Yoko Ono sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Mála- og menningardeild HÍ

Listamaðurinn, friðarsinninn og Íslandsvinurinn Yoko Ono hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands fyrir framlag sitt til listsköpunar og friðarbaráttu. Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, veitti heiðursdoktorsnafnbótinni viðtöku fyrir hönd Yoko Ono við athöfn í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands á kvenréttindadaginn 19. júní.
Á Íslandi er Yoko Ono ekki síst þekkt fyrir Friðarsúluna í Viðey, samstarfsverkefni hennar, Reykjavíkurborgar, Listasafns Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur, sem var tendruð í fyrsta sinn á afmælisdegi John Lennon þann 9. október árið 2007. Verkið er í formi óskabrunns, en á brunninn eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum. Yoko Ono stofnaði einnig LennonOno Friðarverðlaunin árið 2002 sem hafa verið veitt nokkrum sinnum í Hörpu.
Gísli Magnússon, forseti Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands, afhenti heiðursdoktorsskjalið og sagði það mikinn heiður fyrir deildina að fá að sæma Yoko Ono nafnbótinni fyrir listfengi tungumála og friðarbaráttu með von um að hún þjónaði sem áminning um að efla skilning og frið á heimsvísu. Gísli sagði Yoko Ono hafa unnið frumkvöðlastarf við endurskoðun listahugtaksins og að hún hefði brotið niður hefðbundna múra milli ólíkra listgreina. „Með verkum sínum, sem mörg búa yfir sterkri félagslegri og pólitískri skírskotun, er hún sögð hafa myndað nýstárleg tengsl við áhorfendur og hvatt þá til þátttöku í sköpun verkanna. Einnig má nefna að mörg verka hennar byggjast á texta, m.a. eldri verkin hennar sem eru textaverk á japönsku.“
Svanhildur Konráðsdóttir þakkaði sýndan heiður fyrir hönd Yoko Ono og sagði hana taka við heiðursdoktorsnafnbótinni í anda innilegs kærleika til Íslands og með djúpri virðingu fyrir órofa skuldbindingu þjóðarinnar við frið. Hún sagði Yoko ávallt hafa verið skýra í sínum kjarnaskilaboðum um mikilvægi friðar og beitt sér á óteljandi vegu við að miðla þeim til heimsbyggðarinnar. Yoko talaði mikið um Norðrið og hlutverk þess við að breiða út friðarboðskapinn. Hún telji orkuna á norðurslóðum einstaka og hafi sótt Ísland reglulega heim. Um friðarboðskap Yoko sagði Svanhildur: „Hafi einhvern tímann verið þörf fyrir skilaboð ljósturns Yoko um frið og kærleika þá er það á okkar dögum. Það krefst hugrekkis og mennsku að tala hátt og skýrt gegn óréttlæti, ofbeldi og stríði. Að standa við þá grunnhugmynd að hugsun hvers og eins sé þar til alls fyrst. Að hugsa sér frið! Við erum óþyrmilega minnt á það í dag hvað skjöldur lýðræðisins er brothættur og samstaðan um helgi mannréttinda hverful. Yoko Ono hefur í orðsins fyllstu merkingu verið óþreytandi ljósberi fyrir þessi gildi í meira en 60 ár. Hún er því sannkölluð fyrirmynd á svo mörgum sviðum og verðskuldar viðurkenningu – eins og þá sem Háskóli Íslands veitir henni í dag. Mér þykir vænt um þann mikla virðingarvott og ítreka þakkir fyrir hennar hönd.“
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði í ávarpi að friðarsúlan og friðarverðlaunin væru vitnisburðir um að í sambandi lista og friðarbaráttu byggi ótvíræður slagkraftur: „Enginn ætti að efast um þátt tungumálanna í þessum slagkrafti og er það tæplega tilviljun að orðin „Hugsa sér frið“ séu grafin á 24 tungumálum á óskabrunninn í Viðey. Verkið vekur djúpstæðar hugrenningar um mikilvægi tungumálsins og vanda þess andspænis baráttu mannkyns fyrir friði, því öll tjáning á hugsun um frið verður ekki slitin úr samhengi við vitundina um veruleika stríðs. ... Listræn friðarbarátta Yoko felur þannig í sér brýningu um þátttöku í hugsun um frið, ekki aðeins fyrir hugvísindin heldur mannkynið allt og tungumál þess. Það er því til sæmdarauka fyrir Háskóla Íslands og Mála- og menningardeild að heiðra Yoko Ono með heiðursdoktorsnafnbót.“
Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, stýrði athöfninni og Davíð Þór Jónsson spilaði lagið Imagine á píanó. Þá var myndband eftir Yoko Ono sýnt við athöfnina auk myndbrots úr heimildamyndinni Imagine Peace eftir Alexander Ergis Magnússon.
Gísli Magnússon, forseti Mála- og menningardeildar, Svanhildur Konráðsdóttir og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.