Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, fráfarandi rektors Háskóla Íslands, við rektorsskipti

Forseti Íslands, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrrverandi forsetar, fyrrverandi ráðherrar, fyrrverandi rektorar, fyrrverandi borgarstjórar, samstarfsfólk, góðir gestir.
Kæru gestir, nú þegar ég læt af störfum sem rektor Háskóla Íslands, og afhendi verðandi rektor rektorsfestina, tákn embættisins, er mér þakklæti efst í huga. Ég vil byrja á að þakka traustið, stuðninginn og samstarfsviljann sem starfsfólk skólans hefur sýnt mér síðan mér var falið að leiða Háskóla Íslands fyrir réttum tíu árum. Og ég vil nota tækifærið og þakka öllum stúdentum skólans samfylgdina en um þrjátíu og tvö þúsund þeirra hafa útskrifast á minni vakt.
Að öðrum ólöstuðum á rektor Háskóla Íslands í nánustu samstarfi við forseta fræðasviðanna fimm, framkvæmdastjóra, aðstoðarrektora, sviðsstjóra í miðlægri stjórnsýslu og starfsfólk rektorsskrifstofu. Vil ég þakka þeim öllum fyrir gott og gjöfult samstarf í þágu skólans. Þá vil ég einnig sérstaklega þakka fulltrúum í háskólaráði sem og forystu Stúdentaráðs. Með samvinnu og samheldni hefur okkur tekist að mæta stórum áskorunum á síðustu tíu árum og sækja fram á flestum sviðum.
Góðir gestir. Saga Háskóla Íslands hefur verið samfelld sigurganga frá stofnun skólans árið 1911. Frá fyrstu tíð hefur það verið köllun okkar og frumskylda að ganga til góðs í þágu íslensks samfélags og íslenskrar þjóðar. Framtíðarstefnurnar tvær sem við mótuðum á síðastliðnum áratug bera þessari áherslu skýrt vitni. Sú fyrri bar titilinn Öflugur Háskóli – farsælt samfélag og sú síðari Betri Háskóli – betra samfélag.
Í stefnumörkun okkar höfum við lagt ríka áherslu á akademískt frelsi, fagmennsku og jafnrétti. Og við höfum undirstrikað það mikilvæga hlutverk okkar að hleypa alþjóðlegum straumum þekkingar og mannvits inn í landið, öllum til heilla. Í þeirri viðleitni höfum við náð markverðum árangri.
Á fyrsta fjórðungi 21. aldar hefur Háskóli Íslands þróast úr traustum og skilvirkum grunnnámsskóla í öflugan alhliða alþjóðlegan rannsóknaháskóla. Sem dæmi um þessa breytingu má nefna að um síðustu aldarmót voru árlegar birtingar vísindafólks Háskóla Íslands í ritrýndum alþjóðlegum vísindatímaritum um 200 talsins, en eru nú um 1.600 á ári. Á sama tíma hafa doktorsbrautskráningar á ári yfir 20 faldast og eru nú að jafnaði um 80 á ári. Þá hefur árleg upphæð rannsóknastyrkja í krónutölu þrefaldast á síðastliðnum tíu árum. Þennan árangur má rekja til markvissrar stefnu um að efla rannsóknanámið og stórauka sókn í innlenda og erlenda rannsóknarsjóði. Gott alþjóðlegt orðspor Háskóla Íslands eykur verðmæti prófgráða skólans og laðar að starfsfólk og nemendur.
Nemendum með erlent ríkisfang hefur fjölgað jafnt og þétt við Háskólann og eru þeir nú um 2.400 talsins en voru um 650 um síðustu aldarmót. Alþjóðlegt samstarf hefur vaxið hratt. Við getum verið stolt af þeim fjölmörgu samstarfssamningum sem við höfum náð við marga af fremstu háskólum heims. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna samning um stúdentaskipti við Háskólann í Kaliforníu fyrir allt að tólf nemendur á misseri sem undirritaður var árið 2019. Stærsta skrefið í alþjóðastarfi Háskólans á síðustu árum er þó Aurora, samstarfsnet 9 evrópskra rannsóknaháskóla, sem Háskóli Íslands var stofnaðili að árið 2016. Fjórum árum síðar var Aurora valið sem eitt af fyrstu stóru evrópsku háskólanetunum en þau eru flaggskip Evrópusambandsins á sviði háskólanáms. Sem rektor Háskóla Íslands leiddi ég Aurora í fjögur ár frá 2020. Er þetta til marks um það mikla traust sem Háskólinn nýtur á alþjóðlegum vettvangi, en HÍ er minnsti háskólinn í Aurora. Á sama hátt var Háskóla Íslands falið að leiða Norrænu háskólasamtökin, NUS, á árunum 2022 og 2023, en það var í fyrsta skipti sem Íslandi var falin formennska á þeim vettvangi. Vil ég sérstaklega þakka okkar erlendu samstarfsaðilum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt okkur í Háskóla Íslands. Mér er ekki síður ofarlega í huga þakklæti til rektora innlendu háskólanna fyrir frjótt samstarf í tveimur háskólasamtökum okkar sem mér var falið að leiða undanfarinn áratug, en á síðasta fundi okkar samþykktum við einróma ályktun um grundvallarmikilvægi akademísks frelsis og sjálfstæði stofnana fyrir framgang þekkingar, eflingu lýðræðis og þróun samfélaga.
Af stórum framfarasporum í kennsluháttum við Háskóla Íslands má m.a. nefna frumkvæðið að stofnun Kennsluakademíu opinberu háskólanna, innleiðingu nýs námsumsjónarkerfis og rafræns prófakerfis. Síðasttöldu átaksverkefnin skiptu sköpum þegar okkur tókst að flytja starfsemi skólans yfir á netið á undraskömmum tíma vorið 2020 þegar kóvid faraldurinn geisaði. Þá nutum við þess einnig að hafa stofnað hágæða myndver - fyrir upptökur og streymi, í Setbergi – húsi kennslunnar sem stjórnvöld færðu Háskólanum árið 2018. Á sama ári tókum við ákvörðun um að stofna sérstakt upplýsingatæknisvið og var með því mikilli upplýsingatæknibyltingu hrundið af stað innan Háskólans og stendur hún enn.
Við sjáum líka raunverulegan árangur af því að hafa eflt samstarf við íslenskt atvinnu- og þjóðlíf á undanförnum árum. Samkvæmt nýlegri alþjóðlegri könnun er vísindafólk við Háskóla Íslands nú tvöfalt líklegra til að birta ritrýndar vísindagreinar með fyrirtækjum í atvinnulífinu en almennt gerist í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá hefur uppbygging Vísindagarða Háskólans verið hröð og nýsköpunar- og frumkvöðlastarf í Háskóla Íslands hefur aldrei verið blómlegra en nú. Sprotafyrirtækjum okkar hefur fjölgað jafnt og þétt og fjöldi einkaleyfa margfaldast.
Sömu sögu er að segja af viðleitni okkar við að efla starfsemi Háskóla Íslands á landsbyggðinni. Blómlegum rannsóknasetrum okkar þar hefur fjölgað um 50% á sl. áratug, úr átta í tólf og verður hið þrettánda opnað á næstunni á Eskifirði. Þá verður frá komandi hausti boðið upp á staðbundið háskólanám á Hallormsstað og verður það hið fyrsta sinnar tegundar á Austurlandi. Í þessu sambandi má líka geta þess að á næsta háskólaári verða 102 námsleiðir í boði í fjarnámi við Háskóla íslands.
Sameining Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum í háskólasamstæðu mun styrkja samstarf okkar við landsbyggðina enn frekar. Og ég vænti þess að háskólasamstæðan muni eflast á komandi árum með fleiri háskólum og rannsóknarstofnunum. Þá höfum við einnig kostað kapps um að eiga gott samstarf við grunn- og framhaldsskóla um allt land.
Góðir gestir, ásýnd og innviðir Háskólans hafa tekið stakkaskiptum á umliðnum áratug, m.a. í kjölfar ákvarðana sem fyrri stjórnendur skólans tóku á sínum tíma af mikilli framsýni. Það munar um minna en stúdentagarðana við Oddagötu, tungumála- og menningarsetrið Veröld – hús Vigdísar, íslenskuhúsið Eddu, Vísindagarðana okkar í Vatnsmýrinni, viðbyggingar við Gamla-Garð og nú síðast sjálfa Sögu, auk þess sem hafin er af fullum krafti bygging nýs Heilbrigðisvísindahúss í grennd við okkar mikilvæga samstarfsaðila Landspítalann. Ég vil líka nota tækifærið og þakka stjórnendum og starfsfólki Happdrættis Háskóla Íslands fyrir að hjálpa okkur að gera þessar byggingar að áþreifanlegum veruleika. Ég vil enn fremur þakka framkvæmdastjóra Háskólans, Guðmundi R. Jónssyni, fyrir hans mikilvæga þátt í að skapa fræðasviðum skólans framúrskarandi starfsskilyrði, ekki síst með þrotlausri vinnu við að koma því til leiðar að Saga varð hluti af Háskóla Íslands. Þá samþykktu Háskólinn og Reykjavíkurborg nýverið þróunaráætlun fyrir framtíð háskólasvæðisins eftir rúmlega hálfs áratugs undirbúning. Vil ég þakka borgarstjórum, borgarfulltrúum og starfsfólki borgarinnar innilega fyrir samstarfið. Ég er sannfærður um að innleiðing þróunaráætlunarinnar á næstu árum muni stuðla að enn fallegra, mannlegra og umhverfisvænna háskólasvæði og efla Reykjavík sem háskólaborg.
Í störfum mínum sem rektor hef ég jafnan fundið hversu mikils trausts Háskóli Íslands nýtur hvarvetna. Þetta traust, sem ítrekað hefur verið staðfest í árlegum viðhorfskönnunum, er fjöregg okkar. Stjórnendur stærstu menntastofnunar landsins, sem er í eigu þjóðarinnar, ná vitaskuld ekki árangri nema þeir eigi í virku samtali og samstarfi við innlend stjórnvöld og stjórnmálamenn.
Ég vil sérstaklega þakka ríkisstjórn Íslands og Alþingi fyrir þeirra stuðning við Háskóla Íslands, m.a. fyrir að stofna sérstakt félag, Fasteignir Háskóla Íslands, um húseignir okkar og félagið Sprota fyrir eignasafn okkar í sprotafélögum. Án stuðnings stjórnvalda hefði okkur vitaskuld ekki tekist að eignast Sögu og laga þessa risavöxnu byggingu að þörfum háskólasamfélagsins með flutningi Menntavísindasviðs á háskólalóðina fyrir augum. Gott samstarf við stjórnvöld hefur einnig birst í mörgum öðrum stórum og smáum verkefnum, og má þar nefna átak í geðheilbrigðismálum nemenda, innleiðingu rafrænna rannsóknarinnviða, að ónefndum ótal samstarfsverkefnum stjórnvalda og einstakra fræðasviða skólans.
Góðir gestir. Allir rektorar Háskóla Íslands hafa þurft að takast á við margvíslegar og flóknar áskoranir. Þá skiptir miklu máli að fá trausta ráðgjöf. Í rektorstíð minni hef ég iðulega getað leitað til kennara og sérfræðinga Lagadeildar og Lagastofnunnar þegar þurft hefur að bregðast við flóknum lögfræðilegum úrlausnarefnum. Hafa þau ætíð tekið málaleitan minni vel og lagt af mörkum dýrmætan skerf til að standa vörð um gott orðspor Háskóla Íslands. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega.
Þegar ég tók við keflinu af Kristínu Ingólfsdóttur fyrir réttum tíu árum lagði ég sérstaka áherslu á að Háskóli Íslands sé alhliða rannsóknarháskóli þar sem lögð er rækt við akademískt frelsi, gagnrýna hugsun og jafnrétti. Aðeins með því að standa vörð um þessi grunngildi getur Háskóli Íslands varðveitt sérstöðu sína og verið grunnstoð íslensks samfélags jafnframt því að vera sú stofnun sem ræður hvað mestu um sjálfsmynd þjóðarinnar og stöðu hennar í alþjóðasamfélaginu. Þar hafa rannsóknir á sögu okkar, tungu, siðum, lögum, menningu og samfélagi skipt sköpum.
Ég vil óska verðandi rektor, Silju Báru Ómarsdóttur, velfarnaðar í öllum hennar mikilvægu störfum á komandi árum. Silja hefur setið í háskólaráði undanfarin ár og þar hef ég haft náin og góð kynni af störfum hennar. Hún hefur lagt ríka áherslu á fjölbreytta og nemendamiðaða kennsluhætti og er dáður kennari og virtur rannsakandi á sínu sviði. Silja Bára hefur verið skeleggur talsmaður þess að efla Háskólann sem samfélag nemenda og kennara. Þar mun víðtæk reynsla hennar af félagsstörfum innan og utan skólans nýtast henni vel. Ég veit að hún brennur fyrir því að efla háskólastarfið, bæta aðstæður starfsfólks, og tryggja að Háskóli Íslands verði áfram alhliða rannsóknaháskóli sem veitir fjölbreytilegum hópi nemenda fyrsta flokks aðstöðu til að rækta hæfileika sína og starfshæfni.
Að lokum við ég þakka eiginkonu minni, Stefaníu Óskarsdóttur, og fjölskyldu minni fyrir allan þeirra stuðning í tíu ára rektorstíð minni. Stefanía hefur verið mér ómetanlegur bakhjarl í stóru sem smáu og ætíð hvatt mig áfram til góðra verka. Mig langar að hafa það sem mitt síðasta verk sem rektor að vekja athygli á framlagi minna traustustu bakhjarla. Þeirra stuðningur verður seint fullþakkaður.
Góðir gestir, ég endurtek þakkir mínar til allra þeirra sem starfað hafa með mér undanfarin tíu ár, óska Silju Báru farsældar og hvet samstarfsfólk og stúdenta til að standa þétt að baki nýjum rektor á komandi árum.
