku rannsóknarumhverfi í hópi viðurkenndra vísindamanna eða í nánum tengslum við slíkan hóp. Doktorsnemar skulu hafa tækifæri til að fylgjast með þróun og tileinka sér nýjungar og skiptast á upplýsingum og þekkingu við aðra doktorsnema og vísindamenn, m.a. með því að þeim sé auðveldað eftir föngum að dvelja hluta námstímans við erlenda háskóla eða rannsóknastofnanir og sækja erlendar ráðstefnur. Sameiginlegt doktorsnám. Ef doktorsnám er skipulagt sameiginlega með öðrum háskóla skal gerður um það sérstakur samningur milli skólanna og þess gætt að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru við Háskóla Íslands og að ábyrgð á gæðum námsins sé skýr. Miðstöð framhaldsnáms yfirfer og heldur utan um samninga um sameiginlegar gráður fyrir hönd Háskóla Íslands. Almenn færni og fagmennska. Doktorsnám skal stuðla að því að nemendur öðlist, auk sérhæfðrar fræðilegrar þekkingar, almenna og hagnýta þekkingu, s.s. á sviði siðfræði vísinda, aðferðafræði vísinda, gerðar styrkumsókna, hagnýtingar hugverka, kynningar vísindalegra niðurstaðna sinna fyrir sérfræðingum og almenningi og öðlist þá faglegu og félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir í framtíðarstarfi. Leiðbeining og ráðgjöf. Leiðbeinendur skulu ekki aðeins veita nemendum sínum faglega ráðgjöf heldur jafnframt leitast við að aðstoða þá við öflun styrkja til fjármögnunar námsins og við að öðlast þá almennu og faglegu færni sem getið er um hér að framan. Til að tryggja gæði leiðbeiningar skal hver leiðbeinandi að jafnaði ekki leiðbeina fleirum en fjórum doktorsnemum á hverjum tíma. Siðareglur. Allir aðilar sem koma að doktorsnámi við Háskóla Íslands skulu hafa í heiðri ákvæði siðareglna Háskóla Íslands og eftir því sem við á ákvæði Vísindasiðareglna Háskóla Íslands, Vísindasiðanefndar ríkisins og siðanefndar Landspítala. Kennsla. Doktorsnemum skal eftir atvikum boðið upp á að annast kennslu og verkefni sem tengjast doktorsnáminu. Þess skal þó gætt að vinnuálag sé innan hóflegra marka og tefji ekki eðlilega framvindu námsins. Miða skal við að slík kennsla sé ekki meiri en sem nemur 20% af heilu starfi. 4 Kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands4.1 Almennar kröfur Samþykkt um skipulag doktorsnáms. Við upphaf doktorsnáms undirrita doktorsnemi og leiðbeinandi samning um skipulagt doktorsnám við Háskóla Íslands. Samningurinn kveður m.a. á um gagnkvæmar skyldur og réttindi doktorsnema og leiðbeinanda, eignarhald gagna, birtinga- og hugverkarétt. Námsáætlun. Innan eins árs frá upphafi náms skal gerð skrifleg námsáætlun. Í námsáætluninni skal m.a. fjalla um eftirfarandi þætti: lýsingu doktorsverkefnis og áætlaða framvindu þess, áætlun um fjármögnun, aðstöðu til náms og aðkomu fyrirtækja og stofnana utan Háskóla Íslands þar sem við á. Framvinduskýrsla. Doktorsnemi skal reglulega skila til umsjónarkennara framvinduskýrslu sem doktorsnefnd hefur yfirfarið. Í skýrslunni skal m.a. gerð grein fyrir framvindu doktorsverkefnisins, einingum (ECTS) sem lokið er, fundum doktorsnema og leiðbeinanda, birtum ritverkum, þátttöku í ráðstefnum, kennslustörfum og fjármögnun námsins. Einnig skal gera grein fyrir áætlun næstkomandi tímabils og hvenær námslok eru ráðgerð. Framvinduskýrslu skal skilað í Doktorsnámuna – rafrænt umsjónarkerfi doktorsnáms. Umsjónarkennari ber ábyrgð á skilum framvinduskýrslu til deildar. Miðbiksmat. Doktorsnefndin ber ábyrgð á framkvæmd ítarlegs mats á þekkingu doktorsnemans einu sinni á námstímanum, á þeim fræðasviðum þar sem gert er ráð fyrir slíku mati og í samræmi við reglur hverrar deildar. Námstími. Doktorsnám að loknu meistaranámi er 180–240 einingar (ECTS). Miðað við full námsafköst er námstími í doktorsnámi því 3–4 ár. Deildum er heimilt að innrita doktorsnema í hlutanám og skal námsáætlun þá miðast við 50% framvindu og lengist námstími í samræmi við það. Skráning í og úr hlutanámi getur farið fram hvenær sem er á námstíma, að fengnu samþykki doktorsnefndar og fastanefndar deildar eða fræðasviðs. 4.2 Kröfur til fræðasviða, deilda og þverfræðilegra námsleiða í doktorsnámi Doktorsnemum skal boðið upp á rannsóknar- og vinnuaðstöðu sem er fullnægjandi fyrir verkefni þeirra. Doktorsnemum skal tryggður reglulegur aðgangur að leiðbeinendum. Leitast skal við að styrkja alþjóðlega skírskotun doktorsnámsins t.d. með því að doktorsnemar taki hluta doktorsnámsins við erlenda háskóla eða fulltrúi erlendra háskóla sitji í doktorsnefnd. Doktorsnemar skulu eiga þess kost að sitja vísindaráðstefnur og kynna verkefni sín þar. Doktorsnemum skulu standa til boða reglubundnar málstofur og skipulegur vettvangur fyrir umræðu og kynningu á verkefnum sínum. Námsleiðir í doktorsnámi skulu vera skýrt skilgreindar og lýsa þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur á hverri námsleið fyrir sig eiga að ráða yfir við námslok. Tiltaka skal með hvaða hætti (námskeiðum og námshlutum) markmiðum lýsingarinnar er náð. 4.3 Kröfur til doktorsnema Doktorsnemi skal ávallt vera skráður við háskólann og borga skrásetningargjald á meðan á námi stendur, skila námsframvinduskýrslu til umsjónarkennara í Doktorsnámuna - rafrænt umsýslukerfi doktorsnáms, fá samþykki fastanefndar fyrir öllum veigamiklum breytingum á tímaáætlun námsins s.s. framlengingu á námstíma, hléi á námi og upplýsa nefndina ef námi er hætt, stunda námið af samviskusemi og taka virkan þátt í því vísindasamfélagi sem nemandinn hefur gerst aðili að, fylgja öryggis- og vinnureglum Háskóla Íslands og/eða samstarfsaðila, þ.m.t. ákvæði um trúnað og þagnarskyldu. 4.4 Kröfur til leiðbeinenda doktorsnema Leiðbeinandi leiðbeinir doktorsnema í rannsóknarverkefni, aðstoðar nemandann eins og kostur er við öflun styrkja til fjármögnunar námsins og við að öðlast þá þekkingu, leikni og hæfni sem krafist er við lok doktorsgráðunnar. Deild getur heimilað doktorsnema að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem uppfyllir faglegar kröfur sem gerðar eru í þessum reglum og reglum viðkomandi deildar. Leiðbeinandi skal að jafnaði hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess á viðkomandi fagsviði. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs, vera viðurkenndur og virkur sérfræðingur á viðkomandi fagsviði, og hafa birt ritsmíðar sem m.a. tengjast verkefni nemanda, á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur, hafa reynslu af rannsóknasamstarfi með alþjóðlega viðurkenndum sérfræðingum á viðkomandi fagsviði utan Háskóla Íslands. 4.5 Kröfur til umsjónarkennara doktorsnema Sérhver doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem skal ávallt vera fastráðinn akademískur starfsmaður háskólans í viðkomandi grein. Ef það á við um leiðbeinanda tekur hann að jafnaði að sér hlutverk umsjónarkennara. Hlutverk umsjónarkennara er að vera tengiliður nemandans við háskólann. Umsjónarkennari hefur aðgang að Doktorsnámunni – umsýslukerfi doktorsnáms og ber ábyrgð á skilum framvinduskýrslu doktorsnemans til deildar eftir að skýrslan hefur verið samþykkt af leiðbeinanda. Umsjónarkennari á sæti í doktorsnefnd nemandans og uppfyllir kröfur til nefndarmanna, sbr. kafli 4.6 þessara viðmiða. 4.6 Kröfur til doktorsnefnda Deild skipar doktorsnefnd um hvern og einn doktorsnema. Doktorsnefnd skal skipuð innan eins árs frá upphafi náms. Í doktorsnefnd sitja leiðbeinandi, umsjónarkennari og einn til þrír aðrir sérfræðingar. Í doktorsnefnd skal a.m.k. einn fulltrúi vera utanaðkomandi, þ.e. ekki vera akademískur starfsmaður í viðkomandi deild. Þegar þess er kostur skal a.m.k. einn fulltrúi vera sérfræðingur við annan háskóla eða rannsóknastofnun. Doktorsnefndarmenn skulu hafa doktorspróf eða jafngildi þess. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs. Æskilegt er að doktorsnefndarmenn uppfylli að auki aðrar kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í doktorsnámi, skv. kafla 4.4. Tilgangur doktorsnefndar er tvíþættur; annars vegar að sjá til þess að öll sérfræðiþekking sem þarf til að vinna rannsóknina sé til staðar og aðgengileg doktorsnemanum og hins vegar að fylgjast með framvindu námsins. Doktorsnefnd fundar með doktorsnema um stöðu og framvindu verkefnisins eftir því sem þurfa þykir, en þó að jafnaði ekki sjaldnar en í tengslum við skil á framvinduskýrslu. ber ábyrgð á framkvæmd ítarlegs mats á þekkingu doktorsnemans einu sinni á námstímanum (t.d. vörn á rannsóknaráætlun eða miðbiksmat), á þeim fræðasviðum þar sem gert er ráð fyrir slíku mati og í samræmi við reglur hverrar deildar. Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefndin rökstuddu áliti til deildar um það hvort veita skuli doktorsnema kost á að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar. 4.7 Kröfur til andmælenda Telji deild doktorsritgerð tæka til doktorsvarnar tilnefnir hún, að fenginni samþykkt Miðstöðvar framhaldsnáms, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Að lokinni munnlegri vörn ákveður deildarforseti ásamt andmælendum hvort veita skuli doktorsnafnbót. Andmælandi skal vera viðurkenndur sérfræðingur í viðfangsefni doktorsritgerðarinnar. Hann skal hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni nemandans á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur og geta tekið þátt í vísindalegri rökræðu um efnisatriði doktorsrannsóknarinnar. hafa doktorspróf eða jafngildi þess. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs. ekki hafa setið í doktorsnefnd viðkomandi doktorsnema eða tilheyrt sama rannsóknarteymi. ekki hafa þau faglegu tengsl við doktorsnema, leiðbeinanda eða doktorsnefnd sem valdið geta því að hægt sé að draga hæfi hans í efa. Dæmi um slík tengsl geta verið sameiginlegar birtingar vísindagreina í ritrýndum tímaritum (nýlegar birtingar og/eða mikill fjöldi greina í gegnum tíðina) og nýlegt virkt vísindasamstarf (t.d. sameiginlegir rannsóknastyrkir). Þegar þess er kostur skal a.m.k. annar andmælenda vera kennari eða sérfræðingur við annan háskóla eða rannsóknastofnun. 5 Miðstöð framhaldsnáms Markmið Miðstöðvar framhaldsnáms er að tryggja og efla gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Helstu verkefni Miðstöðvar framhaldsnáms eru: Gæðaefling og gæðaeftirlit skilgreina og fylgja eftir sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við háskólann, fylgjast náið með þróun framhaldsnáms á alþjóðlegum vettvangi og beita sér fyrir því að framhaldsnám við háskólann sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur, fjalla reglulega um og endurskoða Viðmið og kröfur um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands og gera eftir atvikum tillögur til háskólaráðs um reglur og/eða viðmið sem stuðla að gæðum framhaldsnáms, taka við erindum doktorsnema telji þeir að viðkomandi fræðasvið, deild eða námsleið fullnægi ekki settum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við skólann, yfirfara og veita umsögn um tillögur að breytingum á reglum sviða og deilda um framhaldsnám áður en þær eru lagðar fyrir háskólaráð til samþykktar, veita umsögn um tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir í framhaldsnámi sbr. Verklagsreglur um undirbúning og stofnun nýrra námsleiða við Háskóla Íslands, áður en beiðni um stofnun nýrrar námsleiðar er lögð fyrir háskólaráð til samþykktar, fylgjast með því að starfandi námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur með því að kalla reglulega eftir gögnum frá sviðum og nemendaskrá, yfirfara tillögur deilda um andmælendur við doktorsvörn og samþykkja eða hafna tillögunum, yfirfara og halda utan um sértæka samstarfssamninga um framhaldsnám og sameiginlegar prófgráður í samráði við kennslusvið. Stuðningur við leiðbeinendur og nema standa reglulega fyrir námskeiðum og umræðufundum fyrir leiðbeinendur í samvinnu við Kennslumiðstöð og fræðasvið, standa fyrir móttöku nýrra doktorsnema við háskólann, standa reglulega fyrir námskeiðum og umræðufundum fyrir doktorsnema er varða almenna færni og fagmennsku í rannsóknum, stuðla að því, eins og kostur er, að doktorsnemar öðlist kennslureynslu, veita stuðning við starfsþróun doktorsnema í samvinnu við náms- og starfsráðgjöf, þróa, viðhalda og hafa eftirlit með rafrænu umsýslukerfi doktorsnáms (Doktorsnáman). Upplýsingamiðlun halda úti virkri heimasíðu og öðrum viðeigandi vefmiðlum fyrir miðstöðina, þar sem m.a. eru birtar árlegar staðtölur um doktorsnám, upplýsingar um styrkjamöguleika doktorsnema, skiptinám og framboð námskeiða á framhaldsstigi, vera vettvangur samráðs og samvinnu um framhaldsnám innan skólans, þ.á m. um kröfur til framhaldsnema og leiðbeinenda. 6 Endurskoðun Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms fjallar reglulega um þessi viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Endurskoða skal viðmiðin og kröfurnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Prentvæn útgáfa Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms facebooklinkedintwitter