8/2025
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2025, fimmtudaginn 2. október var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Silja Bára R. Ómarsdóttir, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Jakobsdóttir (á fjarfundi), Ólafur Pétur Pálsson (á fjarfundi), Ragný Þóra Guðjohnsen og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Davíð Þorláksson og Katrín Atladóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Fjárlagafrumvarp 2026.
Jenný Bára fór yfir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 varðandi háskólastigið og Háskóla Íslands, þ.m.t. áhrif nýlegra breytinga á reiknilíkan stjórnvalda. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor, Jenný Bára og Guðmundur R. spurningum.
b. Fjármögnun háskólastigsins almennt og Háskóla Íslands sérstaklega í alþjóðlegum samanburði.
Guðmundur R. fór yfir ný gögn frá OECD um fjármögnun háskólastigsins almennt og Háskóla Íslands sérstaklega, í alþjóðlegum samanburði. Fram kom að enn vantar mikið upp á að fjármögnun íslenskra háskóla sé sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum.
c. Málefni Sögu.
Katrín Jakobsdóttir, fulltrúi í háskólaráði og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., og Guðmundur R. greindu frá stöðu mála varðandi fjármögnun og framvindu framkvæmda í Sögu. Málið var rætt.
d. Breytingar á verklagsreglum um stjórnunar- og aðstöðugjald.
Guðmundur R. gerði grein fyrir tillögu fjármálanefndar háskólaráðs að breytingum á verklagsreglum um stjórnunar- og aðstöðugjald. Málið var rætt.
– Samþykkt.
Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.
3. Funda- og starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2025-2026.
Rektor gerði grein fyrir uppfærðum drögum að funda- og starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2025-2026, en fyrri drög voru lögð fram á síðasta fundi og fulltrúum í ráðinu gefinn kostur á að koma á framfæri tillögum og ábendingum.
– Samþykkt.
4. Nýtt heilbrigðisvísindahús í tengslum við nýja Landspítalann, sbr. fund ráðsins 5. júní sl. Staða mála.
Inn á fundinn kom Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild og verkefnastjóri byggingar nýs húss Heilbrigðisvísindasviðs. Gerði hann grein fyrir stöðu mála varðandi byggingu hússins og endurgerðar Læknagarðs sem áformuð er í framhaldinu. Málið var rætt og svaraði Hákon Hrafn spurningum.
Hákon Hrafn vék af fundi.
5. Niðurstöður starfsumhverfiskönnunar og könnunar á viðhorfum nemenda til náms við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Helgi Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, og greindi frá niðurstöðum nýrrar starfsumhverfiskönnunar annars vegar og nýrrar könnunar á viðhorfum nemenda til náms við Háskóla Íslands hins vegar. Fram kom m.a. að almennt er bæði starfsfólk og nemendur ánægt með starfs- og námsaðstöðu, þótt jafnframt séu skýrar vísbendingar um mikið vinnuálag.
Helgi vék af fundi.
6. Erindi til háskólaráðs.
Fyrir fundinum lá erindi Gylfa Zoega, prófessors, vegna fyrirlestrar á vegum Rannsóknastofnunar í lífeyrismálum (PRICE) sem halda átti 6. ágúst sl. Málið var rætt ítarlega og kom m.a. fram að háskólaráð leggur áherslu á að Háskóli Íslands sé vettvangur opinnar umræðu þar sem mismunandi sjónarmið fái að heyrast. Fram kom að í undirbúningi er að efna með skipulegum hætti til umræðu um þau álitamál sem upp hafa komið á undanförnum misserum m.a. í tilefni af hörmulegum stríðsátökum í Úkraínu, fyrir botni Miðjarðarhafs og víðar um heim og lærdómum sem af þeim má draga um tjáningarfrelsi, þ.m.t. frelsi til að mótmæla, samkomufrelsi og önnur skyld mál á vettvangi háskóla.
Að umræðu lokinni lagði rektor fram tillögu um að henni verði falið að skipa nefnd til að meta m.a. hvort móta þurfi skýrari reglur um framangreind mál, þ.m.t. möguleg viðbrögð við hindrunum á fundum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum innan Háskóla Íslands. Niðurstöður nefndarinnar verði kynntar fyrir háskólaráði, en einnig er áformað að málið verði á dagskrá háskólaþings í nóvember nk. og að fyrir þinginu liggi niðurstöður framangreinds umræðuvettvangs, nefndarinnar og yfirlit yfir lög, reglur, þ.m.t. siðareglur Háskóla Íslands, sem um þessi mál gilda. Niðurstöður þessa víðtæka samtals verði kynntar vel innan háskólasamfélagsins.
– Samþykkt einróma.
Ragný Þóra Guðjohnsen lagði fram eftirfarandi bókun:
„Rannsóknastofnunin PRICE er starfrækt á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, https://english.hi.is/regulation-pension-research-institute-iceland-university-iceland/no-1832024. Á vegum PRICE var sl. sumar auglýstur fyrirlestur Gil Epstein, prófessors við ísraelska Bar-Ilan háskólann sem halda skyldi þann 6. ágúst 2025 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Merki Háskóla Íslands var ekki á auglýsingunni.
Í erindi Gylfa Zoega til háskólaráðs er óskað eftir að ráðið leggi línurnar „svo að yfirvöld skólans leggi ekki blessun sína yfir lögbrot með þögn sinni“. Ekki hefur verið skorið úr um að lög hafi verið brotin í tengslum við viðburð PRICE sem vitnað er til. Af þeim ástæðum liggur fyrir að háskólaráð getur ekki tekið málið til umfjöllunar á þeim forsendum.
Í 5. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 kemur fram að háskólaráð marki heildarstefnu í kennslu og rannsóknum, móti skipulag háskóla [...], hafi eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana og beri ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
Þann 10. mars 2022 fordæmdi Háskóli Íslands innrás Rússa í Úkraínu og lýsti yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla sem og öllum íbúum landsins. Í yfirlýsingu háskólans kom fram „Allt samstarf við háskóla og stofnanir í Rússlandi hefur verið sett á ís. Almennt skulu aðgerðir ekki beinast að einstaklingum, og viðurkennt er að samstarf í menntun og rannsóknum er oft byggt á persónulegum tengslum. Margir akademískir starfsmenn og nemendur í Rússlandi hafa opinberlega mótmælt innrásinni. Það verður því að meta hvort framhald verði á samstarfi í hverju tilfelli fyrir sig [leturbreyting RÞG], en taka viðmið af stefnu stjórnvalda hverju sinni (sjá eftirfarandi slóð: https://hi.is/frettir/haskoli_islands_fordaemir_innras_russa_i_ukrainu ).
Í september sl. komst sjálfstæð alþjóðleg rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna (skipuð af Mannréttindaráði SÞ) að þeirri niðurstöðu að „Ísrael sé að fremja þjóðarmorð“ á Gasa.
Þann 7. maí sl. gáfu utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir hafna öllum hugmyndum um brottflutning Palestínumanna frá Gaza enda væru þær brot á alþjóðalögum (sjá: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/05/07/Sameiginleg-yfirlysing-um-Gaza/)
Þann 12. ágúst sl. fór utanríkisráðherra Íslands, tuttugu og átta samstarfsráðherrar hennar og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, fram á við ísraelsk stjórnvöld að þau heimili nú þegar flæði neyðaraðstoðar inn á Gaza og að alþjóðastofnunum og alþjóðlegum mannúðarsamtökum verði gert kleift að koma þeirri aðstoð til skila til að koma í veg fyrir frekari hungursneyð á Gaza. Nú er talið að meira en 63 þúsund manns hafa látið lífið á Gaza, þar á meðal er stór hluti almennir borgarar og börn.
Þegar metið er í ljósi þessa hvort réttlætanlegt sé að fordæma innrás Ísraels í Gaza eins og gert var með innrás Rússa í Úkraínu – verður að teljast yfir allan vafa hafið – að rétt sé að fara sömu leið.
Varðandi fyrirlestur Gil Epstein þá hefði verið rétt við ákvarðanatöku um viðburðinn að hafa í huga að fyrirlesari er prófessor við Bar-Ilan háskóla og situr í stjórn BESA stofnunarinnar sem tilheyrir háskólanum. Stofnunin leggur áherslu á rannsóknir á málefnum sem tengjast öryggi, varnarmálum og alþjóðasamskiptum, einkum áskoranir tengdar þjóðaröryggi Ísraels. Stofnunin gegnir því veigamiklu hlutverki þegar kemur að utanríkisstefnu Ísraels.
Það er von undirritaðrar sem fulltrúa í háskólaráði og sem starfsmanns Háskóla Íslands að í allri starfsemi skólans séu sjónarmið um mannúð og mannréttindi höfð í heiðri ofar öðrum sjónarmiðum.
Ragný Þóra Guðjohnsen, dósent á Menntavísindasviði.“
Kaffihlé.
7. Almenn umræða um málefni Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs.
Rektor greindi frá því að í samræmi við starfsreglur háskólaráðs er í upphafi hvers misseris gefið ráðrúm á fundum ráðsins til að efna til almennrar umræðu um málefni Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs. Að þessu sinni var undir þessum dagskrárlið haldið áfram umræðunni frá lið 6.
8. Bókfærð mál.
a. Ný stjórn Rannsóknasjóðs.
– Samþykkt. Stjórn rannsóknasjóðs er skipuð Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, prófessor við Hagfræðideild og formanni fagráðs Félagsvísindasviðs, Berglindi Ósk Einarsdóttur, dósent við Læknadeild og formanni fagráðs Heilbrigðisvísindasviðs, Ástu Kristínu Benediktsdóttur, dósent við Íslensku- og menningardeild og formanni fagráðs Hugvísindasviðs, Guðrúnu Sunnu Gestsdóttur, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, og formanni fagráðs Menntavísindasviðs, og Inga Agnarssyni, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, formanni fagráðs Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Skipunartíminn er til þriggja ára, 2026-2028.
b. Breyting á heiti Guðfræðistofnunar í Guðfræði- og trúarbragðafræðistofnun.
– Samþykkt.
c. Málefni hugverkanefndar.
– Samþykkt. Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala er skipuð Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur, prófessor við Viðskiptafræðideild, sem er formaður (tekur við af Kristni Andersen, prófessor og sviðsstjóra kennslusviðs), Sigríði Ólafsdóttur, lífefnafræðingi, sem báðar eru tilnefndar af rektor Háskóla Íslands. Í nefndinni situr einnig Þorvarður Jón Löve, prófessor og sérfræðilæknir, sem tilnefndur er af forstjóra Landspítala. Skipunartími er til 1. október 2028. Jafnframt samþykkir háskólaráð ákvarðanir fráfarandi hugverkanefndar á tímabilinu frá 31. mars 2025, þegar formlegum skipunartíma fyrri nefndar lauk, til skipunar nýrrar nefndar.
d. Verklagsreglur um veitingu námsleyfa til framhaldsnáms eða starfs- og endurmenntunar, sbr. fund ráðsins 5. júní sl.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a. Háskólakennsla hafin á Hallormsstað.
b. Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. september 2025.
c. Útnefnd goðsögn í lifanda lífi.
d. Hlaut verðlaun konunglegu Gústafs Adolfs akademíunnar.
e. 25 ára afmælismálþing Vísindavefsins.
f. Vísindavaka 2025.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.