Skip to main content

Reglur nr. 290-2016

[Reglur um nám til lokaprófs á meistarastigi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands,]1 nr. 290/2016.

með síðari breytingum

1Breytt með 1. gr. reglna nr. 197/2025.

1. gr.  [Markmið náms til lokaprófs á meistarastigi.]1

[Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 veitir menntun til [lokaprófs]1 á meistarastigi á þeim sviðum þar sem aðstaða og sérþekking er fyrir hendi. Markmið [námsins]1 er að gefa hjúkrunarfræðingum á Íslandi kost á að auka þekkingu sína og færni á ýmsum sérsviðum [hjúkrunar- og ljósmóðurfræða.]1
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 290/2016.

2. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur er að jafnaði til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri og til 15. október fyrir innritun á vormisseri. Deildarráði er einnig heimilt að leyfa innritun á öðrum tímum að undangenginni auglýsingu.

3. gr.  Meðferð umsókna.

Sótt er um rafrænt á vef háskólans. Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem er aðgengilegt á vef skólans. Rannsóknanámsnefnd ásamt námsnefndum [náms til lokaprófs á meistarastigi]2 leggur mat á umsóknir og sendir deildarráði tillögur sínar til afgreiðslu.

[Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 er heimilt, með samþykki háskólaráðs, að takmarka þann fjölda sem tekinn er inn í námið.

[Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 er heimilt að fella niður áður auglýst [nám til lokaprófs á meistarastigi]2 náist ekki lágmarksþátttaka til að tryggja fjármögnun þess.
1Breytt með 2. gr. reglna nr. 517/2022.
2Breytt með 3 gr. reglna nr. 197/2025.

4. gr.  Inntökuskilyrði.

Til að innritast í [nám til lokaprófs á meistarastigi]2 við [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 þarf stúdent að hafa lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði eða öðru samsvarandi prófi og vera handhafi hjúkrunarleyfis á Íslandi. Miðað er við að nemandi hafi að lágmarki 6,5 í aðaleinkunn úr BS-prófi eða samsvarandi námi. Jafnframt þarf nemandi að búa yfir góðri enskukunnáttu. Heimilt er að gera forkröfu um að umsækjandi hafi allt að tveggja ára starfsreynslu í hjúkrun. [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 er heimilt að víkja frá reglunni um BS-próf hafi umsækjandi aflað sér sérstakra starfsréttinda eða lokið ákveðnu formlegu námi á því sviði, sem tilgreint er í auglýsingu um viðkomandi [nám til lokaprófs á meistarastigi.]2

Við inntöku er tekið mið af: a) einkunnum, b) starfsreynslu og c) meðmælum, auk d) viðtala í því [nám til lokaprófs á meistarastigi]2 þar sem takmarkanir eru á fjölda nemenda.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 517/2022.
2Breytt með 4. gr. rgl. nr. 197/2025.

5. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

[Nám til lokaprófs á meistarastigi]1 í hjúkrunarfræði er að jafnaði [60-89]1 einingar (ECTS). [...]1 [Miðað skal við að lengd námsins sé fullt nám í tvö misseri, eða hlutanám í fjögur misseri. Hámarksnámstími er sex misseri frá því að nemandi var skrásettur í námið.]1 Námshraði nemenda skal vera í samræmi við auglýsta námskrá og framboð námskeiða. [Þrátt fyrir ákvæði 1. málsliðar skulu nemendur sem þegar stunda 30 eininga viðbótarnám á meistarastigi eiga þess kost að ljúka náminu samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi var þegar þeir hófu nám.]1
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 197/2025.

6. gr.  Samsetning náms.

Námskrá skal að jafnaði skipulögð þannig að hægt sé að taka námið sem hluta af formlegu meistaranámi eða sem afmarkað nám sem lýkur með [lokaprófi á meistarastigi.]1 Námskrá skal á hverjum tíma vinna í náinni samvinnu við fagdeildir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sérfræðinga og/eða stofnanir á viðkomandi sérsviði. Lögð er áhersla á að [nám til lokaprófs á meistarastigi]1 geti orðið áfangi í námi til meistaraprófs.

Hjúkrunarfræðingur sem lokið hefur [námi til lokaprófs á meistarastigi]1 að viðbættri klínískri þjálfun á að standast alþjóðlegar viðmiðanir til starfsréttinda á því sérsviði.

Að öðru leyti miðar samsetning námsins að því að nemandi hafi að því loknu öðlast góða starfsleikni, fagþekkingu og tileinkað sér fagleg viðhorf á tilteknu sérsviði.
1Breytt með 6. gr. rgl. nr. 197/2025.

7. gr.  [Námskeið í námi til lokaprófs á meistarastigi sem hluti af meistaranámi.]2

[Nemendur sem ljúka [lokaprófi á meistarastigi]2 geta fengið hluta þess náms metinn inn í nám til meistara­prófs [eða meistaragráðu,]2 samkvæmt samþykkt deildar.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 838/2019.
2Breytt með 7. gr. rgl. nr. 197/2025.

8. gr.  Námsnefndir [...]3

[Þegar deildin hefur samþykkt [nám til lokaprófs á meistarastigi]3 á ákveðnu sérsviði skipar deildarráð námsnefnd.]2 Í námsnefnd eru forstöðumaður/forstöðumenn viðkomandi fræðasviðs/fræðasviða innan [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar]2 ásamt öðrum sérfræðingum á viðkomandi sviði. Formaður nefndarinnar skal vera fastráðinn kennari við deildina.

Námsnefnd [náms til lokaprófs á meistarastigi]3 tilnefnir umsjónarkennara hvers námskeiðs, yfirfer námskeiðslýsingar, gerir kostnaðaráætlun um námið og sendir rannsóknanámsnefnd til umsagnar. Erindi um nýtt [nám til lokaprófs á meistarastigi]3 þarf að berast rannsóknanámsnefnd fyrir 1. október ári áður en nám hefst. Erindi um endurtekið [nám til lokaprófs á meistarastigi]3 þarf að berast fyrir 15. október ári áður. Rannsóknanámsnefnd getur óskað eftir umsögn og samráði við fleiri námsnefndir en eina um tiltekið námskeið.

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 838/2019.
2Breytt með 8. gr. rgl. nr. 517/2022.

9. gr.  Kröfur til umsjónarkennara námskeiða.

Umsjónarkennari skal að jafnaði vera fastráðinn kennari (lektor, dósent eða prófessor) í viðkomandi grein. Ef umsjónarkennari er ekki fastráðinn kennari eða sérfræðingur við deildina skal hann a.m.k. hafa lokið meistaraprófi, vera sérfræðingur á sérsviði námsins eða tengdu sviði og auk þess hafa starfað við það um árabil og stundað rannsóknir því tengdar.

10. gr.  Námsmat.

Námskeið í [námi til lokaprófs á meistarastigi]1 skulu vera á meistarastigi og standast kröfur þar um. [Námi]1 lýkur með veitingu prófskírteinis, sem staðfestir að nemandi hafi lokið [námi]1 á viðkomandi sviði og reiknast meðaleinkunn nemandans vera vegið meðaltal eininga úr þeim námskeiðum sem nám hans samanstendur af. Lágmarkseinkunn í námskeiðum í [námi til lokaprófs á meistarastigi]1 skal vera 6,0.
1Breytt með 9. gr. rgl. nr. 197/2025.

11. gr.  Tengsl við aðra háskóla.

Hægt er að skipuleggja hluta [námsins]1 í samvinnu við aðra háskóla og/eða heilbrigðisstofnanir innan- eða utanlands.
1Breytt með 10. gr.  rgl. nr. 197/2025.

12. gr.  Prófskírteini, diplóma.

Er nemandi hefur staðist námskröfur sem tilgreindar eru í námskrá fyrir [nám til lokaprófs á meistarastigi]1 telst hann hafa lokið [námi]1 á sérsviði. Veitt er sérstakt prófskírteini [...]1 þessu til staðfestingar.
1Breytt með 11. gr. rgl. nr. 197/2025.

13. gr.  Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 8. mgr. 97. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar hafa verið samþykktar af Hjúkrunarfræðideild og stjórn Heilbrigðisvísindasviðs, auk Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 240/2004 um diplómanám á meistarastigi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Auk birtingar í Stjórnartíðindum skal birta reglur þessar í kafla [Hjúkrunar- ljósmóðurfræðideildar]1 í kennsluskrá og á heimasíðu deildarinnar.
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 517/2022.

Háskóla Íslands, 18. mars 2016.