Gjaldskylda hefst á bílastæðum Háskóla Íslands 18. ágúst

Háskóli Íslands tekur fyrsta skrefið til að bæta umferð og umhverfi á háskólasvæðinu með því að innleiða gjaldtöku fyrir bílastæði. Þessi breyting tekur gildi 18. ágúst nk. Fyrstu vikuna gefst starfsfólki og nemendum tækifæri til að kynna sér nýtt fyrirkomulag á bílastæðum háskólans og skrá sig í áskrift án þess að eiga á hættu að fá sekt.
Bílastæðum verður skipt í tvo flokka:
- H1: Skammtímastæði. Þau verða merkt sérstaklega og eru næst helstu byggingum. Stæðin eru gjaldskyld fyrir alla samkvæmt gjaldskrá og eru ekki langtímastæði með mánaðaráskrift.
- H2: Langtímastæði. Starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands geta gerst áskrifendur og nýtt þessi stæði sem langtímastæði með mánaðaráskrift. Aðrir greiða tímagjald samkvæmt gjaldskrá.
Handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða verður eftir sem áður heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu skv. gildandi umferðarlögum.
Gjaldskrá á bílastæðum
Bílastæði við Háskóla Íslands eru ætluð nemendum, starfsfólki og gestum. Stæðin eru annað hvort í áskrift fyrir starfsfólk og nemendur eða í boði fyrir alla gegn tímagjaldi.
H1 og H2: Tímagjald
- Gjaldskylda er alla virka daga frá kl 07:00-17:00
- Gildir á svæði H1 og H2
- Verð er 230 kr/klst
- Ef ekki er greitt fær eigandi bíls rukkun í heimabanka skv. tímagjaldi auk 2.500 kr þjónustugjalds.
H2: Áskriftarleið
- Nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands geta skráð sig í áskrift að langtímastæðum H2 gegn mánaðarlegu gjaldi í Parka appinu
- Verð er 1.500 kr. á mánuði
- Hver einstaklingur getur skráð tvo bíla, en aðeins verður hægt að leggja einum bíl í einu (eða þeim sem fyrr er lagt) á þessum kjörum. Verði báðum bílum lagt á sama tímabili gildir tímagjald fyrir þann sem seinna kemur.
- Áskrift endurnýjast sjálfkrafa mánaðarlega frá skráningardegi.
- Athugið að áskrift tryggir ekki að laus bílastæði verði í boði heldur veitir rétt til að leggja á skilgreindum áskriftarsvæðum (H2) þegar stæði eru laus.
Parka lausnir ehf. annast þjónustu við rekstur og gjaldtöku fyrir bílastæðin.
Nánari upplýsingar um gjaldtöku fyrir bílastæði og leiðbeiningar fyrir áskrift í Parka appinu er að finna á upplýsingasíðu HÍ um bílastæði.
Á kortinu sjást gjaldskyld bílastæði á háskólasvæðinu. Rauðmerktu stæðin eru skammtímastæði (H1). Blámerktu stæðin eru langtímastæði (H2)

HÍ verði leiðandi á sviði sjálfbærni og umhverfismála
Í stefnu Háskóla Íslands er lögð áhersla á að skólinn sé leiðandi á sviði sjálfbærni- og umhverfismála. HÍ er einn stærsti vinnustaður landsins og því í góðri stöðu til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið hvað þetta varðar. Liður í sjálfbærnistefnu skólans er innleiðing á gjaldtöku fyrir bílastæði en breytingin tekur gildi 18. ágúst næstkomandi eins og áður sagði. Þessari breytingu er ætlað að bæta umferð og umhverfi á háskólasvæðinu og er gjaldtöku stillt í hóf.
Endurbættur samgöngusamningur fyrir starfsfólk HÍ
Samhliða þessum breytingum hefur Háskóli Íslands gert samning við Strætó um sérkjör á tímabilskortum í Strætó fyrir starfsfólk. Þetta leiðir til breytinga á fyrirkomulagi samgöngusamninga starfsmanna, sem hafa undirritað ráðningarsamning við HÍ og eru í að a.m.k. 20% starfshlutfalli.

