4/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2021, fimmtudaginn 15. apríl var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Ólafur Pétur sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu liðar 8a. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a. Drög ársreiknings Háskóla Íslands 2020. ásamt umsögn endurskoðunarnefndar háskólaráðs.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu. Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðum drögum að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2020 ásamt ábendingum endurskoðunarnefndar háskólaráðs. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum. Ráðgert er að ársreikningurinn komi til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.
Jenný Bára og Ingunn viku af fundi.
b. Hótel Saga.
Guðmundur gerði grein fyrir stöðu viðræðna um möguleg afnot Háskóla Íslands af Hótel Sögu. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.
c. Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn komu Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi mat á orsökum og umfangi tjóns í byggingum og á lóð Háskóla Íslands í kjölfar vatnsflóðs aðfararnótt 21. janúar sl. Fram kom að matsmenn sem Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði til að leggja mat á orsakir tjónsins hafa skilað matsskýrslu sinni og er málið í viðeigandi ferli. Málið var rætt og svöruðu Kristinn og Björn Atli spurningum.
Guðmundur, Kristinn og Björn Atli viku af fundi.
3. Gæðamál Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri.
a. Gæðakerfi Háskóla Íslands.
Áslaug kynnti gæðakerfi Háskóla Íslands og reifaði hugmyndir um mögulegar útfærslur þess. Málið var rætt. Nokkur álitamál þarf að útkljá um útfærslur málins og hefur rektor skipað starfshóp til að undirbúa afgreiðslu háskólaráðs á málinu í júní nk. Í hópnum eru Jón Ólafsson, formaður gæðanefndar, formaður, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri, Erla Guðrún Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri skrifstofu rektors. Hópurinn mun hafa samráð við Ingunni Ólafsdóttur, innri endurskoðanda, og Þórð Kristinsson, ráðgjafa rektors, áður en hann skilar niðurstöðum sínum til rektors.
b. Endurskoðun á skipan og hlutverki gæðanefndar háskólaráðs, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Fyrir fundinum lá tillaga rektors að breyttri skipan gæðanefndar háskólaráðs. Gæðanefnd háskólaráðs er ein af ráðgefandi starfsnefndum ráðsins og er ætlað að tryggja og efla gæði náms og kennslu, rannsókna og stjórnunar við Háskóla Íslands. Samkvæmt starfsáætlun háskólaráðs 2020-2021 er ráðgert að endurskoða hlutverk nefndarinnar. Starf gæðanefndar hefur þróast frá því að hún fyrst var sett á laggirnar árið 2006. Helstu breytingar tengjast yfirgripsmiklu hlutverki nefndarinnar við að halda utan um sjálfsmat og eftirfylgni úttekta Gæðaráðs íslenskra háskóla (QEF). Lagt er til að nefndin fái það hlutverk að fjalla jafnt og þétt um þau mál sem varða gæði kennslu, rannsókna og stjórnunar, og snerta þannig innleiðingu og utanumhald á QEF. Nefndinni er hins vegar ekki ætlað að fjalla um jafnlaunavottun eða hliðstæð verkfæri og ferla. Þannig verði gæðanefndin lögð niður í núverandi mynd og við hlutverki hennar taki nefnd skipuð með öðrum hætti. Í gæðanefnd sitji sex fulltrúar starfs síns vegna auk fulltrúa stúdenta og formanns, sem tilnefndur er af rektor úr röðum fastráðinna kennara, og skipaðir eru af háskólaráði frá og með 1. júlí nk. til þriggja ára af háskólaráði. Fastafulltrúar í nefndinni verði gæðastjóri, sviðsstjórar kennslusviðs, vísinda- og nýsköpunarsviðs, upplýsingatæknisviðs og alþjóðasviðs, auk skrifstofustjóra Miðstöðvar framhaldsnáms. Ráðgert er að leggja nýtt erindisbréf nefndarinnar til afgreiðslu í háskólaráði í júní.
– Samþykkt einróma.
c. Undirbúningur heimsóknar alþjóðlegs sérfræðingahóps vegna ytra mats á Háskóla Íslands skv. rammaáætlun Gæðaráðs háskóla (QEF2) 3.-7. maí nk., sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Áslaug greindi frá fyrirhugaðri heimsókn ytri matshóps til Háskóla Íslands dagana 3.-7. maí nk. Hópurinn mun m.a. halda rafrænan fund með háskólaráði 6. maí nk. kl. 13.30-14.30. Málið var rætt.
Áslaug vék af fundi.
4. Frá innri endurskoðanda: Persónuvernd og upplýsingaöryggi.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi, og kynnti skýrslu sína um persónuvernd og upplýsingaöryggi ásamt ábendingum eftirfylgninefndar sem felldar eru inn í skýrsluna. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum.
– Samþykkt einróma.
Ingunn vék af fundi.
5. Nefnd um störf háskólaráðs á undangengnu starfsári ráðsins, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði að þessu sinni skipuð þeim Ingibjörgu Gunnarsdóttur, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Guðvarði Má Gunnlaugssyni, fulltrúa völdum af háskólaráði, Einari Sveinbjörnssyni, fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra, og Jessý Rún Jónsdóttur, fulltrúa nemenda. Nefndin mun leggja fram greinargerð sína á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.
6. Tillaga Hjúkrunarfræðideildar um kjör tveggja heiðursdoktora.
Fyrir fundinum lá tillaga Hjúkrunarfræðideildar um kjör tveggja heiðursdoktora, umsögn heiðursdoktorsnefndar og greinargerð deildarforseta um samþykkt tillögunnar af hálfu deildar og stjórnar Heilbrigðisvísindasviðs. Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Tillaga Hjúkrunarfræðideildar um kjör tveggja heiðursdoktora samþykkt einróma.
7. Kynning á starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og gerði grein fyrir skipulagi, starfsemi, rekstri, áherslumálum og framtíðarsýn fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Inga spurningum fulltrúa í háskólaráði.
8. Bókfærð mál.
a. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
– Tillaga tilnefningarnefndar var samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir næsta starfsár verða Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, formaður, og Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Læknadeild. Aðrir í stjórn verða Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg, Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri hjá Marel hf, og Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeri ehf. og stjórnarmaður í Samtökum sprotafyrirtækja. Fyrsti varamaður verður Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, og annar varamaður verður Stefán Þór Helgason, sérfræðingur í sprota- og frumkvöðlamálum hjá KPMG.
Ólafur Pétur tók ekki þátt í afgreiðslu málsins vegna setu í tilnefningarnefnd.
b. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands ehf. (RHnets).
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands ehf. (RHnets) fyrir næsta starfsár verða Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Þórður Kristinsson, ráðgjafi rektors. Varafulltrúar eru Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.
c. Frá samráðsnefnd um kjaramál: Tillaga að reglum fyrir vinnumatssjóð nýdoktora.
– Samþykkt.
d. Samningur á milli Háskóla Íslands og Nýs Landspítala ohf., dags. 31. mars 2021.
– Samþykkt.
e. Eignarhlutur Háskóla Íslands í Carbfix ohf.
– Samþykkt.
f. Erindisbréf endurmenntunarstjóra.
– Samþykkt.
g. Endurskoðaðar verklagsreglur um framgang akademísks starfsfólks strax í kjölfar nýráðningar við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
h. Breyting á reglum vegna tilvísana á milli reglna (afleiðing af gildistöku nýrra reglna nr. 1300/2020 um framgang).
– Samþykkt.
i. Erindi frá nemanda.
– Samþykkt að leita álits kærunefndar í málefnum nemenda um erindið, sbr. 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, áður en það kemur til afgreiðslu í háskólaráði.
9. Mál til fróðleiks.
a. Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.
b. Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla (Þingskjal 300 — 269. mál). Varðar inntökuskilyrði í háskóla.
c. Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla (Þingskjal 898 — 536. mál). Varðar inntökuskilyrði í háskóla.
d. Starfshópur rektors um álitaefni í tengslum við tekjuöflun Happdrættis Háskóla Íslands.
e. Fleiri tækifæri til starfsþjálfunar fyrir nemendur.
f. Unnið að aðstöðu til rannsókna og þróunarstarfs á Breiðinni.
g. Tvær einingar Háskóla Íslands stíga græn skref.
h. Kynningar á fjölbreyttu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.
i. Nýsköpunarverkefni kvenna verðlaunuð í AWE-hraðlinum.
j. Vísindaþorpið í Vatnsmýri verður þungamiðja þekkingar.
k. Aðilar menntakerfisins treysta samstarf sitt með nýrri Menntamiðju.
l. Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. mars 2021.
m. Vigdísarverðlaunin 2021.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.