Yfir tvö hundruð rannsóknir kynntar á Menntakviku
Menntakvika, árleg ráðstefna Menntavísindasviðs, verður haldin í 23. sinn við Háskóla Íslands föstudaginn 4. október nk. Menntakvika leiðir saman á hverju ári fjölda fagfólks og hagsmunaaðila sem láta sig menntun og menntavísindi varða. Spennandi dagskrá bíður þátttakenda en flutt verða 220 erindi í 57 málstofum.
Menntakvika hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að skóla- og frístundastarfi, sem og velferð og virkri þátttöku allra í samfélaginu. Viðfangsefnin bera vott um þá grósku sem er á sviði menntarannsókna, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi. Kynntar verða rannsóknir um fjölmenningarlega kennaramenntun, fjöltyngi, samskipti og uppeldi, skapandi skólastarf, hegðunarerfiðleika, heilsu og lífskjör unglinga og margt fleira.
Aðalerindi ráðstefnunnar flytur Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham, föstudaginn 4. október kl. 12.30-13.30 í Skriðu. Til umfjöllunar verða meginþemun úr nýútkominni bók Kristjáns: Flourishing as the Aim of Education: A Neo-Aristotelian View. Höfundur mun velta upp fræðilegum og hagnýtum vandamálum sem tengjast mögulegri innleiðingu farsældarmenntunar í skólastarf. Kristján er einn af okkar merkari heimspekingum og hefur um árabil rannsakað siðferðisþroska og mannkostamenntun. Erindi Kristjáns verður streymt.
Aðalerindi ráðstefnunnar er flytur Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham, föstudaginn 4. október kl. 12.30-13.30 í Skriðu. Kristján er einn af okkar merkari heimspekingum og hefur um árabil rannsakað siðferðisþroska og mannkostamenntun.
„Menntarannsóknir eru grunnurinn að því að varpa ljósi á hin flóknu öfl sem móta nám, kennslu og félagslegan veruleika okkar allra. Í flóknum og síbreytilegum heimi þurfum við ávallt að endurnýja þekkingu okkar, endurskoða og jafnvel umbylta starfsháttum,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. „Menntarannsóknir eru þverfaglegar og kalla á fjölbreyttar nálganir og aðferðafræði, og ber dagskrá ráðstefnunnar þess merki.“
Hún bendir á að síðustu ár hafi skapast breið samstaða meðal stjórnvalda, fagfélaga, sveitarfélaga og háskólanna um mikilvægi menntunar. Fjölgun hefur orðið í kennaranámi og fram undan eru spennandi tímar og áskoranir þar sem mun reyna á öfluga samvinnu fagfólks og fræðimanna. „Menntakvika er mikilvægur liður í því að tengja saman fræði og vettvang og við vonum svo sannarlega að ráðstefnan skapi góðar umræður, kveiki hugmyndir og auki þekkingu,“ segir Kolbrún og hvetur allt áhugafólk um menntamál að mæta á Menntakviku.
Dagskrá ráðstefnunnar er aðgengileg á vef Menntakviku.
Takið daginn frá og fjölmennið!