3/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2021, fimmtudaginn 4. mars var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Ólafur Pétur greindi frá því að hann myndi ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 7c. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a. Fjárveitingabréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 15. febrúar 2021.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu fjárveitingabréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 15. febrúar 2021, sbr. lög um opinber fjármál nr. 123/2015.
b. Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, prófessor, og lögmennirnir Einar Þór Sverrisson og Jón Örn Árnason. Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning stofnunar félags um fasteignir Háskóla Íslands. Farið var yfir framlagða samantekt um framvindu málsins, ásamt drögum að stofnsamningi einkahlutafélags og samþykktum fyrir félagið. Málið var rætt og spurningum svarað.
– Samþykkt að fela rektor að undirbúa stofnun félagsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Einar Þór og Jón Örn viku af fundi.
c. Hótel Saga.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu. Rektor, Guðmundur og Daði Már gerðu grein fyrir viðræðum sem átt hafa sér stað um möguleg afnot Háskóla Íslands af Hótel Sögu. Málið var rætt og svöruðu rektor, Guðmundur og Daði Már spurningum ráðsmanna.
Daði Már vék af fundi.
d. Skrásetningargjald, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um skrásetningargjald og var það rætt. Rektor, Guðmundur og Þórður svöruðu spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Að lokinni umræðu óskuðu fulltrúar nemenda eftir að eftirfarandi yrði bókað í fundargerð:
„Háskólaráðsfulltrúar stúdenta óskuðu eftir því að umræða um skrásetningargjöld við Háskóla Íslands yrði tekin á starfsárinu og málinu bætt við í starfsáætlun háskólaráðs. Þótti okkur eðlilegt að gera svo í ljósi þess að það snertir alla stúdenta með beinum hætti árlega. Vísuðum við til þess að fordæmi væri fyrir því að fela rektor að taka þetta mál upp við rektora annarra opinberra háskóla sem og mennta- og menningarmálaráðherra og hvöttum við til þess að það yrði gert að nýju með það að markmiði að lækka eða afnema gjaldið.
Það er einkum eftirfarandi sem við teljum vert að beina sjónum að í minnisblaðinu. Ljóst er að það sé matskennt hvað fellur undir skrásetningargjald og er það í minnisblaðinu túlkað vítt sbr. m.a. „stendur undir hluta kostnaðar“ og „tekur að stærstum hluta mið af þeirri upptalningu“. Þegar opinber gjöld eru lögð á, sem eru íþyngjandi fyrir þá sem þau greiða, skal ávallt beita þrengjandi skýringu og túlka vafa greiðandanum í hag. Þar af leiðandi ætti til dæmis kennsla skv. a-lið 2. mgr 24. gr laga um opinbera háskóla, ekki að vera túlkuð þannig að hún nái eingöngu til þess að vera sá tími sem kennari stendur fyrir framan nemendur, eða „formlegar kennslustundir“ líkt og minnisblaðið orðar það. Í því samhengi veltum við upp hvort að prófahald hljóti ekki að vera partur af kennslu, enda er námsmat óaðskiljanlegur hluti hennar og þreyting lokaprófs til að ljúka námskeiði oft geðþóttaákvörðun kennara um hvers konar námsmat skuli fara fram, ekki nýta allir sér slíkt námsmat. Þegar upptalning í dæmaskyni kemur fram í lögum hafa stjórnvöld vissulega svigrúm til að meta hvað falli þar undir hverju sinni. Engu að síður verður að hafa í huga að um gjaldtöku er að ræða sem er íþyngjandi fyrir þann sem gjaldið greiðir og því ætti að beita þrengjandi túlkun.
Jafnframt teljum við undirorpið vafa, svo dæmi sé tekið, að undir gjaldtökuheimild háskólans falli kostnaður við rekstur á tölvum og prenturum þar sem það er seint talin starfsemi sem fellur undir skrásetningu stúdenta við skólann, heldur almennur rekstrarkostnaður sem ekki rúmast fyrir í gjaldtökuheimild háskólans skv. a-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla.
Þá setjum við spurningamerki við það að gefið sé í skyn, m.a. með framreiknuðum útreikningum, að skrásetningargjald þurfi í eðli sínu að standa straum af öllum þeim kostnaði sem undir það fellur. Raunin er sú að lög kveða á um að gjaldið skuli að hámarki vera 75.000 kr., sem þýðir að gjaldið megi vera lægra. Háskóli Íslands er stærsta menntastofnun landsins og sem slík ætti hún að vera fordæmisgefandi í stuðningi við stúdenta og vinna að því að jafna aðgengi að menntun. Þannig setji háskólinn enn frekari þrýsting á stjórnvöld um að standa við gefin loforð um trygg fjárframlög til háskólastigsins, líkt og háskólaráð ályktaði á fundi sínum 6. febrúar 2020. Auk þess ætti Háskóli Íslands að stefna að því að gera opinbera háskólamenntun hérlendis samkeppnishæfa opinberri háskólamenntun á Norðurlöndunum, þar sem skrásetningargjöld eru í miklum mun lægri.
Þykir okkur eðlilegt vinnulag að umræða um skrásetningargjaldið sé tekið fyrir árlega, áður en farið er fram á að stúdentar inni það af hendi, til að ganga úr skugga um réttmæti þeirra og hvort kostnaðarliðir hafi breyst frá árinu á undan.
Að öllu framangreindu bóka undirritaðar að þær telja líkur standa til að farið sé of frjálslega með orðið „skrásetning“ auk þess að „kennsla“ sé skýrð of þröngt. Tilefni er til að endurskoða þessa þætti um leið og tekin er fyrir beiðni háskólaráðsfulltrúa stúdenta um að fela rektor að taka málið upp við rektora annarra opinberra háskóla sem og mennta- og menningarmálaráðherra í þeim tilgangi að lækka eða afnema gjaldið. Slíkt er stúdentum og íslensku samfélagi til bóta.
Isabel Alejandra Diaz
Jessý Jónsdóttir“
Rektor bar upp svohljóðandi tillögu að bókun:
„Fyrir liggur að skrásetningargjald Háskóla Íslands og annarra opinberra háskóla stendur undir kostnaði við ýmsa þjónustu sem stúdentum er veitt og ekki telst til kennslu eða rannsóknastarfsemi. Ef kosta á þessa þjónustu með öðrum hætti er það á valdi Alþingis að ákveða það.“
– Samþykkt samhljóða, en fulltrúar nemenda sátu hjá.
3. Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði ásamt Birni Atla grein fyrir stöðu mála varðandi mat á orsökum og umfangi tjóns í byggingum og á lóð Háskóla Íslands í kjölfar vatnsflóðs aðfararnótt 21. janúar sl., þ.m.t. mögulegum kostnaði og grófri tímaáætlun viðgerða. Fram kom að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur skipað matsmenn til að leggja mat á tjónið og ábyrgð einstakra aðila. Málið var rætt og svöruðu Kristinn og Björn Atli spurningum. Af hálfu Háskóla Íslands er lagt kapp á að fá botn í málið sem fyrst svo unnt verði að ráðast í endurbætur og viðgerðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja megi eðlilegt skólastarf.
Kristinn og Björn Atli viku af fundi.
4. Frumdrög nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 (HÍ26), sbr. starfsáætlun háskólaráðs og fundi ráðsins 5. nóvember og 3. desember sl. Staða mála.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og formaður stýrihóps stefnumótunar Háskóla Íslands, og Andrea G. Dofradóttir, verkefnisstjóri stefnuinnleiðingar. Rektor og Steinunn gerðu grein fyrir áhersluatriðum í fyrirliggjandi frumdrögum að nýrri heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026. Málið var rætt ítarlega. Sem fyrr verður haft náið samráð innan og utan Háskólans um mótun stefnunnar og ráðgert er að endanleg stefna ásamt áætlun um innleiðingu hennar og eftirfylgni verði síðar á þessu vormisseri lögð fyrir háskólaþing og háskólaráð til umræðu og afgreiðslu.
Steinunn og Andrea viku af fundi.
5. Niðurstöður nýrrar starfsumhverfiskönnunar Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Helgi Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs og Jónína Helga Ólafsdóttir, verkefnisstjóri á mannauðssviði. Helgi gerði grein fyrir helstu niðurstöðum nýrrar starfsumhverfiskönnunar sem lögð var fyrir í desember og janúar sl. Málið var rætt. Fram kom m.a. að flestir þættir sem könnunin tekur til hafa þróast með jákvæðum hætti, en jafnframt bent á atriði sem betur mega fara.
Helgi, Ragnhildur og Jónína Helga viku af fundi.
6. Upplýsingatæknimál við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og fór ítarlega yfir upplýsingatæknimál Háskóla Íslands í nútíð og framtíð. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
7. Bókfærð mál.
a. Frá stjórnsýslu Háskóla Íslands: Tillaga að breytingu á reglum um Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands, nr. 549/2010.
– Samþykkt.
b. Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Sjúkrahússins á Akureyri um kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum.
– Samþykkt.
c. Tilnefningarnefnd fyrir stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt. Tilnefningarnefndin er skipuð Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda, formaður, Ólafi Pétri Pálssyni, prófessor og fulltrúa í háskólaráði, og Magnúsi Þór Torfasyni, dósent.
d. Viðauki, dags. 22. febrúar 2021, með samstarfssamningi Háskóla Íslands og Landspítala, dags. 13. desember 2018.
– Samþykkt.
e. Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingum á reglum um val nemenda til náms í tannlæknisfræði og tannsmíði við Tannlæknadeild Háskóla Íslands nr. 155/2011.
– Samþykkt.
f. Erindi frá Hagfræðideild vegna stjórnar Hagfræðistofnunar.
– Samþykkt.
8. Mál til fróðleiks.
a. Vinnuhópur um stundakennslu, ásamt erindisbréfi, sbr. síðasta fund.
b. Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur, nýr fulltrúi í stjórn.
c. Framgangs- og fastráðningarnefnd, sbr. 6. gr. reglna um framgang, sjá https://www.hi.is/haskolinn/reglur_nr_1300_2020
d. Kveðja rektors við brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands 20. febrúar sl.
e. Úthlutun nýdoktorastyrkja 2021.
f. Nýtt umhverfi Matskerfis opinberra háskóla, sbr. meðfylgjandi samning, ásamt skipunarbréfi stjórnar matskerfisins. Tengist starfsáætlun háskólaráðs.
g. Skipan heiðursdoktorsnefndar.
h. Fréttabréf Háskólavina, dags. 25. febrúar 2021.
i. Upplýsingafundur rektors 25. febrúar 2021.
j. Stafræni háskóladagurinn 27. febrúar 2021.
k. Samfélagsverkefnastyrkir – úthlutun 2021.
l. Skýrsla Samtaka evrópskra háskóla (EUA): Universities without walls. A vision for 2030.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.