Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 4. september 2025

7/2025

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2025, fimmtudaginn 4. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Silja Bára R. Ómarsdóttir, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir (á fjarfundi), Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragný Þóra Guðjohnsen og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. 

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Ólafur Pétur Pálsson frá því að hann myndi ekki taka þátt í afgreiðslu liðar dagskrárliðar 9j og Hólmfríður Garðarsdóttir sagðist ekki taka þátt í lið 9h. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Staða mála í upphafi háskólaárs 2025-2026.
Rektor fór yfir nokkur helstu mál á döfinni í Háskóla Íslands á þessu haustmisseri. Þá komu inn á fundinn Ragna Benedikta Garðarsdóttir, prófessor við Sálfræðideild og nýr aðstoðarrektor menntunar og starfsumhverfis, og Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild og nýr aðstoðarrektor vísinda og þverfræðileika. Gerðu þau grein fyrir starfssviðum sínum sem aðstoðarrektorar og áherslum í starfinu fram undan. Málið var rætt. 

Katrín Atladóttir vék af fundi. 

3.    Drög funda- og starfsáætlunar háskólaráðs fyrir starfsárið 2025-2026.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að funda- og starfsáætlun háskólaráðs starfsárið 2025-2026. Málið var rætt og beindi rektor því til fulltrúa í háskólaráði að koma tillögum og ábendingum varðandi starfsáætlunina á framfæri við ritara ráðsins. Málið kemur til afgreiðslu á næsta fundi.

4.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. 

a.    Fjármálaáætlun ríkisstjórnar 2026-2030, sbr. fund ráðsins 15. maí sl.
Rektor ræddi stöðu mála varðandi fjárlagagerð ríkisstjórnarinnar fram undan og undirbúning vinnu við gerð fjárhagsáætlunar á vettvangi Háskóla Íslands. Málið var rætt.

b.    Rekstraryfirlit janúar-júní 2025.
Jenný Bára gerði grein fyrir rekstraryfirliti Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.1.2025-30.6.2025. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum. 

Jenný Bára vék af fundi. 

c.    Staða framkvæmda- og viðhaldsverkefna, sbr. fund ráðsins 9. janúar sl.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og fór yfir stöðu framkvæmda- og viðhaldsverkefna það sem af er ári. Fram kom að helstu framkvæmda- og viðhaldsverkefni eru á áætlun. 

d.    Flutningur í Sögu, sbr. síðasta fund.
Næst gerði Kristinn grein fyrir stöðu mála varðandi flutning starfsemi Menntavísindasviðs og annarra starfseininga í Sögu. Fram kom m.a. að framkvæmdir og flutningur hafa tafist vegna umfangs verksins og öflunar tilskilinna leyfa. Málið var rætt.

e.    Innleiðing gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Loks fór Kristinn yfir stöðu innleiðingar gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands, en hún hófst 18. ágúst sl. og hefur gengið vel. Verið er að ljúka við merkingar og uppsetningu búnaðar og er ráðgert að því ljúki á næstu dögum. Málið var rætt. 

Að umræðu lokinni lagði Viktor Pétur Finnsson, fulltrúi stúdenta, fram svohljóðandi bókun: 

„Vil ég sem fulltrúi stúdenta í háskólaráði og fulltrúi Vöku árétta hér með afstöðu mína og félagsins til gjaldtöku í Háskóla Íslands. Vaka er mótfallin allri gjaldtöku sem leggst á stúdenta, líkt og bílastæðagjöldum og skrásetningargjöldum, enda teljum við slíkar álögur ganga gegn grundvallarmarkmiðum um jafnt aðgengi að námi óháð efnahag og erum kjörin til þess að gæta hagsmuna stúdenta.

Varðandi bílastæðamál höfnum við því að gjaldtaka á stúdenta sé nauðsynleg og unnt hefði verið fyrir stúdentaráðsliða að berjast gegn frá upphafi. Þá krefst Vaka þess að tryggt verði að núverandi gjöld hækki ekki í bráð og fyrirsjáanleiki verði á hækkunum. Skorum við á Háskólann að endurskoða þessa ákvörðun.“ 

Kristinn og Andri Már viku af fundi.

Kaffihlé.

5.    Málefni Fasteigna Háskóla Íslands ehf. (sjá einnig lið 10g).
Katrín Jakobsdóttir, fulltrúi í háskólaráði og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., greindi frá stöðu mála og helstu verkefnum á vettvangi félagsins. Undir þessum dagskrárlið var einnig rætt um tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Birkimelur 1 sem er í vinnslu á vettvangi Reykjavíkur, en Háskóli Íslands, Landsbókasafn Íslands – háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Félagsstofnun stúdenta sendu í byrjun júní sl. inn í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar umsögn sem leggst eindregið gegn breytingartillögunni. Málið var rætt.

6.    Meðhöndlun happdrættisfjár, sbr. síðasta fund.
Þá greindi Katrín frá stöðu mála varðandi mögulegt fyrirkomulag ráðstöfunar ágóða af rekstri Happdrættis Háskóla Íslands til Fasteigna Háskóla Íslands ehf. Málið var rætt.

Guðmundur R. vék af fundi. 

7.    Frá vísindanefnd og vísinda- og nýsköpunarsviði, sbr. fund ráðsins 5. júní sl.:
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. 

a.    Verklagsreglur um Birtingasjóð Háskóla Íslands.
Halldór gerði grein fyrir framlögðum drögum að verklagsreglum um Birtingarsjóð Háskóla Íslands. Málið var rætt.
– Samþykkt.

b.    Verklagsreglur um Sóknarsjóð Háskóla Íslands.
Næst gerði Halldór grein fyrir framlögðum drögum að verklagsreglum um Sóknarsjóð Háskóla Íslands. Málið var rætt.
– Samþykkt.

Halldór vék af fundi. 

8.    Tvö nemendamál.
Inn á fundinn kom Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors og ritari kærunefndar í málefnum nemenda.

a.    Mál nr. 1/2025.
Magnús Jökull gerði grein fyrir áliti nefndarinnar í máli nr. 1/2025 sem lá fyrir fundinum. Málið var rætt.
– Samþykkt samhljóða að háskólaráð fellst á þau rök sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 1/2025 og er niðurstaða ráðsins sú sem nefndin leggur til. Viktor Pétur Finnsson greiddi atkvæði á móti. 

b.    Mál nr. 2/2025.
Þá gerði Magnús Jökull grein fyrir áliti nefndarinnar í máli nr. 2/2025 sem lá fyrir fundinum. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma að háskólaráð fellst á þau rök sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 2/2025 og er niðurstaða ráðsins sú sem nefndin leggur til.

9.    Bókfærð mál.
a.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á reglum nr. 331/2022 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands (deildum sé heimilt að krefja umsækjendur með erlent stúdentspróf frá erlendum skólum um inntökupróf í íslensku).

– Samþykkt. 

b.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á 12. gr. reglna um meistaranám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands nr. 994/2017.
– Samþykkt. 

c.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á 27. gr. reglna um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands nr. 331/2022.
– Samþykkt. 

d.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingum á verklagsreglum um góða starfshætti við kennslu og próf í Háskóla Íslands.
– Samþykkt. 

e.    Erindisbréf aðstoðarrektors menntunar og starfsumhverfis og aðstoðarrektors vísinda og þverfræðileika.
– Samþykkt. 

f.    Nýir formenn vísindanefndar og kennslumálanefndar háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt. Nýr formaður vísindanefndar er Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, aðstoðarrektor vísinda og þverfræðileika, og nýr formaður Kennslumálanefndar er Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarrektor menntunar og starfsumhverfis. Skipunartími vísindanefndar er til 30. júní 2026 og skipunartími kennslumálanefndar er til 30. júní 2027.

g.    Nýr formaður framgangs- og fastráðningarnefndar.
– Samþykkt. Nýr formaður framgangs- og fastráðningarnefndar er Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarektor menntunar og starfsumhverfis. Skipunartími nefndarinnar er til 30. júní 2026.

h.    Stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta í Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Hugvísindasvið. Skipunartíminn er til 31. ágúst 2028.

Hólmfríður Garðarsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu þessa dagskrárliðar. 

i.    Nýr formaður heiðursdoktorsnefndar.
– Samþykkt. Nýr formaður heiðursdoktorsnefndar er Már Jónsson, prófessor við Deild sagnfræði, heimspeki og fornleifafræði. Aðrir í nefndinni eru Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor (varamaður N.N.), Helgi Gunnlaugsson, prófessor (varamaður: Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor), Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor (varamaður: Sigurður J. Grétarsson, prófessor emeritus), Oddný Sverrisdóttir, prófessor (varamaður: Torfi H. Tulinius, prófessor) og Sigurður Brynjólfsson, prófessor (varamaður: Ebba Þóra Hvannberg, prófessor). Skipunartími nefndarinnar er til 31. desember 2027.  

j.    Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs.
– Samþykkt. Nýr formaður stjórnar Afreks- og hvatningarsjóðs er Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarrektor menntunar og starfsumhverfis. Aðrir í stjórninni eru Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og Brynja Þorgeirsdóttir, lektor. Skipunartími stjórnarinnar er til 30. júní 2026.

Ólafur Pétur Pálsson tók ekki þátt í afgreiðslu þessa dagskrárliðar. 

10.    Mál til fróðleiks.
a.    Ávörp Jóns Atla Benediktssonar, fráfarandi rektors, og Silju Báru R. Ómarsdóttur, nýs rektors, við rektorsskiptaathöfn í Hátíðasal 30. júní 2025.
b.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. júní og dags. 28. ágúst 2025.
c.    Yfirlýsing rektora íslensku háskólanna um akademískt frelsi.
d.    Skipan skipulagsnefndar háskólasvæðisins.
e.    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
f.    Dagatal Háskóla Íslands 2025-2026.
g.    Ársreikningur Fasteigna Háskóla Íslands ehf. 2024.
h.    Stjórn Styrktarsjóðs Selmu og Kays Langvad.
i.    Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3627/2024 (vatnstjónsmálið)

j.    Umsögn Háskóla Íslands um Áform um atvinnustefnu Íslands til 2035. 
 

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.