Reglur læknadeildar Háskóla Íslands um ráðningu og framgang starfsmanna með hæfnisdóm, nr. 498/2002.
PDF-útgáfa |
1. gr. Markmið.
Markmið þessara reglna er að hvetja akademíska starfsmenn til virkni og árangurs í starfi og auka þannig gæði kennslu og rannsókna innan læknadeildar Háskóla Íslands.
Framgangur og ráðning starfsmanna læknadeildar sem hafa hæfnisdóm, byggist á faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu og stjórnun í þágu læknadeildar og stofnunum sem tengjast Háskóla Íslands.
2. gr. Almenn skilyrði.
Um almenn skilyrði ráðningar og framgang á grundvelli hæfnisdóms fer eftir sameiginlegum reglum Háskóla Íslands nr. 458/2000 og sérákvæðum í reglum Háskóla Íslands um ráðningar og framgang kennara, sérfræðinga og fræðimanna nr. 863/2001. Ennfremur er, eftir því sem við á, tekið tillit til kjarasamnings Félags háskólakennara og fjármálaráðherra þegar lektorar, dósentar, sérfræðingar, fræðmenn og vísindamenn eiga í hlut, og úrskurða kjaranefndar þegar prófessorar eiga í hlut.
Við stigagjöf og mat á heildarstigafjölda er farið eftir samræmdum matsreglum kjaranefndar, Háskóla Íslands og Félags háskólakennara.
Framgangur í starf prófessors við læknadeild Háskóla Íslands skal að öllu jöfnu miðast við, að um fullt starf sé að ræða, þ.m.t. tengt eða samhliða starf á sama fræðasviði á stofnun sem Háskóli Íslands hefur samstarfssamning við.
Almennt gildir að dómnefnd metur umsækjendur um laus störf við læknadeild einungis með tilliti til þess hvort þeir uppfylla þau lágmarksskilyrði sem sett eru vegna starfsins, enda hefur deildarfundur í læknadeild mótað þá stefnu að dómnefndir um störf við deildina forgangsraði ekki umsækjendum nema þess sé sérstaklega óskað.
Valnefnd forgangsraðar umsækjendum og mælir með veitingu lausra starfa í samræmi við reglur læknadeildar um valnefndir nr. 830/2001.
Dómnefndir, framgangsnefndir og valnefndir skulu byggja mat sitt og niðurstöður á málefnalegum sjónarmiðum. Sérstaklega skal gætt að jafnræði umsækjenda og sjónarmiðum um jafnrétti kynjanna eftir því sem við á.
Forseti læknadeildar getur óskað eftir því að umsækjandi flytji opinn fyrirlestur innan læknadeildar um rannsóknir sínar eða sitt sérsvið meðan á mati umsóknar stendur.
3. gr. Frekari menntunarkröfur og sérstakar hæfniskröfur.
Til viðbótar almennum skilyrðum fyrir ráðningu og framgang í störf háskólamanna með hæfnisdóm er læknadeild heimilt að gera frekari menntunarkröfur og sérstakar hæfniskröfur eftir því sem mælt er fyrir um í þessum reglum.
Læknadeild er ennfremur heimilt að setja sem skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns með hæfnisdóm, að hann hafi samhliða með höndum starf við stofnun eða fyrirtæki sem tengist fræðasviðum deildarinnar samkvæmt samningi sem gerður er um það efni á grundvelli 30. gr. sameiginlegra reglna Háskóla Íslands nr. 458/2000.
4. gr. Ráðning/framgangur í starf lektors eða sérfræðings.
Til þess að hljóta ráðningu í starf lektors eða sérfræðings við læknadeild skal umsækjandi hafa lokið háskólaprófi og hafa sérfræðingsviðurkenningu á viðkomandi fræðasviði/fræðigrein. Umsækjandi skal hafa sannað hæfni sína til sjálfstæðra vísindalegra rannsóknarstarfa með framlögðum ritverkum og sýnt með námsferli sínum, rannsóknum og öðru starfi að hann sé hæfur til að gegna starfinu.
Þegar um klínísk störf er að ræða ber sérstaklega að meta klíníska þjálfun og sérfræðipróf, kennslureynslu og hæfni á viðkomandi sviði.
5. gr. Ráðning/framgangur í starf dósents eða fræðimanns.
Til þess að hljóta ráðningu eða framgang í starf dósents eða fræðimanns við læknadeild skal umsækjandi uppfylla eitthvert neðangreindra skilyrða:
- að hann hafi lokið doktorsprófi eða
- að hann hafi prófgráðu frá viðurkenndri innlendri eða erlendri menntastofnun sem jafnað verður til doktorsprófs eða
- að hann hafi sýnt, að mati dómnefndar, jafngilda hæfni og felst í doktorsprófi.
Umsækjandi um starf/framgang skal hafa sýnt sjálfstæði sitt og frumkvæði í rannsóknum með áframhaldandi fræðastörfum og góðri rannsóknavirkni eftir doktorspróf eða sambærileg próf, einkum á þeim tíma sem fór á undan umsókninni. Dómnefnd getur haft til hliðsjónar upplýsingar frá umsækjanda um framlag hans til þeirrar vinnu sem lýst er í einstökum ritverkum og rannsóknum.
Umsækjandi um starf eða framgang í stöðu dósents þarf að hafa kennslureynslu og að hafa tekið beinan þátt í að leiðbeina í rannsóknatengdu námi (grunnnám, fagnám eða æðra nám). Forseti læknadeildar getur óskað eftir að umsækjandi flytji opinn fyrirlestur innan
læknadeildar um rannsóknir sínar eða sérsvið sitt, meðan á mati umsóknar stendur.
6. gr. Ráðning/framgangur í starf prófessors eða vísindamanns.
Til þess að hljóta ráðningu eða framgang í starf prófessors eða vísindamanns við læknadeild skal umsækjandi uppfylla eitthvert neðangreindra skilyrða:
- að hann hafi lokið doktorsprófi eða
- að hann hafi prófgráðu frá viðurkenndri innlendri eða erlendri menntastofnun sem jafnað verður til doktorsprófs eða
- að hann hafi sýnt, að mati dómnefndar, jafngilda hæfni og felst í doktorsprófi.
Dómnefndum ber að gera meiri kröfur um rannsókna- og ritvirkni til prófessora en annarra háskólakennara.
Umsækjandi þarf að hafa sýnt sjálfstæði og frumkvæði í rannsóknum með áframhaldandi og viðvarandi fræðastörfum og góðri rannsóknavirkni á fræðasviði sínu eftir doktorspróf eða sambærileg próf, að meðtöldum þeim tíma sem fór á undan umsókninni. Dómnefnd getur haft til hliðsjónar upplýsingar frá umsækjanda um framlag hans til þeirrar vinnu sem lýst er í einstökum ritverkum og rannsóknum.
Umsækjandi um starf eða framgang í stöðu prófessors skal hafa leiðbeint a.m.k. í tvígang í grunnnámi eða í fagnámi eftir kandídatspróf eða hliðstæð próf og tekið beinan þátt í að leiðbeina til æðri háskólagráðu (meistara- og/eða doktorsprófs).
Umsækjandi skal hafa verulega kennslureynslu og kennsluhæfni og hann þarf að hafa sýnt fram á getu sína til að afla styrkja til rannsóknastarfa. Með stjórnunarreynslu sinni þarf umsækjandi að hafa sýnt fram á að hann sé hæfur sem leiðtogi á sínu sviði.
7. gr. Gildistaka.
Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett að tillögu læknadeildar Háskóla Íslands, á grundvelli 41. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, sbr. 7. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 28. júní 2002.