Menntavísindasvið og Menntamálastofnun í samstarf
Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf sem felur í sér aukin tækifæri til rannsóknasamstarfs og gagnamiðlunar.
Með samstarfinu er ætlunin að efla rannsóknir á menntun og nýta sameiginlega sérfræðiþekkingu og gögn. Í samningnum er kveðið á um að starfsfólki Menntavísindasviðs og nemendum í framhaldsnámi verði gert kleift að nýta sér gögn, sem Menntamálastofnun aflar, t.d. með prófum og þátttöku í alþjóðlegum könnunum, í rannsóknarskyni. Þá er ætlunin að fræðileg túlkun og greining gagna verði styrkt með því að miðla sérfræðiþekkingu milli stofnana. Sérstök áhersla verður lögð á greiningu niðurstaðna úr alþjóðlegum könnunum PISA og Talis, stöðuprófa í lestri, samræmdra prófa og á þróun námsgagna.
Menntavísindasvið og Menntamálastofnun munu skilgreina sameiginlega verkefni um fræðilega ráðgjöf, öflun, greiningu og úrvinnslu gagna á afmörkuðum sviðum. Áætlað er að aðilar hittist á árlegum fundi með fulltrúum frá öllum samstarfsverkefnum og leggi mat á árangur samstarfsins og endurmeti áherslur.
Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands: „Við fögnum auknu samstarfi Menntavísindasviðs og Menntamálastofnunar. Það er mjög mikilvægt fyrir menntakerfið að sérfræðiþekking beggja þessara aðila nýtist við greiningu og túlkun samræmdra prófa og þróun námsgagna.“
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. „Við hjá Menntamálastofnun væntum mikils af væntanlegu samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Á Menntavísindasviði er mikil reynsla og þekking á menntun og skólastarfi sem er mikilvæg við fræðilega greiningu gagna og þróun kennslu og náms. Innan Menntamálastofnunar eru fyrir hendi gögn og sérþekking. Ætlunin er að opna aðgang fyrir kennara og nemendur á Menntavísindasviði og er von okkar að það muni nýtast í því sameiginlega markmiði að efla menntun á Íslandi. Í samstarfinu verður mikil áhersla á að tryggja persónuvernd og öryggi gagna. Jafnframt verða kröfur Háskólans um akademískt frelsi virtar og leitast við að stuðla að upplýstri umræðu um menntamál á Íslandi.“