17. háskólafundur haldinn í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands fimmtudaginn 26. maí 2005
Fundartími: Kl. 14.00 - 17.00
Dagskrá
Kl. 14.00 - 14.05 Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum. (5 mín.)
Kl. 14.05 - 14.25 Dagskrárliður 1. Rektor reifar stefnumál Háskóla Íslands. (20 mín.)
Kl. 14.25 - 14.55 Dagskrárliður 2. Um stöðu siðareglna Háskóla Íslands. (30 mín.)
Málsmeðferð:
a) Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, gerir grein fyrir málinu. (10 mín.)
b) Almennar umræður og ákvörðun um áframhaldandi málsmeðferð. (20 mín.)
Kl. 14.55 - 15.20 Kaffihlé. (25 mín.)
Kl. 15.20 - 16.25 Dagskrárliður 3. Niðurstöður stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands. (65 mín.)
Málsmeðferð:
a) Hörður Filippusson, prófessor og deildarforseti, gerir grein fyrir helstu niðurstöðum er lúta að fjármálum og stjórnun. (10 mín.)
b) Jón Atli Benediktsson, prófessor og formaður vísindanefndar, gerir grein fyrir helstu niðurstöðum í tengslum við rannsóknir og akademíska stöðu Háskólans. (10 mín.)
c) Almennar umræður. (45 mín.)
Kl. 16.25 - 16.55 Dagskrárliður 4. Framkvæmd stefnumála Háskóla Íslands. (30 mín.)
Málsmeðferð:
a) Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, gerir grein fyrir málinu. (10 mín.)
b) Almennar umræður. (20 mín.)
Kl. 16.55 Rektor slítur fundi.
Kl. 14.00-13.05: Fundarsetning
Rektor setti 17. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun og gerði grein fyrir fyrirliggjandi gögnum (sjá lista í viðauka). Fundarritarar voru skipaðir Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, starfsmannastjóri.
Kl. 14.05 - 14.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar stefnumál Háskóla Íslands
Evrópskt svæði æðri mentunar árið 2010
Rektor hóf mál sitt á að greina frá fréttatilkynningu um Evrópskt svæði menntunar árið 2010, frá fjórða fundi menntamálaráðherra Evrópu um Bologna-ferlið, sem haldinn var 19. og 20. maí sl. Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsingu þar sem þeir ítrekuðu ásetning sinn um að halda samstarfinu áfram með auknum krafti þannig að árið 2010 verði evrópskt svæði æðri menntunar orðið að veruleika. Gert er ráð fyrir því að nemendur og starfsmenn evrópskra háskóla geti stundað nám og störf utan heimalands síns án hindrana og að því búnu fengið námið metið í heimalandinu.
Rektor hvatti fundarmenn til að kynna sér efni Bergen-yfirlýsingarinnar. Fyrsti fundur menntamálaráðherranna í tengslum við þetta samstarfsferli var haldinn 1998 í Sorbonne í Frakklandi. Í kjölfar þessa fundar var ári síðar haldinn fundur í Bologna þar sem ráðherrarnir settu evrópskum háskólum sameiginleg markmið sem við í dag köllum Bologna-ferlið. Markmið þess er að samhæfa háskólakerfi Evrópulandanna í því skyni að auka samstarf og samvinnu háskóla. Háskóli Íslands hefur, ásamt öðrum íslenskum skólum á háskólastigi, lýst yfir eindregnum stuðningi við markmið Bologna-ferlisins.
Fram kom í máli rektors að helsta stefnumið ferlisins hafi frá upphafi verið að samræma lengd og innihald náms á háskólastigi í ríkjum Evrópu. Þannig er miðað við að grunnnám til fyrstu háskólaráði taki að jafnaði þrjú ár, nám til annarrar háskólaráði tvö ár og doktorsnám þrjú ár. Önnur helstu markmið ferlisins eru sameiginlegt gráðukerfi, sambærilegar prófgráður, gæðamál í háskólum og svokallaður prófskírteinisviðauki með innihaldslýsingu.
Eitt helsta umfjöllunarefnið á fundinum í Bergen voru einmitt gæðamálin. Áhersla var lögð á að evrópskir háskólar þyrftu að hafa sambærilegar viðmiðanir um gæði starfseminnar, t.d. í tengslum við mat á störfum háskólamanna og sameiginlegar forsendur fyrir formlegum prófgráðum.
Starf Háskóla Íslands hefur um árabil verið í samræmi við markmið ferlisins og hefur skólinn því þegar náð öllum helstu markmiðum Bologna-ferlisins. Að lokum ítrekaði rektor hvatningu sína til fundarmanna um að kynna sér vel efni yfirlýsingarinnar og markmið ferlisins almennt.
Úttekt Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA) á Háskóla Íslands
Næst gerði rektor grein fyrir úttekt EUA á Háskóla Íslands. Síðast liðið haust óskaði rektor eftir því við Samtök evrópskra háskóla að þau gerðu formlega úttekt á Háskóla Íslands í samræmi við þá aðferðafræði sem samtökin hafa beitt undanfarin ár með góðum árangri, en vel á annað hundrað evrópskir háskólar hafa verið teknir út með þessum hætti á vegum samtakanna. Aðferðin byggir í meginatriðum á sjálfsmati stofnunar og hlutlægu ytra mati sérfræðinga EUA.
Sérfræðingahópur EUA hefur í tvígang heimsótt Háskóla Íslands, fyrst 7.-9. mars sl. og aftur 10.-13. þm. Sérfræðingahópinn skipa:
Tove Bull, fyrrv. rektor Háskólans í Tromsø, Noregi, formaður,
Maxwell Irvine, fyrrv. rektor Háskólans í Birmingham, Bretlandi,
Jean Brihault, fyrrv. rektor Háskólans í Rennes 2, Frakklandi,
Dionyssis Kladis, prófessor við Háskólann í Peloponnese, Grikklandi, ritari.
Í heimsóknum sínum ræddi hópurinn við ýmsa aðila innan og utan Háskólans, þ.á.m.:
starfsfólk og stúdenta sex deilda (verkfræðideild, viðskipta- og hagfræðideild, hugvísindadeild, hjúkrunarfræðideild, lagadeild og raunvísindadeild),
deildarforseta flestra deilda,
formenn nefnda háskólaráðs og starfsmenn í sameiginlegri stjórnsýslu,
fulltrúa samstarfsaðila Háskólans, svo sem stjórnvalda og atvinnulífs,
fulltrúa tveggja rannsóknastofnana Háskólans,
fulltrúa Ríkisendurskoðunar,
fulltrúa stúdenta.
Í síðari heimsókn sinni gerði hópurinn munnlega grein fyrir frumniðurstöðum sínum og greindi rektor frá þeim í stuttu máli:
1. Háskólinn og stjórnvöld
* Háskólinn ætti að reyna eftir mætti að hafa áhrif á væntanlega lagasetningu um háskóla.
2. Áhrif einkarekinna háskóla á starfsumhverfi háskóla almennt
* Auka ætti samstarf við einkaskólana.
* Samkeppnin er ekki síður við erlenda háskóla en innlenda.
* Auka þarf tekjur Háskólans frá öðrum en stjórnvöldum.
3. Háskólinn og samfélagið
* Auka ber enn frekar tengsl við samfélagið, ekki síst atvinnulífið.
4. Stúdentar og nám
* Minnka þarf brottfall stúdenta.
* Bæta þarf upplýsingaflæði til stúdenta um framboð námskeiða.
* Auka þarf samræmi milli einingamats námskeiða annars vegar og vinnuálags stúdenta hins vegar.
* Meta þarf stöðugt hvort námsframboð sé í samræmi við kröfur vinnumarkaðarins.
* Ávallt ber að nota bestu tækni sem völ er á hverju sinni í kennslunni. Þá taldi hópurinn vefkerfið Uglu til eftirbreytni fyrir aðra evrópska háskóla.
5. Kennarar
* Háskólinn ætti að bjóða á hverjum tíma upp á námskeið fyrir kennara í kennslutækni og kennsluaðferðum.
* Taka þarf upp virkt gæðaeftirlit með stundakennslu, einkum í ljósi þess hve mikill hluti kennslunnar er í höndum stundakennara.
* Auka þarf sveigjanleika í tengslum við starfsskyldur (kennsla, rannsóknir og stjórnun).
Þá vakti það athygli sérfræðinga EUA hve kennarar Háskólans eru almennt vel menntaðir. Það er ótvíræður kostur hve víða þeir sækja menntun sína og hve reynsla þeirra af alþjóðlegu samstarfi er mikil. Samt má greina ákveðin hættumerki, einkum hve fjöldi nemenda á hvern kennara vex hratt, sem er augljós afleiðing af fjárhagsstöðu skólans. Þá telur sérfræðingahópurinn athyglisvert að þátttaka kennara í stjórnsýslustörfum er talsvert meiri en gengur og gerist í evrópskum háskólum.
6. Rannsóknir
* Háskólinn ætti að styrkja rannsóknastefnu sína, m. a. með því að móta áherslusvið í rannsóknum.
* Áherslusvið Háskólans í rannsóknum eiga að taka mið af þörfum þjóðfélagsins.
* Rannsóknastofnanir ættu að vera tengdari þungamiðju rannsókna í deildum.
* Um leið og Háskólinn setur sér markmið í rannsóknum þarf að tryggja eftirfylgni með formlegum hætti.
Þá vakti það sérstaka athygli sérfræðingahópsins hve framleiðni í rannsóknum er mikil og hversu hratt hún hefur vaxið undanfarin ár.
7. Alþjóðavæðing
* Háskólinn þyrfti að nýta alþjóðlegu tengsl sín til að styrkja rannsóknir.
* Halda beri áfram að þróa sameiginlegar gráður með erlendum háskólum (sérstaklega doktorsgráður).
Hópnum þótti athyglisvert hve hátt hlutfall stúdenta kemur erlendis frá. Styrkja þarf alþjóðavæðingu í rannsóknum á vissum sviðum, einkum til að bæta upp fámennið (critical mass). Þó Háskólinn sé stór í íslensku samfélagi er hann að sjálfsögðu smár á evrópskan mælikvarða.
8. Jafnréttismál
* Þróa ber áfram jafnréttisstefnu þar sem áhersla er lögð á jafnrétti kynjanna í starfsemi skólans. Leggja ber áherslu á jafnrétti kynjanna í yfirstjórn Háskólans
9. Skipulag deilda
* Í ljósi breyttra aðstæðna í ytra umhverfi þarf sífellt að huga að skipulagi deilda.
* Hvetja ber til náinnar samvinnu milli deildarskrifstofa og jafnvel huga að sameiningu þeirra þar sem það á við.
* Leggja ber áherslu á að eyða hindrunum sem vinna gegn þverfræðilegu samstarfi.
10. Skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu
* Háskólinn ætti að hugleiða hvort rektor eigi að ráða sér vararektor eða vararektora.
Þær breytingar sem gerðar voru 1999 á stjórnskipulagi Háskólans virðast hafa skilað góðum árangri. Hópurinn bendir á að til greina komi að formenn starfsnefnda geti jafnframt gegnt starfi vararektora.
11. Ákvarðanataka og stjórnkerfi
* Til að tryggja betra samræmi og samvinnu milli yfirstjórnar og deilda ætti rektor að hafa með einhverjum hætti áhrif á val deildarforseta.
Stjórnskipulagið er á hefðbundnum evrópskum nótum og virðist stjórnun í meginatriðum ganga vel. Greina má spennu milli sameiginlegrar stjórnsýslu annars vegar og deilda hins vegar. Hún er þó alls ekki eins mikil og víða þekkist í evrópskum háskólum. Hópurinn leggur höfuðáherslu á að Háskólinn verði áfram ein sterk heild.
12. Skilvirkni og árangur í stjórnun
Hópurinn tekur undir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um að skilvirkni sé mikil í starfseminni. Í samanburði við evrópska háskóla er Háskólinn mjög skilvirkur þrátt fyrir óvenju fáskipaða stjórnsýslu.
13. Fjármál
* Háskólinn leitist við að auka tekjur sínar frá öðrum en stjórnvöldum.
* Háskólinn beiti sér fyrir því að hann fái fjárveitingu vegna allra virkra stúdenta.
* Auka verður fjárveitingar vegna rannsóknanámsins til samræmis við raunverulegan kostnað.
Það er niðurstaða hópsins að Háskólinn njóti ekki viðunandi fjárveitinga frá ríkisvaldinu. Afar mikilvægt er að treysta fjárhagsgrunn framhaldsnámsins. Að mati hópsins er það ekki hlutverk Háskólans að ákveða hvort tekin verði upp skólagjöld til að treysta fjárhag skólans.
14. Stefnumótun
* Í ljósi lágra fjárveitinga og pólitískra aðstæðna ætti Háskólinn að leggja áherslu á forgangsröðun verkefna (mótun áherslusviða) í stefnumótun sinni.
* Mikilvægt er að þátttaka í stefnumótun sé almenn.
Við mótun stefnu verður að taka mið af sérstöðu og stærð skólans í samfélaginu og hversu stór hluti rannsókna í landinu eru unnar á vegum Háskólans.
15. Gæðamál
* Háskólinn ætti að hafa frumkvæði að viðræðum við aðra háskóla í landinu um gæðamál.
* Tryggja þarf að niðurstöður kennslukannana hafi áhrif.
* Styrkja þarf formlegt gæðakerfi Háskólans enn frekar.
Almennt
Það er mat sérfræðingahópsins að Háskóli Íslands sé öflugur háskóli sem einkennist af framleiðni í rannsóknum og skilvirkni í stjórnsýslu. Hann er mjög ódýr í rekstri fyrir stjórnvöld og býr alls ekki við fullnægjandi fjárveitingar ("highly underfunded"). Stúdentarnir eru almennt ánægðir þótt ýmislegt megi bæta. Mikil áhersla hefur verið lögð á umbótastarf en afar mikilvægt er að halda því áfram á næstu misserum.
Lokaskýrsla hópsins er væntanleg í lok sumars.
Að lokum ítrekaði rektor að mikil vinna er framundan innan Háskólans í stefnumótun. Stefnumótunin mun að sjálfsögðu byggja á niðurstöðum þessarar úttektar, en ekki síður á úttekt Ríkisendurskoðunar sem nú liggur fyrir sem og úttekt menntamálaráðherra á akademískri stöðu skólans, sem einnig liggur fyrir í drögum og er væntanleg í endanlegri gerð í haust. Verðandi rektor er í þann mund að skipa starfshóp sem ætlað er að gaumgæfa niðurstöður þessara úttekta og gera tillögur um viðbrögð Háskólans við niðurstöðum og ábendingum þeirra.
Kl. 14.25 - 14.55 - Dagskrárliður 2: Um stöðu siðareglna Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá því að hann hefði fyrir skömmu skipað starfshóp til að meta það hvort ástæða væri til að endurskoða það fyrirkomulag siðareglna og siðanefndar sem háskólafundur mótaði í nóvember 2003. Í starfshópnum áttu sæti Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal, Sigurður Líndal, Tryggvi Þórhallsson og Vilhjálmur Árnason. Þá rakti rektor almennt hlutverk og eðli siðareglna og stöðu þeirra gagnvart lagareglum. Í máli rektors kom m.a. fram að flestar siðareglur væru óskrifaðar og sjálfsagðar í mannlegum samskiptum. Óþarfi væri að skrá slíkar reglur. Engu að síður hefðu margar starfsstéttir skráð siðareglur sínar, ekki síst vegna álitamála sem upp kunna að koma í störfum þeirra. Rektor taldi það ótvíræðan kost að hafa slíkar siðareglur skráðar, einkum til að auðvelda okkur að bregðast við ef þær eru brotnar.
Fyrir fundinum lá greinargerð frá framangreindum starfshópi, dags. 5. maí 2005. Áður en rektor kynnti greinargerðina tók hann fram að hún væri afar vel unnin og þakkaði hann starfshópnum fyrir vel unnin störf. Í greinargerð hópsins kemur m.a. fram að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur (19. ágúst 2004) í máli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar gegn siðanefnd Háskólans gefi tilefni til að endurskoða starfsgrundvöll siðanefndar og framsetningu hinna skráðu siðareglna Háskólans. Þannig er óljóst á hvaða grundvelli starfsmenn og stúdentar eru skuldbundnir til að hlíta siðareglunum. Innan Háskólans starfa margir ólíkir hópar sem gætu haft mismunandi sýn á ábyrgð og skyldur af siðferðilegum toga.
Í greinargerðinni segir m.a.:
„Fram kemur í áðurnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, að þar sem niðurstaða siðanefndar um brot á siðareglum geti verið íþyngjandi fyrir þann starfsmann sem í hlut á, verði að gera strangar kröfur til forms og lögmætis slíkra niðurstaðna. Leiða má af orðum úrskurðarins, að þar sem siðanefndin starfi á grundvelli Háskólans sem stofnunar, orki tvímælis að stoð skuli ekki vera fyrir nefndinni í lögum um Háskóla Íslands og að þær reglur sem nefndin starfar eftir séu formlega ekki settar og birtar með sama hætti og eiginlegar reglur Háskólans.“
Starfshópurinn telur nauðsynlegt að skýra betur grundvöll siðanefndarinnar og framsetningu og inntak hinna skráðu siðareglna. Í því skyni álítur hópurinn tvo kosti vera fyrir hendi.
„Annars vegar er sá kostur að styrkja lagalega stöðu siðareglna og siðanefndar H.Í. Þetta mætti m.a. gera með því að sækja sérstaka lagastoð fyrir gildandi fyrirkomulag.
Við teljum þessa leið vera óheppilega þar sem hún myndi ekki marka þau skil sem, eðli málsins samkvæmt, verður að viðhalda á milli lagareglna og siðareglna. Þá er lagabreytingin ekki á forræði Háskólans og þar sem stefnumótun um hlutverk siðareglna í opinberum stofnunum hefur ekki farið fram, er viðbúið að löggjafarstarf á þessu sviði muni dragast á langinn.
Hins vegar er sá kostur að Háskólinn skerpi á því hlutverki siðareglna, að draga fram og skýra þau meginviðmið sem ætla má að séu í gildi innan háskólasamfélagsins, sundurgreini þau betur en gert er í núverandi reglum og tengi þau skýrar við hina ólíku hópa inn H.Í. Þetta er forsenda þess að siðareglur geti gegnt hlutverki sínu. Með þessu verði tekin af öll tvímæli um að siðareglur og siðanefndir innan Háskólans sæki umboð sitt til þeirra sem störfin vinna en ekki yfirstjórnar skólans. Þetta er í anda skráðra siðareglna starfsstétta sem flestar eru settar af starfsstéttum sjálfum og eru sáttmáli fagfólks um það hvernig störfin skuli unnin. Siðanefndir starfsstétta sækja síðan umboð sitt til þessara reglna.“
Í ljósi þess hve fjölþætt stofnun Háskólinn er telur starfshópurinn að siðareglur innan háskólasamfélagsins gætu verið þríþættar:
„1. Leiðarljós háskólasamfélagsins í heild, þ.e. almenn viðmið um háttvísi allra þeirra sem starfa við Háskólann.
2. Siðareglur sem myndu draga sérstaklega fram skyldur og ábyrgð þeirra háskólamanna sem starfa við kennslu og rannsóknir.
3. Sérreglur fagstétta og fræðasviða, svo sem um meðferð rannsóknaviðfangsefna.“
Að lokum telur hópurinn einhlítt að fyrirkomulag siðareglna og siðanefndar verði tekin til endurskoðunar á grundvelli eftirtalinna sjónarmiða:
„1. Hvernig þeim hópum er lýst sem hinar skráðu siðareglur taka til.
2. Hver sé grundvöllurinn fyrir starf siðanefnda innan háskólasamfélagsins og til hverra siðanefndir sæki umboð sitt. Athuga þarf sérstaklega í því sambandi hvernig siðanefndir tengist fagfélögum háskólamanna, einkum Félagi háskólakennara og Félagi prófessora.
3. Hver verði tengsl skráðra siðareglna háskólamanna gagnvart sértækari siðareglum sem taka til einstakra fagstétta og fræðasviða háskólamanna.
4. Hvernig greina megi skýrlega á milli niðurstaðna siðanefndar annars vegar og stjórnsýslulegra ákvarðana hins vegar, í samræmi við þá meginreglu að álit siðanefndar hafi ekki í för með sér nein stjórnsýsluviðurlög eða sjálfkrafa afskipti af hálfu stjórnenda stofnunarinnar.“
Eftir að hafa gert ítarlega grein fyrir áliti starfshópsins lagði rektor til að seinni kosturinn yrði valinn og að háskólafundir skipaði starfshóp til að undirbúa endurskoðað fyrirkomulag fyrir næsta háskólafund. Lagði rektor til að starfshópurinn yrði skipaður Einari Sigurðssyni, er yrði formaður, Vilhjálmi Árnasyni og fulltrúum Félags prófessora og Félags háskólakennara, þeim Dagnýju Kristjánsdóttur og Maríu Þorsteinsdóttur.
Rektor gaf orðið laust.
Málið var rætt ítarlega. Flestir sem til máls tóku lýstu yfir ánægju með greinargerð starfshópsins. Fram komu efasemdir um að skynsamlegt væri að gera svo skýran greinarmun á formlegum lagareglum og siðareglum. Bent var á að þær leiðir sem starfshópur rektors legði til útilokuðu ekki hvor aðra. Þannig væri unnt að styrkja núverandi kerfi með því að skjóta lagastoð undir siðanefnd um leið og siðareglur einstakra starfshópa yrðu skilgreindar betur. Fram kom sú skoðun að siðareglur sem eingöngu sæktu umboð sitt til starfsstétta kynnu að vera of veikar, siðareglur þyrftu einnig að sækja umboð til yfirstjórnar Háskólans.
Í umræðunni var bent á ýmis atriði sem huga þyrfti að í tengslum við væntanlega endurskoðun fyrirkomulags siðareglna við Háskólann. Til dæmis þyrfti að skoða vel þann lagaramma sem um þetta svið gildir. Einnig þyrfti að gera grein fyrir verksviði vísindasiðanefnda sem starfa á vegum heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala - Háskólasjúkrahúss, t.d. með það í huga hvernig valdsvið þeirra tekur til rannsóknastarfsemi Háskólans. Þá þyrfti að taka saman yfirlit um það hvernig þessum málum er háttað við viðurkennda rannsóknaháskóla í nágrannalöndum okkar. Svara þyrfti grundvallarspurningum um stjórnskipan og valdmörk yfirmanna við skólann og skýra þannig agavald rektors og deildarforseta. Ennfremur væri nauðsynlegt að athuga hvernig þær stofnanir, sem sett hafa sér siðareglur, sbr. greinargerð starfshópsins, fylgdu þeim eftir.
Bent var á að þessi atriði hefðu flest þegar verið könnuð í tengslum við gerða núverandi siðareglna. Þannig væri t.d. ekki að finna lagastoð fyrir siðareglum háskóla á Norðurlöndum og því mætti álykta að slíka lagastoð þyrfti ekki hér. Á hinn bóginn væru nú komnar fram slíkar athugasemdir við fyrirkomulag siðareglna Háskólans að ekki yrði fram hjá þeim litið.
Þá komu fram efasemdir um að siðareglur Háskólans ættu að hafa ígildi lagareglna. Með setningu slíkra reglna greindi Háskólinn sig frá því almenna lagasamfélagi sem hann væri jafnframt hluti af. Nær væri að byggja á þeim almennu lagareglum sem um þessi mál gilda í landinu en skrá til viðbótar siðareglur sem háskólasamfélagið væri almennt sammála um að fylgja og væru ekki hluti af hinum almenna lagaramma.
Bent var á að háskólar voru upphaflega stofnaðir í kringum hugmyndir manna um frjálsa hugsun og frelsi í rannsóknum. Viðleitni okkar til að skrá siðareglur mætti því aldrei ganga svo langt að hún skerti akademískt frelsi í rannsóknum eða kennslu. Varað var við refsigleði í tengslum við setningu siðareglna og bent á að hægt væri að flokka siðareglurnar eftir mikilvægi þeirra.
Nokkrir fundamanna töldu þann vandræðagang sem skapast hefur í tengslum við setningu siðareglna afar óheppilegan og hann hefði tafið málið óþarflega. Afar brýnt væri að hreinsa andrúmsloftið og koma skikkan á fyrirkomulag siðareglna og siðanefndar sem fyrst. Óskiljanlegt væri hvers vegna Háskólinn gæti ekki sett sér siðareglur um rannsóknir eins og gert hefur verið fyrir löngu í flestum vestrænum háskólum.
Þá kom fram gagnrýni á yfirstjórn Háskólans sem talin er hafa tafið setningu siðareglna fyrir félagsvísindadeild. Einnig var vísindasiðanefnd heilbrigðisráðherra gagnrýnd fyrir að hafa ekki nægan skilning á rannsóknum í félagsvísindum. Í ljósi þeirrar gerjunar sem átt hefur sér stað innan félagsvísindadeildar á þessu sviði undanfarin misseri var lagt til að einn fulltrúi úr deildinni ætti sæti í þeirri nefnd sem fundinum væri ætlað að setja á laggirnar samkvæmt tillögu rektors.
Bent var á að gera þurfi greinarmun á almennum siðareglum og sérstökum siðareglum fyrir rannsóknir á mönnum og dýrum. Ekki má láta vandræðagang í tengslum við almennar siðareglur og siðanefnd koma í veg fyrir að Háskólinn setji strax reglur um góða starfshætti í rannsóknum. Afar brýnt er að skólinn setji á laggirnar leyfisnefnd innan skólans er hafi umboð til að fjalla um allar þær rannsóknir sem slíkum leyfum eru háðar og stundaðar eru í nafni Háskólans. Slíkt ætti að vera einfalt mál þar sem fyrirmyndir er að finna í flestum þeim háskólum sem við viljum bera okkur saman við.
Að lokum varpaði rektor fram þeirri hugmynd að haldið verði málþing um siðareglur í víðu samhengi næsta haust. Þá þakkaði hann þeim sem til máls tóku og bar upp tillögu sína þannig breytta að Rannveig Traustadóttir yrði einnig í starfshópnum.
Samþykkt samhljóða.
Auk rektors tóku til máls undir þessum lið þau Rúnar Vilhjálmsson, Ólafur Þ. Harðarson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Einar Sigurðsson, Tryggvi Þórhallsson og Sigurður Grétar Júlíusson.
Kl. 15.20 - 16.25 - Dagskrárliður 3: Niðurstöður stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands.
Hörður Filippusson, deildarforseti raunvísindadeildar, gerði grein fyrir nýlegum niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar er lúta að fjármálum og stjórnun við Háskóla Íslands. Fyrst greindi hann frá upplýsingum í skýrslunni um tekjur Háskólans árið 2003 og nemendafjölda (ársnemendur) frá árinu 2000 til 2005. Gerði hann sérstaklega að umfjöllunarefni þann mismun sem verið hefur þeim greiðslum sem Háskólinn hefur fengið samkvæmt kennslusamningi og raunverulegum fjölda virkra nemenda við skólann. Fram kom hjá Herði að þessi mismunur fer stöðugt vaxandi og var svo komið árið 2004 að Háskólinn fékk ekki greiðslur fyrir sem nemur tæplega 500 virkum nemendum (ársnemendum). Þá vakti Hörður sérstaka athygli á því að framlag til rannsókna hefur farið stöðugt lækkandi frá árinu 2001.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að finna samanburð við níu evrópska háskóla. Hörður benti á að samkvæmt þessum samanburði eru tekjur Háskóla Íslands í flestum tilvikum lang lægstar. Einungis einn háskóli (í Rijeka í Króatíu) er með lægri tekjur. Háskólar á hinum Norðurlöndunum, sem við berum okkur helst saman við, hafa úr mun meiri fjárhæðum að spila en Háskóli Íslands. Virkni nemenda í Háskóla Íslands er í lægri kantinum miðað við samanburðar háskólanna. Þá kemur fram Háskólinn er með einna flesta stúdenta á hvern starfsmann og athyglisvert er að hvergi í samanburðar skólunum er að finna jafn lágt hlutfall doktorsnema og í Háskóla Íslands. Í Háskólanum er það um 1%, en 4% til 8% í hinum skólunum.
Næst vék Hörður að nokkrum athugasemdum sem hann vildi leggja áherslu á. Í fyrsta lagi er í samanburðinum við erlendu háskólanna ekki leiðrétt fyrir kaupmætti. Hörður taldi rétt að vekja athygli á þessu þótt það skipti ekki miklu máli um meginniðurstöður samanburðarins. Í öðru lagi eru fjárveitingar til nokkurra fjárhagslega sjálfstæðra stofnana, sem eru í mismunandi miklum tengslum við Háskólann, taldar með í þessum samanburði. Hér er átt við Raunvísindastofnun, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, Stofnun Árna Magnússonar, Orðabók Háskólans og Stofnun Sigurðar Nordals. Hörður taldi villandi að telja fjárveitingar þessara stofna með, enda hafa þær fyrst og fremst rannsókna- og þjónustuhlutverk og því ekki rétt að líta á kostnað við þær sem hluta af kostnaði við nemendur Háskóla Íslands. Þátttaka þessara stofnana í beinni kennslu væri afar lítil. Í þriðja lagi vakti Hörður athygli á því að þegar tekjur skólana eru bornar saman verði að hafa í huga að hlutfall annarra tekna en ríkisframlaga er tiltölulega hátt hjá Háskóla Íslands. Þannig er bent á í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta hlutfall er hæst í Háskóla Íslands þegar horft er til norrænu háskólanna.
Næst fjallaði Hörður um fjármögnun rannsóknaháskóla á hinum Norðurlöndunum í samanburði við Háskóla Íslands. Fjármögnun norrænu skólana hvílir venjulega á þremur meginstoðum, sem hver um sig er álíka stór. Í fyrsta lagi er um að ræða ríkisframlag til kennslu, sem stendur m.a. undir kostnaði við laun fastra kennara og stundakennara. Í öðru lagi nefnir Hörður ríkisframlag til rannsókna sem í flestum tilvikum er jafn hátt kennsluframlaginu. Þriðja stoðin er fjármögnun samningsbundinna rannsókna, ýmist fyrir tilstuðlan rannsóknasjóða eða fyrirtækja. Í Háskóla Íslands er reyndin sú að ríkisframlag til kennslu er álíka hátt og almennt gerist á Norðurlöndum en ríkisframlag til rannsókna og samningsbundið framlag úr rannsóknasjóðum er um það bil helmingur þess framlags sem hefðbundnir rannsóknaháskólar á Norðurlöndunum njóta.
Helstu niðurstöður Ríkisendurskoðunar er lúta að fjármögnun háskóla eru þessar:
· Framlög til kennslu og rannsókna hafa ekki haldið í við fjölgun nemenda.
· Árið 2004 var ellefti hver nemandi við Háskóla Íslands án ríkisframlags eða um 500 nemendur alls.
· Rekstri hefur verið hagað í samræmi við fjárveitingar og aðrar tekjur.
· Þrátt fyrir fáa starfsmenn og lágar tekjur á hvern nemanda er Háskólinn skilvirkur, sem m.a. kemur fram í fjölda brautskráðra nemenda.
· Fjárhagsvandi skólans getur hindrað þróun hans sem öflugs rannsóknaháskóla.
Samanburður við aðra evrópska háskóla sýnir að hjá Háskólanum er(u):
rekstrarkostnaður lægri,
hlutfall annarra tekna hærra,
tekjur lægri,
starfsmannafjöldi lægri,
nemendahópar stærri,
stundakennarar fleiri,
hlutfall nemenda á hvern starfsmann hærra,
hlutfall framhaldsnema (einkum doktorsnema) lægra.
Hörður benti á að Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til reiknilíkansins og deililíkansins, þ. e. hvort reiknilíkanið endurspegli raunverulegan kostnað við starfsemi skólans og hvort deililíkanið skipti fjárveitingunni milli eininga Háskólans á sanngjarnan máta. Þó koma fram ummæli í skýrslunni, sem höfð eru eftir fólki úr fjármálaráðuneytinu, um að reiknilíkaninu hafi upphaflega ekki verið ætlað að meta raunkostnað við kennslu og rannsóknir. Gagnrýndi Hörður þessa túlkun ráðuneytisins og hélt því fram að þetta hafi einmitt verið ætlunin. Þá kemur ennfremur fram í skýrslunni að starfsfólk fjármálaráðuneytisins telji það ekki vandamál að launastikan sé of lág, þar sem tímamat á kennslu sé vel ríflegt. Þá hvatti Hörður til þess að Háskólinn beiti sér fyrir því að haldið verði málþing um þessi líkön með þátttöku embættismanna menntamála- og fjármálaráðuneytis.
Næst vék Hörður að helstu skýringum sem Ríkisendurskoðun nefnir á bágri fjárhagsstöðu Háskólans. Í fyrsta lagi eru ákvarðanir um launakjör starfsmanna Háskólans að miklu leyti teknar utan skólans, í öðru lagi hefur Háskólinn takmarkaða möguleika til tekjuöflunar og síðast en ekki síst er stefnumörkun hins opinbera um háskólamál óskýr, svo sem í tengslum við fjárveitingar, skólagjöld og framhaldsnám. Helstu ályktanir ríkisendurskoðunar af þessu eru að gæði rannsóknanáms sé í hættu og að fjárfrek verkefni sitji óhjákvæmilega á hakanum.
Ríkisendurskoðun telur þrjá kosti blasa við Háskóla Íslands miðað við núverandi stöðu.
1.Að laga starfsemina að tekjum og fara hægar í uppbyggingu framhaldsnáms og rannsókna.
2. Að auka tekjur skólans, m.a. með skólagjöldum, auknum sértekjum, styrkjum og seldri þjónustu.
3. Að breyta forgangsröðun verkefna, m.a. þannig að fámennar og eða dýrar námsleiðir verið lagðar niður, nemendafjöldi verði takmarkaður enn frekar og kröfur um námsframvindu verði auknar.
Hörður taldi að það væri óraunhæft að auka sértekjur Háskólans og tekjur af seldri þjónustu svo nokkru nemi. Þessi tekjuþáttur væri þegar hlutfallslega hár í Háskólanum eins og skýrt hefur komið fram í samanburði við aðra háskóla. Sagði Hörður það vera sitt mat að sértekjur gætu ekki staðið undir kjarnastarfsemi skólans.
Skilaboð Ríkisendurskoðunar til stjórnvalda eru að móta verður skýra stefnu um háskólastigið er taki m.a. til þátta á borð við opinber framlög til kennslu og rannsókna, verkaskiptingu skóla á háskólastigi, formlegar kröfur um gæði háskólanáms, sérstöðu þjóðskóla. Loks þarf stefnumótunin að taka af skarið hvort og með hvaða hætti skólagjöld eigi að vera liður í fjármögnun grunn- og framhaldsnáms í ríkisháskólum á Íslandi.
Hörður sagði að verulega aukin bein framlög frá ríkisvaldinu til rannsókna væru nauðsynleg ef Háskólanum ætti að takast að byggja upp öflugan rannsóknaháskóla. Þá benti Hörður á að gríðarlega mikilvægt væri að nemendur hefðu upplýsingar frá viðurkenndum hlutlægum aðila um gæði þess náms sem þeir hyggjast stunda. Samkeppnin ein og sér myndi ekki leiða til gæða, þvert á móti gæti hún leitt til þess að slakað verði á þeim kröfum sem háskólar gera til nemenda og starfsmanna sinna. Samkeppni leiddi einnig til einsleitni í námsframboði eins og dæmin sanna nú þegar.
Næst vék Hörður að umfjöllun í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstrarform, stjórnun og skipulag. Hörður benti á að í skýrslunni væri fjallað um mismunandi rekstrarfyrirkomulag ríkisháskóla og einkaháskóla. Bent væri á í skýrslunni að tekjur væru nokkuð mismunandi eftir rekstrarformi. Þó kennsluframlag frá ríkinu væri hið sama nytu ríkisháskólarnir hærra rannsóknaframlags, en einkaskólarnir hefðu á hinn bóginn heimild til að innheimta skólagjöld. Þá væri greint frá því í skýrslunni að sjálfstæði Háskólans hefði aukist undanfarin misseri, en að það hans væri samt enn takmarkað af reglum er lúta að starfsmannamálum, launaákvörðunum, innkaupum, lántökum og fjárfestingum. Þá væru upplýsingalög einnig íþyngjandi fyrir starfsemina. Ein meginniðurstaða Ríkisendurskoðunar væri að stjórnkerfi Háskólans hafi ekki þróast í takt við aukin og flóknari umsvif. Fram kom í máli Harðar að umfjöllun um rekstarform og mögulegar breytingar á því væri fremur rýr.
Ríkisendurskoðun dregur þær ályktanir af umfjöllun sinni að skýra þurfi stöðu Háskólans gagnvart stjórnvöldum, m. a. með stefnumörkun um háskólastigið í heild. Slík stefnumótun þurfi nauðsynlega að skilgreina mismunandi áherslur, hlutverk og fjármögnun háskóla, eftir því hvert rekstrarform þeirra er.
Þá er í skýrslunni fjallað um innra skipulag Háskólans. Skýrsluhöfundar gera grein fyrir hinum tvíþætta stjórnkerfi sem Háskólinn byggir á, þ.e. stigveldiskerfi í stjórnsýslu og jafningjastjórnun í akademísku starfi. Ríkisendurskoðun telur að huga þurfi að eftirfarandi atriðum: 1. Háskólaráð ráði hvernig staðið er að vali rektors. 2. Staða deildarforseta er að styrkjast; halda beri í núverandi stjórnkerfi deilda. 3. Rektor geti hlutast til um málefni deilda, t.d. ef ágreiningur er um val deildarforseta. Einnig kæmi til greina að rektor staðfesti val deildarforseta. 4. Skilgreina þarf vald og ábyrgð stjórnenda, einkum rektors, deildarforseta og skorarformanna. 5. Þörf er á umræðu um fjölda deilda og um verkskiptingu og samskipti milli deilda og sameiginlegrar stjórnsýslu.
Hörður ítrekaði að þessar vangaveltur byggi á fremur takmarkaðri umfjöllum um rekstarform og stjórnkerfi skólans. Þarna virtust ýmsar hugmyndir um stjórnun í háskólum, sem hafa verið á floti í umræðunni, skjóta upp kollinum án þess að gögnin eða sú greining sem í skýrslunni er að finna gefi beinlínis tilefni til slíkra ályktana. Að lokum nefndi Hörður sérstaklega hugmyndir um val á deildarforsetum og varaði við að því núverandi kerfi verði breytt í grundvallaratriðum. Mikilvægt væri að forsetarnir verði áfram kosnir af kollegum þannig að ábyrgð á stjórnun og rekstri verði áfram sameiginleg meðal deildarmanna. Verði deildarforsetar ráðnir, t.d. af rektor, gæti það breytt samskiptum innan deilda í grundvallaratriðum.
Rektor þakkaði Herði fyrir framsöguna og gaf Jóni Atla Benediktssyni orðið.
Jón Atli Benediktsson, prófessor og formaður vísindanefndar, gerði grein fyrir helstu niðurstöðum í tengslum við rannsóknir og akademíska stöðu Háskólans. Jón Atli sagðist ekki eingöngu ætla að gera grein fyrir niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar heldur hygðist hann einnig byggja framlag sitt á úttekt á akademískri stöðu Háskólans sem gerð var að frumkvæði menntamálaráðuneytisins, An Evaluation of Scholarly Work at the University of Iceland. Úttekt þessi var unnin af Ingu Dóru Sigfúsdóttur, Bryndísi Björg Ásgeirsdóttur, Allyson Macdonald og Irwin Feller. Háskólinn hefur enn ekki fengið endanlega gerð skýrslunnar en drög þau sem Háskólanum hafa borist eru lögð til grundvallar, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar er mikið til þeirra vitnað.
Markmið úttektar menntamálaráðuneytisins var að draga upp mynd af rannsóknaframlagi fræðafólks við Háskóla Íslands, meta framlag þess til þekkingarsköpunar bæði hér á landi og á erlendum vettvangi, meta rannsóknasamstarf innan skólans og utan, kanna stefnu skólans, t.d. hvort hún hvetti til rannsókna og hvort farið væri eftir akademískum mælikvörðum við úthlutun á rannsóknafé innan skólans.
Í úttekt Ríkisendurskoðunar er gerður samanburður á rannsóknavirkni akademísks starfsfólks Háskólans og níu erlendra háskóla. Samanburður þessi byggir á fjölda svokallaðra ISI vísindagreina og tilvitnana, þ.e. á greinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum sem skráð eru í aðgengilega gagnabanka. Ríkisendurskoðun fjallar ennfremur um afstöðu akademísks starfsfólks til stefnu Háskólans og um stöðu rannsóknanáms við skólann.
Um niðurstöður beggja úttekta má almennt segja að þær eru afar jákvæðar, akademísk staða Háskólans er sterk, rannsóknavirkni starfsmanna er mikil og mikill vöxtur er í rannsóknanáminu. Fram hefur komið ákveðin óánægja með að úttekt Ríkisendurskoðunar byggi eingöngu á ISI greinum. Úttekt menntamálaráðuneytisins nær á hinn bóginn til allra birtinga Háskólans. Skýringin á því að Ríkisendurskoðun notar eingöngu ISI gögn er að þau eru aðgengileg, eins og áður segir, og að þau auðvelda akademískan samanburð milli háskóla. Gallinn við að nota þessi gögn eingöngu er að birtingarhefð er mjög mismunandi eftir fræðasviðum. Þannig mætti ætla af lestri skýrslunnar að rannsóknavirkni í hug- og félagsvísindum væri lítil. Úttekt menntamálaráðuneytisins, sem byggir á viðtækari gögnum, tekur af allan vafa um að svo er ekki. Hafa verður í huga að einungis um fjórðungur birtinga háskólamanna er í ISI greinum.
Þá rakti Jón Atli nánar niðurstöður úttektanna og benti á að fram kæmi að um helmingur allra ISI greina sem birtar eru af fræðimönnum á Íslandi eru birtar í nafni Háskóla Íslands. Þar við bætist að um fjórðungur þessara greina er birtur í nafna Landspítala-Háskólasjúkrahúss, en stór hluti þeirra ætti einnig að teljast til Háskóla Íslands, þar sem margir starfsmenn sjúkrahússins eru einnig starfsmenn Háskóla Íslands.
Þegar fjöldi greina í ritrýndum fræðitímaritum á hverja 1000 íbúa er skoðaður á tímabilinu 1998 til 2002 kemur í ljós að Ísland er í sjöunda sæti í heiminum. Einnig er athyglisvert að skoða fjölda þessara greina eftir fræðasviðum skólans. Þá kemur vel í ljós hve mismunandi birtingarhefðirnar eru, en um helmingur þessara birtinga er í nafni raunvísinda og tæpur þriðjungur greinanna er birtur af heilbrigðisvísindafólki. Þegar birtingartíðni háskólafólks er skoðuð á grundvelli gagna frá rannsóknasviði Háskólans, þ.e. þegar tekið er tillit til allra birtinga, er hins vegar greinilegt að rannsóknavirknin er mjög áþekk eftir sviðum.
Þá vék Jón Atli að niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal akademískra starfsmanna, sem gerð var í tengslum við úttektirnar. Þar kemur fram að flestir akademískir starfsmenn telja Háskólann hafa skýra stefnu um rannsóknir og vel skilgreind markmið. Einnig kemur fram að svarendur telja að Háskólinn eigi að leggja enn frekari áherslu á rannsóknir. Þá álítur meirihluti svarenda að aðstæður til rannsókna almennt innan skólans séu ekki góðar og að skipting fjármuna milli deilda hvetji ekki til rannsókna.
Næst dró Jón Atli niðurstöður úttektanna saman. Skýrt kemur fram að staða Háskóla Íslands er mjög sterk í samanburði við aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir á Íslandi. Rannsóknavirkni íslenskra vísindamanna hefur vaxið mjög hratt á síðari árum. Þannig hefur fjöldi birtra greina í alþjóðlegu ritrýndum fræðitímaritum (ISI) vaxið um 47% milli tímabilanna 1992 til 1996 og 1998 og 2002. Staða framhaldsnáms við Háskóla Íslands er enn tiltölulega veik miðað við samaburðarháskólanna, þannig brautskrást um tíu sinnum færri doktorar frá Háskólanum en að meðaltali úr háskólum á hinum Norðurlöndunum. Ef doktorsnám við Háskóla Íslands ætti að vera sambærilegt að umsvifum og við norrænu samanburðarskólanna þyrftu að vera um 500 manns hér í doktorsnámi og um 64 brautskráðir árlega.
Jón Atli greindi frá því að allt bendi til þess að grunnframlögum til rannsókna í íslenskum háskólum verði deilt út á grundvelli árangurs. Fyrir liggur tillaga frá Vísinda- og tækniráði til menntamálaráðherra sem gerir ráð fyrir því að árangur í rannsóknum verði metinn með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði árangur metinn á grundvelli ýmissa mælanlegra þátta, svo sem rannsóknavirkni (sbr. matsreglur kjaranefndar), fjölda brautskráðra nemenda úr rannsóknatengdu meistaranámi, fjölda einkaleyfa og frumgerða og að tekið verði tekið tillit til innlendra og erlendra rannsóknastyrkja sem háskólarnir afla. Í öðru lagi verði byggt á úttektum utanaðkomandi aðila sem gert er ráð fyrir að taki til virkni rannsóknaeininga, alþjóðlegs samstarfs í rannsóknum, samstarfs milli háskóla á Íslandi, samstarfi við atvinnulífið, fjölda rannsóknasviða og fræðigreina, gildis rannsóknastarfs, þjónustu við samfélagið og nýsköpunar.
Jón Atli benti á að Háskólinn hafi undanfarin ár barist fyrir árangurstengingu fjárveitinga til rannsókna. Nú hyllir undir að því markmiði verði náð.
Þá taldi Jón Atli að úttektirnar gæfu Háskólanum tilefni til að leggja enn frekari áherslu á rannsóknir og framhaldsnám. Þau verkefni sem við blasa eru að tryggja gæði rannsókna og kennslu, fjölga akademískum starfsmönnum og einfalda ráðningarferlið. Úttektirnar gefa ótvírætt til kynna að Háskólinn þarf nauðsynlega meira fé til rannsókna. Jón Atli taldi þó ólíklegt að markmið Háskólans, um að fá jafn mikið fé til rannsókna og hann hefur til kennslu, næðist í bráð. En mikilvægt er að auka með öllum ráðum sókn í samkeppnissjóði.
Að lokum velti Jón Atli upp nokkrum spurningum sem háskólafólk og stjórnvöld þurfa að svara á næstunni. Á Háskólinn að sækjast eftir heimild til að leggja á skólagjöld? Á Háskólinn að fara út í almennar fjöldatakmarkanir? Á Háskólinn að forgangsraða í rannsóknum og setja sér áherslusvið? Á að leggja meiri áherslu á verkaskiptingu á milli háskóla hér á landi og hvernig á samvinnu við aðra innlenda háskóla að vera háttað?
Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir framsöguna og gaf orðið laust. Hann minnti fundarmenn á að vera stuttorða þar sem tímaáætlun væri farin úr skorðum.
Í umræðunni var m.a. bent á að framsögurnar sýni svo ekki verði um villst að staða Háskóla Íslands er sterk hvert sem litið er, þó að sjálfsögðu megi ýmislegt bæta. Mikilvægt væri að Háskólinn nýti sér þann meðbyr sem í þessum úttektum felst. Vinna þyrfti úr úttektunum og móta stefnu um það með hvaða hætti efni þeirra verði nýtt í þágu Háskólans, m.a. í viðræðum við stjórnvöld. Úttektirnar undirstrikuðu ennfremur að háskólafólk þurfi að huga betur að skiptingu fjár innan skólans og fara þurfi yfir forsendur og virkni deililíkansins. Þannig væri t.d. mikilvægt að skipting rannsóknafjár tæki í auknum mæli mið af gæðum rannsókna innan skólans og raunverulegum kostnaði við þær. Aðrir bentu á að ríkisvaldið kynni að nota úttektirnar gegn Háskólanum. Ráðuneytið gæti t.d. haldið því fram að skilvirkni væri mikil og því ekki ástæða til að auka fjárveitingar til Háskólans.
Fram kom að fagna beri áformum um að árangurstengja framlög til rannsókna við íslenska háskóla, enda hefði það verið markmið Háskólans undanfarin ár. Á hinn bóginn var á það bent að líklega yrði árangursbundin úthlutun fjárframlaga til rannsókna fyrst og fremst formúla til að skipta því sem til ráðstöfunar verður hverju sinni. Líklega verði ekki um að ræða mat á raunkostnaði við rannsóknir og aukin fjárframlög vegna betri árangurs eins muni skerða fjárveitingar til annarra. Það væri því afar mikilvægt að Háskólinn héldi fast í það markmið sitt að fá sömu fjárhæð til rannsókna og hann fengi til kennslu.
Auk rektors, Harðar Filippussonar og Jóns Atla Benediktssonar tóku til máls undir þessum lið þeir Rúnar Vilhjálmsson, Ólafur Þ. Harðarson og Helgi Gunnlaugsson.
Kl. 16.25 - 16.55 - Dagskrárliður 4: Framkvæmd stefnumála Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir málinu og hóf mál sitt á að ræða hlutverk og störf háskólafundar. Eins og lög gera ráð fyrir hefur háskólafundur mótað stefnu um öll helstu málefni Háskóla Íslands undanfarin 5 til 6 ár. Frá því fundurinn var fyrst settur á laggirnar árið 1999, með breyttum lögum fyrir Háskóla Íslands, hefur hann m.a. fjallað um eftirfarandi stefnumál:
Vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands
Áætlun um eflingu framhaldsnáms til ársins 2005
Áætlunina „Uppbygging Háskóla Íslands - Markmið og aðgerðir 2002-2005“
Starfsmannastefnu Háskólans
Jafnréttisáætlun fyrir tímabilið 2000-2004
Stefnu í málefnum fatlaðra
Umhverfisstefnu Háskólans
Stefnu í alþjóðasamskiptum
Formlegt gæðakerfi Háskólans
Siðareglur Háskólans og starfsreglur siðanefndar
Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms
Málstefnu Háskóla Íslands
Stefnu Háskóla Íslands gegn mismunum
Matskerfi fyrir kennslu
Að auki hefði fundurinn fjallað ítarlega um þróunaráætlanir allra deilda Háskólans.
Af þessari upptalningu má ráða svo ekki verður um villst að háskólafundur hefur afkastað miklu á síðustu árum. Rektor nefndi sérstaklega að umfjöllun um þróunaráætlanir deilda hafi verið mjög gagnleg, þannig hafi fundarmenn fengið mikilvæga innsýn inn í starf annarra deilda og stofnana. Rektor sagði að Háskólinn væri afar fjölþætt stofnun og því væri sameiginlegt stefnumótunarstarf af þessi tagi nauðsynlegt til að festa skólann í sessi sem eina sterka heild.
Stefnur í einstökum málum hafa verið mótaðar eða undirbúnar fyrir fundinn með ólíkum hætti. Þannig var hin sameiginlega vísinda- og menntastefna Háskólans alfarið mótuð á vegum fundarins sjálfs, þar sem hann skipti sér upp í minni starfshópa og skipaði síðan sérstaka nefnd sem ætlað var að fylgja stefnunni eftir. Stefnur í ýmum afmarkaðri málaflokkum hafa verið undirbúnar af ýmsum aðilum, s.s. deildarforsetum, sérstökum starfshópum rektors eða fastanefndum Háskólans.
Nú er svo komið að endurskoða þarf stefnu Háskóla Íslands í flestum málum og ljóst er að það verður eitt fyrsta verkefni nýs rektors að leiða þetta stefnumótunarstarf. Því er nú tilefni til að meta það hvort við höfum staðið rétt að málum og hvað megi betur fara.
Sú stefnumótun sem hefja þarf í haust hlýtur að taka mið af því sem fyrir liggur, en hún mun ekki síst byggja á þeim úttektum sem fram hafa farið á Háskóla Íslands undanfarin misseri. Í dag hefur verið fjallað um þrjár mikilvægar úttektir (úttekt EUA, úttekt Ríkisendurskoðunar og úttekt á akademískri stöðu Háskólans) sem allar benda svo ekki verður um villst til þess að Háskólinn er á réttri leið. Háskólinn hefur skýra stefnu í flestum málaflokkum. Hann hefur sett sér háleit markmið og hann hefur náð þeim flestum. Þannig hefur þetta mikilvæga stefnumótunarstarf háskólafundar skilað sér með ótvíræðum hætti í betri starfsemi skólans á öllum sviðum eins og fram hefur komið í hverri úttektinni á fætur annarri. Rektor benti á að í reynd væru þessar úttektir besti vitnisburðurinn um framkvæmd stefnumála Háskólans.
Þá vék rektor að skipulagi og vinnubrögðum háskólafundar. Á 14. háskólafundi (í Bláa lóninu í september 2004) og 16. háskólafundi (í febrúar 2005) var talsvert rætt um hlutverk og starfsaðferðir fundarins. Sú spurning sem nú blasir við er þessi: Hvernig vill háskólafundur skipuleggja sig til þess að vinna að þróun og eflingu Háskóla Íslands og móta áfram sameiginlega vísinda- og menntastefnu hans?
Fundurinn hefur sinnt stefnumótum og veitt umsagnir um málefni sem honum ber að veita umsagnir um skv. lögum. Hann hefur starfað í einni málstofu og mál eru að jafnaði undirbúin af nefndum skipuðum af rektor, háskólafundi sjálfum, háskólaráði, fastanefndum Háskólans eða af starfsfólki sameiginlegrar stjórnsýslu.
Háskóladeildirnar eru grunneiningar í starfi Háskólans. Viðfangsefni þeirra er kennsla og rannsóknir - m.ö.o. mótun, þróun og framkvæmd vísinda- og menntastefnu. Í því ljósi liggur beint við að álykta að deildarforsetar leiði starf háskólafundar og hafi forystu ásamt rektor um málefnastarf fundarins.
Þá greindi rektor frá ýmsum hugmyndum sem fram hafa komið um skipulag háskólafundar og vinnulag hans:
1. Tilteknar nefndir (sem rektor eða háskólaráð skipa) starfi í ríkara mæli á vettvangi háskólafundar.
Dæmi:
* Vísindanefnd háskólaráðs.
* Kennslumálanefnd háskólaráðs.
* Gæðanefnd rektors.
* Alþjóðasamskiptaráð.
* Jafnréttisnefnd.
* Markaðs- og kynningarnefnd
2. Háskólafundur skipi sjálfur fleiri fastar málefnanefndir um tiltekin efni. Nefndirnar starfi á milli funda og undirbúi mál til umræðu og afgreiðslu
Dæmi um efni sem fundurinn hefur sinnt og gætu verið undirbúin eða unnin af slíkum nefndum:
* Vinnuhóparnir sem undirbjuggu einstaka kafla vísinda- og menntastefnunnar (um kennslu, rannsóknir og fræðslu/þjónustu).
* Millifundanefnd háskólafundar um framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar sem er starfandi.
* Starfshópar sem undirbúa stefnu í einstökum málefnum, s.s. starfsmannastefnu, stefnu í alþjóðlegum samskiptum, umhverfisstefnu, gæðakerfi og siðareglur.
* Starfshópar sem unnu þróunaráætlanir deilda.
3. Háskólafundur skipi sérstaka nefnd (t.d. skipaða öllum deildarforsetum) er hafi það hlutverk að fylgja almennt eftir stefnumótun háskólafundar (gæti verið reglulega á dagskrá funda deildarforseta með rektor). Starfsfólk í sameiginlegri stjórnsýslu starfi með deildarforsetum í tengslum við þessa eftirfylgni.
4. Skipan og framkvæmd fundarins verði endurskoðuð í því skyni að hann geti betur rækt hlutverk sitt
Dæmi um úrlausnarefni:
* Er háskólafundur rétt skipaður?
* Er fundurinn of fjölmennur/of fámennur?
* Eru fundir of sjaldan/of oft, of langir/of stuttir?
Þá minntist rektor á samantekt Ingjaldar Hannibalssonar í kjölfar 14. háskólafundar, sem haldinn var í Blá lóninu og var til umræðu á síðasta háskólafundi. Samkvæmt samantekt Ingjaldar gæti hlutverk fundarins verið eftirfarandi:
1. Háskólafundur verði helsti vettvangur umræðu um akademísk málefni Háskóla Íslands.
2. Háskólafundur verði samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana á sviði kennslu og rannsókna.
3. Háskólafundur vinni að þróun og eflingu Háskóla Íslands og móti og setji fram stefnu um akademísk málefni Háskólans.
4. Háskólafundur verði ráðgefandi um kennslu og rannsóknir gagnvart rektor og háskólaráði.
5. Háskólaráð og rektor geti leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar kennslu og rannsóknir í Háskóla Íslands.
6. Háskólafundur sinni þeim verkefnum sem háskólaráð felur honum á hverjum tíma.
7. „Allsherjarnefnd“ rektors og deildarforseta hittist á milli funda og undirbúi starf fundarins.
8. Kennslumálanefnd, vísindanefnd, jafnréttisnefnd, þróunarnefnd, siðanefnd, gæðanefnd og e.t.v. fleiri nefndir starfi á vegum háskólafundar. Formenn nefnda og a.m.k. helmingur nefndarmanna komi úr röðum fulltrúa á háskólafundi.
9. Formenn kennslumálanefndar, vísindanefndar og jafnréttisnefndar gefi umsögn um allar tillögur um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna.
Að lokum sagði rektor að allar þessar hugmyndir þurfi að skoða miklu nánar í tengslum við það stefnumótunarstarf sem mun einkenna næstu háskólafundi.
Eftir að Páll lauk máli sínu kvaddi Ólafur Þ. Haðarson sér hljóðs. Hann sagði háskólafundi hafa verið gagnlega og að þeir væru greinilega orðnir ómissandi þáttur í háskólastarfinu. Í ljósi þess að nú væri síðasti háskólafundur undir stjórn Páls Skúlasonar að renna sitt skeið þakkaði hann honum fyrir hönd fundarmanna fyrir góða og málefnalega fundarstjórn í gegnum tíðina og óeigingjarnt starf í þágu fundarins. Ólafur nefndi sérstaklega að fundarstjórn Páls hefði fremur öðru einkennst af sanngirni og útsjónarsemi í að leiða mál til lykta.
Að lokum var Páli Skúlasyni klappað lof í lófa.
Fleira var ekki gert.
Rektor sleit fundi kl. 17.00.
Listi fyrir gögn sem lögð voru fram á 17. háskólafundi:
1. Dagskrá 17. háskólafundar 26. maí 2005.
2. Fundargerð 16. háskólafundar 18. febrúar 2005.
3. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands, apríl 2005.
4. Fréttatilkynning menntamálaráðuneytisins: Evrópskt svæði æðri menntunar verði orðið að veruleika árið 2010.
5. Ályktun ráðherrafundar Bolognaferlisins í Bergen 19.-20. maí sl. (The European Higher Education Area - Achieving the Goals).
6. Greinargerð rektors um stöðu siðareglna Háskóla Íslands.
7. Glærur - Hörður Filippusson: Niðurstöður stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands.
8. Glærur - Jón Atli Benediktsson: Helstu niðurstöður í tengslum við rannsóknir og akademíska stöðu Háskólans.
9. Starfsmannastefna Háskóla Íslands - bæklingur.
10. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.