9/2025
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2025, fimmtudaginn 6. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 12.00.
Fundinn sátu Silja Bára R. Ómarsdóttir, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Atladóttir (á fjarfundi), Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragný Þóra Guðjohnsen og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Rekstraryfirlit fyrstu níu mánaða ársins 2025.
Jenný Bára fór yfir rekstraryfirlit fyrstu níu mánaða ársins 2025. Málið var rætt.
b. Fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2026.
Guðmundur R. og Jenný Bára fóru yfir forsendur og stöðu fjárhagsáætlanagerðar fyrir árið 2026. Fram kom að loka þarf gati í fjárhag skólans sem nemur allt að einum milljarði króna á næsta ári og því ljóst að grípa þarf til verulegra aðhaldsaðgerða. Fyrir liggur að engum einingum skólans er heimilt að skila fjárhagsáætlun sem ekki er í jafnvægi ef ekki er fyrir hendi uppsafnaður afgangur. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur R. og Jenný Bára spurningum.
c. Umsögn um nýtt reiknilíkan stjórnvalda.
Rektor og Guðmundur R. greindu frá því að stjórnvöld hafi óskað eftir því að háskólarnir veiti umsögn um nýtt reiknilíkan stjórnvalda til að ákvarða fjárveitingar til skólanna. Málið var rætt.
d. Drög að lokauppgjöri vegna framkvæmda á Sögu.
Katrín Jakobsdóttir, formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., gerði grein fyrir tillögu að lokauppgjöri vegna framkvæmda á Sögu sem gerir m.a. ráð fyrir að dregið verði úr útgjöldum vegna viðhalds bygginga Háskóla Íslands á næstu sex árum og að samið verði um að nýta ónýttar fjárfestingaheimildir Háskóla Íslands til að kaupa innréttingar og búnað í Sögu. Þessi ráðstöfun mun duga til að ljúka framkvæmdum við Sögu og halda áætlun við byggingu nýs heilbrigðisvísindahúss í tengslum við nýjan Landspítala. Málið var rætt.
– Samþykkt að veita rektor og stjórn Fasteigna Háskóla Íslands ehf. umboð til að ganga frá samningi sín á milli í þessu skyni og verður samningurinn lagður fram í háskólaráði þegar hann er fullbúinn.
Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.
3. Stefnu- og gæðamál.
Inn á fundinn kom Þór Hauksson, nýr stefnu- og gæðastjóri Háskóla Íslands. Greindi hann frá stöðu mála og vinnu fram undan á sviði stefnu- og gæðamála innan Háskóla Íslands. Fram kom að skv. rammaáætlun Gæðamats háskóla er ráðgert að Háskóli Íslands fari í stofnunarmat á næsta ári sem felur í sér að skólinn skili sjálfsmatsskýrslu um vorið og ytri matshópur skipaður erlendum sérfræðingum komi í vettvangsheimsókn um haustið og skili ytri matsskýrslu fyrir áramót. Samhliða þessu mun á vormisseri hefjast vinna við mótun nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands til næstu ára sem tekur við af HÍ26. Málið var rætt.
Þór vék af fundi.
4. Háskólasamstæða Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Staða mála.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og greindi frá frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem fjallar um háskólasamstæðu og birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.
5. Málefni Keilis. Reglur um Keili – Háskólabrú Háskóla Íslands við Menntavísindasvið.
Fyrir fundinum lágu drög að reglum um Keili – Háskólabrú Háskóla Íslands sem gera m.a. ráð fyrir að Háskólabrúin flytjist til Menntavísindasviðs frá og með 1. desember 2025. Halldór gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.
Halldór vék af fundi.
Kaffihlé.
6. Starfsemisskýrsla innri endurskoðanda til háskólaráðs fyrir tímabilið janúar til september 2025 ásamt umsögn endurskoðunarnefndar.
Inn á fundinn kom Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi. Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir minnisblaði nefndarinnar um starfssemisskýrslu innri endurskoðanda fyrir tímabilið frá október 2024 til september 2025 og í kjölfarið reifaði innri endurskoðandi helstu niðurstöður starfssemisskýrslu sinnar. Málið var rætt og svaraði Sigurjón spurningum fulltrúa í háskólaráði.
7. Heimild til ráðningar prófessors á Hugvísindasviði án auglýsingar, sbr. 17. gr. laga um opinbera háskóla.
Halldór Jónsson kom aftur inn á fundinn og gerði grein fyrir framlagðri tillögu stjórnar Hugvísindasviðs um að Þórhallur Magnússon, sem nú gegnir starfi rannsóknaprófessors við fræðasviðið á grundvelli ERC-styrks, verði ráðinn í starf prófessors við Hugvísindasvið án undangenginnar auglýsingar, sbr. verklagsreglur um Sóknarsjóð Háskóla Íslands sem samþykktar voru af háskólaráði 4. september sl., 36. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 17. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.
– Samþykkt einróma.
Halldór vék af fundi.
8. Álit kærunefndar í málefnum nemenda nr. 3/2025.
Inn á fundinn kom Trausti Fannar Valsson, prófessor og formaður kærunefndar í málefnum nemenda, og gerði grein fyrir áliti nefndarinnar í máli nr. 3/2025 sem lá fyrir fundinum. Málið var rætt.
Trausti Fannar vék af fundi.
– Samþykkt samhljóða að fallast á þau rök sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 3/2025 og er niðurstaða háskólaráðs í samræmi við tillögu nefndarinnar. Andri Már Tómasson sat hjá og Viktor Pétur Finnsson greiddi atkvæði á móti.
Katrín Atladóttir vék af fundi.
9. Erindi til háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá erindi frá Gylfa Zoega prófessor, dags. 17. október sl., sem hann sendi háskólaráði í kjölfar umfjöllunar um fyrra erindi hans á síðasta fundi ráðsins 2. október sl. Málið var rætt og að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð samhljóða svohljóðandi bókun, en Ragný Þóra sat hjá:
„Háskólaráð áréttar að réttur starfsfólks Háskóla Íslands og annarra til mótmæla er skýr. Hann nær hins vegar ekki til þess að takmarka rétt starfsfólks og stofnana skólans eða annarra til að halda fyrirlestra eða fundi.
Jafnframt ítrekar háskólaráð bókun sína í fundargerð, dags. 2. október sl., þar sem samþykkt var að skipa nefnd til að meta m.a. hvort þörf sé á skýrari reglum um viðbrögð við truflunum á fundum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum innan Háskóla Íslands. Niðurstöður nefndarinnar verða lagðar fyrir háskólaráð til umfjöllunar þegar þær liggja fyrir.
Með þessu sinnir ráðið hlutverki sínu samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Háskólaráð áréttar að eftirlitshlutverk þess felur ekki í sér að rannsaka eða taka afstöðu til þess hvort einstakir starfsmenn hafi með háttsemi sinni brotið gegn landslögum eða reglum Háskóla Íslands.
Háskólaráð fer ekki með rannsókn á meintum brotum gegn almennum hegningarlögum. Telji starfsmaður að háttsemi feli í sér brot gegn 122. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða öðrum refsiákvæðum, ber viðkomandi að beina málinu til lögreglu til rannsóknar. Samkvæmt reglum Háskóla Íslands fer Siðanefnd Háskóla Íslands með umfjöllun um meint brot á siðareglum skólans. Erindum vegna meintra brota starfsmanna á siðareglum skal því beina til nefndarinnar, en ekki til háskólaráðs.
Að endingu ítrekar háskólaráð að eitt af grundvallarhlutverkum Háskóla Íslands er að vera vettvangur frjálsrar og gagnrýninnar umræðu og að mikilvægt er að ólík sjónarmið fái að heyrast innan skólans. Þetta var m.a. áréttað í sameiginlegri yfirlýsingu rektora íslenskra háskóla um akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla, sem samþykkt var 24. júní 2025.“
10. Bókfærð mál.
a. Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Breyting á reglum nr. 331/2022 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
c. Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á verklagsreglu um námsleiðir og örnám.
– Samþykkt.
11. Mál til fróðleiks.
a. Drög að dagskrá háskólaþings.
b. Yfir 200 kandídatar brautskráðir.
c. Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. október 2025.
d. Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. (Varðar útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa).
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 14.50.