Skip to main content

Reglur um Doktorsstyrkjasjóð Háskóla Íslands

Reglur um Doktorsstyrkjasjóð Háskóla Íslands, nr. 1033/2019.

Með síðari breytingum.

 

English version

1. gr.  Um Doktorsstyrkjasjóð.

Doktorsstyrkjasjóður er yfirheiti yfir safn sjóða sem sérstaklega er ætlað að styrkja stúdenta til doktorsnáms við Háskóla Íslands. Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands annast úthlutun úr sjóðnum, sbr. 2. gr. þessara reglna og 75. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Tilgangur Doktorsstyrkjasjóðs er að styrkja efnilega stúdenta til doktorsnáms við háskólann og efla með því háskólann sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla og um leið eftirsóknarverðan kost fyrir doktorsnema.

Reglur þessar skulu vera aðgengilegar á vefsvæði háskólans og skulu kynntar sérstaklega þegar auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn og jafnframt er styrkjum er úthlutað. Fram komi hvaða einstakir sjóðir leggi fé til Doktorsstyrkjasjóðs.

Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands skal árlega, að lokinni úthlutun, gera  stjórnum sjóða er leggja fé til hans og háskólaráði grein fyrir styrkveitingum undangengins árs, heildarupphæð styrkja og starfseminni framundan, sbr. 75. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

2. gr.  Auglýsing,  umsóknarfrestur og skil umsókna.

Auglýsing um styrki úr Doktorsstyrkjasjóði skal birt í byrjun desember ár hvert fyrir komandi háskólaár. Umsóknarfrestur er að jafnaði til 15. [febrúar]1 fyrir komandi háskólaár og skal úthlutun lokið [um miðjan]1 maí. Rektor er heimilt að ákveða aðra umsóknarfresti og skal auglýsing þá birt eigi síðar en mánuði fyrir umsóknarfrest.

Umsóknum skal skilað rafrænt á þar til gerðu eyðublaði til skrifstofu  vísinda- og nýsköpunarsviðs. Ef sótt er um styrk samkvæmt leið c, sbr. 4. gr., skal samhliða sækja um inntöku í doktorsnám til viðkomandi fræðasviðs HÍ.

Vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands hefur umsjón með auglýsingu um styrki, upplýsingagjöf, móttöku og meðferð umsókna í umboði stjórna viðkomandi sjóða.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1515/2024.

3. gr.  Umsækjendur.

Stúdentar sem uppfylla inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám og fastráðnir kennarar eða sérfræðingar við Háskóla Íslands, sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, geta sótt um styrk til sjóðsins.

4. gr.  Umsóknir.

Umsóknir til sjóðsins geta verið þrenns konar:

  1. Stúdent og leiðbeinandi sækja til sjóðsins í sameiningu eftir að nám er hafið.
  2. Leiðbeinandi, sem er akademískur starfsmaður við HÍ og uppfyllir kröfur sbr. 3. gr., sækir um án stúdents. Hljóti leiðbeinandi vilyrði um styrk án stúdents skal leiðbeinandi auglýsa styrkinn til umsóknar. Leiðbeinandi hefur að jafnaði sex mánuði til að velja stúdent. Að þeim tíma liðnum fellur vilyrði um styrk niður. Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands metur hvort sá stúdent sem leiðbeinandi velur uppfylli skilyrði reglna þessara.
  3. Stúdent sækir um á grundvelli umsóknar um doktorsnám sem að jafnaði er unnin í samráði við fyrirhugaðan leiðbeinanda. Saman fer umsókn um doktorsnám og umsókn um styrk úr Doktorsstyrkjasjóði.

[...]1

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 1515/2024.

5. gr.  Mat á umsóknum.

Fagráð, á hverju fræðasviði fyrir sig, sem rektor skipar, annast faglegt mat og forgangsröðun umsókna í Doktorsstyrkjasjóð Háskóla Íslands, sbr. 75. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Við mat á umsóknum skal séð til þess að sérfræðingar á viðkomandi sviði gefi faglega umsögn um allar nýjar umsóknir styrkhæfra umsækjenda. Faglegt mat skal byggja á viðmiðum sem vísindanefnd háskólaráðs setur. Miða ber sérstaklega við vísindagildi fyrirhugaðs verkefnis og rannsóknaráætlun sem sett er fram,  hvort líklegt sé að verkefnið styrki vísindarannsóknir á viðkomandi sviði og hversu líklegt geti verið að það gefi niðurstöður sem fást birtar í vísindaritum sem gera strangar fræðilegar kröfur. [Önnur viðmið lúta að mati á vísindalegri hæfni umsækjenda, aðstöðu og almennt ytri umgjörð fyrirhugaðs verkefnis samkvæmt viðmiðum sem vísindanefnd háskólaráðs setur og kynnt eru sérstaklega þegar auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn.]1
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 1515/2024.

6. gr.  Úthlutun.

Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands annast úthlutun úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands í umboði stjórna þeirra sjóða sem leggja fé til hans og sem ákveða árlega heildarfjárhæð til ráðstöfunar úr viðkomandi sjóði. Styrkir eru veittir til allt að þriggja ára.

7. gr.  Afgreiðsla fræðasviðs og deildar samkvæmt leið c.

Um umsóknir um styrk samkvæmt leið c gildir að farið er yfir þær og fylgigögn á skrifstofu viðkomandi fræðasviðs og formlega gildar umsóknir sendar til mats fastanefndar fræðasviðs/deildar, eftir þeim reglum er við eiga, þar sem gögn eru metin og tekin er ákvörðun um hvaða umsækjendum er unnt að bjóða námsaðstöðu óháð því hvort þeir muni hljóta styrk úr Doktorsstyrkjasjóði. Afgreiðsla fræðasviðs er send stjórn Rannsóknasjóðs HÍ fyrir 15. [mars.]1
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 1515/2024.

8. gr.  Hlutverk stjórnar og fagráða Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands við mat á umsóknum samkvæmt leið c.

Að lokinni afgreiðslu fræðasviðs eru samþykktar umsóknir þeirra sem jafnframt óska eftir styrk úr Doktorsstyrkjasjóði HÍ, samkvæmt leið c, sendar til stjórnar Rannsóknasjóðs HÍ sem beinir umsóknum áfram til viðeigandi fagráðs til faglegs mats og forgangsröðunar. Fagráðin gera tillögu um úthlutun styrkja á grundvelli umsagna umsagnaraðila og öðrum fylgigögnum umsókna og raða umsóknum í forgangsröð, sbr. 5. gr. Vinnu fagráða skal lokið fyrir 15. apríl.

9. gr.  Niðurstaða um inntöku í doktorsnám, styrkveitingar, tilkynning til umsækjenda og staðfesting stúdents, sbr. leið c.

Á grundvelli röðunar fagráða tekur stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands ákvörðun um hvaða umsækjendur hljóta styrk. Ákvörðun stjórnar Rannsóknasjóðs er endanleg á stjórnsýslustigi. Í lok apríl/byrjun maí er fræðasviðum tilkynnt niðurstaða stjórnar Rannsóknasjóðs HÍ.

Skrifstofa fræðasviðs tilkynnir umsækjendum [um miðjan]1 maí niðurstöðu um inntöku í doktorsnám og um styrki úr Rannsóknasjóði HÍ ef við á, þ.e. hvaða verðandi doktorsnemar hljóti styrk úr Doktorsstyrkjasjóði samhliða inntöku í námið, hverjir eru samþykktir í doktorsnám án styrks og hverjum er hafnað um inntöku í námið. Rökstyðja ber sérstaklega ef inntöku í námið er hafnað.

Umsækjendum sem samþykktir hafa verið til inntöku í nám með eða án styrks ber að staðfesta við skrifstofu fræðasviðs innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningar að þeir þekkist tilboð um nám og styrk ef við á.

Um skráningu í nám og greiðslu skrásetningargjalds ár hvert fer eftir 48. og 49. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 1515/2024.

10. gr.  Skyldur styrkþega.

Styrkþegi skal sinna doktorsnáminu í fullu starfi meðan hann nýtur stuðnings sjóðsins og skal ekki sinna öðru starfi á styrktímabilinu, enda skal hann stunda fullt nám samkvæmt 53. gr. sameiginlegra reglna háskólans og námsframvindureglum viðkomandi deildar. Deild getur falið styrkþega verkefni á sviði kennslu eða rannsókna eða samþykkt að hann taki að sér slík verkefni fyrir aðra aðila, enda nemi verkefnin í heild ekki meira en 20% af fullu starfi. Sérstaklega skal greiða fyrir þetta vinnuframlag styrkþega.

11. gr.  Fjárhæð styrkja og greiðslufyrirkomulag.

Vísindanefnd háskólaráðs, að höfðu samráði við stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands, tekur árlega ákvörðun um fjárhæð styrkja. Stúdentinn er styrkþeginn og rennur styrkurinn óskiptur til framfærslu hans. Styrkurinn er greiddur út í jöfnum greiðslum, 1. hvers mánaðar á styrktímabilinu. Vísinda- og nýsköpunarsvið gerir samning við styrkþega um mánaðarlegar greiðslur í samræmi við námsáætlun. Samningur þessi skal endurskoðaður árlega í samræmi við framvindu námsins, sbr. 12. gr.

12. gr.  Framvinda doktorsnáms.

Leiðbeinandi og doktorsnemi skila vísinda- og nýsköpunarsviði árlega (15. janúar) sameiginlegri framvinduskýrslu, þar sem þeir gera grein fyrir stöðu doktorsnáms og -verkefnis. Skil á framvinduskýrslu eru á ábyrgð leiðbeinanda og stúdents. Fullnægjandi framvinduskýrsla er forsenda styrkgreiðslna.

Eigi síðar en tveimur mánuðum eftir doktorsvörn skila leiðbeinandi og nýdoktor eintaki af doktorsritgerð til vísinda- og nýsköpunarsviðs. [Hafi doktorsritgerð ekki borist vísinda- og nýsköpunarsviði tveimur árum eftir að næstsíðasta mánaðargreiðsla var innt af hendi fellur loka­greiðsla styrks niður.]1
1Breytt með 6. gr. rgl. nr. 1515/2024.

13. gr.  Viðurkenning og kynning verkefna.

Leiðbeinandi og doktorsnemi skulu geta Doktorsstyrkjasjóðs HÍ og eftir atvikum þess sjóðs sem lagði fé til hans í þeim ritsmíðum sínum sem tengjast veittum styrk.

Þegar stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið úthlutun úr Doktorsstyrkjasjóði HÍ ár hvert skal kynna opinberlega þau verkefni sem hlutu styrk. Fram komi hvaða styrktarsjóðir háskólans leggi fé til Doktorsstyrkjasjóðs.

14. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 11. nóvember 2019.