1/2025
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2025, fimmtudaginn 9. janúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Sigurður Tómasson (varamaður fyrir Katrínu Atladóttur, á fjarfundi), Silja Bára Ómarsdóttir og Viktor Pétur Finnsson. Magnús Diðrik Baldursson ritaði fundargerð. Davíð Þorláksson boðaði forföll og varamaður hans einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Silja Bára frá því að hún myndi víkja af fundi undir dagskrárliðum 5 og 6. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Katrín Regína Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri.
a. Fjárlög ársins 2025 og tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands, þ.m.t. Aldarafmælissjóður, sbr. síðasta fund.
Rektor og Guðmundur R. gerðu grein fyrir tillögu fjármálanefndar um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands á grundvelli fjárlaga ársins 2025 og framlögðum greinargerðum fræðasviða, sameiginlegrar stjórnsýslu og Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands. Katrín Regína gerði sérstaklega grein fyrir úthlutun úr Aldarafmælissjóði sem fjármálanefnd hafði áður fjallað um og samþykkt. Málið var rætt.
Katrín Regína vék af fundi.
b. Rekstraráætlanir einstakra starfseininga fyrir árið 2025, sbr. síðasta fund.
Jenný Bára gerði grein fyrir rekstraráætlunum fræðasviða og sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands fyrir árið 2025. Fram kom að öllum starfseiningum var gert að skila rekstraráætlunum í jafnvægi, en um 150 m.kr. halli er á framlagðri áætlun fyrir 2025, en einungis þeim fræðasviðum sem eiga fyrningar frá fyrri árum var heimilt að skila áætlun með halla. Sem fyrr þarf að gæta aðhalds í rekstri skólans.
Skipting fjárveitinga innan Háskóla Íslands skv. lið a. var tekin til afgreiðslu og samþykkt samhljóða.
Hólmfríður og Silja Bára lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Fyrir ári síðan lögðu undirritaðir fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði HÍ fram bókun og mótmæltu því að allt framlag til Sáttmálasjóðs – um 55 milljónir króna – var skorið niður fyrir útgjaldaárið 2024. Í drögum að fjárhagsáætlun fyrir 2025 blasir það sama við. Við þekkjum vel fjárhagsvanda HÍ, en mótmælum því að endurtekið beinist niðurskurður með svo áberandi hætti að kjörum starfsfólks. Þess utan eru framlög í vinnumatskerfi Félags háskólakennara einungis hækkuð um 1,7% og framlag í Ritlauna- og rannsóknarsjóð prófessora um 2,4%, á sama tíma og meðaltal hækkana til útgjaldaliða skólans er 5%. Af 26 milljarða umsvifum Háskóla Íslands er um óverulegar upphæðir að ræða en þær skipta einstaka starfsmenn umtalsverðu máli.
Hólmfríður Garðarsdóttir
Silja Bára Ómarsdóttir“
Útskýrt var að stærð Ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora ákvarðast út frá 12,5% af grunnlaunum þeirra prófessora sem eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum. Þá sé stærð Vinnumatssjóðs Félags háskólakennara ákveðin út frá fjölda rannsóknastiga sem koma til greiðslu úr Vinnumatssjóði ásamt verðgildi rannsóknastiga á viðkomandi ári eins og það reiknast í Ritlauna- og rannsóknasjóði. Með öðrum orðum eru upphæðir í sjóðina útreiknaðar stærðir.
Jenný Bára vék af fundi.
Að umræðu lokinni var rekstraráætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2025 tekin til afgreiðslu og samþykkt.
c. Tillaga að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2025, ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og reifaði tillögu að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2025, ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár, en hún var lögð fram á síðasta fundi. Málið var rætt.
– Framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2025 samþykkt.
d. Meðhöndlun happdrættisfjár, sbr. síðasta fund.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi álitamál sem leysa þarf úr varðandi meðhöndlun happdrættisfjár, sbr. síðasta fund. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá ráðsins.
e. Vatnstjón í janúar 2021, sbr. fund ráðsins 2. maí sl. Staða mála.
Inn á fundinn kom Stefán Andrew Svensson, lögmaður, og greindi frá stöðu mála og næstu skrefum varðandi eftirmál vatnstjóns sem varð í byggingum og á lóð Háskóla Íslands í janúar 2021. Málið var rætt og svaraði Stefán spurningum.
Guðmundur, Kristinn og Stefán viku af fundi.
3. Starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2025.
Inn á fundinn kom Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi, og fór yfir framlagða starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2025. Málið var rætt.
– Endurskoðunaráætlun fyrir árið 2025 samþykkt.
Sigurjón vék af fundi.
4. Málefni Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Inn á fundinn komu Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og samfélags, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Rektor, Ingibjörg og Halldór greindu frá stöðu mála varðandi málefni Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum og var málið rætt.
Ingibjörg og Halldór viku af fundi. Silja Bára vék af fundi undir dagskrárliðum 5 og 6.
5. Málefni Happdrættis Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn komu Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri, og Víðir Smári Petersen, formaður stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ). Gerðu þau grein fyrir starfsemi og áherslumálum HHÍ sem og horfum á innlendum og erlendum spilamarkaði. Málið var rætt og svöruðu þau Bryndís og Víðir Smári spurningum.
Bryndís og Víðir Smári viku af fundi.
6. Skipun millifundanefndar háskólaráðs til að fara yfir umsóknir um embætti rektors og undirbúa ákvörðun ráðsins um það hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi.
Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að millifundanefnd háskólaráðs, sem mun fara yfir umsóknir um embætti rektors og undirbúa ákvörðun ráðsins um það hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi, verði skipuð þeim Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs, sem verði formaður, Katrínu Atladóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Viktor Pétri Finnssyni.
– Samþykkt einróma.
Kaffihlé.
Silja Bára kom aftur inn á fundinn.
7. Almenn umræða um málefni Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs.
Undir þessum lið fór fram almenn umræða um málefni Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs, en frá hausti 2023 hefur verið efnt til slíkrar umræðu á fundum ráðsins í upphafi hvers misseris. Líflegar umræður spunnust um málefni er varða stöðu og starfsemi háskóla í nútíð og framtíð, þ. á m. akademíska sniðgöngu og jafnræði á milli nemenda á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Umræðunni verður áfram haldið á næsta fundi.
8. Bókfærð mál.
a. Frá kennslusviði: Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár Háskóla Íslands 2025-2026.
– Samþykkt.
b. Breyting á skipan stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt. Daði Már Kristófersson, prófessor, sem verið hefur formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., hefur nú tekið við embætti fjármála- og efnahagsráðherra í ríkisstjórn og víkur úr stjórn að eigin ósk. Af hálfu rektors er lagt til að Katrín Jakobsdóttir, fv. forsætisráðherra og fulltrúi í háskólaráði, taki sæti Daða Más.
c. Breyting á skipan framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði.
– Samþykkt. Daði Már Kristófersson sem hefur verið formaður framkvæmdanefnd vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði, er kominn í leyfi frá Háskóla Íslands og tekur ekki sæti áfram í nefndinni. Lagt er til að framkvæmdanefndin verði skipuð þeim Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs, formaður, Kristni Jóhannessyni, sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs, Unni Valdimarsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs, Jónínu Björgu Halldórsdóttur, fulltrúa nemenda við Heilbrigðisvísindasvið, og Hilmari Þór Kristinssyni, framkvæmdastjóra Fasteigna Háskóla Ísland ehf. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og fulltrúi í háskólaráði, er til taks ef á þarf að halda og Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, situr fundi nefndarinnar og vinnur með henni. Einnig sitja fundi nefndarinnar þau Thorana Elín Dietz, mannauðsstjóri Heilbrigðisvísindasviðs, og Sigríður Sigurðardóttir, arkitekt hjá NLSH, og Helgi Davíð Ingason, NLSH.
h. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands 2025.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð til eins árs þeim Víði Smára Petersen, prófessor við Lagadeild, Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs Háskóla Íslands, og Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur, hag- og viðskiptafræðingi.
i. Stjórn Dungalssjóðs.
– Samþykkt. Stjórn Dungalssjóðs er skipuð Pétri Snæbjörnssyni, prófessor við Læknadeild, formaður, Lenu Rós Ásmundsdóttur, lektor við Læknadeild, og Sigurdísi Haraldsdóttur, dósent við Læknadeild.
9. Mál til fróðleiks.
a. Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008.
b. Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
c. Uppfært dagatal Háskóla Íslands 2024-2025.
d. Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur á þróunaráætlun fyrir svæði Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
e. Endurskoðað samkomulag um samstarf fræðasviða og deilda Háskóla Íslands um menntun framhaldsskólakennara.
f. Úthlutun úr Samstarfi háskóla.
g. Fréttabréf Háskólavina, dags. 19. desember 2024.
h. Júlíus Sólnes sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2025.
i. Auglýsing um embætti rektors Háskóla Íslands.
j. Umsóknir um starf forseta Félagsvísindasviðs.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.05.