22. háskólafundur haldinn 16. mars 2007 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu
Fundartími: Kl. 13.00-17.15
Dagskrá
Kl. 13.00 - 13.05 Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum.
Kl. 13.05 - 13.15 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 13.15 - 14.15 Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Tillaga gæðanefndar um Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands (60 mín.).
Kl. 14.15 - 15.00 Dagskrárliður 3. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Tillögur starfshóps um endurskoðun skiptingar Háskóla Íslands í deildir og skorir (45 mín.).
Kl. 15.00 - 15.20 Kaffihlé.
Kl. 15.20 - 17.15 Dagskrárliður 3 (frh.). Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Tillögur starfshóps um endurskoðun skiptingar Háskóla Íslands í deildir og skorir (45 mín.).
Dagskrárliður 4. Drög að stefnumörkun á sviði fjarkennslu og upplýsingatækni (25 mín.). Frestað.
Kl. 17.15 Rektor slítur fundi.
Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning
Rektor setti 21. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Sérstaklega bauð rektor velkomna nýja fulltrúa á háskólafundi og fulltrúa nánustu samstarfsstofnana Háskólans, þau Magnús Pétursson, forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, Véstein Ólason, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sigrúnu Klöru Hannesdóttur, landsbókavörð, og Ólaf Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands. Þá gerði rektor grein fyrir útsendum og framlögðum fundargögnum, dagskrá og tímaáætlun fundarins. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans.
Kl. 14.05 - 14.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands
1. Mál sem tengjast framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011
Fjármögnun stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Tímamótasamningur Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins
Stærsta stundin í starfi Háskóla Íslands frá síðasta háskólafundi var án efa undirritun tímamótasamnings við menntamálaráðuneytið um kennslu og rannsóknir 11. janúar sl. Samningurinn gerir Háskólanum kleift að hrinda stefnu sinni í framkvæmd af fullum krafti. Rauði þráðurinn í samningnum eru markmið og mælistikur í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og í stefnu Vísinda- og tækniráðs. Auk hefðbundinna hækkana vegna þreyttra eininga og fjölda stúdenta munu framlög til skólans hækka um 300 m.kr. á árinu 2007 og síðan um 640 m.kr. árlega á tímabilinu 2008-2011 uns þau hafa hækkað um tæpa 3 ma.kr. í lok samningstímabilsins. Háskólaráð hefur skipað starfshóp til að gera tillögur um ráðstöfun viðbótarframlagsins skv. samningnum. Starfshópinn skipa þau Jón Atli Benediktsson, prófessor, þróunarstjóri og aðstoðamaður rektors, sem er formaður, Guðmundur R. Jónsson, prófessor, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs og formaður fjármálanefndar, Gylfi Zoëga, prófessor í viðskipta og hagfræðideild og fulltrúi í gæðanefnd, Róbert Haraldsson, dósent í hugvísindadeild og fulltrúi í fjármálanefnd, og Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild og fulltrúi heilbrigðisvísindadeilda í háskólaráði.
Skipun gæðanefndar háskólaráðs
Mörgum einstökum stefnumálum Háskólans hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd eða eru í vinnslu eða í undirbúningi. Meðal annars hefur háskólaráð skipað gæðanefnd sem eina af starfsnefndum sínum og tók hún til starfa 1. júlí 2006. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að tryggja gæði kennslu, rannsókna og stjórnunar við Háskóla Íslands, auk þess að sinna öðrum þeim verkefnum sem rektor, háskólaráð eða háskólafundur fela henni. Nefndin hefur þegar skilað góðu starfi og voru á síðasta háskólafundi ræddar tillögur hennar um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands og á þessum fundi eru til umfjöllunar tillögur nefndarinnar um Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Gæðanefnd er skipuð þeim Jóni Atla Benediktssyni, prófessor í verkfræðideild, þróunarstjóra Háskólans og aðstoðarmanni rektors, sem er formaður, Fjólu Einarsdóttur, meistaranema í félagsvísindadeild, Gylfa Zoëga, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild, Hólmfríði Garðarsdóttur, dósent í hugvísindadeild, Ingileif Jónsdóttur, prófessor í læknadeild og Lárusi Thorlacius, prófessor í raunvísindadeild.
Verkefnisstjórn um framkvæmd stefnu
Í vetur skipaði háskólaráð verkefnisstjórn um framkvæmd stefnu Háskólans og hefur hún unnið náið með kjarnahópum deilda og yfirstjórn skólans. Verkefnisstjórnin er skipuð þeim Snjólfi Ólafssyni, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild, sem er formaður, Margréti S. Björnsdóttur, forstöðumanni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, og Snorra Þór Sigurðssyni, prófessor í raunvísindadeild.
Nýjar reglur um ráðningar akademískra starfsmanna
Nýjar reglur um ráðningar og framgang akademískra starfsmanna, sem voru til umfjöllunar á háskólafundi í nóvember sl., voru samþykktar í háskólaráði þann 15. febrúar sl. Helstu nýmæli reglnanna eru (1.) að tímalengd ferilsins er stytt verulega, (2.) í stað dómnefndar um hvert mál verða nú skipaðar fjórar fastar dómnefndir, ein fyrir hvert meginfræðasvið, (3.) valnefndir gera í stað deilda tillögu til rektors um ráðningu eða framgang, (4.) ráðning verður að jafnaði tímabundin með möguleika á ótímabundinni ráðningu eftir 4-5 ár í starfi. Nýja ráðningakerfið tekur gildi 1. maí nk. Starfshópurinn sem vann reglurnar mun á næstunni undirbúa skilgreiningu krafna í tengslum við nýráðningar, framgang og ótímabundna ráðningu í samvinnu við gæðanefnd háskólaráðs.
Nýtt skipurit sameiginlegrar stjórnsýslu
Síðastliðið haust tók gildi nýtt skipurit sameiginlegrar stjórnsýslu Háskólans sem endurspeglar áherslur í stefnu hans. Skiptist sameiginleg stjórnsýsla skólans nú í sex svið, fjármálasvið (sviðsstjóri: Sigurður J. Hafsteinsson), framkvæmda- og tæknisvið (sviðsstjóri: Guðmundur R. Jónsson), kennslusvið (sviðsstjóri: Þórður Kristinsson), markaðs- og samskiptasvið (sviðsstjóri: Ásta Hrönn Maack), starfsmannasvið (sviðsstjóri: Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir) og vísindasvið (sviðsstjóri: Halldór Jónsson), auk skrifstofu rektors sem m.a. fer með þróunarmál og gæðamál (þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors: Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræðideild, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri: Magnús Diðrik Baldursson), og innri endurskoðunar (innri endurskoðandi: Gunnlaugur H. Jónsson).
Skipting Háskóla Íslands í skóla og deildir. Endurskoðun á stjórnkerfi
Helsta dagskrárefni þessa háskólafundar er yfirstandandi endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir og á stjórnkerfi hans. Þetta mál var rætt ítarlega í stefnumótunarvinnunni síðastliðinn vetur og í kjölfarið var samþykkt með stefnunni að deilda- og skoraskipting Háskólans yrði endurskoðuð í því skyni að efla starfseiningar hans. Háskólaráð skipaði starfshóp sl. haust og var honum falið að leggja fram tillögur um málið. Fyrstu hugmyndir starfshópsins voru ræddar á síðasta háskólafundi, í háskólaráði og á fundum rektors með deildarforsetum. Eftir háskólafundinn voru hugmyndirnar sendar til umsagnar til allra starfseininga skólans. Í kjölfarið endurskoðaði starfshópurinn hugmyndirnar og leggur nú fram endurskoðaðar tillögur um skólaskiptingu og nýjar tillögur um stjórnskipulag. Tillögurnar hafa verið ræddar í háskólaráði og á deildarforsetafundi og hefur verið tekið tillit til framkominna ábendinga við frágang þeirra.
Háskólinn hefur vaxið og eflst mjög hratt á síðustu árum og er nauðsynlegt að laga skipulag og stjórn hans að breyttum forsendum. Tillögur starfshópsins gera m.a. ráð fyrir að Háskólanum verði skipt í fimm skóla sem hver um sig skiptist í deildir. Samkvæmt tillögunum fá hinir nýju skólar og deildir aukið vald og ábyrgð, stjórnun og ákvarðanataka verður skilvirkari, verkaskipting milli skóla og sameiginlegrar stjórnsýslu skýrari, æðstu stjórnendur munu helga sig starfi sínu, faglegar einingar verða sterkari og stoðþjónusta fyrir kennara og vísindamenn stóraukin, svo nokkuð sé nefnt.
2. Önnur mál sem eru á döfinni hjá Háskóla Íslands
Frumvarp til laga um sameiningu HÍ og KHÍ
Á sama tíma og þessi háskólafundur er haldinn er á Alþingi til annarrar umræðu frumvarp til laga um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Fyrir liggur að bæði meirihluti og minnihluti menntamálanefndar mæla með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og því stefnir í að það verði að lögum. Höfuðtilgangur sameiningarinnar er að efla kennaramenntun í landinu og fellur það vel að stefnu Háskóla Íslands.
Umsóknir um viðurkenningu á fræðasviðum hug-, náttúru-, verk- og tæknivísinda skv. lögum nr. 63/2006
Samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 sem tóku gildi sl. sumar geta allir íslenskir háskólar sótt um viðurkenningu menntamálaráðuneytisins. Viðurkenningin, sem er einskonar starfsleyfi fyrir skólana, er veitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og er bundin við sex fræðasvið eða einstaka undirflokka þeirra. Fyrri áfanga þessa verkefnis er nú nýlokið með skilum á umsóknum Háskólans um viðurkenningu fyrir hugvísindasvið (guðfræðideild og hugvísindadeild), náttúruvísindasvið (raunvísindadeild) og verk- og tæknivísindasvið (verkfræðideild). Umsóknum er skilað bæði á íslensku og ensku. Í framhaldinu fara matsnefndir fyrir hvert fræðasvið, skipaðar þremur erlendum sérfræðingum, yfir umsóknirnar og skila síðan umsögn til menntamálaráðherra sem tekur loks ákvörðun um hvort veita skuli viðurkenningu. Hafinn er undirbúningur umsókna fyrir félagsvísindasvið (félagsvísindadeild, lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild) og heilbrigðisvísindasvið (læknadeild, tannlæknadeild, lyfjafræðideild og hjúkrunarfræðideild) en umsóknarfrestur er 1. september nk. Þakkaði rektor öllum sem komið hafa að þessu umfangsmikla og mikilvæga starfi.
Happdrætti Háskóla Íslands - einkaleyfi ríkisfyrirtækja
Upphaf málsins má rekja til þess að eftirlitsstofnun EFTA taldi að norsk lög um einkaleyfi ríkisfyrirtækis á rekstri happdrættisvéla brytu í bága við EES-samninginn og höfðaði mál gegn norska ríkinu. Lykilspurningin var hvort einstök ríki geti ráðið þessum málum og stýrt framboði happdrætta eða hvort taka þurfi tillit til sjónarmiða annarra EES ríkja. Í málum sem þessum geta önnur EES lönd látið til sín taka. Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild og stjórnarformaður Happdrættis Háskóla Íslands, var aðalhvatamaður þess að Ísland tæki fullan þátt í málaferlunum vegna þess að mikið var í húfi fyrir Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ), enda hefði málið komið beint hingað til lands ef Noregur hefði tapað því. Dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra samþykktu tillögu Páls og fólu honum að flytja málið fyrir Íslands hönd. Dómur var kveðinn upp í síðustu viku. Niðurstaða dómsins er sú að norska ríkið hafi verið í fullum rétti. Halda þurfi uppi allsherjarreglu í landinu og hamla þurfi gegn skaðlegum áhrifum á almenning auk þess sem ýmis lögbrot eins og peningaþvætti geti tengst happdrættisvélum. Dómstóllinn er þeirrar skoðunar að einkasala sé betra markaðsform til að ná þessum markmiðum en í samkeppni. Dómurinn er skýr og afdráttarlaus og mun eflaust hafa mikil áhrif á happdrættismörkuðum í Evrópu, þ.m.t. fyrir HHÍ. Þakkaði rektor þeim Páli Hreinssyni og Brynjólfi Sigurðssyni, forstjóra HHÍ, fyrir framúrskarandi framgöngu þeirra í málinu. Málsvörn Páls var að sögn mun betur undirbúin og flutt heldur en vörn Norðmanna og ljóst að hann með því vann Háskóla Íslands ómetanlegt gagn.
Ný þverfræðileg námsleið í lýðheilsuvísindum
Hleypt hefur verið af stokkunum nýrri þverfræðilegri framhaldsnámsleið í lýðheilsuvísindum. Er hér um merkilegt nýmæli að ræða því allar deildir Háskólans eiga aðild að náminu, auk þess sem gengið hefur verið frá viljayfirlýsingu um samstarf við Karolinska Institutet í Stokkhólmi og samstarfssamningar við Harvard School of Pubilc Health í Boston og University of Minnesota eru í burðarliðnum. Ennfremur munu nokkrar lykilstofnanir hér innanlands, þ.e. Landspítali-háskólasjúkrahús, Landlæknisembættið, Hjartavernd o.fl., koma að náminu.
Námskynning
Árleg námskynning var haldin í Háskólabíói 17. febrúar sl. Var það samdóma álit þeirra sem að námskynningunni stóðu og hana sóttu að sérlega vel hafi tekist til. Gert er ráð fyrir að námskynningin verði haldin í Háskólatorgi á næsta ári.
Styrkir vegna doktorsnáms
Þann 1. mars sl. voru í annað sinn veittir styrkir úr Háskólasjóði hf. Eimskipafélags Íslands til doktorsnema við Háskóla Íslands. Um er að ræða framfærslustyrki sem gera doktorsnemum kleift að helga sig náminu. Að þessu sinni voru veittir 14 styrkir alls að fjárhæð 75 m.kr. Með framhaldsstyrkjum til styrkhafa frá síðasta ári eru nú rúmlega 30 doktorsverkefni styrkt úr sjóðnum. Þá mun Rannsóknasjóður Háskólans á næstunni veita framfærslustyrki til doktorsnáms í fyrsta sinn, en umsóknarfrestur rann út í gær. Veittar verða 50 m.kr. að þessu sinni.
Innovit - Nýsköpunarmiðstöð stúdenta
Stúdentar hafa um nokkurt skeið unnið að undirbúningi stofnunar nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs við Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að þegar starfsemin verður komin á fullan skrið verði Innovit skipt upp í þrjár stoðir: (1.) Aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki, (2.) fræðslu, fyrirlestra og námskeið, og (3.) sumarvinnu við nýsköpun. Ætla má að í tengslum við verkefnið skapist áhugaverð atvinnutækifæri fyrir stúdenta. Ráðgert er að miðstöðin taki til starfa um mitt ár 2008. Háskólaráð hefur fjallað um málið og telur að það falli vel að áformum um uppbyggingu Vísindagarða.
Úrskurður kjararáðs um laun prófessora
Þann 5. janúar sl. tók kjararáð þá ákvörðun á grundvelli laga um ráðið að prófessorar heyrðu ekki lengur undir kjaraákvarðanir þess.
Opnun Cervantes-seturs á Íslandi
Þann 3. mars sl. var Cervantes-setur á Íslandi opnað við hátíðlega athöfn í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Setrið mun vinna að því að efla kennslu í spænskri tungu og menningu á Íslandi og er að því leyti sambærilegt við virðulegar stofnanir á borð við þýsku Goethe-stofnunina og franska félagið Alliance Francaise. Við þetta tækifæri voru þau dr. Álfrún Gunnlaugsdóttir, prófessor við hugvísindadeild og Guðbergur Bergsson, rithöfundur og þýðandi, heiðruð af spænska ríkinu, hún fyrir kennslu í spænskum og suður-amerískum bókmenntum um áratuga skeið og hann fyrir þýðingar á bókmenntum spænskumælandi þjóða. Aðsetur Cervantes stofnunarinnar verður í hugvísindadeild innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, og er þetta mikill heiður fyrir Háskóla Íslands.
3. Samstarf
Nýir samstarfssamningar
Að undanförnu hafa verið gerðir nokkrir nýir samstarfssamningar milli Háskóla Íslands og annarra stofnana og háskóla. Meðal annars hefur verið gengið frá samningi við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) um rannsóknir og kennslu. Markmiðið með samningnum er að auka rannsóknir á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála, tryggja að gæði rannsóknastarfs hjá báðum stofnunum séu sambærileg við það sem best gerist og að nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna og verkefna hvorrar stofnunar fyrir sig. Á næstunni verður undirritaður samningur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Samningurinn kveður á um rannsóknir og kynningu á íslenskum fræðum innan lands og í alþjóðlegu fræðasamfélagi, kennslu í greinum sem fást við íslensk fræði og tryggingu gæða rannsóknastarfs á sviði íslenskra fræða. Þá er, eins og áður sagði, í undirbúningi samningur við Karolinska Institutet í Stokkhólmi vegna náms í lýðheilsuvísindum og samningur hefur einnig verið gerður við Massachusetts Institute of Technology (MIT) vegna kennslu í MPM-námi í verkfræðideild.
Viljayfirlýsing
Háskóli Íslands hefur hafið samstarf við Reykjanesbæ og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um uppbyggingu háskólastarfsemi í Reykjanesbæ á varnarliðssvæðinu. Hugmyndin er að laða að erlenda nemendur og bjóða upp á nám af ýmsum toga, s.s. á sviði orkumála, jarðvísinda, umhverfisfræði, sjávarlíffræði, norðurslóðarannsókna, öryggismála, samgöngutækni o.fl. Aðkoma Háskólans að þessu verkefni getur verið með ýmsu móti, t.d. á sviði jarðvísinda, orkuverkfræði og umhverfisvísinda og líffræði, enda fer þetta allt vel saman við áherslur skólans varðandi Vísindagarða og samþættingu og styrkingu þessara fræðasviða innan Háskólans. Verkefnið er enn á byrjunarstigi og mörgum spurningum ósvarað. Fjallað hefur verið um verkefnið í háskólaráði og voru fulltrúar í ráðinu sammála um að mikilvægt væri að líta á þetta sem tækifæri fyrir Háskólann til að styrkja starfsemi sína, efla samvinnu við atvinnulíf og hafa áhrif á þróun vísinda og menntunar í landinu. Reiknað er með að fjársterkir aðilar muni koma að verkefninu.
Í framhaldi af þessu lýsti rektor þeirri sannfæringu sinni að háskólastarfið muni taka miklum breytingum á næstu árum. Sumar þeirra áskorana sem framundan væru mætti sjá fyrir, aðrar ekki. Ljóst væri að fyrirtæki og stofnanir myndu kalla eftir auknu samstarfi og það væri afar ögrandi viðfangsefni fyrir Háskólann að takast á við það. Til þess þyrfti hann að vera fær um þrennt: Í fyrsta lagi að varðveita akademískt frelsi sitt og eðli sem frjáls rannsóknaháskóli. Í öðru lagi að vera í senn kraftmikill og sveigjanlegur og fær um að laga sig hratt að nýjum verkefnum og tækifærum. Í þriðja lagi að leggja til leiðtoga sem gætu verið í leiðandi hlutverki í nýjum verkefnum utan veggja skólans á sama tíma og þeir gættu að þeim grundvallaratriðum sem ættu að stýra starfi háskóla. Ef Háskólinn bæri gæfu til að skilja og vinna í samræmi við þessa hugsun yrði hann hvort tveggja betri háskóli og skilvirkari þátttakandi í þjóðlífinu.
4. Ný styrkt störf
Kaupþing banki kostar stöðu prófessors við viðskipta- og hagfræðideild
Kaupþing mun framvegis kosta stöðu prófessors við viðskipta- og hagfræðideild í fjármálum, fjármálahagfræði eða hagfræði. Samningurinn markar tímamót í stuðningi atvinnulífs við Háskóla Íslands því þótt fyrirtæki hafi áður kostað stöður við skólann hefur slíkur stuðningur ávallt verið tímabundinn. Samningurinn var undirritaður 28. desember sl. af Heiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings banka, Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands, og Friðrik Má Baldurssyni, forseta viðskipta- og hagfræðideildar.
LOGOS lögmannsþjónusta kostar stöðu lektors við lagadeild
Í desember sl. undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Páll Hreinsson, forseti lagadeildar, og Gunnar Sturluson, framkvæmdastjóri LOGOS, samning um kostun á stöðu lektors við lagadeild Háskóla Íslands næstu þrjú árin. Framlag LOGOS vegna þessa nemur um 15 m.kr. en markmiðið með samningnum er að efla kennslu og rannsóknir við lagadeild á sviði stjórnsýsluréttar með áherslu á reglur um eftirlit stjórnvalda með starfsemi á fjármálamarkaði.
Norðurál og Hitaveita Suðurnesja styrkja rannsóknir við viðskipta- og hagfræðideild
Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Norðurál og Hitaveita Suðurnesja gerðu í byrjun febrúar sl. með sér samstarfssamning sem miðar að því að efla fræðilegar og hagnýtar rannsóknir á sviði alþjóðahagfræði, m.a. með áherslu á orkufrekan iðnað. Í tengslum við samninginn leggur hvort fyrirtæki 1 m.kr. árlega til rannsóknanna í þrjú ár og verður styrkfjárhæðin nýtt til að standa straum af rannsóknum á sviði alþjóðahagfræði við viðskipta- og hagfræðideild.
5. Framkvæmdir
Margvíslegar framkvæmdir standa nú yfir á háskólasvæðinu. Þann 30. nóvember sl. fór fram hátíðarathöfn í kapellu Háskóla Íslands í Aðalbyggingu, en þá var lokið gagngerum endurbótum á kapellunni sem miðuðu að því að færa hana til upprunalegs horfs. Vinna við Háskólatorg er í fullum gangi og samkvæmt niðurtalningu á heimasíðu Háskólans eru nú 260 dagar þangað til 10.000 fermetra húsnæði í Háskólatorgi 1 og 2 verður afhent. Áfram er haldið undirbúningi að nýbyggingum Landspítala-háskólasjúkrahúss. Um er að ræða gríðarlega stórt verkefni og er áætlað byggingarmagn um 160.000 fermetrar. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisvísindagreinar Háskólans verði til húsa vestast á lóðinni. Þarfagreiningu er að mestu lokið og nú er verið að undirbúa svokallaðan "sketch" þátt til undirbúnings hönnunar. Kynning á Vísindagörðum fyrir fyrirtækjum og stofnunum stendur nú yfir og hefur orðið var við mikinn áhuga á verkefninu. Loks er unnið að undirbúningi byggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og ríkisstjórnin hefur í hyggju að reisa nýtt hús vestan Suðurgötu fyrir hina nýju Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Vonast er til þess að íslenskuskor hugvísindadeildar verði þar í sambýli við stofnunina.
Heilsuátak í mars
Starfsmannasvið hefur unnið að undirbúningi heilsuátaks fyrir starfsmenn og stúdenta Háskóla Íslands í marsmánuði. Hápunktur heilsuátaksins verður svonefnt háskólahlaup sem haldið verður þann 3. apríl nk.
Kl. 13.15 - 14.15 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Tillaga gæðanefndar um Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands
Jón Atli Benediktsson, formaður gæðanefndar, gerði grein fyrir málinu. Hóf Jón Atli mál sitt á því að rekja bakgrunn málsins. Í alþjóðlegri háskólaumræðu hefði á síðustu árum verið lögð sívaxandi áhersla á gæðamál. Áhrifa þessarar umræðu gætti einnig hér á landi og væru gæðamál rauði þráðurinn í nýjum lögum um háskóla, í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og í samningi Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun kennslu og rannsókna. Í stefnu Háskólans væri m.a. kveðið á um að stofnuð verði gæðanefnd sem ein af starfsnefndum háskólaráðs og hefði hún tekið til starfa um mitt ár 2006. Í erindisbréfi nefndarinnar væri m.a. kveðið á um að hún skuli undirbúa að sett verði á laggirnar sérstök Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands.
Gæðanefnd hefði m.a. kynnt sér erlendar fyrirmyndir og reglur og hefðir um svonefnda "Graduate Schools" í Bandaríkjunum og í Evrópu. Samkvæmt framlögðum tillögum gæðanefndar væri það hlutverk Miðstöðvar framhaldsnáms að tryggja og efla gæði meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands. Gert væri ráð fyrir að stjórn Miðstöðvarinnar yrði í höndum forstöðumanns sem skipaður væri af háskólaráði til fimm ára og væri ábyrgur gagnvart því. Í tillögunum væri undirstrikað að fagleg ábyrgð á framhaldsnámi við Háskóla Íslands væri á höndum deilda en Miðstöðin fylgdist með því að deildir fylgdu settum reglum og gæðastöðlum um námið. Einnig væri gert ráð fyrir því að þverfræðilegar námsbrautir gætu haft aðsetur í Miðstöðinni.
Þá rakti Jón Atli helstu verkefni Miðstöðvarinnar samkvæmt tillögum gæðanefndar:
- Háskólaráð setur og Miðstöðin samræmir, eftir því sem við á og í nánu samstarfi við deildir, reglur um inntökupróf fyrir doktorsnema
- Nemendur sækja um inngöngu í framhaldsnám hjá deildum. Miðstöðin skráir samþykktar umsóknir
- Miðstöðin skráir námsáætlanir í rannsóknatengdu meistaranámi og staðfestir námsáætlanir í doktorsnámi
- Miðstöðin beitir sér fyrir því að framhaldsnám við Háskóla Íslands sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur
- Miðstöðin heldur utan um sértæka samstarfssamninga við erlenda háskóla um framhaldsnám og sameiginlegar námsgráður
- Miðstöðin fylgist með því að leiðbeinendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi uppfylli settar kröfur
- Miðstöðin fylgist með því að námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur
- Miðstöðin vinnur eftir reglum háskólaráðs um þær dagsetningar sem standast verður til að nemendur geti lokið framhaldsnámi
- Miðstöðin aflar, greinir og miðlar gögnum og upplýsingum um alla helstu þætti framhaldsnáms við Háskóla Íslands
Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir framsöguna og gaf orðið laust.
Almennt fögnuðu fundarmenn tillögum gæðanefndar og töldu þær vera mikið framfaramál fyrir Háskóla Íslands. Til þess var tekið að með tilkomu gæðanefndar væri búið að finna gæðamálum Háskólans skýran farveg og væri það vel. Þá fæli Miðstöð framhaldsnáms í sér dýrmæta formfestingu á gæðum framhaldsnáms við skólann.
Fram komu ýmsar athugasemdir og spurningar. Vakti einn fundarmanna máls á því að tillögurnar gerðu ráð fyrir nokkuð ólíkri málsmeðferð eftir því hvort í hlut ætti meistaranám eða doktorsnám. Í fyrra tilvikinu væri gert ráð fyrir skráningu en í því síðara leyfisveitingu. Svaraði formaður gæðanefndar því til að þetta væri með ráði gert því í starfi Miðstöðvarinnar væri megináherslan lögð á rannsóknatengt framhaldsnám, einkum doktorsnám. Meistaranámið væri mjög fjölbreytt og hluti þess starfsmiðað nám sem væri ólíkt rannsóknatengda náminu. Því væri eðlilegt að um það giltu nokkuð aðrar reglur.
Nokkrir fundarmenn gerðu að umtalsefni ákvæði í tillögum gæðanefndar sem fjallar um inntökupróf í doktorsnám. Útskýrði formaður gæðanefndar að misjafnt væri hvort slíkt fyrirkomulag tíðkaðist við erlenda rannsóknaháskóla. Með tillögunum væri ekki kveðið á um að öllum deildum bæri að taka upp slík próf heldur væri um heimildarákvæði að ræða sem deildir gætu nýtt sér eftir því sem ástæða væri til og útfært eftir því sem þeim hentaði best.
Einn fundarmanna lagði áherslu á að tilkoma Miðstöðvarinnar mætti ekki verða til þess að auka skriffinnsku og tefja fyrir framvindu framhaldsnámsins. Það væri gæðamál í sjálfu sér að nemendur væru fljótir að komast inn í námið og formleg afgreiðsla tefði ekki fyrir brautskráningu. Formaður gæðanefndar greindi frá því að þetta hefði verið sérstaklega rætt í nefndinni og því væri kveðið á um það í tillögum hennar að Miðstöð framhaldsnáms skyldi „bregðist fljótt við þeim erindum sem henni berast“.
Einn fundarmaður fagnaði því að með tillögunum væri settur formlegur rammi um ýmsar dagsetningar sem skiptu máli í námsferlinu. Þetta kynni að virðast léttvægt atriði en í reynd væri hér um mikilvægt praktískt mál að ræða. Taldi sami fundarmaður að í plagginu mætti hvetja meira til samstarfs um doktorsnám. Almennt væri of mikil áhersla lögð á eftirlit og að vel færi á því að ítreka hvatningarhlutverk Miðstöðvarinnar. Þakkaði formaður gæðanefndar fyrir þessa ábendingu og sagði að tekið yrði tillit til hennar við endanlegan frágang tillagnanna.
Formaður stjórnar meistaranáms í umhverfis- og auðlindafræðum, sem er samstarfsverkefni 6 deilda, greindi frá því að tillögur gæðanefndar hefðu verið ræddar í stjórninni og litist henni vel á þann möguleika að þverfræðilegar námsbrautir geti heyrt beint undir Miðstöðina. Í framhaldi af þessu spurði annar fundarmaður hvort sú tillaga gæðanefndar að þverfræðilegar námsbrautir gætu heyrt undir Miðstöð framhaldsnáms gæti orðið til þess að til yrðu nýjar litlar deildir, sem gengi þvert á það markmið yfirstandandi endurskoðunar á skipulagi Háskólans að fækka einingum.
Vakin var athygli á því að samkvæmt tillögunum yrði forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms skipaður af háskólaráði til fimm ára, en í tillögum starfshóps um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir, sem yrðu til umræðu síðar á fundinum, væri gert ráð fyrir að forsetar skóla yrðu skipaðir af rektor. Var því til svarað að tillögur gæðanefndar um Miðstöð framhaldsnáms væri ekki lagðar fram í beinu samhengi við skólaskiptingarmálið. Um ólík mál væri að ræða en þegar fram liðu stundir væri sjálfsagt að skoða tengslin þar á milli.
Spurt var hvort ákvæði tillagnanna um viðurkenningu á leiðbeinendum í framhaldsnámi gerði að verkum að nýráðnir akademískir starfsmenn með litla eða enga reynslu af leiðbeiningu framhaldsnema fengju ekki leyfi til að gerast leiðbeinendur. Sami fulltrúi spurði einnig hver staða utanaðkomandi leiðbeinenda yrði samkvæmt tillögunum. Benti formaður gæðanefndar á að í tillögum gæðanefndar um gestakennara við Háskóla Íslands, sem samþykktar voru á síðasta háskólafundi, væri skýrt kveðið á um að gestakennarar sem uppfylltu tilteknar gæðakröfur gætu verið leiðbeinendur í framhaldsnáms.
Einnig var spurt hvað það merkti að Miðstöðin þyrfti að staðfesta nýjar námsleiðir í framhaldsnámi og hvort það stangaðist á við meginregluna um að faglegt forræði yfir náminu væri á höndum deilda. Var því svarað að kveðið væri á um staðfestingu nýrra framhaldsnámsleiða í viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands sem samþykktar hefðu verið á háskólafundi fyrir nokkrum árum. Þetta feli ekki í sér efasemdir um faglega ábyrgð deilda heldur væri hér, eins og annarstaðar, um að ræða lið í almennri gæðatryggingu.
Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu að gæðanefnd verði falið að ganga frá tillögum um Miðstöð framhaldsnáms með hliðsjón af framkomnum athugasemdum á fundinum og þeim verði síðan vísað til háskólaráðs til staðfestingar.
- Samþykkt einróma.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, þau Rúnar Vilhjálmsson, Helga Ögmundsdóttir, Elín Soffía Ólafsdóttir, Inga Þórsdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Gunnlaugur H. Jónsson, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Brynjólfsson, Oddný G. Sverrisdóttir og Guðbjörg Einarsdóttir.
Kl. 14.15 - 17.15 - Dagskrárliður 3: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Tillögur starfshóps um skiptingu Háskóla Íslands í skóla og deildir
Rektor bauð velkomna á fundinn fulltrúa í starfshóp um endurskoðun skiptingar Háskóla Íslands í deildir og skorir. Þá rakti rektor stuttlega feril málsins frá síðasta háskólafundi og greindi m.a. frá því að fyrirliggjandi tillögur starfshópsins hefðu verið kynntar og ræddar í háskólaráði og á fundi rektors með deildarforsetum. Á þessum fundum hefðu komið fram ýmsar ábendingar sem starfshópurinn hefði tekið mið af við frágang tillagnanna. Gaf rektor Ólafi Þ. Harðarsyni, forseta félagsvísindadeildar og varaforseta háskólaráðs, sem jafnframt er formaður starfshópsins, orðið.
Byrjaði Ólafur á því að útskýra titil framsöguerindis síns, Lýðræði og skilvirkni. Lýsti Ólafur þeirri skoðun sinni að þessi hugtök lýstu kjarna málsins því verkefnið væri að samþætta þetta tvennt. Háskólar hefðu verið starfræktir á lýðræðislegum grundvelli um aldir og miklu skipti að varðveita þessa lýðræðishefð um leið og skipulag skólanna þyrfti að taka mið af kröfum tímans um árangur og skilvirkni.
Hóf Ólafur mál sitt á því greina frá skipun starfshópsins, en í honum sitja, auk formanns, eftirtaldir einstaklingar:
- Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði,
- Ingjaldur Hannibalsson, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild,
- Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræðideild, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors,
- Róbert H. Haraldsson, dósent og varaforseti hugvísindadeildar,
- Rögnvaldur Ólafsson, dósent í raunvísindadeild og fulltrúi í nefnd menntamálaráðherra um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands,
- Sigurður Örn Hilmarsson, fráfarandi formaður Stúdentaráðs,
- Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild og fulltrúi heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði,
- með nefndinni starfa Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs.
Næst varpaði Ólafur fram þeirri spurningu, hvers vegna ákveðið hefði verið að ráðast í endurskoðun á skipulagi Háskólans. Nefndi hann fjórar ástæður:
- Innlendar og erlendar úttektir
- Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011
- Samning Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins 2007
- Sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 2008
Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 og samningurinn við menntamálaráðuneytið fælu í sér þrjú meginmarkmið:
- Framúrskarandi rannsóknir
- Framúrskarandi kennslu
- Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónustu
Mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því að þriðja atriðið væri ekki markmið í sjálfu sér heldur tæki sem þjónaði hinum markmiðunum. Skilvirk stjórnun og aukin stoðþjónusta í skólum, deildum og rannsóknastofnunum væri til þess að efla rannsóknir og kennslu.
Næst lýsti Ólafur vinnulagi starfshópsins:
- Fyrstu hugmyndir um 5-7 skóla kynntar á háskólafundi 17. nóvember 2006
- Hugmyndir skora, deilda og stofnana um faglega samleið - janúarlok 2007
- Tillögur á háskólafundi 16. mars 2007
- Umræða í deildum og milli þeirra sem lagt er til að verði saman í skóla
- Háskólafundur 16. maí 2007
Lykilhugmyndir í tillögum starfshópsins væru þessar:
- Skólar: öflugar einingar með styrka forystu sem geta veitt stoðþjónustu nálægt vettvangi (en deildir eru of litlar til að geta sinnt)
- Skýr verkaskipting milli yfirstjórnar, skóla, deilda og rannsóknastofnana
- Skýrari verkaskipting milli „löggjafarvalds“ og „framkvæmdavalds“ á öllum stigum
- Þverfræðilegt samstarf - tryggja að skólarnir einangrist ekki hver frá öðrum, m.a. með sameiginlegum störfum (joint appointments)
Þá skýrði Ólafur framlagða tillögu um skiptingu Háskólans í 5 skóla:
- Félagsvísindaskóli (ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort sálfræði verði innan félagsvísindaskóla eða heilbrigðis- og lífvísindaskóla)
Nokkur auðkenni: 4.000 nemendur (2.300 ársverk), 90 fastir kennarar (80 ársverk), 50 ársverk í stundakennslu
- Heilbrigðis- og lífvísindaskóli (ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort líffræði verði innan heilbrigðis- og lífvísindaskóla eða verkfræði- og raunvísindaskóla)
Nokkur auðkenni: 1.600 nemendur (1.200 ársverk), 190 kennarar (130 ársverk), 50 ársverk í stundakennslu
- Hugvísindaskóli (ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort guðfræði verði innan hugvísindaskóla eða félagsvísindaskóla)
Nokkur auðkenni:
2.100 nemendur (1.200 ársverk), 95 fastir kennarar (90 ársverk), 30 ársverk í stundakennslu
- Verkfræði- og raunvísindaskóli
Nokkur auðkenni: 1.400 nemendur (1.000 ársverk), 85 fastir kennarar (75 ársverk), 41 ársverk í stundakennslu
- Menntavísindaskóli (ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort náms- og starfsráðgjöf og uppeldis- og menntunarfræði verði innan menntavísindaskóla eða félagsvísindaskóla)
Nokkur auðkenni: 2.700 nemendur (1.600 ársverk), 150 fastir kennarar (140 ársverk), 12 ársverk í stundakennslu
Næst vék Ólafur að skiptingu skóla í deildir. Tók hann fram að í framlögðum tillögum starfshópsins væri ekki tekin afstaða til deildaskiptingar skólanna, enda lægi ekki fyrir hvaða viðmið ætti að nota við skiptinguna. Mikilvægt væri að einingarnar tækju virkan þátt í umræðunni um skiptingu í deildir. Hugsanleg viðmið gætu verið þessi:
- Fjöldi nemenda í grunn- og framhaldsnámi (t.d. > 200)
- Fjöldi fastra kennara (t.d. > 10)
- Rannsóknaumsvif
- Styrkur og sérstaða fræðasviðs
Í tillögum starfshópsins væri gert ráð fyrir að sameiginleg yfirstjórn Háskólans væri í höndum háskólaráðs og rektors en aðrar sameiginlegar stofnanir væru háskólaþing, forsetanefnd og fastanefndir háskólaráðs eða háskólafundar:
- Háskólaráð skipað rektor, 3 fulltrúum starfsfólks, 2 stúdentum, 3 utanaðkomandi fulltrúum - svipað hlutverk og nú
- Rektor: Val og hlutverk svipað og nú
- Háskólaþing: Senat - svipað háskólafundi
- Forsetanefnd: Rektor og skólaforsetar - samráðsvettvangur
- Fastanefndir háskólaráðs eða háskólafundar
- Verkefni: Þau sem æskilegt og hagkvæmt er að leysa á sameiginlegum vettvangi
Skólar:
- Skólaráð: Skólaforseti og deildaformenn (og e.t.v. viðbótarfulltrúar). Fjármál og forysta skóla
- Skólaforseti: Ráðinn af rektor til 5 ára, umsögn valnefndar (fulltrúar skóla og rektors). Akademískt hæfi, leiðtogahæfileikar, reynsla af stjórnun og stefnumótun. Framkvæmdastjóri og leiðtogi
- Skólafundur: Fulltrúar deilda og stúdenta. Samráðsvettvangur deilda. Stefnumótun skóla
- Verkefni: Þau sem æskilegt og hagkvæmt er að færa nær grasrót, en henta ekki minni einingum (deildum)
Deildir - faglegar grunneiningar:
- Deildarráð: Deildir geti haft deildarráð sem gegni sumum verkefnum deildarfundar
- Deildarformaður: Kjörinn af deild til þriggja ára (skólaforseti staðfestir, má vera utanfrá ef deild vill). Akademískt hæfi, leiðtogahæfileikar, stjórnunarreynsla. Starfshlutfall ræðst af umfangi deildar
- Deildarfundur: Almennur fundur akademískra starfsmanna og stúdenta. Stefnumótun og innri mál deildar
- Verkefni: Þau sem æskilegt og hagkvæmt er að hafa næst vettvangi
Rannsóknastofnanir:
- Rannsóknastofnanir tengist skólum og deildum sem nánustum böndum
- Við hvern skóla verði a.m.k. ein rannsóknastofnun sem getur skipst í stofur
- Skólaforseti ráði forstöðumann og akademíska starfsmenn stofnunar
Að lokum lýsti Ólafur áframhaldi vinnunnar. Starfshópurinn hefði nú lagt fram ramma sem eftir væri að útfæra nánar. Meðal þeirra spurninga sem leita þyrfti svara við væri hvort heppilegt væri að skólarnir yrðu fimm í ljósi fyrirliggjandi hugmynda um skipulag. Einnig þyrfti að útfæra nánar hugmyndir starfshópsins um verkaskiptingu milli sameiginlegrar yfirstjórnar, skóla og deilda. Þá ætti eftir að skilgreina nánar innviði skóla og deilda og svara því hvar endanlegt vald ætti að liggja, hvað hugtökin „framkvæmdavald“ og „löggjafarvald“ þýddu í reynd í þessu samhengi o.fl. Lauk Ólafur máli sínu á að lýsa því að hér væri á ferðinni ögrandi og spennandi verkefni sem miðaði að því að gera góðan skóla enn betri.
Rektor þakkaði Ólafi fyrir framsöguna og gaf orðið laust. Miklar og fjörugar umræður spunnust um málið og komu fram fjölmörg ólík sjónarmið. Flestir fundarmenn lýstu ánægju með að nú væru komnar fram tiltölulega mótaðar tillögur um formlega skiptingu og stjórnkerfi Háskólans.
Fram kom það sjónarmið frá fulltrúum lítilla deilda að þær væru uggandi um stöðu sína í stórum skólum. Var þess jafnframt getið að slíkt væri að nokkru leyti skiljanlegt því allir vissu hvað þeir hefðu en ekki hvað þeir fengju. Aðalatriðið væri þó að á endanum yrði fundin málefnaleg lausn sem allir gætu vel við unað og þjónaði því langtímamarkmiði Háskóla Íslands að komst í hóp bestu háskóla í heimi.
Bent var á að mikilvægt væri að ákveða sem fyrst hvað skólarnir yrðu margir og hvaða einingar mynduðu deildir svo að þær gætu byrjað að undirbúa sig fyrir breytingarnar.
Forseti læknadeildar greindi frá því að heilbrigðisvísindadeildir væru nú þegar komnar vel af stað með að ræða framtíð sína innan heilbrigðis- og lífvísindaskóla. Mikið samstarf væri á milli deildanna og héldu þær m.a. mánaðarlega samráðsfundi auk þess sem fulltrúar þeirra ættu sæti í stefnunefnd Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss sem væri mikilvægur samráðsvettvangur.
Forseti lyfjafræðideildar sagði starfsmenn deildarinnar horfa jákvæðum augum til heilbrigðis- og lífvísindaskólans og teldu myndun hans mikla framför. Einnig væri spennandi að hafa lífvísindin með í þessum skóla. Almennt ættu núverandi deildir og skorir ekki að einblína á það sem þær kynnu hugsanlega að missa, heldur treysta því fólki sem hefði verið falið að undirbúa breytingarnar til að vinna að þeim á faglegum forsendum og með heildarhagsmuni Háskólans í huga.
Forseti hjúkrunarfræðideildar skýrði frá því að fjallað hefði verið um tillögurnar í deildarráði og ríkti þar ánægja með að verið væri að endurskoða skipulag Háskólans. Tók forsetinn undir þau orð kollega síns úr læknadeild að mikið og gott samstarf væri á milli heilbrigðisvísindagreinanna. Í deildarráði hefðu þó vaknað nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi hefði hjúkrunarmenntun sterka faglega stöðu á Íslandi og væri í forystu í evrópsku samhengi. Þessari sterku stöðu vildi deildin halda og þyrfti að gæta þess að nýtt stjórnkerfi spillti því ekki. Í öðru lagi teldi ráðið nauðsynlegt að skilgreina nánar hvað átt væri við með eflingu stoðþjónustu. Ekki væri aðeins þörf á skrifstofuþjónustu heldur einnig og ekki síður aðstoðarfólki á klínískum vettvangi. Þá virtist í 2. og 3. kafla tillagna starfshópsins vera gert ráð fyrir valdaafsali frá deild til skóla, en það atriði þyrfti að skoða betur. Í þriðja lagi teldi deildarráð hjúkrunarfræðideildar mikilvægt að geta áfram haft milliliðalaust samstarf við heilbrigðisstofnanir á Íslandi, en sú skipan mála hefði reynst vel.
Forseti guðfræðideildar greindi frá því að þótt deildin væri svolítið uggandi yfir breytingunum framundan væru deildarmenn jafnframt ákveðnir í að líta á þær sem tækifæri til framfara. Deildin sveiflaðist á milli þess að vilja tilheyra hugvísindaskóla og félagsvísindaskóla. Sumar greinar innan guðfræðinnar skilgreindu sig með félagsvísindum en aðrar með hugvísindum. Þetta þyrfti að leiða til lykta með málefnalegri umræðu. Einnig skipti máli hvernig hinar nýju deildir yrðu skilgreindar og hvernig að þeim yrði búið. Í framsögu sinni hefði Ólafur Þ. Harðarson nefnt nokkrar mögulegar viðmiðanir sem sumar hefðu verið tölfræðilegar en aðrar ekki, einkum „styrkur og sérstaða fræðasviðs“. Mikilvægt væri að skoða fyrst faglegan styrk, s.s. rannsóknarumsvif og líta síðan til tölfræðilegra þátta.
Forseti viðskipta- og hagfræðideildar sagði að það væri útbreitt sjónarmið innan deildarinnar að hún hefði alla burði til að mynda sjálfstæðan skóla. Tillaga starfshópsins gerði hins vegar ráð fyrir því að viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild rynnu inn í félagsvísindaskólann. Þessi tillaga hefði enn sem komið er lítið verið rædd og hún þyrfti einnig að skoðast í samhengi við framkomna tillögu um stjórnskipulag. Þetta tvennt heyrði saman. Þá lýsti forsetinn þeirri persónulegu afstöðu sinni að einingar Háskólans ættu að vera fáar og stórar. Það væri forsenda fyrir bættri þjónustu og hagkvæmri nýtingu fjár. Almennt litist sér vel á grunnlínurnar í skipulaginu. Sú skoðun hefði heyrst að tillögurnar um val og vald skólaforseta gætu ógnað jafningjalýðræðinu en sér fyndist undarlegt að svo hófsamar hugmyndir skuli vekja þessi viðbrögð. Mikilvægt væri að ábyrgð og verkaskipting væru skýr og að skólaforseti hefði skýrt umboð. Sá sem stýrði svo stórri skipulagsheild yrði að hafa ótvírætt umboð til að taka ákvarðanir í daglegu starfi og það væri óheppilegt ef hann þyrfti að sækja það niður fyrir sig í hvert sinn. Einnig taldi forseti viðskipta- og hagfræðideildar eðlilegt að rektor kæmi að ráðningu skólaforseta. Þá færi verkaskipting á milli deilda og skóla mikið eftir stærð deildanna. Eðlilegt væri að stórar deildir væru jafnframt öflugar einingar. Til að koma til móts við þessi sjónarmið þyrfti að vera töluverður sveigjanleiki til að aðlaga rekstur, ákvarðanatöku og fleiri þætti að aðstæðum og menningu hvers skóla. Að lokum lagði forsetinn áherslu á að Háskólinn þyrfti að auka skilvirkni, sveigjanleika, hraða í ákvarðanatöku og bæta meðferð fjár. Skipulagsbreytingin ætti ekki síst að þjóna þessum markmiðum. Mikilvægt væri að hraða afgreiðslu málsins og taka frumkvæði gagnvart þeirri endurskoðun á lögum um Háskóla Íslands sem væri framundan.
Forseti verkfræðideildar greindi frá því að þegar fyrstu hugmyndir starfshópsins voru kynntar fyrir áramót hefðu flestir innan verkfræðideildar talið að deildin ætti áfram að vera deild eða skóli. Nú væri hins vegar komin fram ný tillaga um skólaskiptingu og tillaga um stjórnkerfi og því væri eðlilegt að skoða málið á nýjan leik. Þetta væri ögrandi verkefni og miklu skipti að aðilar máls leituðust við að skapa traust og horfa á tækifærin sem breytingarnar fælu í sér.
Rætt var um heitið „skóli“. Benti forseti læknadeildar á að heilbrigðisvísindadeildir hefðu gert samþykkt um að þær vildu frekar kalla þessar einingar „svið“. Einnig gat forsetinn þess að gæta þyrfti að því þegar rætt væri á opinberum vettvangi um skiptingu Háskóla Íslands í skóla að ekki kæmi upp sá misskilningur að til stæði að kljúfa skólann niður. Þvert á móti snérist málið um að styrkja skólann og byggja hann upp á öllum sviðum.
Formaður Stúdentaráðs fagnaði framkomnum tillögum starfshópsins og taldi þær vera til marks um þann mikla metnað sem nú ríkti í Háskóla Íslands. Ítrekaði hann að markmiðið með tillögunum væri að auka gæði starfseminnar og efla þjónustu við nemendur og kennara skólans. Þá tók hann undir með öðrum stúdentum um mikilvægi þess að þeir ættu fulltrúa á öllum stjórnstigum skólans. Að endingu þakkaði hann fyrir samstarfið við stjórnendur og starfsfólk Háskólans á liðnu ári því senn tæki við nýr formaður Stúdentaráðs.
Annar fulltrúi stúdenta lýsti einnig ánægju sinni með tillögurnar og lagði jafnframt áherslu á að stúdentar ættu fulltrúa í öllum stofnunum innan hins nýja skipulags, þ.m.t. í hinu fyrirhugaða skólaráði.
Forseti raunvísindadeildar gerði að umtalsefni hugtökin í titli kynningar Ólafs Þ. Harðarsonar, lýðræði og skilvirkni, og lýsti þeirri skoðun að með tillögunum væri Háskólinn að fjarlægjast lýðræðið. Þetta væri andstætt þeirri tilhneigingu í samfélaginu að fyrirtæki væru í vaxandi mæli að tileinka sér stjórnunarhætti háskóla, þ.e. dreifræði (Subsidiarity Principle). Vísaði forsetinn í þessu sambandi á fundargerð 14. háskólafundar þar sem væri að finna áhugaverðar hugleiðingar Páls Skúlasonar, þáverandi rektors, um háskólalýðræði. Dæmi um styrk og aðlögunarhæfni háskólalýðræðisins væru deildarfundir sem hefðu lagað sig vel að breyttum tímum og væru í flestum tilvikum vel í stakk búnir til að leiða til lykta öll mikilvægustu málefni deildanna. Engin ástæða væri til að hrófla við fyrirkomulagi sem reynst hefði vel. Þá kastaði forseti raunvísindadeildar fram þeirri hugmynd að hugtökum og heitum í tillögu starfshópsins yrði snúið við: Í stað skóla kæmu deildir (faculties) og í stað deilda kæmu skólar. Jafnframt mættu skólarnir verða stærri en skorir eru í dag. Fyrir 10-15 árum hefði verið sett fram svonefnd fjórskólahugmynd og verið mikið rædd. Á þeim tíma hefði hún ekki þótt góð en nú væri hún aftur komin fram í lítillega breyttri mynd og þætti álitleg. Nánar tiltekið fylgdu tillögurnar þeirri aðferðafræði að smæstu deildirnar væru felldar inn í stærri deildir og um leið sameinaðar ýmsar einingar innan þeirra. Á þessu væri þó ein veigamikil undantekning því samkvæmt tillögu starfshópsins ættu stórar einingar raunvísindadeildar að fara í annan skóla þvert gegn vilja raunvísindadeildar og umræddra eininga. Þetta væri ekki síst undarlegt í ljósi þess að raunvísindadeild hefði verið í fararbroddi á mörgum sviðum, m.a. í uppbyggingu meistara- og doktorsnáms við Háskólann, sem kæmi fram í miklum fjölda brautskráðra doktora frá deildinni. Í ljósi þessa vaknaði sú spurning, hví rífa ætti niður það sem vel væri gert? Í stað þessa væri nær að byggja skólaskiptinguna á faglegum forsendum og væri þá fýsilegur kostur að styðjast við hið svonefnda Frascati-Manual frá OECD. Þá greindi forseti raunvísindadeildar frá því að hann hefði talað fyrir því sjónarmiði í 30 ár að búa ætti til grunnvísindadeild fyrir bæði heilbrigðisvísindi og raunvísindi og byggja ofan á hana sérgreinadeildir á framhaldsstigi. Að endingu vék forsetinn að samstarfi raunvísindadeildar við verkfræðideild. Sagði hann það vera gott og vel koma til greina að sameina deildirnar. Ef þetta yrði gert blasti jafnfram við að skipta verkfræði- og raunvísindaskólanum upp í þrjá hluta, í fyrsta lagi lífvísindahluta, í öðru lagi eðlisfræði-, efnafræði og stærðfræðihluta og í þriðja lagi verk- og tæknivísindahluta.
Fulltrúi Raunvísindastofnunar hélt því einnig fram að tillögurnar byggðu í reynd á fjórskólahugmyndinni svokölluðu að viðbættum Kennaraháskólanum. Fagnaði hann þessari tillögu og kvaðst vonast til þess að hún yrði að veruleika. Þá tók hann undir það sjónarmið forseta raunvísindadeildar að í stað þess að kljúfa lífvísindin út úr verkfræði- og raunvísindaskólanum ætti að byggja þann skóla á þremur undirstöðum.
Annar fulltrúi raunvísindadeildar lagði áherslu á að vilji líffræðiskorar og Líffræðistofnunar væri mjög skýr: Lífvísindin ættu að vera innan verkfræði- og raunvísindaskólans en ekki með heilbrigðisvísindunum. Lífvísindi væru sjálfstætt fræðasvið sem yrði sífellt mikilvægara alstaðar í heiminum. Margir framsýnir háskólar hefðu sett á laggirnar sérstök Center of Global Changes og ætti sú hugmynd ekki síður erindi við Háskóla Íslands. Ísland byggði í ríkum mæli á náttúrulegum gæðum og auðlindum og því væri hér á ferðinni stórt tækifæri til að styrkja kennslu og rannsóknir á þessum fræðasviðum.
Fulltrúi Félags prófessora, sem jafnframt er prófessor í raunvísindadeild, benti á að tillögunni um aðsetur lífvísinda í heilbrigðis- og lífvísindaskóla væri ekki beint gegn raunvísindum heldur væri hún byggð á þeim faglegu rökum um að þannig væri greinunum best fyrir komið. Einnig benti fulltrúinn á mikilvægi þess að sett yrði á laggirnar sameiginleg miðstöð fyrir rannsóknanámsnema í matvælavísindunum.
Þriðji fulltrúi raunvísindadeildar tók undir með kollegum sínum og lýsti undrun sinni á þeirri breytingu sem orðið hefði á tillögunum frá því að þær voru fyrst kynntar í nóvember sl. Áður hefði verið gert ráð fyrir að einn hluti lífvísindanna yrði í heilbrigðisvísindaskóla og annar hluti í verk- og raunvísindaskóla. Nú væri hins vegar gert ráð fyrir því að fræðasviðið flyttist í heilu lagi í heilbrigðis- og lífvísindaskóla án þess að fræðimennirnir sem störfuðu á sviðinu hefðu óskað eftir þessari breytingu. Ítrekaði fulltrúinn að Líffræðistofnun hefði ályktað um að líffræðin ætti best heima í verkfræði- og raunvísindaskóla.
Forseti hugvísindadeildar greindi frá því að tillögurnar hefðu verið ræddar í deildinni. Fram hefði komið það sjónarmið að huga þyrfti vandlega að því að ekki væri vegið að jafningjastjórnun. Einnig hefði verið gerð við það athugasemd að tillaga starfshópsins gerði ráð fyrir mjög misstórum skólum. Sérstaklega stingi í augu stærð félagsvísindaskólans. Þá hefði komið fram athugasemdir við skipan háskólaráðs, þ.e. að fulltrúar starfsmanna yrðu aðeins þrír og fagsviðin ættu þ.a.l. ekki öll fulltrúa í ráðinu. Að lokum lýsti forseti hugvísindadeildar þeirri almennu skoðun sinni að ekki ætti að einblína á formið heldur að velta því fyrir sér hvernig greinar gætu best unnið saman. Þá væri það mikið fagnaðarefni að Kennaraháskóli Íslands væri að ganga til liðs við Háskóla Íslands.
Annar fulltrúi hugvísindadeildar fagnaði því að hugvísindadeild væri talin hafa þann styrk til að bera að hún gæti, ásamt guðfræðideild, myndað sjálfstæðan skóla. Hins vegar vekti það þá spurningu hvort það væri æskilegt að deildin breyttist jafn lítið og tillögurnar gerðu ráð fyrir. Því ætti að hugleiða vandlega hvort t.d. einhverjar greinar félagsvísindadeildar ættu ekki betur betur heima í hugvísindaskóla.
Fulltrúi félagsvísindadeildar lýsti vonbrigðum sínum með að tillögurnar hefðu verið unnar í lokuðum starfshópi og taldi að betra hefði verið að gera það með virkri þátttöku allra starfsmanna eins og raunin var í stefnumótunarvinnunni. Einnig greindi fulltrúinn frá því að uppeldis- og menntunarfræðiskor væri ósátt við að hafa ekki haft meira að segja um ákvörðunina um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og um þá hugmynd að uppeldis- og menntunarfræðiskor verði flutt í menntavísindaskóla en raun bæri vitni. Á móti var á það bent að víðtækt samráð hefði verið haft um mótun tillagnanna. Allir háskólafundir háskólaársins væru helgaðir þessu máli, starfshópurinn hefði leitað til allra starfseininga og einstakra starfsmanna og gefið þeim kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, málið hefði verið kynnt og rætt ítarlega í háskólaráði og á fundum rektors með deildarforsetum. Þá væri vinnunni alls ekki lokið og framundan væru ítarlegar samræður við alla aðila málsins.
Annar fulltrúi félagsvísindadeildar gerði athugasemd við það að tillagan gerði ráð fyrir að náms- og starfsráðgjöf yrði í menntavísindaskólanum. Í reynd hefði greinin þróast sífellt meir í átt til fullorðinsráðgjafar og námið væri orðið tveggja ára meistaranám. Í ljósi þessa teldi náms- og starfsráðgjöf sér best fyrir komið í nábýli við greinar félagsfræðiskorar sem væntanlega yrðu í félagsvísindaskólanum.
Talsvert var rætt um tillögur starfshópsins um stjórnskipulag Háskólans. Sérstaklega komu fram ólík sjónarmið um skipan háskólaráðs. Héldu sumir því fram að hlutur akademískra starfsmanna í ráðinu væri of rýr. Aðrir töldu að gagnlegt væri að hafa utanaðkomandi fulltrúa, en Háskólinn yrði að skipa þá sjálfur. Þá varpaði einn fundarmaður fram þeirri hugmynd að forsetar skólanna ættu sæti í háskólaráði. Ráðið væri æðsti ákvörðunaraðili Háskólans og því þjónaði slík skipan þeirri samþættingu sem nauðsynleg væri til að koma í veg fyrir að Háskólinn liðaðist í sundur. Tillagan gerði að vísu ráð fyrir sérstakri forsetanefnd en fyrirsjáanlegt væri að hún gæti orðið svo sterk að hún myndaði samkeppni við háskólaráð. Ef skólaforsetar ættu hins vegar sæti í háskólaráði væri óþarft að setja á laggirnar sérstakan forsetafund. Ennfremur kom fram það sjónarmið að skilja ætti betur á milli „löggjafarvalds“, þ.e. háskólaþings og „framkvæmdavalds“, þ.e. háskólaráðs, með því að löggjafarvaldið fengi reglusetningarvaldið sem háskólaráð hefði nú. Þá var þeirri skoðun haldið á lofti að fara ætti varlega í að færa stjórnsýsluleg verkefni til skólanna. Flestum verkefnum sem nú væri sinnt af sameiginlegri stjórnsýslu væri vel sinnt þar og misskilningur að ætla sér að dreifa þeim á margar hendur. Hins vegar þyrfti að styrkja stoðkerfi skólanna og stórauka þjónustu við kennara. Þessu tvennu mætti ekki rugla saman. Einnig var rætt um skipun skólaforseta. Töldu sumir að auglýsa beri störf þeirra og að rektor ætti að ráða þá. Aðrir héldu því fram að skólaforsetarnir þyrftu fyrst og fremst að sækja umboð sitt til starfsmanna skólanna og því þyrftu þeir að vera lýðræðislega kosnir. Þriðji hópurinn benti á að hér væru ekki á ferðinni afarkostir heldur væri það í reynd svo alstaðar þar sem akademískir stjórnendur væru ráðnir, t.d. í Bandaríkjunum, að þeir hefðu víðtækt samráð við starfsmenn um allar mikilvægar ákvarðanir. Lýðræðið væri m.ö.o. svo órjúfanlega tengt akademíunni að stjórnendur sem færu með valdi gegn vilja akademíunnar hrökkluðust úr starfi. Loks var rætt um starf skólaforsetans og hvort hann ætti að hafa rannsóknaskyldu eða sinna stjórnun í fullu starfi, hvað biði hans eftir 10 ára starf sem stjórnandi o.fl.
Fulltrúi félaga prófessora og háskólakennara og hjúkrunarfræðideildar greindi frá því að stjórnir Félags prófessora og Félags háskólakennara hefðu fjallað um tillögur starfshópsins og væru sammála um að stjórnkerfi háskóla þyrfti að vera í sífelldri yfirvegun í þágu gæða og öflugs faglegs starfs. Hins vegar gerðu félögin athugasemdir við nokkur mikilvæg atriði: Í fyrsta lagi teldu þau vanta greiningu á núverandi ástandi, þeim vandamálum sem við væri að etja og í hvaða mæli tillögurnar kæmu til móts við þau. Í öðru lagi væri tillögurnar um samsetningu háskólaráðs til þess fallnar að veikja ráðið með fjölgun utanaðkomandi fulltrúa á kostnað akademískra fulltrúa, auk þess sem gert væri ráð fyrir að fulltrúi kennarafélaganna hyrfi úr ráðinu. Í þriðja lagi myndu tillögurnar draga úr jafningjastjórnun og lýðræði. Best væri að taka ákvarðanir sem mest næst vettvangi, þ.e. innan háskóladeildanna, enda væri þar til staðar sú þekking sem byggja þyrfti á til að taka upplýstar ákvarðanir. Einnig gerðu stjórnirnar athugasemd við að ekki lægju fyrir skýr fagleg viðmið um skiptingu í deildir. Í fjórða lagi segði í tillögunum að skólaforsetar og deildarformenn þyrftu að hafa „akademískt hæfi" án þess að það væri skilgreint nánar. Óásættanlegt væri að ráða skólaforseta og deildarformenn á grundvelli meistaraprófs og án reynslu af akademísku starfi. Í fimmta lagi ætti rektor að hafa prófessorshæfi en ekki aðeins dósentshæfi eins og ákveðið var á háskólafundi fyrir nokkrum árum. Í sjötta lagi hefðu stjórnir kennarafélaganna áhyggjur af því að rektor ætti að ráða skólaforseta. Skólaforsetarnir ættu að sækja umboð sitt til skólanna og deildarformennirnir til deildanna.
Á móti var á það bent að málið hefði verið undirbúið mjög vandlega og heilmikil greiningarvinna hefði átt sér stað. Yfirstandandi endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans byggði m.a. á ábendingum í úttektarskýrslum Samtaka evrópskra háskóla (EUA) og Ríkisendurskoðunar, tillögum starfshóps rektors sem hefði farið yfir úttektirnar og gert tillögur um viðbrögð við þeim og loks á víðtækri stefnumótunarvinnu á síðasta ári. Það lægi fyrir að úttektarhópur EUA hefði lagt til að deildum yrði fækkað og að rektor ætti að koma að ráðningu skólaforseta. Þá væri ákveðið í stefnu Háskóla Íslands að fjölga skuli utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði og að Háskólinn skuli velja þá sjálfur.
Forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss taldi að tillögurnar væru spor í rétta átt þótt eitt og annað mætti ugglaust fara betur. Mikilvægt væri að Háskóli Íslands yrði áfram sterk heild þegar honum yrði skipt upp í fimm skóla. Einnig taldi hann að sameinaður heilbrigðis- og lífvísindaskóli væri vel til þess fallinn að styrkja heilbrigðisþjónustu í landinu. Landspítalinn og Háskólinn hefðu aukið samstarf sitt mikið á síðustu árum, á sviði kennslu, rannsókna og starfsmennta, auk þess sem efling framhaldsnámsins væri áherslumál í stefnu Háskólans. Spítalinn ætti að vera sá vettvangur þar sem klínískt framhaldsnám færi fram og væri nýja sjúkrahúsið hentugur vettvangur fyrir það starf.
Rektor þakkaði Ólafi Þ. Harðarsyni og starfshópnum fyrir vel unnin störf. Ítrekaði rektor að Háskóli Íslands hefði vaxið mjög á síðustu árum og framundan væri enn frekari efling starfseminnar. Tekjur skólans myndu stóraukast á næstu árum og í lok gildistíma samningsins við menntamálaráðuneytið myndi skólinn væntanlega hafa til ráðstöfunar 14 milljarða króna. Í ljósi þessa væri nauðsynlegt að endurskoða skipulag og stjórnkerfi skólans, m.a. með tilliti til ábyrgrar stjórnunar fjármála. Ábyrgð rektors og skólaforseta væri mjög mikil og því væri eðlilegt að rektor hefði eitthvað um það að segja hverjir yrðu hans næstu samverkamenn. Tillögurnar gerðu ráð fyrir að rektor sækti umboð sitt til háskólasamfélagsins og það hlyti að fela í sér traust til að koma að vali skólaforseta. Á heildina litið væru tillögur starfshópsins hófsamar og fælu í sér óverulega endurskoðun á akademískri jafningjastjórnun.
Að lokum bar rektor upp tillögu um að tillögur starfshóps um skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir verði sendar til umsagnar í háskólasamfélaginu ásamt framkomnum athugasemdum á fundinum. Jafnframt leiði starfshópurinn saman til viðræðna þá aðila sem mynda skóla samkvæmt tillögunni.
- Samþykkt einróma.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ólafs Þ. Harðarsonar, þau Inga B. Árnadóttir, Stefán B. Sigurðsson, Hjalti Hugason, Elín Soffía Ólafsdóttir, Dagný Ósk Harðardóttir, Guðrún Marteinsdóttir, Hörður Filippusson, Rúnar Vilhjálmsson, Stefán Ólafsson, Þórný Hlynsdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Friðrik Már Baldursson, Sigurður Brynjólfsson, Jón Atli Benediktsson, Ásdís Egilsdóttir, Inga Þórsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Oddný G. Sverrisdóttir, Sigurður Örn Hilmarsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Friðrik H. Jónsson, Hafliði Pétur Gíslason og Magnús Pétursson.
Þegar hér var komið sögu var klukkan orðin 17.15 og bar rektor því upp dagskrártillögu um að dagskrárlið 4 yrði frestað.
- Samþykkt einróma.
Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólafundi fyrir góða og málefnalega umræðu og bauð þeim að þiggja léttar veitingar í anddyri Hátíðarsalar.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17.15.
Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 22. háskólafundi 16. mars 2007:
1. Dagskrá og tímaáætlun 22. háskólafundar 16. mars 2007.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Fundargerð 21. háskólafundar 17. nóvember 2006.
4. Drög að upplýsingatæknistefnu Háskóla Íslands er lýtur að námi og kennslu.
5. Drög að stefnu Háskóla Íslands um framboð og framkvæmd fjarnáms.