4/2025
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2025, fimmtudaginn 3. apríl var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Jakobsdóttir (á fjarfundi), Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Viktor Pétur Finnsson (á fjarfundi). Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og sagðist Silja Bára mundu víkja af fundi undir liðum 2 og 3, prófessorarnir Silja Bára, Hólmfríður og Ólafur Pétur greindu frá því að þau myndu ekki taka þátt í meðferð liðar 4b og Katrín Jakobsdóttir sagðist ekki mundu taka þátt í meðferð liðar 12b. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Frá kjörstjórn rektorskosningar 2025. Niðurstaða kosningar til embættis rektors fyrir tímabilið 1.7.2025-30.6.2030, skýrsla kjörstjórnar ásamt samantekt eftirlitsaðila og minnisblaði lögfræðings.
Silja Bára vék af fundi og inn á fundinn kom Víðir Smári Petersen, prófessor og formaður kjörstjórnar vegna rektorskjörs 2025, og gerði grein fyrir skýrslu kjörstjórnar. Í skýrslunni eru m.a. ábendingar um það sem kjörstjórn telur að betur megi fara varðandi umgjörð og framkvæmd kosningarinnar. Málið var rætt og að því búnu lagði rektor til að millifundanefnd háskólaráðs, sem fór yfir umsóknir um embætti rektors og undirbjó ákvörðun ráðsins um það hvaða umsækjendur uppfylltu skilyrði um embættisgengi, sbr. fund ráðsins 9. janúar sl., fari yfir ábendingar í skýrslu kjörstjórnar og geri eftir atvikum tillögur til úrbóta. Nefndin er skipuð Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs, Katrínu Atladóttir, Katrínu Jakobsdóttur og Viktor Pétri Finnssyni.
– Samþykkt einróma.
3. Tilnefning háskólaráðs til embættis rektors fyrir tímabilið 1.7.2025–30.6.2030, sbr. 8. gr. laga um opinbera háskóla og 7. og 8. tölulið 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor lagði fram drög að bréfi háskólaráðs til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra með tilnefningu dr. Silju Báru R. Ómarsdóttur, prófessors, í embætti rektors Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2025–30.6.2030.
– Samþykkt einróma.
4. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Silja Bára, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2026–2030.
Rektor og Guðmundur R. gerðu grein fyrir fjámálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2026–2030 varðandi „málefnasvið 21, háskólastig“. Málið var rætt. Á þessu stigi er óljóst hvað fjármálaáætlunin felur í sér fyrir háskólastigið, að öðru leyti en því að mikið aðhald og jafnvel samdráttur virðist framundan. Mikilvægt er að fá sem fyrst viðræður við ráðuneyti háskólamála um áætlunina.
b. Staða kjaraviðræðna Félags prófessora og samninganefndar ríkisins.
Fyrir fundinum lá samkomulag Háskóla Íslands og Félags prófessora við ríkisháskóla (FPR) í tengslum við miðlægan kjarasamning ríkisins og FPR. Rektor og Guðmundur R. gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Samkomulagið gerir m.a. ráð fyrir eins þreps grunnlaunahækkun (2,5%) 1. september nk., um leið og skerpt verður á svokallaðri sérstöðu prófessora. Áætlaður kostnaður vegna hækkunarinnar er ríflega 50 m.kr. í ár og 150 m.kr. árið 2026. Þessi kostnaður verður ekki bættur af stjórnvöldum. Á móti er gengið út frá því að dregið verði úr kennslu umfram kennsluskyldu hjá prófessorum sem mun draga úr kostnaði og um leið vinnuálagi, en í samningaviðræðunum hefur af hálfu FPR verið lögð mikil áhersla á að draga úr álagi í akademíu.
– Samkomulag við Félag prófessora í tengslum við miðlægan kjarasamning samþykkt.
Hólmfríður, Ólafur Pétur og Silja Bára tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins.
c. Meðhöndlun happdrættisfjár, sbr. síðasta fund.
Rektor greindi frá stöðu málsins. Beðið er viðbragða fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
d. Ársreikningur Háskóla Íslands 2024.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2024. Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar, reifaði afstöðu nefndarinnar. Fram kom að endurskoðunarnefnd gerir ekki athugasemdir við framlögð drög að ársreikningi. Málið var rætt.
– Samþykkt að fela rektor að ganga frá og undirrita ársreikning Háskóla Íslands fyrir árið 2024 fyrir hönd Háskóla Íslands.
Jenný Bára vék af fundi.
e. Breytt fyrirkomulag ráðstöfunar fæðisfjár og aðstöðu fyrir starfsfólk til að matast, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, og gerði ásamt Guðmundi R. grein fyrir uppfærðri tillögu að breyttu fyrirkomulagi ráðstöfunar fæðisfjár og aðstöðu fyrir starfsfólk til að matast, sbr. síðasta fund. Málið var rætt og svöruðu Ragnhildur og Guðmundur R. spurningum.
– Tillaga að nýju fyrirkomulagi samþykkt samhljóða, en Hólmfríður og Viktor Pétur sátu hjá.
Guðmundur R. og Ragnhildur viku af fundi.
5. Skipun nefndar um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði að þessu sinni skipuð þeim Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Katrínu Atladóttur, fulltrúa tilnefndum af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Elísabetu Siemsen, fulltrúa völdum af háskólaráði, og Andra Má Tómassyni, fulltrúa nemenda. Nefndin mun leggja fram greinargerð sína á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.
Kaffihlé.
6. Þríhliða samkomulag um háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum.
Inn á fundinn kom Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og samfélags, og fór yfir þríhliða samkomulag um háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum sem verið hefur í undirbúningi um alllangt skeið og samþykkt hefur verið af háskólaráði Háskólans á Hólum. Málið var rætt og svöruðu rektor og Ingibjörg spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt að fela rektor að ganga frá málinu f.h. Háskóla Íslands.
Ingibjörg vék af fundi.
7. Tillögur deilda um kjör heiðursdoktora:
a. Tillaga Lagadeildar á Félagvísindasviði um kjör tveggja heiðursdoktora.
Rektor gerði grein fyrir tillögu Lagadeildar um kjör tveggja heiðursdoktora. Tillagan hefur verið samþykkt af heiðursdoktorsnefnd, deildarfundi Lagadeildar og stjórn Félagsvísindasviðs. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
b. Tillaga Mála- og menningardeildar á Hugvísindasviði um kjör eins heiðursdoktors.
Rektor gerði grein fyrir tillögu Mála- og menningardeildar um kjör eins heiðursdoktors. Tillagan hefur verið samþykkt af heiðursdoktorsnefnd, deildarfundi Mála- og menningardeildar og stjórn Hugvísindasviðs. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
8. Tillaga um ráðningu án auglýsingar.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Rektor, Sigurður Magnús og Halldór gerðu grein fyrir framlagðri tillögu um ráðningu í starf prófessors við Raunvísindadeild á grundvelli 3. mgr. 36. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 17. gr. laga nr. 85/2008.
– Samþykkt einróma.
Katrín Atladóttir vék af fundi.
9. Um endurtökupróf og kennslualmanak, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Kristinn Andersen, sviðsstjóri kennslusviðs, og Sigurður Ingi Árnason, prófstjóri. Fyrir fundinum lá bréf frá deildarráði Raunvísindadeildar varðandi endurtökupróf og kennslualmanak, sbr. einnig bókun fulltrúa stúdenta á síðasta fundi. Reifuðu Kristinn og Sigurður Ingi framlagða greinargerð kennslusviðs og prófstjóra um málið og var það rætt. Fram kom að kennslualmanak verður til endurskoðunar skv. áætlun á árinu 2026.
– Að umræðu lokinni var kennslusviði og kennslumálanefnd falið að skoða reglur um endurtökupróf í þágu frekari samræmingar endurtökuprófa.
Að umræðu lokinni lögðu Viktor Pétur og Andri Már fram svohljóðandi bókun:
„Sjúkra- og endurtektarpróf eiga að vera í boði fyrir alla stúdenta óháð námsleið. Á sumum fræðasviðum eru þegar haldin sjúkrapróf en endurtektarpróf eru þó ekki í boði. Þetta er ólíðandi fyrir stúdenta. Í þeim stúdentaráðskosningum sem nú standa yfir finnum við fyrir miklum stuðningi við þetta baráttumál stúdenta. Sérstaklega er þetta slæmt í Sálfræðideild og Lyfjafræðideild ásamt fleiri deildum. Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild þarf sömuleiðis að fara í skoðun varðandi kennsluhætti og námsmat. Er það vilji okkar stúdenta að öllum deildum skólans sé gert skylt að halda úti sjúkra- og endurtektarprófum í öllum námskeiðum. Tryggja skal að allir nemendur sitji við sama borð.“
Kristinn og Sigurður Ingi viku af fundi.
10. Aðgengismál í Háskóla Íslands.
Andri Már tók upp aðgengismál á háskólasvæðinu, sbr. ályktun Stúdentaráðs, og var málið rætt. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
11. Undirbúningur heimsóknar í Sögu.
Inn á fundinn komu Kristján Garðarsson, arkitekt, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, og Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs. Kristján sýndi í máli og myndum hvernig háttað verður skipulagi í Sögu. Að því búnu var fulltrúum í háskólaráði og forsetum fræðasviða boðið í skoðunarferð í Sögu undir leiðsögn Kristjáns.
12. Bókfærð mál.
a. Tillaga að uppfærðum reglum og verklagsreglum vegna breyttra starfsheita, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.
b. Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 1. gr. reglna nr. 548/2010 um Viðskiptafræðistofnun.
– Samþykkt. Katrín Jakobsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
c. Tillaga að uppfærðum tilvísunum í reglum fyrir Háskóla Íslands vegna breyttrar skipunar ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
– Samþykkt.
d. Flutningur fötlunarfræði frá Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði til Deildar menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði sumarið 2026, sbr. síðasta fund. Málið samþykkt og rektor falið að skipa starfshóp til að annast umsjón með framkvæmd flutningsins.
– Samþykkt.
f. Breyting á stjórn Happdrættis Háskóla Íslands 2025.
– Samþykkt. Nýr formaður stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands verður Ari Karlsson, lögmaður. Hann tekur við af Víði Smára Petersen sem lætur af störfum að eigin ósk.
g. Nýr fulltrúi í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
– Samþykkt. Sigurborg Daðadóttir hverfur úr stjórn að eigin ósk þar sem hún hefur látið af störfum sem yfirdýralæknir og er rektor falið að ganga frá skipun fulltrúa í hennar stað.
13. Mál til fróðleiks.
a. Ársskýrsla Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands 2024.
b. Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2024.
c. Ársreikningur RHnets.
d. Guðni Th. Jóhannesson verður prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands.
e. Síðasti rampurinn í Römpum upp Ísland vígður við Háskóla Íslands.
f. Fréttabréf háskólavina, dags. 28. mars 2025.
g. Starfshópur um málefni gervigreindar við Háskóla Íslands.
h. Ársskýrsla Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2024.
i. Magnús Þór Torfason ráðinn forseti Félagsvísindasviðs.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.