4/2024
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2024, fimmtudaginn 4. apríl var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur K. Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Vilborgu Einarsdóttur), Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir (á fjarfundi), og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi).
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Rektor óskaði eftir því að að Oddur Hafsteinsson, upplýsingaöryggisstjóri Háskóla Íslands, og Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, komi inn á fundinn til að gera grein fyrir dagskrárlið 6d og var það samþykkt. Oddur gerði stuttlega grein fyrir framlagðri tillögu að verklagsreglum um net-, tölvupóst- og snjalltækjanotkun starfsfólks Háskóla Íslands. Málið var rætt stuttlega og svöruðu Oddur og Magnús spurningum. Rektor gerði síðan tillögu um að liðnum yrði frestað og var það samþykkt. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur.
Oddur og Magnús Jökull viku af fundi.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs.
a. Kjaramál. Staða samninga.
Ragnhildur gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning kjarasamninga stéttarfélaga starfsfólks Háskóla Íslands, en fyrri kjarasamningar runnu út 31. mars sl. Málið var rætt og svaraði Ragnhildur spurningum.
b. Nýtt fyrirkomulag vegna fæðisfjár og matarmiða.
Guðmundur skýrði framlagða tillögu um nýtt fyrirkomulag vegna veitingareksturs á svæði Háskóla Íslands, þ.m.t. breyting á fæðisfé og matarmiðum. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
Ragnhildur og Guðmundur viku af fundi.
3. Skipun nefndar um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði að þessu sinni skipuð þeim Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Katrínu Atladóttur, fulltrúa tilnefndum af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þorvaldi Ingvarssyni, fulltrúa völdum af háskólaráði, og Katrínu Björku Kristjánsdóttur, fulltrúa nemenda. Nefndin mun leggja fram greinargerð sína á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.
4. Skrásetningargjald, sbr. fund ráðsins 7. desember sl. Endurupptaka fyrri ákvörðunar.
Inn á fundinn komu Ari Karlsson, lögmaður, og Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Fyrir fundinum lágu drög að úrskurði háskólaráðs vegna erindis nemanda, upphaflega dags. 25. ágúst 2021, um það hvort álagt skrásetningargjald, sem hún greiddi Háskóla Íslands vegna háskólaársins 2021-2022, væri réttmætt og rúmaðist innan laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema nr. 4/2022. Ari og Magnús Jökull gerðu grein fyrir drögunum að úrskurði háskólaráðs. Mállið var rætt og svöruðu Ari og Magnús Jökull spurningum fulltrúa í háskólaráði. Niðurstaða í drögunum er að erindinu skuli hafnað.
Að lokinni umræðu samþykkti háskólaráð eftirfarandi úrskurð, en fulltrúar nemenda greiddu atkvæði á móti.
„Úrskurðarorð: Beiðni [nemanda] um endurgreiðslu þess hluta skrásetningargjalds fyrir skólaárið 2021-2022 sem fellur undir b-lið 1. tölul., 6. tölul., a- og b-liði 8. tölul., b-lið 9. tölul., og 10. tölul. viðauka B við reglur nr. 244/2014 um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl., og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds, er hafnað.“
Fulltrúar nemenda lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Fulltrúar stúdenta ítreka áfram fyrri bókanir sínar um málið, meðal annars frá fundum ráðsins í nóvember og desember 2023 auk desember 2022. Eftir fimm mánaða bið liggja nú fyrir ráðinu drög að úrskurði háskólaráðs um erindi nemanda um endurgreiðslu skrásetningargjaldsins. Það er áfram afstaða fulltrúa stúdenta að gögn sem nú hefur verið aflað og útreikningar sem nú hafa verið reiknaðir, áttu að vera til staðar í upphafi málsins og eiga að vera til staðar áður en gjaldið er tekið ár hvert. Niðurstaða kærunefndarinnar hafi verið skýr, að ákveðnir liðir skrásetningargjaldsins uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru til álagningar þjónustugjalda. Háskólaráð hafi því ekki valdheimildir til þess að snúa niðurstöðu nefndarinnar, enda er hún fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Fulltrúar stúdenta spyrja því hvort háskólaráð telur sig nú með þessum drögum, hafa forsendur til að snúa fullnaðarúrskurði nefndarinnar og að innheimta skrásetningargjaldsins brjóti þar með ekki gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins lengur?
Skrásetningargjaldið, í þeirri mynd sem við þekkjum það, tíðkast ekki á Norðurlöndunum. Það er því ljóst að skrásetningargjaldið hérlendis brúar það bil sem stjórnvöld hérlendis sjá sér ekki fært að fjármagna. Með öðrum orðum er gjaldið viðbrögð skólans við vanfjármögnun opinberra háskóla á Íslandi, skólinn telur sig ekki hafa annarra kosta völ en að varpa þeirri fjárhæð yfir á stúdenta. Mikilvægt er að líta til þess, þegar skrásetningargjaldið er til umræðu, að fjárhagsstaða stúdenta hérlendis er slæm. 75.000 kr. eru 46% af mánaðarlegri grunnframfærslu frá Menntasjóði námsmanna. Menntasjóðurinn lánar ekki sérstaklega fyrir skrásetningargjaldinu.
Í úrskurðinum er fjallað um að skrásetningargjaldið ætti að vera rúmar 118.000 kr. til að standa straum af raunverulegum kostnaði af veittri þjónustu, miðað við gefnar forsendur. Við setjum spurningamerki við að opinber háskólamenntun á Íslandi sé svo dýr, andstætt þeirri þróun sem sést á Norðurlöndunum, sem við viljum bera okkur saman við.
Að lokum gagnrýna fulltrúar stúdenta sérstaklega að mikilvægir útreikningar og gögn sem skrásetningargjaldið á að vera byggt á, hafi „af ókunnum ástæðum [...] ekki verið varðveitt í skjalasafni Háskóla Íslands“. Það er mikilvægt að fullyrðingar sem hér eru settar fram séu byggðar á rökum, ef standa skal vörð um trúverðugleika og traust til Háskólans.
Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir
Katrín Björk Kristjánsdóttir“
Ari og Magnús Jökull viku af fundi.
Kaffihlé.
5. Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26. Staða mála.
Inn á fundinn komu Ástríður Elín Jónsdóttir, verkefnisstjóri stefnu- og gæðamála, Sæunn Stefánsdóttir, þróunarstjóri, og Katrín Regína Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri (á fjarfundi). Ástríður gerði grein fyrir skilagrein og samantekt um innleiðingu stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26, og Sæunn greindi frá stöðu mála og áformum varðandi skipulega innleiðingu notendamiðaðrar þjónustu. Málið var rætt og svöruðu Ástríður, Katrín og Sæunn spurningum.
6. Bókfærð mál.
a. Tillaga tilnefninganefndar um fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. síðasta fund.
– Samþykkt. Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. verður kjörin á aðalfundi 15. apríl nk. Tilnefnd sem fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn félagsins eru Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, sem verði formaður, Arna Hauksdóttir, prófessor og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, Linda Jónsdóttir, stjórnarformaður Íslandsbanka, og Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeris ehf. og stjórnarformaður í Samtökum sprotafyrirtækja. Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, er tilnefnd sem fyrsti varamaður og Stefán Þór Helgason, sérfræðingur hjá Ríkiskaupum, er tilnefndur sem annar varamaður. Reykjavíkurborg tilnefnir einn fulltrúa í stjórn félagsins.
b. Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Málefni tæknifræðináms við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild. Varðar að ekki verði teknir inn nýir nemendur í námið kennsluárið 2024-2025 ef ekki næst tilskilinn lágmarksfjöldi nemenda (25).
– Samþykkt.
c. Tillaga um aðgangseyri o.fl. vegna sýningar í Loftskeytastöð.
– Samþykkt.
d. Frá Persónuverndar- og upplýsingaöryggisnefnd: Tillaga að verklagsreglum um net-, tölvupóst- og snjalltækjanotkun starfsfólks Háskóla Íslands.
– Frestað.
e. Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að nýjum reglum um doktorsnám við Félagsvísindasvið sem komi í stað gildandi reglna um doktorsnám við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands nr. 500/2011.
– Samþykkt.
7. Mál til fróðleiks.
a. Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2023.
b. Drög dagskrár háskólaþings 17. apríl 2024.
c. Sýningin “Ljáðu mér vængi. Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur” opnuð 16. mars 2024.
d. Almenn gjaldtaka á bílastæðum við Háskóla Íslands hefst í haust.
e. Úthlutun úr Tækjakaupasjóði fyrir 2024.
f. Fréttabréf Háskólavina 3. apríl 2024.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.