8/2024
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2024, fimmtudaginn 3. október var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson (á fjarfundi), Silja Bára Ómarsdóttir (á fjarfundi) og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð. Davíð Þorláksson boðaði forföll og varamaður hans einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Silja Bára frá því að hún myndi víkja af fundi undir dagskrárlið 3. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a. Fjárlagafrumvarp 2025. Staða Háskóla Íslands í norrænum samanburði.
Rektor fór yfir þá þætti fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025 er lúta að háskólastiginu almennt og Háskóla Íslands sérstaklega, þ. á m. fjármögnun skólans í norrænum samanburði. Fram kom að enn vantar mikið upp á að ná yfirlýstu markmiði stjórnvalda um að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum. Málið var rætt.
b. Nýtt reiknilíkan háskóla, sbr. síðasta fund.
Rektor fór yfir breytingar á nýju reiknilíkani háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Málið var rætt.
c. Kjarasamningar.
Inn á fundinn kom Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, og greindi frá stöðu mála varðandi kjarasamninga félaga starfsfólks Háskóla Íslands. Fram kom m.a. að Félag háskólakennara (Fh) lauk gerð kjarasamnings og var hann undirritaður 16. september sl., en samningaviðræður við Félag prófessora (Fp), Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN), Félag viðskipta- og hagfræðinga (Fvh) og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga standa enn yfir. Málið var rætt og svaraði Ragnhildur spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fyrir fundinum lá fylgiskjal við miðlægan kjarasamning Félags háskólakennara og var það samþykkt
Ragnhildur vék af fundi.
d. Umsóknargjald umsækjenda frá löndum utan EES, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Óli Jón Jónsson, ritstjóri kennsluskrár hjá kennslusviði. Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu kennslusviðs um breytingu á reglum nr. 244/2014 varðandi hækkun umsýslu- og afgreiðslugjalds vegna umsókna einstaklinga með ríkisfang utan EES, en fyrir liggur að slíkum umsóknum hefur fjölgað verulega og hafa þær valdið mjög auknu álagi á starfsfólk og auknum kostnaði. Tillagan felur í sér hækkun umsýslu- og afgreiðslugjaldsins úr 50 evrum í 135 evrur. Málið var rætt og svöruðu rektor og Óli Jón spurningum.
– Samþykkt einróma.
Óli Jón vék af fundi.
e. Gjaldtaka fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands, staða mála.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og fór yfir stöðu mála og næstu skref varðandi innleiðingu gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands í framhaldi af ákvörðun háskólaráðs 7. mars sl. Fram kom að málið hefur tafist vegna vinnu við úrlausn kærumála vegna útboðs þjónustu og samningagerð við Reykjavíkurborg. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
Kristinn vék af fundi.
3. Um rektorskjör fyrir tímabilið 1. júlí 2025-30. júní 2030.
Rektor fór yfir framkvæmd rektorskjörs með tilliti til 6. gr. reglna HÍ 569/2009 og var málið rætt. Silja Bára vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
4. Samstarf Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Staða mála.
Inn á fundinn kom Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda kynnti samning um styrk vefna verkefnisins „Háskólasamstæða HÍ og HH“, dags. 5. september sl., og greinargerð um helstu verkþætti og vörður, ásamt endurskoðaðri verk- og fjárhagsáætlun sem rektor undirritaði 5. september sl. Rektor og Ingibjörg greindu frá stöðu málsins og næstu skrefum og var málið rætt.
Ingibjörg vék af fundi.
5. Könnun á viðhorfum nemenda til náms við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Helgi Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Fór Helgi yfir niðurstöður nýrra kannana á viðhorfum núverandi og fyrrverandi nemenda til náms við Háskóla Íslands, m.a. í alþjóðlegum samanburði. Fram kom m.a. að ánægja núverandi og fyrrverandi nemenda með nám við Háskóla Íslands er almennt mikil og stöðug. Málið var rætt.
Ólafur Pétur og Helgi viku af fundi.
6. Málefni náms í tæknifræði.
Inn á fundinn kom Sigurður M. Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Fyrir fundinum lá tillaga fræðasviðsins um niðurlagningu náms í tæknifræði við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, þar sem þess verður jafnframt gætt að núverandi nemendum verði gert kleift að ljúka námi. Einnig lá fyrir fundinum bréf frá forseta nemendafélags tæknifræðinema þar sem áformaðri niðurlagningu er andmælt. Sigurður gerði grein fyrir málinu og svaraði spurningum.
– Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um niðurlagningu náms í tæknifræði samþykkt samhljóða, en Andri Már Tómasson sat hjá og Viktor Pétur Finnsson greiddi atkvæði á móti.
Kaffihlé.
7. Almenn umræða um málefni Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs.
Rektor greindi frá því að í greinargerð nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á starfsárinu 2022-2023 hafi m.a. verið lagt til að í upphafi hvers misseris yrði gefið ráðrúm á fundum háskólaráðs til að efna í upphafi hvers misseris til almennrar umræðu um málefni Háskóla Íslands í víðu samhengi og væri þetta nú gert í þriðja sinn. Líflegar umræður spunnust um fjölmörg málefni er varða stöðu og starfsemi háskóla í nútíð og framtíð.
8. Bókfærð mál.
a. Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2024-2025, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.
c. Verklagsregla um fjarveru starfsfólks Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a. Glærur rektors frá upplýsingafundi 1. október sl.
b. Starfshópur um fyrirkomulag fæðisfjár og matarmiða, sbr. síðasta fund.
c. Skilagrein málnefndar Háskóla Íslands.
d. Starfsnefndir háskólaráðs.
e. Fréttabréf Háskólavina, dags. 25. september.
f. Vísindavaka 2024.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.