Samningur um MenntaMiðju undirritaður
Menntavísindasvið Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað samstarfssamning um MenntaMiðju, samráðsvettvang um skólastarf. Samningurinn nær til þriggja ára og kveður á um aðkomu að rekstri MenntaMiðju.
MenntaMiðja er nýtt og áhrifaríkt form starfsþróunar fyrir kennara og stjórnendur á öllum skólastigum sem byggir meðal annars á jafningjafræðslu. Mismunandi torg eða gáttir (um ákveðin málefni) eru grunneiningar MenntaMiðjunnar og þar fer fram hið raunverulega starf. Viðfangsefni torganna varða t.d. formlegt og óformlegt nám, kennsluaðferðir, námsefni, símenntun, starfsþróun, upplýsingamiðlun og fleira.
Uppspretta nýrra hugmynda og þekkingar
MenntaMiðja hefur verið starfrækt síðan 2012 við góðan orðstír. Í hverju verkefni er virkjaður hópur fólks sem hefur þekkingu, áhuga og erindi í margbreytilega umræðu um þróun menntunar og skólamála. Tekist hefur að skapa samráðsvettvang á netinu þar sem fólk kemur saman úr ólíkum áttum svo úr verður suðupottur nýrra hugmynda og þekkingar.
Auk þess hefur verið opinn vettvangur á Twitter um hríð undir heitinu #menntaspjall sem tengist MenntaMiðju. Þar fara fram fjörlegar umræður um skóla- og menntamál á Íslandi undir stjórn sérfræðinga sem stýra umræðum um afmarkað efni.
MenntaMiðja verður hluti af Menntavísindastofnun og er fyrirhugað að samstarfsaðilar fundi að lágmarki einu sinni á ári. Áhersla er lögð á tengingu milli stofnana, skóla og fræðasamfélagsins með gagnkvæman ávinning allra aðila að leiðarljósi.