Skip to main content
23. september 2025

Gervigreind í forgrunni á afmælismálþingi Vísindavefsins

aðalbygging

Verða háskólar óþarfir með tilkomu gervigreindar? Getur gervigreindin tekið að sér að skrifa svör við spurningum á Vísindavefinn? Er hægt að treysta gervigreind? Hversu góð er gervigreindin í íslensku? Þarf að kenna fólki gervigreindarlæsi? Þetta er meðal þeirra spurninga sem svarað verður á 25 ára afmælismálþingi Vísindavefs Háskóla Íslands í Hátíðasal skólans miðvikudaginn 24. september kl. 15.00-16.30.

Eins og ofangreindar spurningar bera með sér er þema afmælismálþingsins gervigreind og vísindamiðlun og á þinginu munu fimm vísindamenn við Háskóla Íslands flytja erindi um ólíkar hliðar gervigreindarinnar og ávinning og áskoranir við notkun hennar. 

Vísindavefurinn fagnaði 25 ára afmæli fyrr á árinu, nánar tiltekið 29. janúar, en vefurinn var í fyrstu eitt af verkefnum Háskóla Íslands í tilefni þess að Reykjavík var menningarborg Evrópu árið 2000. Í upphafi stóð til að reka vefinn í eitt ár en vinsældir hans urðu fljótt það miklar að ákveðið var að halda starfseminni áfram og telja svör vefsins nú á 15 þúsund sem samsvarar um 70 bókum sem hver og ein er 250 blaðsíður. 

Vísindavefurinn hefur haldið áfram að vaxa að vinsældum í gegnum tíðina og er í dag einn vinsælasti vefur landsins sem nýtur mikils trausts í samfélaginu. Til marks um það þá voru heimsóknir á vefinn á síðasta ári um tvær og hálf milljón og flettingar rúmar þrjár milljónir.

„Ég held að hann gegni lykilhlutverki í því að efla vísindalæsi fólks, sér í lagi yngri kynslóðarinnar. Hann veitir ágætis kynningu á aðferðafræði vísinda og gagnast auðvitað sérstaklega vel að þeim sem vilja skrifa, hugsa og tala um vísindi á íslensku. Svo er hann auðvitað fyrsta flokks mótefni gegn falsfréttum og gervivísindum,“ sagði Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, um hlutverk vefsins í viðtali sem birtist á vef HÍ á sjálfan afmælisdaginn fyrr á árinu.

Frá upphafi hafa vísindamenn Háskólans verið í aðalhlutverki við að svara spurningum almennings um allt milli himins og jarðar á vefnum. Það er því við hæfi að kalla til fólk úr þeirra röðum til þess að fjalla um eitt  brýnasta viðfangsefni samtímans, sjálfa gervigreindina sem talið er að get umbylt ýmsu í samfélagi manna á næstu árum og áratugum, þar á meðal mögulega Vísindavefnum sjálfum. 

Í fimm fjölbreyttum erindum verður fjallað um jafnólík viðfangsefni og hvort gervigreindin geti skrifað svör á Vísindavefinn, hvers vegna mikilvægt er að hún tali íslensku, hvernig grunnskólakennarar og -nemendur eiga að takast á við gervigreind, hvernig hún nýtist í fjarkönnun á yfirborði jarðar og hvort háskólar verði hreinlega óþarfir með tilkomu gervigreindar.

Afmælismálþing Vísindavefsins er öllum opið á meðan húsrúm leyfir og gestum gefst færi á að spyrja fyrirlesara um allt sem snertir gervigreind og vísindamiðlun að loknum erindunum. Þau sem ekki eiga heimangengt í Hátíðasal Háskólans geta fylgst með málþinginu í beinu streymi.

Aðalbygging