Þórhildur fimmti doktorinn frá Hagfræðideild
Föstudaginn 12. ágúst síðastliðinn fór fram fimmta doktorsvörnin frá Hagfræðideild á Félagsvísindasviði.
Þórhildur Ólafsdóttir varði doktorsritgerð sína: Health and health behavior responses to macroeconomic shocks, íslenskt heiti Áhrif skyndilegra breytinga í hagkerfi á heilsu og heilsutengda hegðun.
Áður hafa þau Axel Hall, Ólafur Ísleifsson, Vífill Karlsson og Helga Kristjánsdóttir lokið doktorsprófi í hagfræði frá deildinni, nánari upplýsingar um þau eru á þessum hlekk.
Andmælendur Þórhildar voru þau Dr. Mickael Bech, forstjóri KORA og prófessor í heilsuhagfræði, og Dr. Inas Kelly, prófessor í hagfræði við Queens College við City University of New York.
Ágrip úr rannsókn Þórhildar
Eftirspurn einstaklinga eftir góðri heilsu er tilkomin vegna þeirra lífsgæða sem hún veitir en ekki síður vegna þeirra fjárfestingareiginleika sem felast í því að vera við góða heilsu. Lífsgæðin sem góð heilsa veitir eru m.a. vellíðan, en af henni hlýst líka aukið þrek sem nýtist bæði innan heimilis og á vinnumarkaði - sem í kjölfarið leiðir til tekjuhækkunar. Einstaklingar geta í raun ekki fjárfest í heilsu með beinum hætti, heldur nýta þeir aðkeyptar vörur, þjónustu og tíma sinn til þess að viðhalda góðri heilsu yfir ævina. Í þeim skilningi er heilsa framleidd af einstaklingunum sjálfum með hegðun þeirra og neyslu. Verðbreytingar á þeim þáttum í lífi einstaklinga sem hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á heilsu geta leitt til margvíslegra breytinga á hegðun. Högg á hagkerfið, svo sem skyndileg kreppa eða uppsveifla, er dæmi um aðstæður sem geta leitt til þess að hlutfallslegt verð vöru, þjónustu og tíma breytist. Á það sérstaklega við um breytingar á vinnulaunum, heildartekjum eða vinnustundum einstaklinga, en jafnframt breytt verð á ákveðnum vörutegundum, svo sem áfengi og tóbaki. Í þremur greinum doktorsritgerðar Þórhildar Ólafsdóttur er hegðun og heilsa einstaklinga rannsökuð við aðstæður þar sem skyndilegar breytingar urðu á hagkerfinu. Tilgangurinn var að kanna hvort og hvernig hagsveiflur hefðu áhrif á heilsuhegðun og heilsu einstaklinga.
Í fyrstu greininni er kannað hvort reykingahegðun hafi breyst í kjölfar íslenska efnahagshrunsins 2008. Í ljós kom að líkur á því að reykja, sem og reykt magn dróst saman. Skýringar var ekki að finna í breyttum tekjum eða vinnustundum. Aðrir þættir virðast vega þyngra og meðal þeirra eru verðbreytingar á sígarettum taldar mikilvægastar.
Í annarri greininni er kannað hvort áfengisneysla hafi breyst í kjölfar íslenska efnahagshrunsins 2008. Konur reyndust draga úr tíðni áfengisneyslu og tíðni skorpudrykkju eftir hrunið að meira leyti en karlar sem drógu þó meira úr skorpudrykkjuþátttöku eftir hrun og mældust með meiri minnkun á vanabindandi áfengishegðun en konurnar. Breytingar á tekjum skýra mest af samdrætti í áfengisneyslu karla milli áranna 2007 og 2009. Í tilfelli kvenna virðast verðbreytingar áfengis vega þyngra en tekjubreytingar í að útskýra samdrátt í áfengisneyslu eftir hrunið.
Í þriðju greininni er kannað hvort skammtímaaukning á vinnuframboði hafi áhrif á líkur á hjartaáföllum. Sú skammtímaaukning vinnuframboðs sem nýtt var til að bregða birtu á sambandið var tilkomin vegna „skattlausa ársins“ eins og það er jafnan kallað, en árið 1987 greiddu Íslendingar engan tekjuskatt vegna breytinga á skattkerfinu. Niðurstöður styðja kenninguna um að hnignun hjartaheilsu í uppsveiflum sé tilkomin vegna aukinnar vinnu einstaklinga til skamms tíma og reyndist það eiga við um karla á aldrinum 45-64 ára sem voru sjálfstætt starfandi. Aldurshópagreining leiddi þó í ljós að aukning á líkum á hjartaáföllum var meiri meðal karla á aldrinum 45-54 ára heldur en karla á aldrinum 55-64 ára.
Leiðbeinandi var dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Aðrir sem sátu í doktorsnefnd voru dr. Michael Grossman, prófessor í hagfræði við City University of New York, dr. Birgir Hrafnkelsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Þórhildur Ólafsdóttir er fædd árið 1973. Hún lauk stúdentsprófi af stærðfræðibraut frá Verzlunarskóla Íslands 1993. Hún stundaði nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands árið 1993-1997 og útskrifaðist þaðan með B.Sc.-gráðu í sjúkraþjálfun. Þá starfaði hún við sjúkraþálfun og heilsuþjálfun í rúman áratug og lauk M.Sc. gráðu í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands árið 2010. Hún hóf doktorsnám við Hagfræðideild HÍ árið 2011 og tók hluta af námi sínu við City University of New York. Eiginmaður hennar er Hálfdan Gunnarsson, verkfræðingur og börn þeirra eru Gunnar Helgi, Anna Katrín, Ásgerður Sara og Gunnhildur Lilja.