Vísindavefurinn 25 ára í dag

„Í tilefni menningarborgarhátíðarinnar í dag ætlar Háskóli Íslands að opna vef á Netinu um vísindi. Markmið vefjarins er að efla áhuga og þekkingu á vísindum og fræðum í landinu.“ Svona hófst frétt sem birtist í dagblaðinu Degi þann 29. janúar árið 2000. Þess frétt um upphaf Vísindavefsins lét ekki mikið yfir sér frekar en vefurinn þá en hann hefur vaxið gríðarlega síðan og er í dag, á 25 ára afmælinu, einn vinsælasti vefur landsins sem nýtur mikils trausts í samfélaginu.
Vefurinn var hugarfóstur Þorsteins Vilhjálmssonar, prófessors emeritus í eðlisfræði sem var fyrsti ritstjóri vefsins, og eins og kemur fram í fréttinni í Degi var vefurinn framlag Háskóla Íslands í tilefni þess að Reykjavík var menningarborg Evrópu árið 2000.
„Þá kviknaði sú hugmynd að bjóða almenningi að spyrja spurninga um hvaðeina sem tengdist vísindum og fá fræðimenn innan HÍ til að svara. Í fyrstu var talið að þetta yrðu kannski ein til tvær spurningar á viku sem yrði svarað í tölvupósti enda voru vefsíður tiltölulega nýtt fyrirbæri á þessum tíma. En það var ákveðið að opna vef og fljótlega kom í ljós að vinsældir hans urðu miklu meiri en nokkur gat ímyndað sér. Enda er Vísindavefurinn núna 25 ára!“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri vefsins.
Svona leit Vísindavefurinn út í upphafi. Mynd fengin úr Stúdentablaðinu, 2. tbl. 2000.
Svörin myndu fylla sjötíu 250 blaðsíðna bækur
Það var þáverandi forseti Íslands og fyrrverandi prófessor við HÍ, Ólafur Ragnar Grímsson, sem opnaði vefinn að viðstöddum Páli Skúlasyni, þáverandi rektor HÍ, og nemendum úr Grandaskóla og Fjölbrautaskóla Suðurlands sem sendu strax inn spurningar.
„Fyrstu svörin höfðu verið undirbúin rétt áður til þess að lesendur gætu séð hvers konar efni mætti búast við að yrði á vefnum. Allra fyrsta svarið var birt opnunardaginn, skrifað af Gylfa Magnússyni, prófessor í hagfræði við HÍ, sem hefur alla tíð síðan verið einn af mikilvirkustu höfundum vefsins. Það var svar við spurningunni: Hvað er átt við með umframbyrði skatta?“ segir Jón Gunnar.
Síðan birtust strax fjögur svör tveimur dögum síðar:
- Hvers vegna horfum við í raun aftur í tímann þegar við skoðum geiminn í sjónaukum?
- Hvað er yfirborðsspenna?
- Hvers vegna eru katlar, pottar og hitakönnur yfirleitt gljáandi að utan?
- Er massi hlutar ekki sama og þyngd hans?
Höfundar þessara fjögurra svara voru þeir Þorsteinn Vilhjálmsson, þáverandi ritstjóri vefsins, og Tryggvi Þorgeirsson, þáverandi starfsmaður vefsins og stofnandi og forstjóri alþjóðlega fyrirtækisins Sidekick Health.
Svarendur á Vísindavefnum hafa frá upphafi verið starfsfólk á ýmsum sviðum Háskólans en einnig sérfræðingar við aðrar háskóla, rannsóknastofnanir og jafnvel fyrirtæki. Nokkrir svarshöfundar Vísindavefsins eru einstaklega afkastamiklir, í sérflokki er Guðrún Kvaran, prófessor emerita í íslensku, en eftir hana liggja nú 1368 svör um allar hliðar íslenskrar tungu.
Upphaflega átti Vísindavefurinn bara að vera verkefni til eins árs en eins og fyrr segir urðu vinsældir hans það miklar að ákveðið var að halda starfseminni áfram. „Nú er búið að birta rétt tæplega 14.100 svör á vefnum. Til gaman má geta þess að í veglegri bók sem við gáfum út fyrir allnokkru voru 200 svör á um 250 síðum. Þannig að ef öll svörin yrðu gefin út í 250 blaðsíðna bókum væri þetta heil ritröð með 70 bókum, stútfullum af svörum af Vísindavefnum!“ bendir Jón Gunnar á.
„Ég held að hann gegni lykilhlutverki í því að efla vísindalæsi fólks, sér í lagi yngri kynslóðarinnar. Hann veitir ágætis kynningu á aðferðafræði vísinda og gagnast auðvitað sérstaklega vel að þeim sem vilja skrifa, hugsa og tala um vísindi á íslensku. Svo er hann auðvitað fyrsta flokks mótefni gegn falsfréttum og gervivísindum,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins. MYND/Kristinn Ingvarsson

Vefurinn eins og skjálftamælir í náttúruhamförum
Aðsóknin á vefinn hefur vaxið mikið á þeim aldarfjórðungi sem hann hefur verið starfræktur og á síðasta ári voru heimsóknir á vefinn um tvær og hálf milljón og flettingar rúmar þrjár milljónir. Jón Gunnar segir að svör sem tengjast málefnum líðandi stundar séu iðulega mest þau lesnu. „Í fyrra var til að mynda áberandi hversu margir gestir lásu svör sem tengdust kosningum og stjórnmálum enda var bæði kosið um forseta og nýja ríkisstjórn. Þetta voru til dæmis svör við spurningum um lýðræði, fasisma, hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum og popúlisma, svo nokkur dæmi séu nefnd,“ segir Jón Gunnar.
Hann bendir enn fremur á að jarðskjálftar og eldgos hér á landi hafi alltaf mikil áhrif á lestur svara. „Það má næstum segja Vísindavefurinn virki eins og skjálftamælir þegar stórir atburðir í náttúrunni eiga sér stað. Þegar Reykjanesið hrökk í gang eftir um 800 ára hlé, með skjálfta upp á 5,6 í október 2020, þá varð risastökk í aðsókn á vefinn, þar sem allir vildu greinilega lesa um jarðskjálfta og annað efni sem því tengdist,“ bendir Jón Gunnar á.
Fyrsta flokks mótefni gegn falsfréttum
Aðspurður hvernig áherslur vefsins hafi breyst í gegnum tíðina bendir Jón Gunnar á að Vísindavefurinn sé í grunninn einfalt fyrirbæri. „Og það er kannski ein skýringin á vinsældum hans. Meginmarkmið hans er að veita almenningi í landinu, bæði börnum og fullorðnum, traustar upplýsingar um vísindaleg efni. Okkar hlutverk er að taka á móti spurningum um vísindi, fá svar við þeim og virkja þannig samtal milli almennings og fræðasamfélagins. Þetta reynum við að gera á skemmtilegan hátt og á góðri íslensku. Þessar áherslur eru enn í góðu gildi á vefnum og verða það áfram! Aðalatriðið er vitanlega að efla áhuga sem flestra á vísindum og fræðum og upplýsa um mikilvægi vísinda og fræða í nútímasamfélagi,“ segir hann.
Nú þegar falsfréttir og upplýsingaóreiða fara vaxandi í samfélögum heimsins vakna spurningar um hvernig best sé að berjast gegn þeim. Jón Gunnar segir Vísindavefinn vera öflugan vettvang til slíks. „Ég held að hann gegni lykilhlutverki í því að efla vísindalæsi fólks, sér í lagi yngri kynslóðarinnar. Hann veitir ágætis kynningu á aðferðafræði vísinda og gagnast auðvitað sérstaklega vel þeim sem vilja skrifa, hugsa og tala um vísindi á íslensku. Svo er hann auðvitað fyrsta flokks mótefni gegn falsfréttum og gervivísindum,“ segir hann enn fremur um þennan vinsæla vef.
Til stendur að fagna aldarfjórðungsafmæli Vísindavefsins síðar í vor með málþingi um gervigreind og máltækni. „Ef til vill verða einhverjar nýjungar sem tengjast þeim málum kynntar þar til sögunnar,“ segir Jón Gunnar að endingu.
Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, og upphafleg útgáfa Vísindavefsins.