02/2009
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2009, fimmtudaginn 5. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Ragnhildur Geirsdóttir (varamaður Sigríðar Ólafsdóttur), Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þórður Sverrisson. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá fundi sínum með nýjum menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur.
Elín Ósk Helgadóttir, fulltrúi stúdenta, greindi frá því að hún hyggist fara í skiptinám til Vínarborgar á vormisseri og því muni varmaður hennar sitja fundi háskólaráðs frá byrjun mars til loka maí nk.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Fjárhagsstaða ársins 2008, drög að uppgjöri.
Inn á fundinn komu þeir Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir yfirliti um rekstur Háskóla Íslands á árinu 2008. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
1.2 Fjármál Háskólans.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2007, óendurskoðaður ársreikningur fyrir árið 2008, gögn um fasteignir Háskólans og rekstur þeirra og yfirlitsglærur um fjármál skólans. Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
1.3 Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009.
Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson gerðu grein fyrir framlögðum drögum að fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2009. Málið var rætt og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu 100 m. kr. vegna nemenda sem hefja nám á vormisseri 2009.
- Tillaga fjármálanefndar samþykkt samhljóða, en einn sat hjá.
1.4 Samkomulag Háskóla Íslands við Félag háskólakennara og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands frá 23. desember sl.
Fyrir fundinum lá samkomulag Háskóla Íslands við Félag háskólakennara (Fh) og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands (KKHÍ), dags. 23. desember sl. Samkomulagið lýtur að breytingu á starfsskyldum lektora og dósenta, sbr. ákvörðun háskólaráðs 18. desember sl. um að afnema reglur nr. 839/2002 um árangurs og aldurstengdar tilfærslur starfsþátta við 55 og 60 ára aldur. Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Ákveðið var að formaður fjármálanefndar og samráðsnefndar um kjaramál sendi fulltrúum í háskólaráði frekari upplýsingar um málið í kjölfar fundarins og að það verði síðan afgreitt með tölvupósti á milli funda.
- Samkomulagið samþykkt með sex atkvæðum, en einn var á móti og tveir sátu hjá.
Anna Agnarsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun:
„Hinn 22. desember sl. samþykkti háskólaráð einróma að afnema kennsluafslátt akademískra starfsmanna við 55 og 60 ára aldur. Sú samþykkt snerti fyrst og fremst prófessora. Degi síðar, 23. desember sl., var undirritað samkomulag milli Háskóla Íslands, Félags háskólakennara og kennarafélags KHÍ þess efnis að stjórnunarskylda lektora og dósenta verði hin sama og prófessora eða 12% í stað 6% áður. Í þessu felst meðal annars að kennsluskylda lektora og dósenta er lækkuð um 3%. Nú er háskólaráð beðið um að staðfesta umrætt samkomulag. Ég vil taka fram að ég hafði ekki hugmynd um að umrætt samkomulag væri í undirbúningi í desember sl. og hefði það hugsanlega haft áhrif á afstöðu mína við atkvæðagreiðsluna um afnám aldursafsláttar 22. desember sl. Ég tel óheppilegt að samþykkja umrætt samkomulag á sama tíma og verið er að afnema kennsluafslátt akademískra starfsmanna við 55 og 60 ára aldur, og á tímapunkti þar sem verið er að finna leiðir til að skera niður kostnað við Háskóla Íslands, og greiði því atkvæði gegn samkomulaginu.“
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir tillögunum.
a) Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2009-2010, viðbót sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá tillaga sálfræðideildar Heilbrigðisvísindasviðs um að fjöldi nýnema í cand. psych.-námi verði 20 háskólaárið 2009-2010, sem er óbreyttur fjöldi frá fyrra ári, og tillaga stjórnar þverfræðilegs meistaranáms í lýðheilsuvísindum um að fjöldi nýnema verði 20, sem er fækkun um helming frá fyrra ári.
- Samþykkt einróma.
b) Tillaga frá Heilbrigðisvísindasviði um breytingu á reglum:
Prófgráður í sálfræðideild.
- Framlögð tillaga Heilbrigðisvísindasviðs um að heiti prófgráða við sálfræðideild verði breytt úr BA/MA í BS/MS samþykkt einróma.
- Um breytingu á reglum nr. 502/2002 um val stúdenta til BS-náms í hjúkrunarfræði.
- Framlögð tillaga Heilbrigðisvísindasviðs um breytingu á reglum um val stúdenta til BS-náms í hjúkrunarfræði samþykkt einróma. Ákvörðunin er grundvölluð á því að um samræmingu við almennar reglur um námskröfur við Háskóla Íslands sé að ræða.
c) Tillaga að breytingu á reglum um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
- Framlögð tillaga að breytingum á reglum um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands samþykkt einróma, með þeirri breytingu að 4. gr. reglnanna orðast svo: „Háskólaráð skipar stofnuninni fimm manna stjórn, og jafnmarga til vara. Gætt skal að tengslum við fræðasvið og aðra starfsemi Háskólans. Stjórnin er skipuð til þriggja ára í senn og skiptir sjálf með sér verkum.“ Rektor er falið að ganga frá skipan nýrrar stjórnar Endurmenntunarstofnunar, m.a. með hliðsjón af tengslum við fagaðila utan Háskólans.
2.2 Tillaga um próftökugjald fyrir inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun vorið 2009.
Fyrir fundinum lá skrifleg ósk deildarráðs læknadeildar um heimild til innheimtu sérstaks gjalds fyrir inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun. Jafnframt óskar deildarráðið eftir því að gjaldið verði 15 þús. kr. fyrir prófið sem fyrirhugað er 11. og 12. júní 2009. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
- Frestað. Háskólaráð óskar eftir ítarlegri rökstuðningi frá læknadeild og almennum upplýsingum frá miðlægri stjórnsýslu um kostnað vegna prófahalds og um ráðstöfun skrásetningargjalds nemenda við Háskóla Íslands.
2.3 Stjórn styrktarsjóða Háskólans.
Rektor gerði grein fyrir málinu og lagði til að Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, taki sæti Gylfa Magnússonar dósents í stjórn styrktarsjóða Háskólans. Þessi ráðstöfun gildi tímabundið á meðan Gylfi er í launalausu leyfi frá Háskóla Íslands til að gegna embætti viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Íslands.
- Samþykkt einróma.
2.4 Prófgráðulisti Háskóla Íslands.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma að fela rektor að ganga frá uppfærslu prófgráðulista Háskóla Íslands og að taka ákvörðun um nýjar námsleiðir þar sem faglegar og fjárhagslegar forsendur eru til staðar.
2.5 Dagsetning brautskráninga, sbr. síðasta fund.
Tillaga lögð fram um að brautskráning kandídata að vori fari fram 20. júní 2009. Unnið verði að því að frá og með árinu 2010 verði brautskráning að vori sem næst miðjum júní, m.a. með breytingu á reglum sem lúta að próftímabilum, einkunnaskilum o.fl. við yfirstandandi endurskoðun reglna Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Skýrsla Vinnumatssjóðs 2008 vegna verka ársins 2007.
3.2 Drög að reglum menntamálaráðuneytis um gæðaeftirlit með kennslu og rannsóknum, ásamt athugasemdum Háskóla Íslands.
3.3 Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2009.
4. Önnur mál
4.1 Skoðunarferð um Háskólatorg.
- Frestað.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.