Ótal hliðar vísindanna á 20 ára afmæli Vísindavöku

Rafrænar kosningar fyrir ungt fólk, fingraför og blóð, krabbadýr og krossfiskar, samband humla og blóma undir smásjá, hálendisleikur og Heilsuferðalagið, japanskt mál og menning og hinn sívinsæli Bangsaspítali er meðal þess sem starfsfólk og stúdentar Háskóla Íslands bjóða gestum Vísindavöku upp á í ár. Þessi mikla hátíð vísindanna fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 27. september milli kl. 12 og 17 en tuttugu ár eru síðan Vísindavaka var fyrst haldin hér á landi.
Á Vísindavöku gefst almenningi gott tækifæri til þess að kynna sér störf vísindafólks í ótal greinum og jafnvel setja sig í spor þeirra með því að prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir rannsóknarverkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft. Vísindavaka er haldin árlega í helstu borgum Evrópu undir heitinu Researchers' Night og er ætluð bæði ungum sem öldnum sem áhuga hafa á vísindum.
Vísindafólk frá bæði háskólum, stofnunum og fyrirtækjum tekur þátt í Vísindavöku og líkt og fyrri ár verður Háskóli Íslands með viðamikla kynningu á starfi sínu á hátt í 40 mismunandi stöðvum sem spanna öll fimm fræðasvið skólans.
Auk ofangreindra kynninga geta gestir á Vísindavöku spreytt sig á endurlífgun og hjartahnoði á svæði Háskólans, prófað að sauma saman sár með hjálp læknanema, kannað í sér sjónina með skemmtilegum tilraunum og búið til lyf með aðstoð lyfjafræðinga skólans. Þá verður boðið upp á mælingar á snerpu og hægt verður að spreyta sig á yfir 1.000 stærðfræðidæmum í Stærðfræðileiknum.
Gestir geta einnig kynnt sér framtíð jökla á Íslandi, hvernig jarðskjálftar verða til og líf maura og flugna ásamt því að keppa við gervigreind um að greina ólíkar gerðir landslags. Verkfræðinemar HÍ í liðinu Team Spark sýna og fræða gesti um rafknúna kappakstursbílinn sinn og þá fá gestir innsýn í það hvernig eru sebrafiskar notaðir til að rannsaka sjúkdóma í fólki, hvernig skammtatölvur og skammtatækni munu umbylta tölvutækni og hvaða áhrif netárásir hafa á innviði á Íslandi í gegnum LEGO-módel!
Starfsfólk hinnar sívinsælu Vísindasmiðju Háskóla Íslands verður einnig á staðnum með sín skemmtilegu tæki og tól en þar verður hægt að gera tilraunir með hitamyndavél, prófa dulkóðun, skoða svarthol og margt fleira.
Í tilefni 20 ára afmælis Vísindavöku munu stjórnmálafræðiprófessorarnir Hulda Þórisdóttir frá Háskóla Íslands og Eiríkur Bergmann frá Háskólanum á Bifröst enn fremur taka upp nýjan þátt í hlaðvarpsseríunni Skuggavaldið fyrir framan áhorfendur á sal en í hlaðvarpinu er fjallað um samsæriskenningar frá ýmsum hliðum.
Rannís hefur umsjón með Vísindavöku á Íslandi og hægt er að kynna sér dagskrá vökunnar á vef hennar.
