Skip to main content
31. október 2016

Fyrst lífeindafræðinga með doktorsgráðu frá HÍ

""

Martha Ásdís Hjálmarsdóttir varð fyrst lífeindafræðinga til þess að brautskrást með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands þann 14. október sl. Doktorsvörnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands. 

Doktorsritgerð Mörthu ber heitið „Faraldsfræði pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni á Íslandi“ (e. The epidemiology of penicillin non-susceptible pneumococci in Iceland). Andmælendur við doktorsvörnina voru dr. Birgitta Henriques Normark, prófessor við Karolinska Institutet í Stokkhólmi, og dr. Lieke Sanders, prófessor við University Medical Center Utrecht í Hollandi. Umsjónarkennari Mörthu var dr. Karl G. Kristinsson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítala. Auk hans sátu í doktorsnefnd þau Ásgeir Haraldsson, prófessor við sömu deild og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, dr. Gunnsteinn Æ. Haraldsson, fræðimaður við Læknadeild   og örverufræðingur á Sýklafræðideild Landspítalans, dr. María Heimisdóttir, sérfræðingur í embættislækningum og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, og dr. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis. Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti Læknadeildar stjórnaði athöfninni. 

Um verkefnið

Pneumókokkabakteríur valda eyrnabólgum, öndunarfærasýkingum og alvarlegum ífarandi sýkingum. Bóluefni fyrir börn getur aðeins beinst að takmörkuðum fjölda hjúpgerða og var 10-gilt bóluefni innleitt í ungbarnabólusetningar á Íslandi árið 2011. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina útbreiðslu og eiginleika pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni (PÓP) á Íslandi, dreifingu hjúpgerða eftir sýkingum, sérstaklega bóluefnishjúpgerða og hve oft heilbrigð börn bæru samtímis fleiri en eina hjúpgerð í nefkoki.

Algengi PÓP áður en bólusetningar hófust var sérstaklega hátt miðað við önnur lönd í norðanverðri Evrópu og voru langflestir stofnarnir af bóluefnishjúpgerðum. Tveir fjölónæmir alþjóðlegir klónar voru megin orsökin og báru þeir einnig festiþræði sem auðveldar þeim að tengjast slímhúðarfrumum. Fyrir var klónn af hjúpgerð 6Bii/E sem hnignaði smám saman í öllum aldurshópum eins og búst má við í náttúrulegri sveiflu hjá útbreiddum klóni. Um aldamótin kom síðan hingað klónn af hjúpgerð 19F sem dreifðist hratt og náði hámarki árið sem bólusetningarnar byrjuðu. Eftir það fækkaði PÓP hratt, fyrst hjá bólusettum börnum. 

Dreifing hjúpgerða í sjúklingasýnum endurspeglaði þróun 19F klónsins í öllum aldurshópum. Hann var sækinn í miðeyra og algengur í lungnasýkingum en sjaldgæfari í ífarandi sýkingum. Algengt var að heilbrigð börn bæru fleiri en eina hjúpgerð í senn sem skapar ákjósanlegar aðstæður fyrir erfðabreytingar og sýklalyfjaónæmi.

Rannsóknin sýndi hve mikil áhrif einstakir klónar geta haft á útbreiðslu ónæmis. Þegar bólusetningar barna hófust var ónæmi, sem þá var orsakað af 19F klóninum, meira en nokkurn tíma fyrr. Með bólusetningunum fækkaði ónæmum pneumókokkum verulega, sérstaklega í miðeyrnasýnum frá börnum þar sem klónninn er nú nánast horfinn. 

Um doktorsefnið

Martha lauk prófi í lífeindafræði frá Tækniskóla Íslands 1973 og BS-gráðu frá sama skóla þegar boðið var upp á slíkt nám. Hún hefur starfað á Sýklafræðideild Landspítalans frá námslokum og frá 1982 samhliða kennslu í sýklafræði, fyrst lífeindafræðinema en nú einnig nemenda í geislafræði og lyfjafræði. Martha er lektor við námsbraut í lífeindafræði í Læknadeild Háskóla Íslands og gegnir ásamt kennslunni starfi námsbrautarstjóra.

Martha hefur verið virk í rannsóknum og eru þær utan rannsóknanna á pneumókokkum fyrst og fremst rannsóknir á sýklalyfjanæmi annarra baktería og á bakteríuáhrifum ýmissa náttúruefna og afleiða af þeim sem flestar hafa verið unnar í samstarfi við prófessora í Lyfjafræðideild. Jafnframt hefur Martha verið virk í félagsstarfi lífeindafræðinga og m.a. gegnt embætti formanns Félags lífeindafræðinga og forseta IFBLS, alþjóðasamtaka félaga lífeindafræðinga. Þau samtök veittu henni viðurkenningu nú í haust fyrir framúrskarandi framlag til lífeindafræði. 

Hér má sjá myndir frá doktorsvörninni. 

""
""
Frá vinstri: dr. Birgitta Henriques Normark, prófessor við Karolinska Institutet, dr. Martha Ásdís Hjálmarsdóttir, nýdoktor og lektor við Námsbraut í lífeindafræði, dr. Lieke Sanders, prófessor við University Medical Center Utrecht og Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti Læknadeildar.
+2