Skip to main content

Klassísk mál - Grunndiplóma

Klassísk mál - Grunndiplóma

Hugvísindasvið

Klassísk mál

Grunndiplóma – 60 einingar

Menntun í latínu og fornfræði veitir einstaka sýn í menningarsögu Evrópu og tækifæri til frekari rannsókna í hugvísindum. Hvort sem um er að ræða bókmenntasögu og heimspeki, mannkynssögu eða listasögu er menntun í fornfræði undirstöðuþáttur til skilnings á vestrænum menningararfi.

Skipulag náms

X

Latína I: Byrjendanámskeið (KLM101G)

Námskeiðið er 10 eininga inngangsnámskeið í latínu ætlað byrjendum. Ekki er gert ráð fyrir kunnáttu í latínu við upphaf námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði. Farið er yfir beygingafræði latínunnar svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Stuttir leskaflar og málfræðiæfingar.

Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Forngríska I: Byrjendanámskeið (KLM102G)

Í námskeiðinu verður farið yfir beygingarfræði forngrísku (attísku) í meginatriðum svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Áhersla er lögð á að nemendur læri í námskeiðinu þau atriði sem þeir þurfa til að geta byrjað að lesa og þýða forngríska texta. Ekki er gert ráð fyrir neinni kunnáttu í grísku í upphafi námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði.

Fylgt verður 2. útg. kennslubókar Donalds J. Mastronarde. Lögð verður áhersla á meginatriði. Kennt verður tvisvar í viku. Kennslustundir innihalda bæði fyrirlestur sem tekur fyrir afmarkað efni og verkefnavinnu þar sem reynir á virkni nemenda. Valdir textar verða þýddir og skýrðir málfræðilega. Lestur námsefnisins fyrir hvern tíma er nauðsynlegt skilyrði þess að nemendur nái valdi á námsefninu. Hverjum fyrirlestri fylgja glósur kennara, sem settar verða á Canvas.

Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Inngangur að klassískum fræðum (KLM103G)

Námskeiðið er inngangur að klassískum fræðum eða fornfræði. Fjallað verður um sögu og þróun fræðigreinarinnar og helstu viðfangsefni hennar og aðferðir í nútímanum: Nemendum verður kynnt klassísk textafræði og hinar ýmsu greinar klassískra fræða og viðfangsefnum þeirra, svo sem sagnfræði, heimspeki og bókmenntir fornaldar. Auk þess verður fjallað um heimildavinnu og vinnulag í klassískum fræðum og þær venjur sem mótast hafa í greininni. Nemendum verða kynnt helstu stoðrit klassískra fræða og reynt verður að efla ratvísi þeirra um heim klassíkurinnar. Þekking á fornmálunum er ekki áskilin.

X

Goðafræði og trúarbrögð Grikkja og Rómverja (KLM104G)

Framhjáhald og morð, mannát og sifjaspell, örlög og ábyrgð, maður og guðdómur: umfjöllunarefni þessa námskeiðs er goðsögur og trúarbrögð Grikkja og Rómverja. Lesið verður úrval úr grískum og latneskum bókmenntum í þýðingu en ekki er gert ráð fyrir þekkingu á frummálunum. Í námskeiðinu reynum við að átta okkur á margbreytileika fornra goðsagna, eðli þeirra og tilgangi og tengslum þeirra við trúarbrögð, heimspeki, bókmenntir og listir, sagnaritun og stjórnmál fornmanna. Einnig verður fjallað um fræðilegar nálganir nútímans.

X

Latína II: Úrval latneskra texta (KLM201G)

Námskeiðið tekur við af KLM101G Latínu I. Í námskeiðinu verður lesið úrval latneskra texta eftir ýmsa höfunda.

Kennt er á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Forngríska II (KLM202G)

Námskeiðið tekur við af KLM102G Forngrísku I. Í fyrri hluta námskeiðsins er haldið áfram með málfræði og setningafræði forngrísku (attísku) þar sem yfirferð lauk í Forngrísku I. Í síðari hluta námskeiðsins lesa nemendur úrval forngrískra texta frá ýmsum tímum og eftir ýmsa höfunda.

Kennsla fer þannig fram að fyrir hvern tíma er settur ákveðinn texti. Ætlast er til að nemendur lesi textann heima. Í tímanum er textinn þýddur og skýrður málfræðilega (og efnislega eftir atvikum).

Nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Gamanleikir (KLM219G)

Gamanleikir voru vinsæl bókmenntagrein hjá bæði Grikkjum og Rómverjum en eru jafnframt mikilvægar heimildir um fornöldina, bæði málheimildir og heimildir um ýmsa þætti menningar og samfélags. Rætt verður um einkenni fornra gamanleikja og lesnir verða valdir gamanleikir í þýðingu og eftir atvikum á frummáli.

Nemendum stendur til boða að vinna sérverkefni sem byggja á lestri frumtexta (5 eða 10 eininga) samhliða námskeiðinu.

X

Nýlatína (KLM218G)

Í þessu námskeiði verða lesnir nýlatneskir textar, þ.e. frá tíma endurreisnar og síðar. Í fornöld var latína lifandi mál ákveðins málsamfélags en um síðir urðu til úr henni rómönsku málin og um leið hætti latína að vera móðurmál. Hún hélt þó velli sem annað mál og var notuð bæði í ræðu og riti öldum saman. Mikill meirihluti varðveittra texta á latínu er raunar frá þeim tíma. Í námskeiðinu eru lesnir valdir textar frá 15.–18. aldar.

X

Grískir höfundar 1. og 2. aldar (KLM405G)

Í þessu námskeiði eru lesnir valdir textar á forngrísku eftir höfunda frá 1. og 2. öld. Þar kennir ýmissa grasa og eru þar á meðal höfundar eins og Plútarkos, Lúkíanos frá Samosata, Pásanías, Appíanos, Arríanos og höfundar forngrísku skáldsögunnar, auk nýja testamentisins.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Hörður Brynjar Halldórsson
Kristrún Ósk Óskarsdóttir
Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir
Hörður Brynjar Halldórsson
Klassísk mál - BA nám

Upphaflega vildi ég læra klassísk mál því margir frumtextar heimspekinnar voru ritaðir á forngrísku og latínu. Í gegnum námið hefur áhugi minn á öðrum fræðigreinum sem fást við fornöldina aukist sem og áhugi minn á íslensku og tungumálum almennt. Við lærum um ólík svið fornaldarinnar og getum líka unnið sérverkefni sem tengjast áhugamálum okkar. Námið er bæði krefjandi og skemmtilegt og eru kennararnir mjög hjálplegir. Ég hvet alla sem vilja fræðast um menningarsamfélög Forn-Grikkja og Rómverja og áhrif þeirra á menningu okkar að skrá sig í nám í klassískum málum.

Kristrún Ósk Óskarsdóttir
Klassísk mál - BA nám

Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf haft mikinn áhuga á Forngrikkjum og Rómverjum. Í námi mínu í klassísku málunum, latínu og grísku, hef ég öðlast dýpri skilning á tungumáli og menningarheimi þessara þjóða. Námið er mjög fjölbreytt þar sem fjallað er um tungumálin og hinn mikla menningararf Forngrikkja og Rómverja. Kennararnir kunna vel sitt fag og eru alltaf reiðubúnir að aðstoða nemendur. Ég tel að allir, sem hafa áhuga á fornöldinni og áhrifum hennar á nútímann, ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi af þeim mörgu áföngum sem standa til boða.  

Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir
Klassísk mál - BA nám

Eitt af því sem heillaði mig mest við nám í klassísku málunum tveimur latínu og grísku er hvað námið er fjölbreytt. Ég hef í náminu hér heima og í skiptinámi við fornfræðideild háskólans í Glasgow tekið kúrsa sem tengjast öllum hliðum fornaldar: latínu, grísku og málvísindum, bókmenntum, sagnfræði, heimspeki og list. Gráðan veitir því góðan grunn á mjög breiðu sviði og að mörgu leyti tel ég að klassísk mál séu með þverfaglegustu námsgreinunum sem Háskóli Íslands býður upp á. Kennararnir eru mjög áhugasamir um fagið og alltaf tilbúnir að aðstoða nemendur og ræða við þá.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.