Skip to main content
1. september 2025

Háskólakennsla hafin á Hallormsstað

Háskólakennsla hafin á Hallormsstað - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kennsla í námsleiðinni skapandi sjálfbærni á vegum Háskóla Íslands í Hallormsstaðarskóla hófst formlega í liðinni viku og þessu fyrsta staðbundna háskólanámi á Austurlandi var fagnað sérstaklega á fjölmennum hátíðarviðburði í blíðskaparveðri á Hallormsstað. 

Undirbúningur fyrir hið nýja nám, sem heyrir undir Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur staðið undanfarin misseri en það grundvallast á góðu samstarfi Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla. 

hallormsstadur

Vel var tekið á móti nemendum við skólasetningu.

Skólinn var settur formlega miðvikudaginn 27. ágúst í blíðskaparveðri. Alls eru tíu nemendur á fjölbreyttum aldri í fyrsta nemendahópnum og koma úr ólíkum áttum: úr handverki, listum og hönnun, grunnskólakennslu, búskap og bókmenntafræði. Er það einkar vel við hæfi því námið í skapandi sjálfbærni er þverfræðilegt og þar er fengist við fjölbreyttan efnivið sem sóttur er í nærumhverfi. Hallormsstaðaskógur er enda mikilvægur hluti af kennsluumhverfinu en námið fer að miklu leyti fram utan veggja skólahússins og er handverk í öndvegi. 

Tekist á við áskoranir á skapandi hátt

Eins og nafn námsbrautarinnar gefur til kynna þá er sjálfbærni í brennidepli en markmið námsins er að leita skapandi leiða til að takast á við áskoranir samtímans. Lagt er upp með að nemendur öðlist færni til að vinna að skapandi lausnum á sviði sjálfbærni, hvort sem er á sviði listsköpunar og hönnunar, í menningarstarfi, samfélagsverkefnum, fræðastörfum eða nýsköpun. Þótt námsbrautin sé ný byggist hún á grunni náms sem lagt var upp með fyrir um 100 árum á Hallormsstað en er nú nálgast á nýjan hátt. Áhersla er á hagnýta þekkingu nemenda ásamt því að virkja hugmyndaflug, sköpunarkraft, forvitni og gagnrýna hugsun.

nemendur

Plöntu- og svepparíkið er m.a. í forgrunni í skapandi sjálfbærni.

Námið er alls 60 ECTS-einingar, sem samsvarar einu skólaári. Á haustmisserinu eru þrjú 10 ECTS-eininga námskeið sem kennd eru í 5 vikna lotum. „Í hverju námskeiði sökkvum við okkur niður í ákveðið þema. Handverk, efnisþekking og hefðir eru ákveðnir þræðir í náminu og við skyggnumst í verkmenningu og þjóðhætti ásamt því að kynna okkur nýjustu tækni og vísindi. Námið vefur þannig saman fortíð og nútíð í lausnaleit fyrir mótun framtíðarinnar,“ segir Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir, aðjunkt í skapandi sjálfbærni og einn af umsjónarmönnum námsins.

Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem tóku til máls á hátíðarviðburði á Hallormsstað sem efnt var til í tilefni þess að háskólakennsla er nú hafin í Hallormsstaðaskóla.

Plöntu- og svepparíki, textíll og kjötvinnsla í forgrunni í náminu

Meðal þess sem nemendur fást við í haust er námskeiðið Lifað með landinu þar sem plöntu- og svepparíkið er í forgrunni. Sveppum, berjum og plöntum er m.a. safnað og efniviðurinn verkaður með ýmsum hætti auk þess sem nemendur kynnast hampi og hampræktun í Berufirði og lífrænni ræktun í Vallanesi. „Í október byrjar svo námskeiðið Skapandi sjálfbærni en þá veltum við þessu hugtakinu sjálbærni fyrir okkur og hvernig hægt sé að nálgast helstu áskoranir samtímans á skapandi hátt. Við skoðum þetta út frá textílneyslu og -framleiðslu og nemendur læra undirstöðuatriði í fataviðgerðum auk þess sem þau fá innsýn í heim skapandi viðgerða og fást við vefnað. Í nóvember hefst svo námskeiðið Sjálfbært samfélag en þá verður sauðkindin, menningararfur og sveitasamfélagið fyrr og nú í forgrunni. Nemendur fá hagnýta kennslu í kjötvinnslu og sútun, velta fyrir sér vannýttum hráefnum, fullnýtingu og siðferðislegum álitamálum tengdum því. Námskeiðinu lýkur svo á aðventunni með vinnustofu þar sem tólgarkerti verða steypt,“ segir Sigrún Hanna.

 gestir

Fjölmenni sótti hátíðarviðburðinn á Hallormsstað fimmtudaginn 28. ágúst. 

Sem fyrr segir er hér á ferðinni fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi og til að fagna því var efnt til hátíðarviðburðar á Hallmorsstað fimmtudaginn 28. ágúst. Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs skólans, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarrektor menntunar og starfsumhverfis, og Ólafur Páll Jónsson, Deildarforseti deildar menntunar og margbreytileika og formaður námsstjórnar í skapandi sjálfbærni, voru meðal um 80 gesta sem fögnuðu þessum tímamótum og flutti rektor ræðu á hátíðinni. „Ég tel mikil tækifæri felast í þessu samstarfi Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla, en Menntavísindasvið leiðir það af hálfu Háskólans. Mikil tækifæri eru til frekari þróunar námsins, þróunar einstakra námskeiða, mögulega örnámskeiða, símenntunartækifæra, rannsókna og tenginga milli Hallormsstaðar, Austurlands og annarrar starfsemi Háskóla Íslands um land allt,“ sagði rektor m.a. í ræðu sem hún flutti við þetta tækifæri.

Í takt við áherslur námsins gæddu gestir sér á hreindýrabollum af héraði og skáluðu í villiberjasafa í tilefni dagsins.  „Við finnum fyrir því að samfélagið hérna fyrir austan er spennt fyrir þessum breytingum enda þykir tímabært að hægt sé að stunda háskólanám í staðnámi í landshlutanum, það er mikilvægt byggðaþróunarmál,“ segir Sigrún Hanna. 

Hallormsstaðaskóli